Eldfjallafræðingur með kímnigáfu
18.12.2023 | 02:33
Ég starfaði í tæp tvö ár við frönsku kjarnorkurannsóknastöðina í Saclay, rétt sunnan við Parísarborg (1990-1991). Þar starfa rúmlega sjö þúsund vísindamenn, en stofnunin var sett á laggirnar af þeim frægu hjónum Irène Joliot-Curie og eiginmanni hennar Frédéric Joliot-Curie. Foreldrar hennar voru enn frægari hjón, Pierre og Marie Curie, sem gerðu grundvallar uppgötvanir um geislavirkni frumefna eins og úraníum.
Þarna rakst ég á nokkra þekkta jarðvísindamenn eins og til dæmis Haroun Tazieff (1914-1998). Ég hafði reyndar hitt hann áður í heimsókn hans til Íslands til að skoða Surtseyjargosið 1964. Það var alltaf mikill völlur á Tazieff, enda var hann frægur boxari, valinn til að keppa fyrir Belga á Olympíuleikunum í Berlín 1936. Á ferli sinum vann hann 49 af þeim 53 hnefaleikum sem hann tók þátt í.
Einn af nemendum Tazieffs var Francois Le Guern, en hann hafði varið doktorsritgerð sína skömmu áður en við hittumst í París 1990. Hann færði mér hana að gjöf en ritgerðin fjallaði um eldfjallagas.
Þegar ég fór að blaða í bókinni rak ég mig á að þar var mikill fjöldi af teikningum, sem voru af eldfjallafræðingum við störf, og allar heldur skoplegar. Þær voru allar merktar P.B. og seinna komst ég að því að sá var Pierre Bichet (1922-2008), hægri hönd Tazieffs í öllum eldfjallaleiðöngrum hans og kvikmyndatökumaður. Bichet vann með Haroun Tazieff í tæp fjörutíu ár. Hann vann mikið við kvikmyndaupptöku með Tazieff, en fyrst gerðu þeir myndina Les Rendez-vous du diable (Fundur með djöflinum, 1959), og síðar Le Volcan interdit (Lokaða eldfjallið, 1966, um Niragongo í Afríku). Hér með í þessu spjalli hef ég dreift nokkrum sýnishornum af teikningum hans Pierre Bichet. Púkar eldfjallanna voru greinilega mikið hugðarefni hans.
En snúum okkur aftur að Haroun Tazieff. Það er hægt að skrifa margar bækur um þennan sérstaka mann. Hann var Tatar að uppruna, ættin komin frá Mongóliu, en fæddur í Rússlandi. Faðirinn fórst í fyrri heimstyrjöldinni, en Haroun og móðir hans settust að í Belgíu. Síðar settist hann að í París.
Árið 1976 kom upp órói í eldfjallinu Soufriere á Frönsku eyjunni Guadeloupe í Karíbahafi. Jarðhiti jókst mjög hratt á svæðinu og gufusprengingar í topp fjallsins. Þá bjuggu 73.600 manns á hættusvæðinu og menntamálaráðherra Frakklands gaf út skipun um almenna rýmingu og lokun svæðisins umhverfis eldfjallið, sem varði í marga mánuði. Ráðherrann var reyndar sjálfur Claude Allegre, fremsti jarðefnafræðingur Frakklands, fyrr og síðar. Brottflutningur fólks í burt frá La Soufriere eldfjalli er sennilega mesta röskun á byggð tengd eldfjallsvá.
Það kom nú upp hatrömm deila milli Tazieff og Allegre. Sá fyrri hélt því fram að þetta væru einungis gufusprengingar og engin kvika á ferðinni. Hann mælti með að opna svæðið strax og hleypa fólkinu heim. Allegre sat fastur við sinn keip og lýsti því yfir að það væru glerkorn í öskunni sem væri sönnun um að hraunkvika ætti þátt í gufusprengingunum. Allegre réði og lokunin hélt áfram.
Skömmu síðar komst ég að hinu sanna í þessu máli. Jarðfræðingur sem ég hafði starfað með í Vestur Indíum var einn af ráðgjöfum Allegre. Hann rannsakaði leirinn sem slettist upp í gufusprengingunum og lýsti því yfir að í honum væru glerkorn, og þar með sönnun um að kvika væri fyrir hendi. Þetta var sönnun þess að eldgos væri yfirvofandi og réttlætti lokun hans Allegre á byggðinni. Seinna komst ég yfir þær þunnsneiðar sem glerið átti að finnast í og athugaði þær undir smásjá. Ég rakst ekki á eitt einasta glerkorn, en aftur á móti var töluvert af kornum og kristöllum af steindinni epídót, sem er algeng í bergi sem hefur verið ummyndað af jarðhita við um 300 stig. Það er vægast sagt klaufalegt að ruglast á gleri og epídót kristöllum í smásjá, en fyrir þessi mistök voru yfir 73 þúsund íbúar fluttir frá heimilum sínum í tæpt eitt ár. Allegre var samt ekki af baki dottinn. Hann beitti valdi sínu sem ráðherra og lét reka Tazieff úr starfi í hefndarskyni.
Tazieff setti eldfjallafræðingum þrjár reglur til að vinna eftir í sambandi við hættu frá eldgosum. (A. McBirney, Nature. 392, 444, 1998). Hér notum við heitið eldfjallafræðingur í mjög breiðum skilningi fyrir vísindamenn, sem hafa sérhæft sig í myndun og þróun kviku og jarðskorpuhreyfingum í gosbeltum.
1, Fyrsta regla Tazieffs er að aðeins sérfræðingar séu færir um að meta vá eða áhættu sem gæti stafað af virkni eldfjalla. Slíkt sé utan verksviðs hins almenna jarðfræðings og auðvitað ekki á hæfi þeirra sem stýra bæjarfélagi eða lögreglu.
2. Fyrsta verk sérfræðingsins er ekki að spá fyrir um eldgos, heldur er það fyrst og fremst áhættumat varðandi umhverfið og mat á þeim skaðlegu áhrifum sem eldgos kynni að valda á menn og byggð.
3. Hlutverk sérfræðingsins er að vera ráðgjafi fyrir opinbera starfsmenn, sem þurfa að bregðast við og ráðast í framkvæmdir sem eru byggðar á hans ráðgjöf.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallalist, Eldgos, Jarðskorpan | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.