Færsluflokkur: Bandaríkin
Obama ætlar að friða Kyrrahafið
18.6.2014 | 19:05
Við gleymum því víst oftast að Banadríkin stjórna risastóru svæði í mið og vestur hluta Kyrrahafsins síðan 1944. Kortið sýnir þetta svæði, sem er um tvær milljónir ferkílómetra á stærð (tuttugu sinnum stærra en Ísland) og verður nú friðað. Obama forseti tilkynnti þetta í gær á alþjóðaráðstefnuni Our Ocean, eða Hafið Okkar, í Washington um verndun hafsins. Ráðstefnunni er stýrt af utanríkisráðherra Bandaríkjanna John Kerry, og þar er saman kominn mikill fjöldi vísindamanna, áhrifamanna og stjórnmálamanna heims. Höfuð markmið ráðstefnunnar er að kanna ástand hafsins og bæta hvernig mannfólkið umgengur hafið og auðlindir þess, einkum lífríkið. Hollywood stjarnan Leonardo di Caprio er mikill áhugamaður um verndun hafsins og hefur þegar á ráðstefnunni veitt styrk sem nemur $8 milljón dölum til þessa.
Hér eru fulltrúar allra landa saman komnir nema Íslands! Það er smán, skömm og aumingjaskapur að íslenska ríkið skuli halda svo illa á spöðunum að við erum útilokaðir frá slíkum fundum vegna sóðalegra hvalveiða, sem skila nær engum tekjum til þjóðarinnar. Það er reyndar furðulegt að fjölmiðlar skuli ekki gera meir úr þessu máli og krefja ríkisstjórnina skýringar á þessu ástandi. Reyndar slapp einn íslendingur inn á ráðstefnuna, en það er Árni M. Mathiesen, sem vinnur hjá Sameinuðu Þjóðunum, og fékk að fljóta með. Merkilegt hvernig gamlir kreppuvaldar skjóta aftur upp kollinum í útlöndum
Þetta kemur okkur öllum við
3.6.2014 | 11:39
Orkuver í Bandaríkjunum dæla út um 38% af öllum koltvísýringi sem berst út í loftið og veldur neikvæðum loftslagsáhrifum. Obama vill skera þetta niður um 30% á næstu árum, sem er ekki nóg en spor í rétta átt. Það þýðir að 550 kolakyntar og skítugar orkustöðvar verða að loka og aðrar orkulindir koma í staðinn eða meiri orkusparnaður. Stóra vonin er að Ameríkanar snúi sér fremur og enn meir að kjarnorkuverum, og þá sérstaklega orkuverum sem keyrð eru af þóríum en ekki úran. Það er hægt að draga úr mengun frá kolakyntu verunum. Frá árinu 2005 hefur mengun frá þeim þegar minnkað um 13%. Obama mun beita sér fyrir svipuðum aðgerðum í öðrum löndum, þegar hann fundar með erlendum ráðamönnum síðar í súmar. Að sjáfsögðu er Obama nú með þessu að hanna fallegan minnisvarða um valdaskeið sitt og er það hið besta mál.
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Obama fer í stríð við loftslagsbreytingar
2.6.2014 | 13:36
Í vikunni lýsti Obama forseti Bandaríkjanna því yfir að stjórn hans muni vinna að því að draga úr losun koltvíoxíðs frá orkuverum sem nemur 30%. Reynt verður nú að loka sem flestum orkuverum, sem kynt eru með kolum, en kol eru talin allra mesti mengunarvaldurinn hvað snertir bæði koltvíoxíð og brennistein. Hætt er við að barátta Obama´s við mengunarvöldin verði erfið og pólítísk. 73% Ameríkana trúa nú að loftslagsbreytingar séu að gerast. En skoðunin á þessu máli er mjög klofin eftir flokkum. Þannig eru 65% af Demókrötum sannfærðir um að mikil ógnun stafi af loftslagsbreytingum en aðeins 25% af Repúblikönum. Baráttan gegn mengun og loftslagsbreytingum er ekki talin ´good for business´, en samt sem áður er þjóðin að síga hægt og hægt í rétta átt. Þetta er stórt útspil hjá Obama og ef til vill stefnir hann á að byggja upp arfleifð sína á þessu sviði áður en kjörtímabili hans lýkur.
Mandela og Washington gátu það
30.3.2011 | 20:33
Verður næsti stóri skjálftinn í Ameríku?
27.3.2011 | 20:02
Komu sumir frumbyggjar Nýja Heimsins frá Evrópu?
26.3.2011 | 16:39
Fyrstir í Nýja Heiminum: Örvaroddar eldri en Clovis
24.3.2011 | 20:41
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eldstöðin Yellowstone
10.3.2011 | 19:36
Uppruni eldvirkni í Yellowstone er tengdur heitum reit djúpt í möttli jarðar, meir en eitt hundrað kílómetrum fyrir neðan meginlandsskorpuna. Meginland Norður Ameríku hefur stöðugt rekið til vesturs yfir heita reitinn síðastliðin sautján milljón ár, en heiti reiturinn er kyrrstæður í möttlinum. Hann bræðir meginlandsskorpuna neðan frá og kvikan rís upp til að mynda eldstöðina á yfirborði. Risastórar eldstöðvar á borð við Yellowstone haga sér allt öðru vísi en þau eldfjöll sem við eigum að venjast hér á Íslandi. Gosin í Yellowstone eru mörgum sinnum stærri, og langt á milli þeirra. Þannig geta liðið allt að jafnvel milljón ár milli gosa. Síðasta stórgosið var fyrir 640 þúsund árum. Síðan hafa nokkur hraun runnið, en það hefur ekki gosið neitt að ráði í 70 þúsund ár. Undir Yellowstone er nú kvikuhólf, eða stór tankur af bráðnu bergi, og safnast sífellt meira í hann. Kvikuhólfið tæmdist síðast í stórgosi fyrir 640 þúsund árum, og þá féll þak hólfsins niður, og ný askja myndaðist, sem er 40 sinnum 60 km á stærð. Það er töluvert síðan að vísindamenn tóku eftir því, að yfirborð öskjunnar gengur upp og niður, og eiginlega virðist svo sem að eldstöðin sé að anda að sér kviku úr möttli jarðar og inn í kvikuhólfið. Fyrsta myndin sýnir breytingar sem hafa verið mældar síðan 1923. Á síðustu öld var yfirleitt sig í öskjunni, eins og kemur fram á annarri mynd. En svo snerist ferlið við kringum 2004, og askjan tók að rísa um 7 til 10 sm á ári, sem benti til þess að kvika streymdi inn af miklu dýpi. Gæti þetta bent á gos í aðsigi? Þriðja myndin eru allra nýjustu niðurstöður, sem benda til þess að risið sé hætt, eða alla vega staðnað í bili. Ef til vill getum við andað rólegar nú um tíma.
Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1872, og er hann fyrsti þjóðgarður jarðar. Einn af þeim sem tók þátt í leiðangri til Yellowstone árið 1872 var málarinn Thomas Moran, og listaverk hans höfðu mikil áhrif á þá ákvörðun Bandaríkjaþings að friða svæðið og mynda hér hinn fyrsta þjóðgarð. Þegar myndir hans voru sýndar í Washington DC, þá ákvað foretinn að þetta fagra svæði þyrfit að friða strax. Nafn þjóðgarðsins er dregið af Yellowstone fljóti. Það nefndu indíánar ána fyrir langa löngu, og sennilega er nafnið dregið af ljósleitu og gulu líparít jarðlögunum, sem áin sker sig í gegnum umhverfis eldstöðina. Þeir sem hafa komið inn í Landmannalaugar kannast vel við þennan sama gula lita. Okkur dreymir flest um einhverja draumaferð, sem við viljum komast í á ævinni. Mínar draumaferðir voru: númer eitt Galapagoseyjar, og númer tvö Yellowstone. Ég er svo heppinn að hafa komið oft á bæði þessi stórkostlegu svæði og kynnst þeim náið. Endilega látið þið verða af því að leyfa ykkar draumferð að rætast.
Bandaríkin | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Með 60 Minutes á Eyjafjallajökli
1.5.2010 | 06:37
Einn frægasti fréttaskýringaþáttur heims er þátturinn "60 Minutes" hjá CBS sjónvarpskeðjunni í Bandaríkjunum. Þeir eru þekktir aðallega fyrir vandaða vinnu, mikla gagnrýni og ítarlegar rannsóknir á fréttaefni því sem þeir fjalla um. Það var mikil ánægja fyrir mig að starfa með þeim í nokkra daga á Íslandi og fræða þá um gosin tvö í Eyjafjallajökli, jarðfræði Íslands og uppruna eldfjalla yfir leitt. Enginn sjónvarpsþáttur sem fjallar um daglega viðburði og fréttnæmt efni er jafn hátt metinn og hefur eins mikla áhorfun eins og 60 Minutes, en um 15 miljón sjá þáttinn á viku hverri í Bandaríkjunum einum. Fréttaskýrandinn sem ég vann með á Eyjafjallajökli var Scott Pelley, en honum til aðstoðar var framleiðandinn Rebecca Peterson og íslenska sjónvarpskonan Elín Hirst. Þær Rebecca og Elín unnu dag og nótt við undirbúning og að safna efni áður en upptakan hófst. Tæknimenn sem unnu við upptökuna voru alls tíu manns og frábært lið í alla staði.
Þegar Kanar vildu kaupa Ísland og Grænland
4.3.2010 | 00:43
Þegar Abraham Lincoln var forseti Bandaríkjanna, þá var William H. Seward (1801-1872) utanríkisráðherra hans. Þá var Monroe yfirlýsingin í hávegum höfð, nefnilega að öllum frekari tilraunum ríkja í Evrópu til að komast yfir lönd eða landsvæði í Norður eða Suður Ameríku yrði mætt með valdi af hendi Bandaríkjanna. Monroe yfirlýsingin, sem var sett fram árið 1823, staðfesti að engar nýlendur Evrópuþjóða væru heimilar í vesturheimi, og í staðinn lýstu Bandaríkin því yfir að þau muni ekki skifta sér af millilandadeilum innan Evrópuþjóðanna. Í þessum anda vildu Bandaríkin komast yfir þau landsvæði sem Evrópuþjóðir réðu yfir í Norður Ameríku. Þeir byrjuðu á því að kaupa Alaska af rússum árið 1867 fyrir aðeins 7,2 miljón dali og það var William H. Seward sem stýrði þeim kaupum fyrir Bandaríkin. Á sama tíma vildu Bandaríkin eignast lönd í Karíbahafi og höfðu lengi augastað á Kúbu. Á þessum tíma átti Danmörk nokkrar eyjanýlendur í Vestur Indíum, eða eyjarnar Saint Croix, Saint Thomas og Saint John. Altalað er að danir voru mestu harðstjórarnir og harðskeytir þrælahaldarar í Karíbahafi á þeim tíma. Árið 1867 byrjaði Seward að semja við dani um kaup á eyjunum, en ekki gekk það dæmi upp. Aftur var reynt árið 1902 en frumvarpið féll í danska þinginu. Í fyrri heimsstyrjöldinni fór málið að færast í annað horf, og danir féllust loks á sölu eyjanna fyrir 25 miljón dali, en gengið var frá sölunni árið 1917. Síðan hafa eyjarnar verið kallaðar Jómfrúareyjar, eða the Virgin Island of the United States. Um leið og kanar festu kaupin, þá féllust þeir á að viðurkenna Grænland sem hluta af Danmörku. Það var mjög snjallt bragð hjá dönum að setja þau skilyrði fyrir kaupunum. Það er ekki eins þekkt staðreynd að Seward vildi einnig kaupa Grænland og Ísland fyrir hönd Bandaríkjanna. Hann faldi Strand- og Sjómælingastofnun Bandaríkjanna, U.S. Coast Survey, að ganga frá skýrslu um hlunnindi Grænlands og Íslands, en þá var Charles S. Peirce (1839-1914) forstöðumaður stofnunarinnar. Peirce eldri var ekki aðeins frábær vísindamaður, heldur merkur heimspekingur. Hann kom fyrstur manna fram með kenninguna um pragmatism, sem heldur því fram, að ef einhver kenning passar vel við athuganir og staðreyndir, þá er kenningin sennilega rétt. Peirce fékk son sin Benjamin M. Peirce til að vinna að skýrslunni, sem var afhent Seward í desember 1867 og gefin út í bókarformi ári síðar af Utanríkisþjónustunni. Peirce yngri var námuverkfræðingur. Bókin heitir A Report on the Resource of Iceland and Greenland. Bókin er 72 síður, myndskreytt og gefur fróðlega mynd af Íslandi á þeim tíma, en ekkert bendir til að Ben Peirce hafi sótt heim Ísland eða Grænland við undirbúning bókarinnar. Bókina má til dæmis lesa á vefnum hér. Ekki er mér kunnugt um gang málsins milli yfirvalda dana og bandaríkjamanna á þessum tíma, en svo virðist sem bandaríska þingið hafi ekki fylgt málinu eftir frekar að sinni. Svo gerist það árið 1946 að Bandaríkin gera formlegt tilboð í Grænland uppá eitt hundrað miljón dali, eins og komið hefur fram í leyniskjölum sem voru birt nýlega. Ekkert varð úr þeim kaupum heldur, en bandaríkjamenn náðu auðvitað fótfestu í báðum löndum ókeypis með því að beita aðstöðu sinni í Norður Atlantshafs bandalaginu eða NATO. Hvernig liti Ísland út í dag, ef úr kaupunum hefði orðið?
Bandaríkin | Breytt 18.3.2010 kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)