Hvað gerist milli gosa?

TkacicÞrátt fyrir alla spennuna í sambandi við gosið í Holuhrauni, þá er reyndar mikilvægast að reyna að skilja hvað gerist undir Bárðarbungu.   Einkum er mikilvægt að skilja þróun mála undir eldstöðinni milli gosa, sem er forvari þess sem koma skal. Strax í upphafi umbrotanna í Bárðarbungu benti ég að grein, sem þau Meredith Nettles og Göran Ekström skrifuðu árið 1998. Þar fjölluðu þau um mjög óvenjulega en stóra jarðskjálfta, sem orðið hafa undir Bárðarbungu frá 1976 til 1996. Skjálftarnir voru af stærðargráðunni 5 eins og skjálftarnir, sem þar verða nú, en það er samt grundavallar munur á þessum skjálftum. Nú eru skjálftarnir skýrðir sem hreyfing á lóðréttu misgengi þegar öskjubotninn sígur niður (“double-couple” eða sniðgengi). Skjálftarnir frá 1976 til 1996 voru hins vegar af allt annari gerð. Þeir eru það sem skjálftafræðingar kalla “highly non-double-couple” skjálftar, með sterkan lóðréttan ás.

Það er nú ekki á færi venjulegs jarðfræðings að skilja allt í sambandi við þessa flóknu skjálfta, en samt sem áður hef ég reynt að rýna í gögnin, því ég held að ef til vill geti fundist hér mikilvægar upplýsingar um, hvað gerist undir Bárðarbungu fyrir gos og milli gosa og þar með hvað mun gerast undir eldstöðinni þegar þessu gosi lýkur. Nettles og Ekström leggja til að skjálftarnir frá 1976 til 1996 hafi orsakast vegna þrýstings uppá við, annað hvort vegna vaxandi kvikuþrýstings eða lóðréttra skorpuhreyfinga á tappa undir kvikuþró.

Í annari grein árið 2009 fjölluðu þau Hrvoje Tkalčić, Íslandsvinurinn Gillian R. Foulger og félagar aftur um þessa sérstöku skjálfta. Þau skýra skjálftana sem afleiðingu á streymi af kviku milli tveggja kvikuhólfa á um 3,5 km dýpi, eða streymi á kviku úr hólfi og inn í sprungu. Hugmynd þeirra af þversniði jarðskorpunnar undir Bárðarbungu fylgir hér með.   Það er ljóst af rannsóknum á þessum stóru skjálftum, að eitthvað verulega óvenjulegt gerist undir Bárðarbungu milli gosa, eða á áratugunum fyrir gos. Eru slíkar kvokuhreyfingar tengdar flæði kviku upp úr möttli og í kvíkuþró undir bungunni? Eru slíkir skjálftar ef til vill tengdir vaxandi þrýstingi í kvikuþrónni og þá einnig ef til vill risi öskjubotnsins? Ef öskjubotninn sígur við minnkandi kvikuþrýsting í eldgosi (eins og nú gerist), þá er líklegt að hann rísi milli gosa vegna vaxandi kvikuþrýstings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skjálftar mill i 2 og 3 eru mjög fáir miðað við heildina, hver getur verið ástæðan fyrir því?

Auðunn Þorsteinsson (IP-tala skráð) 19.11.2014 kl. 19:25

2 identicon

Þetta finnast mér spennandi pælingar, þeas hvernig skjálftavirknin bregður birtu á innri gerð Bárðarbungu.  Reyndar benda nú nýjustu fréttir (sbr. http://www.ruv.is/frett/kvika-naer-yfirbordi-bungunnar-en-talid-var) til þess að líkan þeirra Nettles og Ekströms geti enn vel átt við. Eða hvað? Vel á minnst: hvar er hægt að nálgast frekari greiningar á þessum skjálftum, þeas focal analýsur? Ekki það að ég sé einhver skjalftafræðingur, en það er gaman að grúska í þessu.

Óskar (IP-tala skráð) 23.11.2014 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband