Er askjan byrjuð að rísa aftur?

RisGosinu í Holuhrauni er lokið, en það fylgdi ótrúlega vel þeim einfalda ferli, sem spá okkar Gabríels Sölva, dóttursonar míns, hafði sagt til um. Sjá hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1467963/ Sig Bárðarbungu er því einfaldur en traustur mælikvarði á rennsli kviku út úr kvikuhólfi undir öskjunni og upp á yfirborð í gosstöðinni um 50 km fyrir norðan. Reyndar er þetta frábært dæmi um aðferð vísindanna. Vísindin byggjast fyrst og fremst á athugun á einhverju náttúrufyrirbæri. Út frá athuguninni skapar vísindamaðurinn líkan, sem hæfir athugunum. Þá má beita þessu líkani til að spá um framhaldið. Ef spáin reynist rétt, þá eru góðar líkur á að líkanið sé rétt. Þess vegna getum við nú haft enn meiri trú á það líkan, að það sé stór kvikuþró undir Bárðarbungu og að rennsli kviku út úr þrónni og upp í Holuhraun sé skýringin á sigi öskjunnar.   Við þetta vil ég bæta að það er mjög sjaldgæft að hægt sé að spá í jarðvísindunum yfirleitt.

Þegar sigið hætti, þá er kúrvan á stöðu GPS tækisins í Bárðarbungu orðin lárétt. Á myndinni sem fylgir, af vef Veðurstofunnar, er það bláa kúrvan sem sýnir nær enga eða litla lóðrétta hreyfingu á yfirborði Bárðarbungu frá 7. febrúar til 7. mars. Ég hef sett in lárétta rauða línu til að gera samanburð. Þá sést greinilega að undanfarna daga virðist GPS tækið aftur byrjað að rísa. Þetta getur orsakast af tvennu: (A) Ísinn undir tækinu er að renna niður í sigskálina og tækið hækkar af þeim sökum. (B) Askjan er byrjuð að rísa aftur vegna þess að kvika frá möttli streymir innn í kvikuhólfið undir Bárðarbungu. Ég hallast fremur að seinni skýringunni, en tíminn mun segja til um það. Ef (B) reynist rétt, þá er sennilegt að rennsli af kviku úr dýpinu inn í kvikuhólfið taki mörg ár, áður en það nær þeirri stöðu, sem Bárðarbunga hafði fyrir gosið sem hófst árið 2014.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Íslandsbúar eru djúpt sokknir í Kauphallar-spilavítis-bólufallsholu bankaræningjanna LÍÚ/ASÍ-verktakakúgandi.

Það yrði nú aldeilis nýjung og tilbreyting í framtíðinni, að þurfa að flýja frá einhverjum öðrum hamförum, heldur en mannlega stýrðum og skipulögðum bankaránum, hér á Íslandi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.3.2015 kl. 23:30

2 identicon

skemmtilegt hvað spáin gekk vel eftir varðandi stöðvun sigs. sem og goss. empíriska módelið var á parabólu-formi. sem þýðir að eftir að botninum er náð þá spáir það hlutirnir fari rísandi á ný. sem að nú virðist vera að ganga eftir.

vakti athygli á þessu 11.10.2014. sjá: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1467963/#comments

einar

einar (IP-tala skráð) 10.3.2015 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband