Færsluflokkur: Bárðarbunga
Bárðarbunga er bólugrafin
12.3.2015 | 23:44
Hvernig lítur Bárðarbunga út eftir allar þessar hamfarir neðan jarðar? Hefur hún látið á sjá? Svar við því fáum við með því að skoða þessa mynd, sem TerraSAR-X radar gervihnöttur Þjóðverja tók. Það er German Aerospace Center (DLR) eða Geimrannsóknastöð Þýskalands, sem tók myndina, en Fjarkönnun ehf leyfir okkur að birta hana hér. Við þökkum Ágústi Guðmundssyni fyrir. Radarmyndin er sérstök, því að upplausn um 1 metri. Hún er tekin hinn 3. mars 2015. Það sem maður tekur strax eftir eru sigkatlarnir, sem raða sér eftir brúnum öskjunnar. Þeir myndast einmitt þar sem jökullinn er þynnstur. Í miðju öskjunnar er þykkt jökuls um 800 metrar, en um það bil 200 metrar á brúnum öskjunnar, þar sem bergið kemur næst yfirborði. Maður tekur stax eftir því að það eru þrír stórir sigkatlar, og tveir minni. Þeir raða sér á öskjubrúnina, en sennilega er það vegna þess að hiti leitar upp með berginu og bræðir ísinn fyrir ofan. Að öllum líkindum hefur hitauppstreymi vaxið á meðan eldsumbrotunum stóð, en þá var mikil hreyfing á hringlaga misgengi, sem markar útlínur öskjunnar. Mér þýkir líklegast að nú dragi hægt og hægt úr því uppstreymi hita og að sigkatlarnir fyllist aftur af snjó með tímanum.
Spádómar í Vísindum
10.3.2015 | 00:41
Það er lítið gagn af vísindum, ef við getum ekki beitt þeim til að spá um framvindu mála. Auðvitað er spá algeng í okkar daglega lífi. Þegar ég flýg frá Boston kl. 2135, þá spáir Icelandair því að ég lendi í Keflavík kl. 640 næsta morgun. Þessi spá rætist oftast, enda eru mjög góðar upplýsingar til um flughraða, vinda í lofti og aðra þætti, sem stýra fluginu. Veðurspá þar sem ég bý á austurströnd Norður Ameríku er nokkuð góð, alveg upp á klukkutíma, enda má sjá veðrið koma úr vestri yfir meginlandið og vel fylgst með. Veðurfræðingar hafa góð líkön (góða kenningu) og fá stöðugt upplýsingar frá fjölda stöðva. En um spá á því, sem gerist inni í jörðinni gegnir öðru máli.
Mig grunar að spádómar um sólmyrkva séu ef til vill fyrstu spárnar meðal mannfólksins. Hvernig skyldi fávísum manni hafa liðið til forna, þegar sólmyrkvi skellur á um miðjan dag? Í lítt þróuðum þjóðfélögum til forna hefur sólmyrkvi ætið verið talin mikil ógnun og valdið skelkun meðal almennings. Með því að spá fyrir um sólmyrkva og undirbúa trúarlega stórathöfn fyrirfram, þá gátu konungar Mayanna sýnt vald sitt. Þannig beittu þeir upplýsingum sem fræðimenn eða prestar í þjónustu konungs höfðu safnað í alda raðir til að spá um slíka atburði og gang himintunglanna almennt. Dagatal Mayanna í Mexíkó og Mið-Ameríku var gert á 11 og 12. öld f.Kr. Það er svo nákvæmt að það spáði til dæmis vel fyrir sólmyrkvann sem varð í júlí 1991. Kínverjar voru farnir að spá fyrir um sólmyrkva um 2300 f.Kr. en gangur sólar var talin mikilvæg vísbending um heilsufar keisarans. Spá er eitt af höfuð tólum vísindanna til að sannreyna kenningar. Vísindi er aðferð okkar mannkyns til að rannsaka náttúru og umhverfið. Þegar við rannsökum eða athugum eitthvað fyrirbæri í náttúrunni, eins og til dæmis eldgos, og sjáum að það virðist fylgja einhverri ákveðinni hegðun, þá getum við komið fram með kenningu, sem skýrir atburðinn. Til þess að kenningin geti verið tekin gild í heimi vísindanna, þá þarf kenningin að hafa spádómsgildi. Spá er þriðja stóra skrefið í ferli hinnar vísindalegu aðferðar. Fyrsta skrefið er athugun eða rannsókn. Annað skref er þá kenning sem byggist á athugunum og það þriðja síðan spá um það sem framundan er. Ef kenningin er rétt, þá mun spáin rætast. Spáin er stærsta og mesta prófraun vísindanna, en það er því miður ekki oft sem spá um atburði í jarðvísindunum hefur verið gerð eða hefur tekist. Það stafar af því að við sjáum illa það sem gerist niðri í jörðinni, en sjáum betur það sem gerist á himni eða á yfirborði jarðar. En rétt er að benda á að spá getur einnig verið rétt einungis af tilviljun. Því oftar sem hún reynist rétt, því betur getum við treyst henni. Þá getum við byrjað að treysta líkaninu, sem spáin byggist á.
Er askjan byrjuð að rísa aftur?
9.3.2015 | 22:19
Gosinu í Holuhrauni er lokið, en það fylgdi ótrúlega vel þeim einfalda ferli, sem spá okkar Gabríels Sölva, dóttursonar míns, hafði sagt til um. Sjá hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1467963/ Sig Bárðarbungu er því einfaldur en traustur mælikvarði á rennsli kviku út úr kvikuhólfi undir öskjunni og upp á yfirborð í gosstöðinni um 50 km fyrir norðan. Reyndar er þetta frábært dæmi um aðferð vísindanna. Vísindin byggjast fyrst og fremst á athugun á einhverju náttúrufyrirbæri. Út frá athuguninni skapar vísindamaðurinn líkan, sem hæfir athugunum. Þá má beita þessu líkani til að spá um framhaldið. Ef spáin reynist rétt, þá eru góðar líkur á að líkanið sé rétt. Þess vegna getum við nú haft enn meiri trú á það líkan, að það sé stór kvikuþró undir Bárðarbungu og að rennsli kviku út úr þrónni og upp í Holuhraun sé skýringin á sigi öskjunnar. Við þetta vil ég bæta að það er mjög sjaldgæft að hægt sé að spá í jarðvísindunum yfirleitt.
Þegar sigið hætti, þá er kúrvan á stöðu GPS tækisins í Bárðarbungu orðin lárétt. Á myndinni sem fylgir, af vef Veðurstofunnar, er það bláa kúrvan sem sýnir nær enga eða litla lóðrétta hreyfingu á yfirborði Bárðarbungu frá 7. febrúar til 7. mars. Ég hef sett in lárétta rauða línu til að gera samanburð. Þá sést greinilega að undanfarna daga virðist GPS tækið aftur byrjað að rísa. Þetta getur orsakast af tvennu: (A) Ísinn undir tækinu er að renna niður í sigskálina og tækið hækkar af þeim sökum. (B) Askjan er byrjuð að rísa aftur vegna þess að kvika frá möttli streymir innn í kvikuhólfið undir Bárðarbungu. Ég hallast fremur að seinni skýringunni, en tíminn mun segja til um það. Ef (B) reynist rétt, þá er sennilegt að rennsli af kviku úr dýpinu inn í kvikuhólfið taki mörg ár, áður en það nær þeirri stöðu, sem Bárðarbunga hafði fyrir gosið sem hófst árið 2014.
Bárðarbunga | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvers vegna þykknar Holuhraun?
29.1.2015 | 07:55
Nýjar mælingar sýna að flatarmál Holuhrauns breytist hægt en hins vegar þykknar hraunið töluvert. Er það nú orðið um 40 metra þykkt umhverfis gígana. Hver er ástæðan fyrir þessari hegðun gossins? Af hverju dreifist það ekki út en hleðst upp í staðinn? Ég tel að það séu þrjár skýringar á þessu. Í fyrsta lagi hefur dregið úr goskraftinum og minna magn af kviku berst upp á yfirborð. Í öðru lagi er landslag fyrir norðvestan hraunið með brekkum og lágum klettastöllum, sem draga úr hraunrennsli í þá áttina. Í þriðja lagi er það Jökulsá á Fjöllum. Þegar hraunið kemur í snertingu við ána þá kólnar það hraðar og þá hleðst upp kantur af hrauni meðfram ánni. Þetta er ekki ósvipað vatnskælingunni á hrauninu í Vestmannaeyjum árið 1973. Þannig er hraunið nú að nokkru leyti rammað inn af ánni með austur brúninni og landslaginu fyrir norðvestan og vestan. Þegar hraunrennslið er orðið lítið, þá nær hraunið ekki að brjótast út úr þessum fjötrum umhverfisins. Myndin sem fylgir er tekin nið norður totu hraunsins 11. september 2014. Hún sýnir tvo af þessum þáttum, sem nú eru að fjötra útbreiðslu hransins. Her sést bergstallur að norðaustan verðu, sem stoppar úbreiðslu hraunsins í þá áttin. Einnig sést vel hvað hraunkannturinn er hár á áreyrunum, þar sem árvatnið kælir hraunið hratt, hleður því upp og hægir á rennsli þess.
Gosið heldur áfram
18.1.2015 | 14:19
Íslendingar eru nú orðnir svo vanir gosinu í Holuhrauni að það er varla minnst á það lengur í fjölmiðlum. En það heldur samt áfram og einnig heldur sigið áfram í Bárðarbungu. Reyndar var sambandsleysi við GPS mælinn í Bárðarbungu um tíma, en hann komst aftur í samband á gamlársdag og hefur sent frá sér gögn þar til í síðustu viku, en þá datt hann út aftur, samkvæmt vef Veðurstofunnar : "Ekkert samband nú sem stendur". Eins og ég hef fjallað hér um áður, þá er sigið á 800 metra þykku íshellunni, sem fyllir öskju Bárðarbungu bein afleiðing af rennsli kviku út úr kvikuþrónni og inn í kvikugang, sem nær meir en 50 km til norðurs. Þar kemur kvikan loks upp á yfirborðið í Holuhrauni. Eldstöðin sem er að gjósa er Bárðarbunga, þótt athyglin hafi mest beinst að virkninni á yfirborði í Holuhrauni. Línuritið sem fylgir hér með sýnir að sig Bárðarbungu hefur verið ótrúlega reglulegt frá upphafi. Jafnan sem fylgir línuritinu sýnir að það er mjög nærri því að vera hrein lína, með R2 = 0,99968. Það gerist ekki betra í náttúrunni. Samkvæmt þessu verður línan orðin lárétt (sig hættir) eftir um 160 daga frá því að mælingar hófust (12. september 2014), eða í byrjun mars mánaðar 2015, eins og við höfum áður spáð hér í blogginu. Þá er líklegt að gosinu ljúki, því að þrýstingur í kvikuþrónni verður kominn í jafnvægi. Bláu púnktarnir eru allir af athugunum á siginu, nema síðasti punkturinn við dag 160, sem ég leyfi mér að setja inn sem líkleg goslok í mars.
Íslenski Heiti Reiturinn á Metið!
26.12.2014 | 11:32
Þegar ég var að stíga mín fyrstu spor í jarðfræðinni, í kringum 1963, þá var stærsta málið að Ísland væri hluti af Mið-Atlantshafshryggnum. Þetta eitt skýrði þá alla eldvirkni hér á landi. Myndun og saga landsins var fyrst og fremst skýrð sem hryggjarstykki, orðið til við gliðnun skorpufleka. Úthafshryggir voru stóra málið, enda nýuppgötvaðir. Það er mér sérstaklega minnistætt þegar Sigurður Þórarinsson kom heim af fundi í Kanda árið 1965 og sýndi okkur bókina The World Rift System. Þar var meir að segja mynd af Almannagjá og Þingvöllum á kápu bókarinnar, eins og sjá má af mynd af kápunni, sem fylgir hér með. Sigurður var uppveðraður af hinum nýju fræðum, en ekki voru allir af hinum eldri (og einnig sumum af þeim yngri) jarðvísindamönnum á Íslandi tilbúnir að taka á móti hinum nýju kenningum. Sigurður var alltaf fljótur að átta sig á því hvað var rétt og snjallt í vísindunum. En það voru þeir Gunnar Böðvarsson og George Walker sem birtu merkustu greinina á þeim árum um stöðu Íslands í samhengi við Mið-Atlantshafshrygginn, árið 1964. Þá var aðeins eitt ár liðið frá uppruna hugmyndarinnar um úthafshryggi, og Gunnar og George voru einnig fljótir að átta sig á því hvað skifti máli. Kenningin um eldvirkni á flekamótum var og er stórkostleg framför í jarðvísindum, en hún skýrði ekki allt langt því frá. Mörg eldfjallasvæði, eins og til dæmis Hawaíieyjar, eru fjarri flekmótum og krefjast annarar skýringar. Þetta eru heitu reitirnir: svæði, þar sem mikil eldvirkni á sér stað, sem er ekki endilega tengd flekamótum. Það var árið 1971 að Ameríski jarðeðlisfræðingurinn W. Jason Morgan kom fram með kenninguna um möttulstróka (mantle plumes) undir heitu reitunum. Þar með var komið fram hentugt líkan, sem gæti skýrt eldvirkni utan flekamóta. Rætur þessarar eldvirkni eru miklu dýpri en þeirrar sem gerist á flekamótunum. Sumir halda að möttulstrókarnir sem fæða heitu reitina komi alla leið frá mörkum möttuls og kjarna, þ.e. á um 2900 km dýpi.
Bygging og þróun jarðskorpunnar undir Íslandi hefur verið rannsökuð nú í um fimmtíu ár aðallega í ljósi hugmynda um eldvirkni á flekamótum. Ég held að nú séu að gerast tímamót á þessu sviði. Því meir sem ég hef kynnst jarðfræði Íslands, því meir er ég nú sannfærður um mikilvægi heita reitsins.
Möttulstrókurinn er sennilega um 100 til 200 km breið súla af heitu möttulbergi, sem rís undir Íslandi. Hiti súlunnar erða stróksins er um 150oC hærri en umhverfið og nálægt því um 1300 til 1400oC en ekki bráðinn fyrr en hann kemur mjög nærri yfirborði. Hár þrýstingur í dýpinu kemur í veg fyrir bráðnun.
Nú hafa þeir Ross Parnell-Turner og félagar sýnt framá að virkni möttulstróksins gengur í bylgjum á 3 til 8 milljón ára fresti, eins og sýnt er á mynd þeirra. Streymi efnis í möttulstróknum telja þeir hafa verið allt að 70 Mg s snemma í sögu Norður Atlantshafsins, en nú er rennslið um 18 Mg s, eða um 18 tonn á sekúndu. (Mg er megagramm, sem er milljón grömm, og er það jafnt og eitt tonn). Þetta er ekki streymi af kviku upp í gegnum möttulinn, heldur magn af möttulefni, sem rís upp til að mynda heita reitinn. Og rennslið er sífellt, sekúndu eftir sekúndu, ár eftir ár, öld eftir öld, milljón árum saman. Aðeins lítill hluti af möttulefni skilst frá sem kvika nælægt yfirborði og gýs eða storknar sem jarðskorpa. Til samanburðar er straumurinn af efni í möttulstróknum undir Hawaíi um 8,7 tonn á sekúndu, eða um helmingi minna en undir Íslandi. Við getum því státað okkur nú af því að búa á stærsta heita reit jarðar. Eldvirknin sem nú er í gangi og er tengd Bárðarbungu og Holuhrauni er einmitt yfir miðju möttulstróksins og minnir okkur vel á hinn gífurlega kraft og hitamagn sem hér býr undir.
Bárðarbunga | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Holuhraun í hnattrænu samhengi
21.11.2014 | 10:12
Kvikan, sem hefur komið upp í Holuhrauni til þessa er nú vel yfir einn rúmkílometri að magni. Þetta er því ef til vill stærsta gosið á Íslandi síðan Skaftáreldar geisuðu árið 1783. En hvar er gosið í alþjóðlegu samhengi? Árið 1991 var stórgos í eldfjallinu Pinatubo á Filippseyjum, með um 5 rúmkílómetra af kviku. Nokkrum mánuðum síðar gaus Cerro Hudson í Síle og þá komu upp um tveir rúmkílómetrar. Kilauea á Hawaií hefur gosið stöðugt í meir en þrjátíu ár (síaðn 1983) og upp er komið um 4 rúmkílómetrar í því gosi, sem enn stendur yfir. Síðasta stórgosið var í Puyehue-Cordon Caulle eldfjalli í Síle á Suður Ameriku árið 2011, en þar kom upp um 2 rúmkílómetrar af hrauni og gjósku. Gosið í Holuhrauni skipar sér nú í hóp með þessum stórgosum á tuttugustu og tuttugu og fyrstu öldinni. Þessar rúmmálstölur vísa allar á magn kvikunnar.
Bárðarbunga | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað gerist milli gosa?
17.11.2014 | 16:23
Þrátt fyrir alla spennuna í sambandi við gosið í Holuhrauni, þá er reyndar mikilvægast að reyna að skilja hvað gerist undir Bárðarbungu. Einkum er mikilvægt að skilja þróun mála undir eldstöðinni milli gosa, sem er forvari þess sem koma skal. Strax í upphafi umbrotanna í Bárðarbungu benti ég að grein, sem þau Meredith Nettles og Göran Ekström skrifuðu árið 1998. Þar fjölluðu þau um mjög óvenjulega en stóra jarðskjálfta, sem orðið hafa undir Bárðarbungu frá 1976 til 1996. Skjálftarnir voru af stærðargráðunni 5 eins og skjálftarnir, sem þar verða nú, en það er samt grundavallar munur á þessum skjálftum. Nú eru skjálftarnir skýrðir sem hreyfing á lóðréttu misgengi þegar öskjubotninn sígur niður (double-couple eða sniðgengi). Skjálftarnir frá 1976 til 1996 voru hins vegar af allt annari gerð. Þeir eru það sem skjálftafræðingar kalla highly non-double-couple skjálftar, með sterkan lóðréttan ás.
Það er nú ekki á færi venjulegs jarðfræðings að skilja allt í sambandi við þessa flóknu skjálfta, en samt sem áður hef ég reynt að rýna í gögnin, því ég held að ef til vill geti fundist hér mikilvægar upplýsingar um, hvað gerist undir Bárðarbungu fyrir gos og milli gosa og þar með hvað mun gerast undir eldstöðinni þegar þessu gosi lýkur. Nettles og Ekström leggja til að skjálftarnir frá 1976 til 1996 hafi orsakast vegna þrýstings uppá við, annað hvort vegna vaxandi kvikuþrýstings eða lóðréttra skorpuhreyfinga á tappa undir kvikuþró.
Í annari grein árið 2009 fjölluðu þau Hrvoje Tkalčić, Íslandsvinurinn Gillian R. Foulger og félagar aftur um þessa sérstöku skjálfta. Þau skýra skjálftana sem afleiðingu á streymi af kviku milli tveggja kvikuhólfa á um 3,5 km dýpi, eða streymi á kviku úr hólfi og inn í sprungu. Hugmynd þeirra af þversniði jarðskorpunnar undir Bárðarbungu fylgir hér með. Það er ljóst af rannsóknum á þessum stóru skjálftum, að eitthvað verulega óvenjulegt gerist undir Bárðarbungu milli gosa, eða á áratugunum fyrir gos. Eru slíkar kvokuhreyfingar tengdar flæði kviku upp úr möttli og í kvíkuþró undir bungunni? Eru slíkir skjálftar ef til vill tengdir vaxandi þrýstingi í kvikuþrónni og þá einnig ef til vill risi öskjubotnsins? Ef öskjubotninn sígur við minnkandi kvikuþrýsting í eldgosi (eins og nú gerist), þá er líklegt að hann rísi milli gosa vegna vaxandi kvikuþrýstings.
Rennur jökull Bárðarbungu niður í skálina?
16.11.2014 | 22:23
Halldór Björnsson hefur stungið uppá hér fyrir neðan að sigið í Bárðarbungu sé ekki að hægja á sér, eins og ég hef haldið fram hér í síðasta bloggi, heldur sé jökullinn að renna inn í sigdældina. Ég sting uppá að sigið sé að hægt á sér, vegna þess að kvikuþrýstingur inni í kvikuþrónni undir öskjunni sé að dvína og þá sígur botn öskjunnar hægar niður. Við skulum líta á þetta og bera hegðun skálarinnar saman við hegðun annara jökla. Sigið nemur nú um 45 metrum í miðri skálinni. Radíus hennar er um 5 km. Þá er hallinn 1:110, eða um 0,5 gráður. Jöklar bregðast lítt eða ekki við í svo litlum halla. Myndin sem fylgir (frá Haeberli 1995) sýnir halla jökla á Suðurskautinu á móti viðbragðstíma. Lítill halli eins og 0,15 gráður kemst ekki einu sinni á blað hér. Viðbragðstími í minnsta halla (5 gráður) á línuritinu er um hundrað ár. Á þessum rökum er hægt að álykta að sennilega sé lítið eða ekkert rennsli á jöklinum inn í skálina. Þá álykta ég að breytingar á síginu orsakist af breytingum í kvikuhólfinu undir.
Þróun Bárðarbungu og Holuhrauns
15.11.2014 | 15:37
Vísindaheimurinn hefur aldrei orðið vitni af slíku fyrirbæri, eins og því sem nú er að gerast undir Bárðarbungu og mælt og skráð það jafn vel. Athygli margra Íslendinga beinist nú mest að Holuhrauni af eðlilegum ástæðum. Nú er hraunið orðið rúmlega 70 ferkílómetrar að flatarmáli, ef til vill um einn rúmkílómeter (það er óvissa um þykkt hraunsins) og slagar því hátt upp í það magn af kviku, sem Surtsey gaus frá 1963 til 1965. Þetta er stórgos. En gosið sjálft er eiginlega hálfgerð blekking náttúrunnar, því aðal sjónarspilið fyrir vísindin er ekki í Holuhrauni, heldur í eldstöðinni Bárðarbungu. En þar er sjónarspilið hulið augum okkar undir 600 til 800 metra þykkum jökli. Ég held að enginn jarðvísindamaður geti verið í vafa um að sigið, sem mælist á íshellunni á Bárðarbungu er beint tengt gosinu í Holuhrauni. Frá 16. ágúst til 29. september urðum við öll vitni af myndun kvikugangs, sem tengdi Bárðarbungu í suðri við sprungugosið í Holuhrauni um 50 km fyrir norðan. Síðan hefur gosið látlaust í Holuhrauni og Bárðarbunga sigið að sama skapi. Sennilega hefur sigið hafist strax og gangurinn byrjaði að myndast um miðjan ágúst, en nákvæmar mælingar á sigi hefjast hinn 14. september. Þá var sigdældin í jöklinum orðin 22 metra djúp, en síðan hefur sigið numið um 23 metrum í viðbót, eða heildarsig alls um 45 metrar í dag. Sig er nú um 20 cm á dag, en var áður allt að 50 cm á dag og það hefur hægt stöðugt á því.
Ég hef áður bent á hér í bloggi mínu, að sigið í Bárðarbungu fylgir ótrúlega vel kúrfu eða ferli, eins og sýnt er á línurítinu hér fyrir ofan (gögn af vef Veðurstofunnar). Kúrfunni er best lýst sem polynomial fylgni með þessa jöfnu: y = -0.0012x2 + 0.4321x. Innbyrðis fylgni kúrfunnar er R² = 0.99946. Þetta er reyndar ótrúlega góð fylgni. Ef allir púnktarnir liggja á kúrfunni, þá væri R² = 1.0000. Það er mjög óvenjulegt að atburðir í jarðfræðinni fylgi svo vel og reglulega einhverri þróunarlínu. Sennilega gerist það aðeins þegar um mjög stóra atburði er um að ræða, eins og nú þegar botninn á öskju Bárðarbungu sígur reglulega niður í kvikuþróna djúpt undir í jarðskorpunni. Sennilega er þetta landspilda, sem er um 10 km í þvermál og um 8 km á þykkt, sem sígur, eða meir en 600 rúmkílómetrar af bergi!
Það er athyglisvert að þessi reglulega kúrfa beygir af, þ.e. það hefur verið að draga úr siginu frá upphafi. Þetta gefur okkur einstakt tækifæri til að áætla hvenær sig hættir, sem er sennilega einnig sá tímapúnktur þegar kvika hættir að stryma út úr kvikuhólfinu og gos hættir í Holuhrauni. Ég hef því framlengt kúrfuna á þróunarlínunni, með jöfnunni fyrir ofan, þar til hún verður lárétt, þegar sig hættir. Það gerist eftir um 170 daga frá því að mælingar hófust, hinn 14. september. Kúrfan spáir því um goslok í lok febrúar eða byrjun mars 2015. En það eru margir þættir, sem geta haft áhrif á kvikurennslið þegar dregur úr kraftinum, einkum viðnám í kvikuganginum undir Holuhrauni og fleira. Allir þessir þættir virka í þá átt að goslok yrðu eitthvað fyrr.
Eins og ég benti á í síðasta bloggi, þá er ljóst að virka gossprungan er mjög nærri gígaröðinni, sem gaus í Holuhrauni árið 1797. Gosið í dag virðist vera nokkuð nákvæm endurtekning á gosinu í lok átjándu aldarinnar. Það er hughreystandi og styrkir þá skoðun að sennilega haldi eldvirknin sig við Holuhraun og ólíklegt að nokkur kvika komi upp í Bárðarbungu sjálfri.
Gosið í Holuhrauni er þegar oríð frægt í vísindaheiminum, en það er samt ekki stærsta gosið, sem er í gangi í dag. Kilauea á Hawaii hefur gosið stöðugt síðan 1983 og nú hefur komið upp á yfirborðið alls um 4 km3 af hraunkviku í því gosi, eða um fjórum sinnum meira en í Holuhrauni.