Færsluflokkur: Menning og listir

Blesi merkir gönguleiðina

Þegar ég var í sveit, þá kynntist maður nokkrum sinnum hestum, sem báru nafnið Blesi. Þeir voru alltaf með langa ljósa eða hvíta rák frá enni og niður undir snoppu. Blesi

Síðar á ævinni, í ferðum mínum í skóglendi í ýmsum löndum, hef ég aftur rekist á orð sem ég tel náskylt blesanafninu, eð það er orðið eða sögnin “to blaze”. Á ensku er talað um “to blaze a trail” í skóginum, en það þýðir að merkja gönguleiðina með því að höggva langa og lóðrétta ræmu af berkinum til að merkja leiðina til baka, eða fyrir þá sem eftir koma. Það þarf ekki nema eitt högg með góðri sveðju til að fletta  berkinum af og gera blesa sem er 30 til 50 sm langur. 

Í einni ferð minni í Indonesiu þurfti ég að fara í gegnum mjög þéttan og illfæran frumskóg til að komast upp á Tambora eldfjall. Það var tveggja daga ganga í gegnum frumskóginn og enginn slóði fyrir. Ég var með átta  burðarmenn og einn vanan leiðsögumann. Við vorum búnir að höggva okkur leið allan daginn og mér leist ekkert á blikuna. Þá tek ég eftir nýjum blaze eða blesa á tré sem ég hafði höggvið og áttaði mig á því að við vorum búnir að ganga í hring. Eftir það tók ég forrustua og við komumst að lokum upp í fjallið næsta dag.  Síðan hef ég alltaf haft það fyrir sið að blesa leiðina eða “blaze the trail”.

Blesatré

Síðar, þegar ég bjó í Paris í tvö ár, lærði ég meiri frönsku, og þá vaknaði áhugi minn á sögninni blaisser, sem þýðir að særa eða sár.  Þegar við höggvum okkur leið erum við að særa skóginn, veljum tré sem við blesum eða særum til að merkja leiðina. Hestaheitið á honum Blesa gamla er svo sennilega síðan dregið af því.  Það eru fjöldamörg orð sem eru náskyld blesa, bæði á Íslandi og í öðrum löndum Norður Evrópu, eins og blossi, blása, blys og svo til dæmis blas í þýsku. 


Eldfjallasafn í Stykkishólmi er til sölu

Á ferðum sínum hWarholefur Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur komið sér upp miklu safni af efni, ýmiskonar listaverkum, rannsóknarefni og bókum sem snerta eldgos og eldvirkni víðsvegar um heim. Safnið hefur verið til húsa í Stykkishólmi í rúman áratug, en er nú til sölu.
Í safni Haraldar eru mörg hundruð listaverka. Þar má nefna málverk, málmstungur og svartlist ýmiskonar frá eldvirkni um allan heim. Einnig er þar að finna frumstæða list (alþýðulist) frá Indónesíu, Mexíkó, Mið-Ameríku og víðar. Úrval er af japanskri "goslist",  einnig listmunir og safn minjagripa. Í safninu má m.a. finna stórt verk eftir Andy Warhol frá 1985 af eldgosi, myndir eftir Japanann Katsushika Hokusai, Mexíkanana David Alfaro Siqueiros og Dr. Atl, auk merkilegs safns af prentverki og plakötum af bíómyndum sem fjalla um eldgos.      Einnig er hér að finna merkt steinasafn, sem er miðað við uppfræðslu um jarðfræði Íslands.      Í Eldfjallasafni er einnig vandað safn bóka um eldgos og eldfjallafræði auk rúmlega 6000 sérprentana með vísindagreinum og safn jarðfræðikorta. Loks má nefna safn kvikmynda af eldgosum og efnis á myndböndum.

Frekari upplýsingar má fá í síma 899 0857 og tölvupósti hsigurdsson@uri.edu.

 


Grímur Jónsson Thorkelin og Bjólfskviða

 

Grímur Jónsson Thorkelín og Bjólfskviða

grimur_jonsson_thorkelin_large
 

Grímur Jónsson Thorkelin er fæddur í Bæ í Hrútafirði í október árið 1752.  Hann deyr í Kaupmannahöfn í mars árið 1829 eftir merkilegan feril.  Sendur ungur í nám í Skálholtsskóla árið 1765. Þar sýndi hann mikla námshfileika og var sendur til frekara náms í Kaupinhöfn árið 1770.  Útskrifast áið 1773 en hélt áfram námi og rannsóknum varðandi lögfræði og norræn handrit.  Árið 1777 er hann skipaður ritari Arnamagnæanske Kommisions,  handritastofnun Árna Magnússonar. og síðan prófessor við Kaupinhafnarháskóla árið 1783.  Þá varð hann umsjónarmaður skjalasafns Danakonungs. 

Árið 1785 fer hann í tveggja ára ferð til Bretlandseyja til að leita að skjölum og fróðleik varðandi vist norrænna manna þar í landi.  Næstu fimm árin var hann erlendis og lærði góða ensku og kom upp sterkum samböndum við fræðimenn. 

Merkasta afrek Gríms var að uppgötva handrit með fornkvæðinu Bjólfskviðu í British Museum áeið 1785.  Gamla kálfskinnshandritið er enn á sínum stað í British Museum í London, gulnað og brennt eða sviðið á köntum.  Þess er fyrst getið árið 1563 en síðar eignast Sir Robert V-Cotton handritið.  Í safni hans var handritið með Bjólfskviðu þekkt sem Vitellus A. xv.  eða fimmtánda bindi á hillunni undir brjóstmynd Vitelliusar.  Árið 1700 varð bókasafn Cottons hluti af British Museum og flutt til Westminster.  En árið 1731 kviknaði eldur í safnhúsinu. Fjöldi handrita eyðilagðist en Bjólfskviða var í þéttu bandi og sviðnaði því aðeins og brenndist á köntum. 

Ekki fór betur með afrit Gríms af Bjólkfskviðu í Kaupmannahöfn.  Bretar gerðu árás á borgina árið 1807 með hríð af fallbyssysprengjum og Kaupmannahöfn logaði. Þá brann heimili Gríms og uppskriftir hans af Bjólfskviðu og önnur skjöl eyddust. En hann var ekki af baki dottinn og tók saman aðra uppskrift af hinu forna kvæði,   sem kom loksins á prent árið 1815. 

Árið 1788 var hann gerður doktor við St Andrews háskóla í Skotlandi. Næstu 40 árin bar hann titilinn skjalavörður Danakonungs og gerði merkar rannsóknir á skjalasafni og sögu Danaveldis. Þýðing Torkelins á Bjólfskviðu er mjög umdeild fyrir gæði og nákvæmni en samt mun nafni hans haldið á lofti þar sem hann uppgötvar þetta stórverk fornritanna. 

En hann kom víða við. Árið 1788  kom á prent eftir hann  í London rit sem heitir An essay on the slave trade.  Þar rekur hann  sögu þrælahalds meðal mannkyns og setur fram merkilegar tillögur til að leggja af þrælahald með öllu.  Það er greinilegt að hér er á ferðinni fræðimaður sem fjallar um fjölda rannsóknaverkefna í sínu fagi.  

Síðari fræðimenn héldu áfram að rannsaka Bjólfskviðu og einn þeirra var Prófessor J.R.R. Tolkien  í Oxfordháskóla.  Kvæðið Bjólfskviða og Íslendingasögur höfðu mjög sterk áhrif á Tolkien, sem ritaði heila röð af skáldsögum í anda hinna fornu sagna, þar á meðal The Hobbit og The Lord of the Rings.

 

 

 

 

 


Maðurinn sem mældi aldur Íslands

MoorbathVinur minn Stephen Moorbath er látinn. Ég kynntist Stephen þegar ég var við doktorsnám í Bretlandi og það leiddi til þess að við gerðum út leiðangur til Íslands til að ákvarða hvað íslenska blágrýtismyndunin væri gömul. Stephen rak merkilega rannsóknastofu við Oxfordháskóla, þar sem aðstæður voru frábærar til að mæla aldur bergs með því að ákvarða magn geislavirkra efna í berginu. Hann hafði hlotið heimsfrægð vegna aldursgreininga hans á elsta bergi Grænlands, sem er nærri fjórir miljarðar ára að aldri, og var langi vel talið elsta berg á jörðu (nú finnst enn eldra berg í Kanada).

Þegar við Stephen byrjuðum verkefnið á Íslandi, þá var augljóst að elstu hraunlögin í blágrýtisstaflanum væri að hitta fyrir austast og vestast á landinu, ef dæma má út frá legu og halla jarðlaganna. Við stefndum því á Vestfirði sumarið 1967 og tókum mörg sýnishorn af blágrýti einkum á Breiðdalsheiði, en þar reyndist bergið mjög ferskt og ekki ummyndað af jarðhita. Þá var næst stefnt á Austfirðina og þar fylgdum við jarðlögunum þar til við vorum komnir neðst í staflann við Gerpi á Austfjörðum. Auk þess tókum við sýni úr klettum bak við naglaverksmiðjuna í Borgarnesi, en jarðlagahallinn benti til að þar ætti að vera tiltölulega fornt berg (Borganes andhverfan).  Ári síðar birtust niðurstöður okkar í vísindaritinu Earth and Planetary Science Letters. Það kom í ljós að elsta bergið á Vestfjörðum ern nokkurn veginn jafn gamalt og á Austfjörðum, eða um 16 milljón ára, og að beglögin yngjast inn til landsins í báðar áttir. Andhverfan í Borgarnesi reyndist vera um 12.5 milljón ára. Þetta voru spennandi tímar, því grundvöllur þekkingar okkar á uppbyggingu Íslands var að fæast, einkum með tilliti til Mið-Atlantshafshryggjarins.

Stephen Moorbath var tvímælalaust í fremstu röð jarðvísindamanna í Bretlandi. Hann starfaði í mörg ár við rannsóknir á geislavirkum efnum í jörðu og þróaði tækni til að kanna og mæla þau. En hann var fæddur í gyðingafjölskyldu í Þýskalandi árið 1929. Hann slapp naumlega frá Þýskalandi nasista árið 1939, en móðir hans og systir voru brenndar í helförinni miklu í herbúðum nasista árið 1942. Hann fékk vinnu sem aðstoðarmaður í lífefnafræðideild Oxfordháskóla sem unglingur, en einstakir hæfileikar hans komu fljótt í ljós og kjarnorkustofnunin Harwell sendi hann beint á skólabekk í Oxford til framhaldsnáms árið 1948. Ferill hans sem vísindamanns var glæsilegur, en það voru margar aðrar merkilegar hliðar á þessum gáfaða sérvitring: tónlist, listir, bókmenntir og allt hitt var á hans valdi, en kímnigáfan meiri og betri en hjá nokkrum öðrum sem ég hef kynnst.


Eru Íslendingar aumingjar?

althingishu_769_s_1289112.jpg

Nýr forseti var vígður í vikunni og kom að vanda fram á svalir Alþingishússins til að láta lýðinn hylla sig. En skyldi hann nokkurn tíma lyfta höfði þegar hann gengur inn í húsið og líta á skjaldarmerki og kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjóna efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhaldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?


Plisetskaya er látin

Maya Plisetskaya, merkasta ballerína allra tíma, er látin í Þýskalandi, 89 ára. Ótrúlegur listamaður, sem var gædd mikilli fegurð og orku. Dans hennar í Carmen þegar hún var 61 árs er orðinn þjóðsögn.


Alþingishús er enn merkt Dönum

althingishu_769_s.jpgNú berst sú frétt að ríkisstjórn hyggist láta byggja við Alþingishús Íslendinga. Það verður þá sjálfsagt einhver glerálma, sem er jafn ósmekkleg og út úr stíl hússins, eins og álman sem var byggð fyrir nokkrum árum.  En skyldu þingmenn nokkurn tíma lyfta höfði þegar þeir ganga inn í húsið og líta á kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjónar efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?


Seinni þáttur Um Land Allt hér

Seinni þáttur af Um Land Allt fjallar um Snæfellsnesið.  Hann má sjá hér:

 

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP33629


Haraldur í þættinum Um Land Allt

Um Land AlltKristján Már Unnarsson hefur tekið upp tvo þætti með spjalli við mig í Stykkishólmi. Efnið má sjá hér: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=CLP33495

Fyrri þátturinn er sýndur 9. febrúar 2015 í þáttaröðinni Um land allt. Hér er kynning á efninu frá visir.is:

Heim í Hólminn eftir 40 ára eldfjallaflakk: Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur flutti aftur heim í Stykkishólm eftir 40 ára vísindastörf við rannsóknir á eldfjöllum víða um heim. Í þættinum „Um land allt“ segir Haraldur frá æskuslóðum sínum í Hólminum, starfsferli og einkalífi og sýnir Eldfjallasafnið. Þetta er fyrri þáttur af tveimur. Í seinni þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 þann 10. febrúar, fer Haraldur umhverfis Snæfellsnes með Kristjáni Má Unnarssyni og Arnari Halldórssyni kvikmyndatökumanni.  Við þökkum þeim fyrir að fá þetta tækifæri til að kynna Eldfjallasafn í Stykkishólmi.


Farðu og sjáðu Leviathan

LeviathanRússneska kvikmyndin Leviathan eftir Andrei Zvyagintsev er risavaxin ádeila á Rússland í dag.   Siðleysi, ofdrykkja, lág menning, spilling: þetta er allt lagt fram á borðið og alltaf sigrar yfirvaldið í lokin. Myndin gerist í litlu úgerðarþorpi úti á Kola skaga. Stórbrotin náttúra, einangrun, villt landslag, dálítið íslensk stemning, brostin hjónabönd, þar sem samræðurnar far fram við eldhúsborðið. Og vodkadrykkjan! Drottinn minn! Er þetta satt? Ég er smátt og smátt að átta mig á hvað kirkjan hefura aftur náð miklum ítökum í rússneskri menningu og er komin innarlega í valdakerfið. Stóri brandarinn er að myndin var styrkt af Menntamálaráðuneyti Rússlands. Ég efast ekki um, að Pútin mun láta endurskoða þær reglur. Maður er eiginlega í áfalli eftir að hafa séð þessa mynd. Leviathan getur verið stóri hvalurinn, sem liggur djúpt í hafinu en getur farið að bylta sér órólega eins og rússneska þjóðin kann að gera. En Leviathan getur einnig verði dauði hvalurinn, sem er rekinn á land og liggur rotnandi í fjörunni, eins og rússneska þjóðfélagið í dag? Ykkar er valið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband