Færsluflokkur: Menning og listir
Sukk og svínarí
20.1.2015 | 09:01
Ég var að ljúka vikudvöl minni í fornu borginni Marrakesh í Marokkó. Borgin er stórmerkileg, en hún var stofnuð af Berbum árið 1062. Marrakesh situr við rætur hinna fögru og snævi þöktu Atlasfjalla, sem ná meir en 4000 metra hæð. Hús, hallir og moskur borgarinnar er nær öll byggð úr rauðum sandsteini og einnig borgarmúrarnir, sem gefur borginni sérstakan rauðan lit. Berbar settu strax á laggirnar markað eða souk hér á elleftu öld og reyndar eru í borginni einir átján souks starfandi í stígum og götum, sem eru svo þröngar að engir bílar fara þar um, aðeins fótgangandi og asnakerrur með farangur á markaðinn. Karlar sitja við störf sín úti á götu eða í þröngum sundum, en konur eru lítt áberandi. Hér er hægt að kaupa bókstaflega allt sem þér dettur í hug. Krydd er áberandi, einnig fatnaður, teppi, grænmeti, ávextir. Ég rakst jafnvel á nokkra karla sem voru eingöngu að selja steingervinga og kristalla af ýmsu tagi, enda er jarðfræði Marókkó stórmerkileg. Aðrir selja forngripi frá ýmsum kynþáttum Norður Afríku, einkum Tuareg fólki. Það er enginn vandi að eyða mörgum dögum í souk, en maður stoppar öðru hvoru til að fá sér heitt te með mintu. Þeir taka fersk mintublöð og hella sjóðandi vatninu yfir þau, sem gerir hinn besta drykk. Svo setja þeir tvo stóra sykurmola út í. Einn daginn, á leið í souk áttaði ég mig allt í einu á því að reyndar var ég að fara í sukkið! Ég tel að það sé enginn vafi á því að íslenska orðið sukkið er dregið af souk. Sennilega hefur það borist okkur í gegnum dönsku. Eina souk í Evrópu sem ég veit um er í Marseille í suður Frakklandi, enda eru Arabar í meirihluta í þeirri borg. Að fara í sukkið getur að vissu leyti verið neikvætt, enda er maður hér til að eyða tímanum, á flækingi, og þar á meðal er hætta á að dragast út í einhverja óreglu. En það er ekki hættan í Marrakesh. Þar hjá múslimum er ekkert áfengi selt í sukkinu.
Sviðsmenn Carnegie Hall fá 40 milljónir í árslaun
9.1.2015 | 05:38
Ég hef verið í verkalýðsfélagi í Bandaríkjunum frá 1974 (AAUP, stofnað 1915) og hef notið góðs af því, en ef til vill valdi ég ekki rétt! Ef ég væri að velja mér verkalýðsfélag í dag, þá væri það tvímælalaust félag sviðsmanna í Carnegie Hall í New York. Einn trésmiðurinn er með $441,223 í árslaun, einn rafvirkinn með $425,872 og aðrir eftir því. Carnegie Hall er að sjálfsögðu einn fremsta hljómleikahöll í heimi, en fyrr má nú vera! Eins og gefur að skilja þá ganga stöður oftast frá föður til sonar í þessu verkalýðsfélagi. Fyrsta konan fékk loks inngang í félagið árið 1975. Ein kona sem starfaði í hljómsveit á sviðinu sagði mér að það hefði kostað $2000 að fá einn hljóðnema fluttan um fimm metra á sviðinu. Svona mafíu-háttarlag hefur yfirleitt eyðilagt mikið fyrir verkalýðsfélögum í Bandaríkjunum og hafa þau því verið sprengd upp hvert á fætur öðru. En á Íslandi er þessu öðruvísi háttað. Mér sýnist helst að atvinnurekendur ráði mestu hér í verkalýðsfélögunum?
