Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015
Bárðarbunga er bólugrafin
12.3.2015 | 23:44
Hvernig lítur Bárðarbunga út eftir allar þessar hamfarir neðan jarðar? Hefur hún látið á sjá? Svar við því fáum við með því að skoða þessa mynd, sem TerraSAR-X radar gervihnöttur Þjóðverja tók. Það er German Aerospace Center (DLR) eða Geimrannsóknastöð Þýskalands, sem tók myndina, en Fjarkönnun ehf leyfir okkur að birta hana hér. Við þökkum Ágústi Guðmundssyni fyrir. Radarmyndin er sérstök, því að upplausn um 1 metri. Hún er tekin hinn 3. mars 2015. Það sem maður tekur strax eftir eru sigkatlarnir, sem raða sér eftir brúnum öskjunnar. Þeir myndast einmitt þar sem jökullinn er þynnstur. Í miðju öskjunnar er þykkt jökuls um 800 metrar, en um það bil 200 metrar á brúnum öskjunnar, þar sem bergið kemur næst yfirborði. Maður tekur stax eftir því að það eru þrír stórir sigkatlar, og tveir minni. Þeir raða sér á öskjubrúnina, en sennilega er það vegna þess að hiti leitar upp með berginu og bræðir ísinn fyrir ofan. Að öllum líkindum hefur hitauppstreymi vaxið á meðan eldsumbrotunum stóð, en þá var mikil hreyfing á hringlaga misgengi, sem markar útlínur öskjunnar. Mér þýkir líklegast að nú dragi hægt og hægt úr því uppstreymi hita og að sigkatlarnir fyllist aftur af snjó með tímanum.
Spádómar í Vísindum
10.3.2015 | 00:41
Það er lítið gagn af vísindum, ef við getum ekki beitt þeim til að spá um framvindu mála. Auðvitað er spá algeng í okkar daglega lífi. Þegar ég flýg frá Boston kl. 2135, þá spáir Icelandair því að ég lendi í Keflavík kl. 640 næsta morgun. Þessi spá rætist oftast, enda eru mjög góðar upplýsingar til um flughraða, vinda í lofti og aðra þætti, sem stýra fluginu. Veðurspá þar sem ég bý á austurströnd Norður Ameríku er nokkuð góð, alveg upp á klukkutíma, enda má sjá veðrið koma úr vestri yfir meginlandið og vel fylgst með. Veðurfræðingar hafa góð líkön (góða kenningu) og fá stöðugt upplýsingar frá fjölda stöðva. En um spá á því, sem gerist inni í jörðinni gegnir öðru máli.
Mig grunar að spádómar um sólmyrkva séu ef til vill fyrstu spárnar meðal mannfólksins. Hvernig skyldi fávísum manni hafa liðið til forna, þegar sólmyrkvi skellur á um miðjan dag? Í lítt þróuðum þjóðfélögum til forna hefur sólmyrkvi ætið verið talin mikil ógnun og valdið skelkun meðal almennings. Með því að spá fyrir um sólmyrkva og undirbúa trúarlega stórathöfn fyrirfram, þá gátu konungar Mayanna sýnt vald sitt. Þannig beittu þeir upplýsingum sem fræðimenn eða prestar í þjónustu konungs höfðu safnað í alda raðir til að spá um slíka atburði og gang himintunglanna almennt. Dagatal Mayanna í Mexíkó og Mið-Ameríku var gert á 11 og 12. öld f.Kr. Það er svo nákvæmt að það spáði til dæmis vel fyrir sólmyrkvann sem varð í júlí 1991. Kínverjar voru farnir að spá fyrir um sólmyrkva um 2300 f.Kr. en gangur sólar var talin mikilvæg vísbending um heilsufar keisarans. Spá er eitt af höfuð tólum vísindanna til að sannreyna kenningar. Vísindi er aðferð okkar mannkyns til að rannsaka náttúru og umhverfið. Þegar við rannsökum eða athugum eitthvað fyrirbæri í náttúrunni, eins og til dæmis eldgos, og sjáum að það virðist fylgja einhverri ákveðinni hegðun, þá getum við komið fram með kenningu, sem skýrir atburðinn. Til þess að kenningin geti verið tekin gild í heimi vísindanna, þá þarf kenningin að hafa spádómsgildi. Spá er þriðja stóra skrefið í ferli hinnar vísindalegu aðferðar. Fyrsta skrefið er athugun eða rannsókn. Annað skref er þá kenning sem byggist á athugunum og það þriðja síðan spá um það sem framundan er. Ef kenningin er rétt, þá mun spáin rætast. Spáin er stærsta og mesta prófraun vísindanna, en það er því miður ekki oft sem spá um atburði í jarðvísindunum hefur verið gerð eða hefur tekist. Það stafar af því að við sjáum illa það sem gerist niðri í jörðinni, en sjáum betur það sem gerist á himni eða á yfirborði jarðar. En rétt er að benda á að spá getur einnig verið rétt einungis af tilviljun. Því oftar sem hún reynist rétt, því betur getum við treyst henni. Þá getum við byrjað að treysta líkaninu, sem spáin byggist á.
Er askjan byrjuð að rísa aftur?
9.3.2015 | 22:19
Gosinu í Holuhrauni er lokið, en það fylgdi ótrúlega vel þeim einfalda ferli, sem spá okkar Gabríels Sölva, dóttursonar míns, hafði sagt til um. Sjá hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1467963/ Sig Bárðarbungu er því einfaldur en traustur mælikvarði á rennsli kviku út úr kvikuhólfi undir öskjunni og upp á yfirborð í gosstöðinni um 50 km fyrir norðan. Reyndar er þetta frábært dæmi um aðferð vísindanna. Vísindin byggjast fyrst og fremst á athugun á einhverju náttúrufyrirbæri. Út frá athuguninni skapar vísindamaðurinn líkan, sem hæfir athugunum. Þá má beita þessu líkani til að spá um framhaldið. Ef spáin reynist rétt, þá eru góðar líkur á að líkanið sé rétt. Þess vegna getum við nú haft enn meiri trú á það líkan, að það sé stór kvikuþró undir Bárðarbungu og að rennsli kviku út úr þrónni og upp í Holuhraun sé skýringin á sigi öskjunnar. Við þetta vil ég bæta að það er mjög sjaldgæft að hægt sé að spá í jarðvísindunum yfirleitt.
Þegar sigið hætti, þá er kúrvan á stöðu GPS tækisins í Bárðarbungu orðin lárétt. Á myndinni sem fylgir, af vef Veðurstofunnar, er það bláa kúrvan sem sýnir nær enga eða litla lóðrétta hreyfingu á yfirborði Bárðarbungu frá 7. febrúar til 7. mars. Ég hef sett in lárétta rauða línu til að gera samanburð. Þá sést greinilega að undanfarna daga virðist GPS tækið aftur byrjað að rísa. Þetta getur orsakast af tvennu: (A) Ísinn undir tækinu er að renna niður í sigskálina og tækið hækkar af þeim sökum. (B) Askjan er byrjuð að rísa aftur vegna þess að kvika frá möttli streymir innn í kvikuhólfið undir Bárðarbungu. Ég hallast fremur að seinni skýringunni, en tíminn mun segja til um það. Ef (B) reynist rétt, þá er sennilegt að rennsli af kviku úr dýpinu inn í kvikuhólfið taki mörg ár, áður en það nær þeirri stöðu, sem Bárðarbunga hafði fyrir gosið sem hófst árið 2014.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)