Eru Íslendingar aumingjar?

althingishu_769_s_1289112.jpg

Nýr forseti var vígður í vikunni og kom að vanda fram á svalir Alþingishússins til að láta lýðinn hylla sig. En skyldi hann nokkurn tíma lyfta höfði þegar hann gengur inn í húsið og líta á skjaldarmerki og kórónu Kristjáns 9 danakonungs, sem trjóna efst á húsinu? Hvernig má það vera að Íslendingar láti við lýðast í öll þessi ár að æðsta stofnun þjóðarinnar sé merkt svo kyrfilega með merki nýlendukúgarans? Maður hefði nú haldið að einhverjir duglegir piltar hefðu klifið hér upp á þak í Búsáhaldabyltingunni og fjarlægt skömmina, en svo fór ekki. Væri ekki best að minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands árið 2018 með því að fjarlægja þessa skömm?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tróni, ekki "trjóni", Haraldur.

Svo slærðu saman orðunum "að láta eitthvað líðast" (eða: að líða eitthvað) og "að láta eitthvað viðgangast".

Og "kirfilega" ritar maður í þessari merkingu, "kyrfilega" í annarri merkingu (sjá Orðabók Menningarsjóðs).

Og svo er ég ósammála þér um þessar sögulegu minjar. Kristján IX færði okkur stjórnarskrána 1874. Eins gott að búsáhalda-anarkistar lögðu ekki til atlögu við steinverkið.

Annars áttu hér margan góðan pistilinn. smile

Jón Valur Jensson, 3.8.2016 kl. 23:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvernig sem það var til komið er það óumflýjanleg staðreynd að Kristján 9 var konungur Íslands, þjóðhöfðingi Íslendinga, þegar Alþingishúsið var reist, ekki bara konungur Dana.

Merkið er hluti af arkitektúr hússins og sögu landsins.

Þótt Bolsévikar færu um brjótandi og bramlandi í Rússlandi í byltingunni og Lenin segði að trúin væri ópíum fólksins hreyfðu þeir ekki við mestu gersemum Kremlar, sem gerð voru á tímum keisara Rússlands og biskupa landsins. 

Þjóðhöfðingi Íslands lét gera Skansinn í Vestmannaeyjum, hernaðarmannvirki. Auðvitað var hann varðveittur eftir föngum, þótt Íslendingar séu mótfallnir hernaði.  

Þegar Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða var málverk af Bjarna Benediktssyni, fyrrum borgarstjóra, á veggnum í bakgrunni.

Menn geta deilt um það að málverkið var sett þarna, en það var samt hluti af myndinni og því ekki rétt að fjarlægja það síðar, eins og gert var, heldur viðhalda öllu í sama horfi og þegar leiðtogafundurinn var haldinn. 

Ómar Ragnarsson, 3.8.2016 kl. 23:44

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Það hefur stundum verið bryddað upp á að fjarlægja þennan hluta hússins. Þetta "stykki" er ekki bara merkilegt sögulega séð heldur líka hluti af húsagerðarlist og sögulegum menjum íslendinga. Svipuð mynd er á skildingafrímerkjunum, sem dæmi. Það sýnir verklagni og kúltúr sem tilheyrir okkar forfeðrum. Sem arkitekt vil ég benda á að heildarmynd sjálfs hússins myndi virka strípuð eftir slíka breytingu.

Ólafur Þórðarson, 4.8.2016 kl. 09:24

4 identicon

Nú þykist þú báðum fótum í etu standa
með því að útiloka þann frá umræðunni sem fyrstur
kveikti hana.

Einstakt óþverrabragð þitt með sviðsetningu
á skoðun sem þú enga hefur mun svo sannarlega
hitta sjálfan þig einan fyrir að lokum.

Húsari. (IP-tala skráð) 4.8.2016 kl. 10:12

5 Smámynd: FORNLEIFUR

Stjáni númer 9, tengdafaðir Evrópu, var ekki sá versti og heyrt hef ég, og hef fyrir satt, að margur höfðinginn á Íslandi hafi farið verr með landa sína en konungar í Danmörku.

Stafsetningareinræðisherrar með zetu á Íslandi eru hins vegar hinir verstu einræðisherrar - og hana nú Jón Valur.

FORNLEIFUR, 4.8.2016 kl. 11:20

6 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Nýji forsetinn er opin landamæra sinni svo að ég held að hann væri bara hreykinn að líta up og sjá skjaldarmerki Stjána níunda.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 5.8.2016 kl. 01:43

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Engum stjórna ég með minni stafsetningu, dr. Vilhjálmur, og ekki reyndi ég að predika neinn zetuboðskap hér.

En góð þykja mér innleggin hér frá Ómari og arkitektinum Ólafi.

Jón Valur Jensson, 10.8.2016 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband