Færsluflokkur: Askja
Íslensk berghlaup
22.6.2017 | 12:52
Berghlaupið og flóðbylgjan í Grænlandi hefur vakið nokkra umræðu um, hvort slíkir atburðir séu líklegir á Íslandi. Berghlaupið í Öskju árið 2014 minnir okkur á að slíkt getur gerst hér, einkum í virkum eldstöðvum. Sumsstaðar eru líkur á að berghlaup séu yfirvofandi í eldri jarðmyndunum, til dæmis í Drápuhlíðarfjalli á Snæfellsnesi, eins of ég hef bloggað um áður hér. Eldri berghlaup eru vel þekkt víða um land, eins og Ólafur Jónsson skráði í merku riti sínu árið 1976. Hverjar eru líkur á stóru berghlaupi á Íslandi í dag? Árni Hjartarson (1997) hefur safnað saman aldursgreiningum á íslenskum berghlaupum og eru þau gögn sýnd á myndinni hér fyrir ofan. Það er greinilegt að berghlaup voru algengust á Íslandi skömmu eftir að ísöld lauk, fyrir um 10 þúsund árum, og aðeins tvö stór berghlaup eru yngri en fjögur þúsund ára. Það er berghlaupið, sem nefnist Loðmundarskriður og auðvitað berghlaupið í Öskju árið 2014. Þegar ísöld lauk og skriðjöklar hopuðu fyrir um tíu þúsund árum voru brattar fjallshlíðar og hamrar mjög óstöðugar landslagsmyndanir. Þá og á næstu árþúsundum hrundu slíkar brattar hlíðar víða og mynduðu berghlaup. Líkurnar á slíkum fyrirbærum hafa því minnkað síðan, en smærri berghlaup munu þó gerast í framtíðinni, einkum í grennd við virkar eldstöðvar.
Askja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Steve Sparks fær verskulduð verðlaun
24.1.2015 | 11:50
Það eru engin Nóbelsverðlaun gefin í jarðvísindunum, en alveg sambærileg verðlaun eru Vetlesen verðlaunin. Þau eru veitt annað hvort ár við hátiðlega athöfn í Columbia Háskóla í New York og verðlaunaupphæðin er nokkuð rífleg, eða 25 milljón krónur. Nú í sumar verða verðlaunin veitt Steve Sparks. Hann er tvímælalaust jarðvísindamaðurinn, færði eldfjallafræðina inn í nútímann, en Steve er einnig það sem við viljum gjarnan kalla Íslandsvinur. Það má með réttu segja að Steve sé fyrsti vísindamaðurinn, sem beitti aðferðum elisfræðinnar og stærðfræðinnar til að rannsaka eldfjöll og virkni þeirra. Reyndar hafði kennari hans, George Walker, hafið síkar rannsóknir og einnig samstarfsmaður hans Lionel Wilson. Steve byggði á síðan þeim grunni, sem þeir reistu og hóf eldfjallafræðina upp á veglegan stall meðal raunvísindanna. Við Steve hittust fyrst á þilfari hafrannsóknaskipsins Trident í austur hluta Miðjarðarhafsins í september árið 1975. Ég var þá að hefja rannsóknir á dreifingu eldfjallaösku í setlögum á botni Miðjarðarhafsins, sem leiddu til starfa minna á eldeynni Santorini í Eyjahafi. Steve var að ljúka doktorsgráðu sinni um þessar mundir, en það var strax augljóst að hér var topp maður í vísindunum á ferð, þrátt fyrir strákslegt útlit. Leiðangrinum lauk í Napólí á Ítalíu og þar sem sú höfn er steinsnar frá Pompeii, þá tókum við þá ákvörðun að fara saman í heimsókn í borgina frægu, sem grófst undir ösku og vikri frá gosinu mikla í Vesúvíusi árið 79 e.Kr. Það leiddi til þess að Steve kom í heimsókn til mín í Rhode Island og úr því spannst margra ára samvinna um rannsóknir á Íslandi, Vestur Indíum, Miðjarðarhafi og víðar. Þá kom strax í ljós, að Steve er ekki aðeins gættur þeim hæfileikum að hafa alla eðlisfræðina og stærðfræðina á fingrum sér, heldur er hann einstaklega samvinnuþýður og hefur lag á því að mynda sterka starfshópa. Ofan á allt saman, þá er Steve einn gjafmildasti maður, sem ég þekki í vísindunum: hans kappsmál er að niðurstöður rannsókna birtist sem fyrst og ekkert atriði fyrir hann hvar hans nafn er í röð höfundanna á greininni. Enda er hann þá og þegar með nokkrar aðrar greinar í smíðum. Afkastageta hans er ótrúleg og ekkert hefur dregið úr því. Ég veit ekki hvað rís hæst þegar litið er yfir vísindaferil Steve Sparks, enda of snemmt að dæma slíkt. Mig grunar að hann myndi velja uppgötvunina um blöndun kviku. Við rákumst fyrst á þetta fyrribæri þegar við vorum að kanna vikurlögin í Öskju frá gosinu mikla árið 1875. Þar voru algengir vikurmolar, sem voru greinilega blanda af ljósu líparíti og dökku basalti. Þessar tvær kvikur höfðu sem sagt blandast fyrir gos. Í grein í Nature árið 1977 sýndum við fram á hvernig slík blöndun getur hleypt elgosum af stað. Það er of langt að fjalla um hin mörgu verkefni sem við Steve höfum unnið saman, en ég er hreykinn af að hafa átt slíkan frábæran félaga við rannsóknir eldfjallanna.
Askja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Askja: tvær orsakir berghlaups
30.7.2014 | 04:39
Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um berghlaupið í Öskju. Fjölmiðlar hafa gert þessu fyrirbæri mikil skil. Ég vil þó benda á tvennt. Jarðhiti hefur lengi verið mikill á svæðinu í suðaustur hluta Öskju, þar sem berghlaupið á upptök sín. Þetta eru Suðurbotnar, og hér runnu tvö hraun í kringum 1922 eða 1923: Suðurbotnahraun og Kvíslahraun. Sumarið 1989 tók að bera á auknum jarðhita á þessu svæði og Guðmundur Sigvaldason gat sér til að hér kynnu hafa verið kvikuhreyfingar í jarðskorpunni undir. Jarðhitasvæðin í Suðurbotnum einkenndust þá af heitri jörð, gufuaugum og útfellingum af brennisteini. Svæðið er afmarkað á korti þeirra Kristjáns Jónassonar og Sigmundar Einarssonar, sem fylgir hér með. Gufuútstreymi og miklar brennisteinsþúfur sáust þá hátt í hlíð við Suðurbotna. Jarðfræðingar úti í heimi áttuðu sig á því fyrir um tuttugu árum að jarðhiti í eldfjöllum veikir mjög bergið. Hitinn ummyndar berg og breytir því smátt og smátt í leir og laus efni. Afleiðingin er þá sú, að brött fjöll hrynja eða mynda skriður og berghlaup. Þetta hefur nú gerst í Suðurbotnum. Í viðbót ber að geta þess, að askjan eða hringlaga sigdalurinn, sem byrjaði að myndast árið 1875, er reyndar enn í myndun. Yfir vatninu í suðri gnífur hinn hái (yfir 1500 m) og bratti Þorvaldstindur, sem að sjálfsögðu verður að hlýða þyngdarlögmálinu, eins og önnur fjöll.
Askja | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Askja sígur
29.6.2014 | 07:07
Askja er ein stærsta eldstöð Íslands. Í Öskju eru þrjár öskjur eða hringlaga sigdældir, og er sú yngsta frá gosinu 1875: Öskjuvatn. Það var stórt sprengigos, sem dreifði mikilli ösku yfir Austurland og kann að hafa hrint af stað fólksflótta til Norður Ameríku. Ekki hefur gosið hér síðan 1961 en Askja er ætíð óróleg undir niðri. Jarðeðlisfræðingar hafa fylgst með Öskju síðan 1966. Myndin sýnir hæðarbreytingar í Öskju frá 1966 til vorra daga, eftir Sturkell. Þetta er alls ekki einfalt, því ýmist rís eða sígur öskjubotninn. Þessar mælingar benda til þess að það séu hreyfingar á kviku á um 2,5 til 3 km dýpi undir miðri öskjunni. Einnig virðist kvika vera á hreyfingu á um 16 km dýpi, eins og önnur mynd sýnir, eftir Soosalu og félaga. Þar kemur vel í ljós að jarðskjálftar raða sér á tvö vel aðskilin dýpi í jarðskorpunni undir Öskju og Herðubreiðartöglum. En Askja er einnig á flekamótum og gliðnun og aðrar flekahreyfingar hafa því einnig áhrif á lóðréttar hreyfingar jarðskorpunnar. Það er reyndar allt nágrenni Öskju sem hefur verið á hreyfingu undanfarin ár. Ekki má gleyma hinum stöðugu jarðskjálftum, sem herjuðu í jarðskorpunni djúpt undir Upptyppingum árið 2007 og tíðum jarðskjálftum undir Herðubreiðartöglum. Að öllum líkindum er kvika oft á hreyfingu á flekamótunum í grennd við Öskju. En það er ekki þar með sagt að eldgos séu í nánd. Okkur ber að hafa það í huga, að meiri hluti kvikunnar, sem kemur upp úr möttlinum, safnast fyrir í jarðskorpunni sem berggangar og önnur kvikuinnskot, og aðeins brot af kvikunni kemur upp á yfirborðið. Það er því miður engin GPS stöð staðsett í Öskju, en sú næsta er á Dyngjuhálsi, um 40 km fyrir suðvestan og við norður rönd Vatnajökuls. Á Dyngjuhálsi rís land, sennilega vegna bráðnunar Vatnajökuls. Bráðnunin kemur vel fram í árstíðasveiflum á GPS ritinu fyrir neðan.
Askja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Skjálftar við Herðubreið
15.5.2012 | 12:26
Skjálftahrina er í gangi í grennd við Herðubreið. Sumir skjálftarnir hafa verið nokkuð stórir, eða rúmlega 3 af stærð. Hrinur hér eru ekkert til að kippa sér upp við, þar sem þær eru tíðar. Myndin er unnin úr Skjálftavefsjá Veðurstofunnar, og sýnir hún okkur að hrinur eru árlegur viðburður á þessum slóðum. Það vekur eiginlega furðu hvað hrinur hér gerast með reglulegu millibili, eins og myndin sýnir. Seinni myndin sýnir að það er lítilsháttar órói á óróamælinum í Öskju, sem virðist vera samfara þessum skjálftum.
Enginn óróamælir er staðsettur nær. Samt sem áður getur slíkur órói verið tengdur veðurfari. Herðubreið hefur ekki gosið síðan í lok ísaldar, fyrir um tíu þúsund árum, og engar ungar virkar eldstöðvar eru hér í næsta nágrenni.
Askja | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flettu vindar ísnum af Öskjuvatni?
15.4.2012 | 22:05
Askja | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þyngdarmælingar spáðu gosi í Öskju 2010
6.4.2012 | 00:08
Askja | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Skjálftavirkni undir Öskju
5.4.2012 | 06:53
Askja | Breytt s.d. kl. 07:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þegar Öskjuvatn myndaðist
3.4.2012 | 16:36
Öskjuvatn er yngsta caldera eða askja á Jörðu og er því mjög merkilegt fyrirbæri fyrir vísindin. Hún er lítil askja inni í stórri öskju. Við vitum dálítið um gang mála í Öskju og myndun sigdældarinnar sem nú inniheldur Öskjuvatn. Myndin sem fylgir er línurit um myndun Öskjuvatns, byggt á ýmsum kortum og teikningum ferðamanna sem Ólafur Jónsson tók saman. Myndin er úr nýútkominni bók minni Eldur Niðri (2011). Lóðrétti kvarðinn er flatarmál nýju öskjunnar, í ferkílómetrum. Á myndinni kemur fram að sigdældin myndaðist ekki í einum hvelli, heldur hefur hún myndast á nokkrum mánuðum. Sigið hefur sennilega verið að mestu búið árið 1880, eða innan fimm ára frá gosi.
Varðandi umræður um það, hvort Öskjuvatn sé að hitna, þá er vert að hafa það í hug að skjálftavirkni hefur verið fremur lítil á svæðinu enn sem komið er. En næsta blogg mitt fjallar um skjálftana.
Askja | Breytt 4.4.2012 kl. 06:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Er Öskjuvatn að hitna?
3.4.2012 | 07:19
Askja | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)