Fagurt sprungugos
19.12.2023 | 22:20
Einhver Grindvíkingur sagði um alla jarðskjálftavirknina undanfarnar vikur ´´Þetta hættir ekki fyrr en það kemur eldgos!´´ Við sjáum nú til með það, því þessu er alls ekki lokið enn. Gosið er stórkostlegt og kemur upp í óbyggðum, sennilega á besta stað hvað varðar byggð og mannvirki. Kvikustrókarnir í upphafi gossins eru sennilega þeir fegurstu sem hafa sést á Íslandi í mörg ár. Þeir sem flugu með þyrlunni yfir gosstöðvarnar um nóttina strax og gos hófst og á meðan það var í hámarki hafa orðið fyrir lífsreynslu sem mun hafa djúp áhrif alla ævi. Gosið virðist hafa verið mjög kröftugt í fyrstu, með rennsli á bilinu 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu, og jafnvel náð upp í 300 rúmmetra á sekúndu. Þetta er mörgum sinnum meira rennsli en í ánni Thames í Lundúnum (65 rúmmetrar á sek.), en dálítið minna en rennsli árinnar Seine í París (560 rúmmetrar á sek.). En nú er strax byrjað að draga úr goskraftinum og gæti það bent til að gosið verði frekar stutt.
Hagstæð lega gossprungunnar í óbyggðum og mikil fjarlægð frá byggð bendir til að Grindavíkurbær sé ekki í hættu. Nú þegar búið er að tappa af kvikuþrónni með myndarlegu eldgosi í óbyggðum er enn minni hætta í Grindavík og engin ástæða að halda áfram lokun bæjarins.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.