Það sem enginn þorir að tala upphátt um í Frakklandi
4.1.2015 | 11:17
Það er enginn vandi að dvelja nokkra daga í Frakklandi án þess að hafa neinar áhyggjur af innflytjendamálum. En samt sem áður kemur að því fyrr eða síðar að maður fer að taka eftir fólkinu, oft hjónum, sem er að koma sér fyrir úti í skúmaskotum á kvöldin, liggur á tómum pappakössum og breiðir yfir sig og nokkur börnin einhverjar plastdruslur fyrir nóttina. Innflytjendamálin eru stóra málið í þessu landi. Fyrrum forseti Nicolas Sarkosy sagði í ræðu nýlega að innflytjendur væru í þann veginn að eyðileggja hinn franska lífsstíl. Rithöfundurinn Michel Houellebecq, í nýrri skáldsögu sinni Soumission, gerir Frakkland að múslimaríki árið 2022. Þetta er auðvitað pólitík og skáldskapur. Hverjar eru staðreyndirnar? Það er margt rangt í hinum almennu skoðunum um innflytjendur í Frakklandi. Aðeins níu prósent af Frökkum eru innflytjendur, en þeir streyma nú inn í vaxandi mæli um 200 þúsund á ári. Eru þeir allir múslimar frá Afríku? Rangt. Nær helmingur innflytjenda til Frakklands eru Evrópubúar (46%), ekki Afríkubúar (30%), eins og margir kynnu að halda. Portúgalar eru reyndar stærsti hópurinn af innflytjendum til Frakklands (8%), þá næst Marokkó og síðan Alsírbúar. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er andúð á móti innflytjendum mjög útbreidd. Eða er kannske ekkert mark takandi á þessum opinberu tölum um innflytjendur? Enginn veit hvað margir smjúga inn bakdyramegin yfir landamærin. Skoðannakannanir sýna að um 60% af Frökkum eru á móti því að veita útlendingum kosningarétt. En mótstaðan er fyrst og fremt gegn múslimum. Skoðanakönnun blaðsins Le Monde sýnir að 74% af Frökkum telja Islam vera trú, sem virðir engin önnur trúarbrögð (intolerant) og er því ekki gjaldgeng trúrbrögð í Frönsku samfélagi. Það veit reyndar enginn hve margir músimar búa í Frakklandi, því það er á móti lögum að spyrja um trúarbrögð og kynþátt í opinberum skoðanakönnunum eða manntali. En almennt er talið að nú séu um 10% þjóðarinnar múslimar. Með mannfjölda sem er um 66 milljónir, þá hefur því Frakkland fleiri múslima en nokkur önnur þjóð í Evrópubandalaginu. Í sumum borgum eru múslimar mjög fjölmennir. Til dæmis í Marseille eru þeir taldir milli 30 og 40% og er sú borg talin hin hættulegasta allra borga í Evrópu. Það vakti mikla athygli nýega að í einni skoðanakönnun kom í ljós að einn af hverjum sex íbúum Frakklands hefur samúð með ISIS skæruliðum, sem eru að berjast í Sýrlandi. Hver er framtíðin? Þeim fjölgar hraðar en okkur hinum. Múslimar eru taldir ná 26,4% af mannfjölda jarðarinnar árið 2030, en voru 23,4% árið 2010. Talið er að Frakkar nái 70 milljónum árið 2030 og þar af verða 28 milljón þeirra múslimar, eða um 40%. Kannske er Michel Houellebecq á réttu róli?
Ný mynd Eldfjallasafns
31.10.2014 | 17:11
Nýlega eignaðist Eldfjallasafn þessa mynd af Heklugosinu 1947 eftir Jóhannes S. Frímannsson (1919-1997). Hann var þekktur frístundamálari eða alþýðumálari á tuttugustu öldinni og málaði mikinn fjölda landslagsmynda, sem ef til vill mætti kalla kitsch. Hann minnir mig því á Eyjólf Eyfells, sem einnig málaði þetta Heklugos.
Það munaði litlu að eitt verk Jóhannesar Frímannsonar væri selt sem verk sjálfs meistarans Jóhannesar S. Kjarval. Árið 2001 var Íslenskt olíumálverk á uppboði á eBay og talið vera eftir Jóhannes S. Kjarval. Innan skamms var tilboð í myndina komin upp í $9,100. En þá stigu sérfræðingar fram á völlinn og skáru úr um að verkið væri eftir Jóhannes S. Frímannsson. Sennilega er þessi Heklumynd máluð við Rangá, en hrossin hafa greinilega engan áhuga á gosinu.
Gongshi - Steinar fræðimannsins
15.7.2014 | 10:45
Um 200 f. Kr. tóku kínverjar að nota sérkennilega steina til að skreyta garða sína. Fyrir suma táknuðu steinarnir fjöllin, og voru þannig mikilvægur þáttur í hugleiðingum. Stundum voru smærri en sérstakir steinar færðir inn í stofu og stillt upp sem listaverki, eða þá til að færa fjallið inn í húsið. Nafnið Gongshi má þýða sem steinn andans, en það vísar að sjálfsögðu til hugleiðingar. Japanir tóku upp þennan sið frá kínverjum, en í Japan er steinninn nefndur Suiseki. Á ensku er Gongshi kallaður scholar´s rock, eða steinn fræðimannsins eða þá spirit stone. Upphaflega voru Gongshi steinar valdir valdir úti í náttúrunni vegna sérkennilegs forms steinsins. Oftast voru þeir kalksteinar eða marmari, sem hafði fengið á sig fantatískt form vegna veðrunar og rofs yfir langan tíma. Kínverjar líta á slíka steina sem gersemar og setja þá á stall í heimili sínu. Það skiftir öllu máli að steinninn hafi skapast úti í náttúrunni og að honum hafi ekki verið breytt af mannshöndinni á neinn hátt. Á síðari árum hefur risið upp heill iðnaður í Kína við að falsa slíka steina með slípun og öðrum aðferðum, til að líkja eftir hinum fornu náttúrusteinum, og nú eru eftirlíkingarnar allstaðar boðnar fram til sölu. Það fer ekki framhjá neinum íslending, að Gongshi steinar eru nauðalíkir íslenskum hraunsteinum eða gjalli.
Gagngata og vörður í Berserkjahrauni
16.6.2014 | 12:54
Þrjár götur liggja um Bererkjahraun: Skollagata, Berserkjagata og Gagngata. Síu síðarnefnda liggur frá Hraunsfirði og þvert yfir hraunið til austurs fyrir norðan Gráukúlu. Forna gatan er nokkurn veginn eins og þjóðvegur númer 558, sem nú nefnist Berserkjahraunsvegur. Við vestur jaðar hraunsins hefur verið hlaðið upp töluvert mannvirki fyrr á öldum, til að gera kleift að komast upp í bratt hraunið. Vörður eru mjög áberandi í Berserkjahrauni, enda getur hér legið yfir þoka og slæmt skyggni. En eitt er mjög merkilegt við þessar vörður: þær hafa flestar einskonar vegvísi. Það er langur og mjór steinn, sem skagar út úr vörðunni miðri og vísar veginn í áttina að næstu vörðu. Þetta er reyndar mjög skynsamlegt fyrirkomulag. Í blindbyl er ekki nægilegt að komast bara til næstu vörðu. Ferðamaðurinn þarf einnig að vita í hvaða átt hann á að fara til að finna næstu vörðu. Þetta er einkum mikilvægt þar sem vegurinn er krókóttur eins og hér.
Ég hef ekki séð svo merkar vörður annars staðar á ferðum mínum. En vil þó geta þess, að vörður á Skógaströnd hafa einnig vegvísi, til dæmis í grennd við Hvallátur. Þessi vegvísir er á annan hátt. Það er ferhyrnt gat í miðri vörðunni, og með því að sigta í gegnum gatið sér maður næstu vörðu, eða alla vega áttina til hennar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ljósmynd Howells af Hrauni
13.6.2014 | 16:10
Ég hef fjallað töluvert um Berserkjahraun hér í blogginu, en hér er ein frábær mynd af gamla bænum. Um aldamótin 1900 tók breski ljósmyndarinn Frederick W.W. Howell yfir 400 myndir á Íslandi. Þær eru nú í safni Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og aðgengilegar á netinu. Ein þeirra er merkt þannig í safni Cornell: Hraun. Styr's home. Howell, Frederick W. W. ca. 1900. Styr er að sjálfsögðu Víga-Styrr, sem bjó undir Hrauni eða í Berserkjahrauni. Fjölskyldan raðar sér upp fyrir ljósmyndarann, með pabba og strákinn á aðra hönd og mæðgurnar við bæjardyrnar. Húsmóðirin er búin að setja á sig tandurhreina og hvíta svuntu. Gamli bærinn er að sjálfsögðu alveg eins og á teikningu Collingwoods frá 1897.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rótað í dys berserkjanna
11.6.2014 | 16:01
Að öllum líkindum hefur verið grafið einhvern tíma í flestar ef ekki allar fornar grafir, dysjar og hauga á Íslandi. Á mestu niðurlæginartímum þjóðarinnar hafa heimamenn sjálfsagt leitað í fornar grafir í von um fjársjóði eða haugfé. Á síðari tímum var það rómantíkin um fornmenn og sögutímann, sem kynti undir, einkum meðal erlendra ferðamanna. Þannig rótaði bretinn W Collingwood í ýmsum gröfum á sögustöðum í lok nítjándu aldar og með fulltingi dr. Jóns Stefánssonar.
Dys berserkjanna hefur einnig orðið fyrir mörgum árásum. Sú fyrsta sem við vitum um er í lok átjándu aldar, þegar Hallgrímur læknir Bachmann (1740-1811) í Bjarnarhöfn fór í dys berserkjanna og kom heim með mannabein. Bachmann, sem var rúmar 3 álnir (yfir 190 cm) á hæð, mældi einn lærlegginn við sig og taldi að berserkurinn hefði ekki verið eins hár og hann. Þetta hefur Ólafur Thorlacíus í Stykkishólmi eftir kerlingunni Prjóna-Siggu, sem var í vist hjá Hallgrími í Bjarnarhöfn.
Ólafur Thorlacius observator (1837-1920) lýsir dys berserkjanna sem 3 álna hárri, og rétt við götuna. Vani er að allir sem ríða framhjá kasta steini í dysina og þessi vegur var mjög fjölfarinn þegar kauptún var í Kumbaravogi hjá Bjarnarhöfn. Sumarið 1875 fór Ólafur frá Stykkishólmi við áttunda mann út í hraun og byrjuðu þeir að rjúfa dysina. Þegar þeir voru um það bil hálfnaðir gerði sunnan rok og rigningu og verkinu var því hætt. Ólafur fór aftur að dysinni og gróf frekar og þá fundu þeir bein, sem Hjörtur Jónsson læknir sagði vera hvalbein. Síðan var dysin hlaðin upp.
Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889. Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta. Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.
Árið 1897 fór W.G. Collingwood hér um, en ekki eru heimildir um hvort hann gróf í dysina. Hins vegar rifu hann og dr. Jón Stefánsson upp gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur á Helgafelli í júní 1897 og voru fyrir vonbrigðum með að finna aðeins fúnar spýtur og gömul bein.
Byrgi í Berserkjahrauni
9.6.2014 | 16:49
Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna: og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. Hvað er byrgi þetta og hvar er það? Björn Jónsson (1902-1987) bóndi á Innri-Kóngsbakka var fróður maður og skráði örnefni í sinni sveit. Björn taldi Krossrétt vera byrgi berserkjanna. Ég tel að svo sé ekki, enda hafði Sigurður forni áður bent á aðrar og miklu líklegri rústir sem hið forna byrgi.
Eyðibýlið Berserkjahraun eða undir Hrauni stendur við austur jaðar Berserkjahrauns, en það hefur verið í eyði síðan árið 1953. Íbúðarhúsið er steypt árið 1944 en er nú komið að hruni. Spörfuglar gera sér nú hreiður uppi í hillum og skápum. Til er teikning frá 1897 af bænum undir Hrauni eftir W.G. Collingwood (1854-1932), sem sýnd er hér fyrir ofan. Bæjarhúsin standa þá á hól við hraunjaðarinn, og umhverfis eru fjögur eða fimm útihús. Í bakgrunni er Bjarnarhafnarfjall, svo myndin er gerð í norðvestur átt. Collingwood var hér í för með dr. Jóni Stefánssyni lækni. Um dys berserkjanna segir Collingwood: Hún var opnuð fyrir nokkrum árum og þar fundust mjög stór bein. Gamli torfbærinn var í notkun allt til 1944.
Á undan Collingwood ferðaðist hér um hraunið sá sérkennilegi maður Sigurður forni Vigfússon (1828-1892). Hann var sjálfmenntaður fornleifafræðingur, sem sá um Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar í Reykjavík. Hann átti til að bregða sér í fornmannabúning, eins og myndin sýnir. Af hverju gera starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands ekki slíkt hið sama í dag? Of mikill Disney World stíll fyrir þeirra smekk?
Í Árbók Fornleifafélagsins sem kom út árið 1893 skrifar Sigurður um Berserkjahraun. Hann lýsir stórum tóftum (67 og 47 fet á lengd) í grennd við bæinn undir Hrauni og telur aðra þeirra vera kirkju sem Styrr lét reisa og hina rústina af fornum skála. Handan við Hraunlæk er stór kriki inn í hraunið og nefnist krikinn Tröð. Hér telur Sigurður að finna megi gerði berserkjanna. Sennilega á hann hér við byrgið, sem minnst er á í Eyrbyggju. Gerðið telur Sigurður vera meir en 50 faðmar á kannt og ferskeytt. Veggir, sem nú eru fallnir, voru ákaflega breiðir og hlaðnir úr grjóti og torfi.
En Sigurður tekur einnig eftir mikilli grjóttóft í suðaustur horni gerðisins og vil ég draga athygli lesendans einkum að henni. Hún er hlaðin í hraunbrúninni og nýtir að nokkru leyti stór björg í hrauninu sem vegg. Tóftin er um 7 m á lengd og um 4 m á breidd. En tveir veggir tóftarinnar eru hlaðnir úr óvenju stórum hraunbjörgum, eins og myndin sýnir. Ljósa stikan er 1 m á lengd. Hér eru björg sem eru meir en meter í þvermál og hefur þeim verið lyft upp í vegg á einhvern hátt. Er þessi svokallaða grjóttóft í reynd byrgið sem nefnt er í Eyrbyggju? Það er ekki ólíklegt, en Sigurður forni segir að lokum: Hér er auðsjáanlega stórkostlegt mannvirki frá fornöld, og getur enginn efi á verið, að það sé gerði berserkjanna. Var þetta stórskorna byrgi notað sem fiskibyrgi, og hver var tilgangur með hinum miklu hlöðnu veggjum, sem Sigurður greinir frá? Fræðimaðurinn Þorleifur Jóhannesson er sammála Sigurði forna um þessa túlkun í skýrslu, sem hann samdi fyrir Örnefnastofnun.
Það er fleira sem vert er að minnast á í sambandi við býlið undir Hrauni. Uppi á hraunbrúninni rétt fyrir vestan bæinn eru fimm eða sex gömul fiskibirgi. Þau eru hlaðin úr stórum hraunstykkjum, og gisið á milli, eins og venja var í gerð fiskibyrgja. Slík byrgi eru vel þekkt hjá Gufuskálum undir Jökli, þar sem á annað hundrað birgi hafa fundist, og einnig víða á Reykjanesi, til dæmis við Ísólfsskála, Grindarvík og víðar. Fiskibyrgi eiga eitt sameiginlegt: þau eru öll hlaðin á hrauni, þar sem sótt var til sjávar. Svo var einnig hér, því fyrir norðan býlið Hraun er Hraunsvík. Þaðan var róið frá Hrauni á Breiðafjörð til fiskjar. Fiskur var fyrrum verkaður og þurkaður á staðnum. Fiskurinn var flattur eins og saltfiskur, en síðan lagður til þerris á þurrkgarða, helst á hrauni. Síðan var fiskurinn lagður í byrgi og geymdur þannig yfir veturinn. Á vori var fiskurinn tekinn úr byrgjunum og lagður á garðana þar til honum var pakkað til að flytja í skútur sem komu erlendis frá til að kaupa fisk eða skreið. Sennilega hafa slíkar enskar skútur legið í Kumbaravogi (Cumberland Bay?), sem er fyrir framan Bjarnarhöfn.
Minjar í Berserkjahrauni
8.6.2014 | 08:10
Frásögnin um berserkina í Eyrbyggju og Heiðarviga sögu hefur hrifið marga, en er nokkur fótur fyrir þessu? Samkvæmt sögunni eiga að vera þrjú mannvirki af höndum berserkjanna: gatan, hagaveggur og byrgi. Tvö þeirra eru vel þekkt (gatan og veggurinn) en menn greinir á um hið þriðja. Gatan er alls um 1200 metrar á lengd og reyndar mikið mannvirki. Margir telja að hún sé elsta varðveitta mannvirkið á Íslandi og er það sennilegt. Austur hluti götunnar er í landi Hrauns en vestur hlutinn í Bjarnarhafnarlandi. Það var tvímælalaust mikið verk að ryðja stórum björgum og gjallmolum úr vegi, eins og sést á ruðningnum sem er á báða vegu meðfram götunni. Hafur hún verið mikil samgöngubót í sveitinni. Reyndar var fært milli Hrauns og Bjarnarhafnar með því að ganga fjöruna á stórstraumsfjöru, en það er sjaldan svo. Það er skemmtileg ganga að fara Berserkjagötu í dag og er hún ágætlega varðveitt. Oftast hefja menn göngu sína á austur enda götunnar sem byrjar í Hraunvík. Hraunið er allt úfið og mosavaxið umhverfis, en fast við götuna er annar gróður. Þar er lyng, blómstrandi plöntur og janfvel einir. Það er merkilegt hvað gróður er miklu lengra á veg kominn fast við götuna. Sennilega á sauðkindin sem hér fer um einhvern þátt í því að útvega áburð í jarðveginn og að bera annan og fjölbreyttan gróður inn á hraunið við götuna.
Um miðja vegu á götunni er komið að hagagarðinum eða veggnum, sem berserkirnir hlóðu. Hann hefur verið nenfdur Berserkjagarður. Hann nær niður að sjó skammt fyrir austan Blámannavík og liggur nokkurn veginn beint inn í hraunið. Veggurinn er nokkuð sérstök smíði. Austur hlið veggsins er ávalt lóðrétt og allt að 2 metrar á hæð, en víða er vestur brún veggsins aflíðandi, með 45 til 60 gráðu halla. Ég hef alltaf heyrt að smíði garðsins væri gerð á þennan hátt, til að hleypa sauðfé í aðra áttina (til austurs) en ekki til baka. Ekki er mér kunnugt um annan slíkan garð á Íslandi.
Þega Styrr og hanns menn höfðu drepið berserkina í baðinu, þá fluttu þeir lík þeirra út í hraunið. Dys berserkjanna er í dag fast við götuna í dalverpi í miðju hrauninu. Dalurinn er ýmist nefndur Berserkjalág eða Dysjalaut. Dysin er um 7 metrar á lengd, meðfram götunni og um 3 metrar á breidd.
Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889 og ritaði um það í Árbók Fornleifafélagsins (1893). Ekki getur hann þess hvort hann gróf í dys berserkjanna, en Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta. Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina. Kristján Þorleifsson (1876-1959) var síðar hreppstjóri og bjó á Grund í Eyrarsveit. Ég man vel eftir honum í Stykkishólmi.
Gatan, garðurinn og dysin hafa nú skilað sér sem áþreifanlegar menningarminjar, en hvar er byrgið? Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna: og gera byrgi hér fyrir innan hraunið. Hvað er byrgi þetta og hvar er það? Sumir telja að hér sé átt við Krossrétt, sem er í hraunjaðrinum skammt fyrir norðan bæinn Hraun. Ég tel það ólíklegt, enda eru slíkar réttir algengar og þessi sker sig ekki úr um byggingu. Sigurður forni heldur því hins vegar fram að byrgið sem berserkirnir hlóðu sé í hraunjaðrinum við bæinn Hraun. Um það fjalla ég í næsta þætti.