Minjar í Berserkjahrauni

BerserkjadysFrásögnin um berserkina í Eyrbyggju og Heiðarviga sögu hefur hrifið marga, en er nokkur fótur fyrir þessu?  Samkvæmt sögunni eiga að vera þrjú mannvirki af höndum berserkjanna: gatan, hagaveggur og byrgi.  Tvö þeirra eru vel þekkt (gatan og veggurinn) en menn greinir á um hið þriðja.   Gatan er alls um 1200 metrar á lengd og reyndar mikið mannvirki. Margir telja að hún sé elsta varðveitta mannvirkið á Íslandi og er það sennilegt.  Austur hluti götunnar er í landi Hrauns en vestur hlutinn í Bjarnarhafnarlandi.  Það var tvímælalaust mikið verk að ryðja stórum björgum og gjallmolum úr vegi, eins og sést á ruðningnum sem er á báða vegu meðfram götunni.  Hafur hún verið mikil samgöngubót í sveitinni. Reyndar var fært milli Hrauns og Bjarnarhafnar með því að ganga fjöruna á stórstraumsfjöru, en það er sjaldan svo.  Það er skemmtileg ganga að fara Berserkjagötu í dag og er hún ágætlega varðveitt.  Oftast hefja menn göngu sína á austur enda götunnar sem byrjar í Hraunvík.  Hraunið er allt úfið og mosavaxið umhverfis, en fast við götuna er annar gróður.  Þar er lyng, blómstrandi plöntur og janfvel einir.  Það er merkilegt hvað gróður er miklu lengra á veg kominn fast við götuna.  Sennilega á sauðkindin sem hér fer um einhvern þátt í því að útvega áburð í jarðveginn og að bera annan og fjölbreyttan  gróður inn á hraunið við götuna. 

Um miðja vegu á götunni er komið að hagagarðinum eða veggnum, sem berserkirnir hlóðu.  Hann hefur verið nenfdur Berserkjagarður.  Hann nær niður að sjó skammt fyrir austan Blámannavík og liggur nokkurn veginn beint inn í hraunið.  Veggurinn er nokkuð sérstök smíði.  Austur hlið veggsins er ávalt lóðrétt og allt að 2 metrar á hæð, en víða er vestur brún veggsins aflíðandi, með 45 til 60 gráðu halla.  Ég hef alltaf heyrt að smíði garðsins væri gerð á þennan hátt, til að hleypa sauðfé í aðra áttina (til austurs) en ekki til baka.   Ekki er mér kunnugt um annan slíkan garð á Íslandi.Garður berserkjanna

Þega Styrr og hanns menn höfðu drepið berserkina í baðinu, þá fluttu þeir lík þeirra út í hraunið.  Dys berserkjanna er í dag fast við götuna í dalverpi í miðju hrauninu.  Dalurinn er ýmist nefndur Berserkjalág eða Dysjalaut.  Dysin er um 7 metrar á lengd, meðfram götunni og um 3 metrar á breidd.  

Sigurður Vigfússon forni (1828-1892) kannaði Berserkjahraun í ágúst árið 1889 og ritaði um það í Árbók Fornleifafélagsins (1893). Ekki getur hann þess hvort hann gróf í dys berserkjanna, en Snæfellski fræðimaðurinn Þorleifur J. Jóhannesson (1878-1944) hefur það eftir Kristjáni Þorleifssyni að Sigurður forni hafi skilið við dysina sundurtætta.  Kristján var unglingur í Bjarnarhöfn þegar Sigurður forni var á ferð, en Kristján mun hafa lagfært og endurhlaðið dysina.  Kristján Þorleifsson (1876-1959) var síðar hreppstjóri og bjó á Grund í Eyrarsveit.  Ég man vel eftir honum í Stykkishólmi.

 

Gatan, garðurinn og dysin hafa nú skilað sér sem áþreifanlegar menningarminjar, en hvar er byrgið?  Eyrbyggja segir svo um þriðju þraut berserkjanna:    …… og gera byrgi hér fyrir innan hraunið.”   Hvað er byrgi þetta og hvar er það?  Sumir telja að hér sé átt við Krossrétt, sem er í hraunjaðrinum skammt fyrir norðan bæinn Hraun. Ég tel það ólíklegt, enda eru slíkar réttir algengar og þessi sker sig ekki úr um byggingu.  Sigurður forni heldur því hins vegar fram að byrgið sem berserkirnir hlóðu sé í hraunjaðrinum við bæinn Hraun.  Um það fjalla ég í næsta þætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband