Berserkirnir í Heiðarvíga sögu


BerserkjagataBerserkjagata er alls um 1200 metrar á lengd. Frá austur enda hennar að dys berserkjanna eru 440 metrar (D á loftmynd). Um 100 metrum fyrir vestan dysina er hagagarðurinn sem berserkirnir hlóðu (V á loftmynd). Þar skammt fyrir vestan er vík, sem ber hið sérkennilega nafn Blámannavík (B á loftmynd).  Ekkert er vitað um uppruna þess örnefnis, en í sögum er rætt um berserki sem blánuðu af reiði.

Heiðavíga saga er önnur heimildin um berserkina Halla og Leikni.  Eins og áður segir, þá er fyrri hluti Heiðarvíga sögu glataður, en hann var endursagður eftir minni árið 1728 af Jóni Grunnvíking.  Hún er því lakari heimild en Eyrbyggja.  Þótt lýsingin sé í stórum dráttum eins, þá víxlar Jón berserkjunum varðandi áhuga þeirra á Ásdísi,  dóttur Víga-Styrs.   Einnig minnist sagan ekkert á byrgið, sem var hin þriðja þraut berserkjanna.  Heiðarvíga saga segir svo frá berserkjunum:   Vermundur dvaldi með Hákoni jarli í Noregi. Berserkirnir tveir Halli og Leiknir voru við hirð jarls. Vorið (ca. 984) er Vermundur undirbýr ferð sína heim, þá býður jarl honum að velja sér að gjöf þann hlut sem honum leikur helst hugur á.  Vermundur biður um berserkina og veitir jarl honum það. Þegar til Íslands kemur reynist Vermundi illt að ráða við hina skapmiklu berserki.  Hann tekur þá það ráð að bjóða þá sem gjöf til bróður síns Víga-Styrrs. Verður það af að berserkirnir fara heim með Styr.  Deilur höfðu lengi verið milli Styrs og Þorbjörns kjálka í Kjálkafirði. Nú vill Styr brúka berserkina til að ná rétti sínum á Þorbirni. Þeir koma þar að á nóttu og brjóta upp dyrnar. Síðan brjóta berserkirnir einnig upp rammlega lokrekkju Þorbeins. Koma þeir að Hrauni og líður nú af veturinn.  Leiknir sat löngum á tali við Ásdísi, dóttur Styrs.  Verður nú ljóst að berserkirnir vilja kvænast.  

Um vorið (ca. 985) ríður Styr að Helgafelli til að ráðgast við Snorra goða.  Eftir heimkomuna segir Styr Leikni að nú verði hann að vinna nokkur þrekvirki áður en konumálin verði til lykta leitt.

Styr mælti: "Hér er hraun hjá bæ mínum illt yfirreiðar. Hefi eg oft hugsað að eg vildi láta gjöra veg þar um og ryðja það en mig hefur skort mannstyrk. Nú vildi eg þú gjörðir það."  Leiknir segir það þyki sér eigi mikið fyrir ef hann njóti liðs Halla bróður síns. Styr sagði hann mætti það við hann eiga.   Taka nú berserkirnir að ryðja hraunið að kvöldi dags og að þeirri sýslan eru þeir um nóttina. Vega þeir stór björg upp þar þess þurfti og færa út fyrir brautina en sumstaðar koma þeir stórum steinum í gryfjurnar en gjöra slétt yfir sem enn má sjá. Var þá á þeim hinn mesti berserksgangur. Um morguninn höfðu þeir því lokið. Er það eitt hið mesta stórvirki er menn vita og mun sá vegur æ haldast með þeim ummerkjum sem á eru meðan landið stendur.   Skulu þeir nú gjöra eitt gerði og hafa því lokið að dagmálum. Á meðan býr Styr þeim bað sem þeir skulu í fara þá þeir hafa af lokið gerðinu. En að morgni skal Leiknir hafa brullaup. Baðið var so til búið að þar var felldur stór hlemmur ofan í gólfið með einum glugga á sem vatninu var inn um hellt. Húsið var grafið í jörð og voru dyr fyrir því með sterkum stokkum og húsið allt af nýjum viðum og hið rammbyggilegasta. Skarir voru fyrir dyrunum upp að ganga.   Um morguninn þá þeir eru að gerðissmíðinni lætur Styr Ásdísi búa sig sem allra best en bannar henni að vara berserkina við hvað hann hafi í ráði. Og áður en þeir hafa lokið gerðinu gengur hún burt frá húsunum á svig við berserkina þar þeir eru að sínu starfi. Leiknir kallar til hennar og spyr hvert hún vilji. Hún svarar engu.

Nú hafa þeir af lokið þessu starfi. Gengur Styr í móti þeim, þakkar þeim með fögrum orðum fyrir starfið og segist nú hafa búið þeim bað er þeir skuli í fara. Hafi þeir nú það þrekvirki unnið er sér allvel hugnist og uppi muni verða um alla ævi.   Halli er í fyrstu eigi ráðinn að ganga í bað og spyr ef eigi skuli fleiri ganga í baðstofu með þeim. Styr svarar það muni eigi hent öðrum mönnum að ganga í bað ásamt slíkum afarmönnum sem þeir eru. En Leiknir vill gjöra það að vilja Styrs.

Nú setjast þeir í baðstofu og er hlemmurinn lagður yfir og borið grjót á. Dyrunum er og lokað og borið grjót fyrir sem rammlegast en á skarirnar er breidd blaut uxahúð. Baðstofan er gjörð ákaflega heit. En þá þeir hafa setið í baðinu litla stund lætur Styr bera sem óðast brennheitt vatn og steypa inn um glugginn. Finna nú berserkirnir að eigi er allt heilt við þá. Hamast þeir nú í baðinu og brjótast á hlemminn. Springur Leiknir inni en Halli kemst út. Og er hann kemur á skarirnar verður hönum fótaskortur og fellur á húðinni en Styr er þar fyrir með reidda öxi og höggur á háls hönum so Halli lét þar lífið.  Í næsta þæti mun ég fjalla um mannvistarminjar sem hafa verið tengdar berserkjunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband