Komu sumir frumbyggjar Nýja Heimsins frá Evrópu?

ÍsröndinÞegar ísöldin stóð sem hæst fyrir um 18 til 20 þúsund árum, var heimur okkar hér í Norður Atlantshafi töluvert ólíkur því sem nú er.  Eins og myndin til hliðar sýnir, þá var hafísþekja yfir meiri hluta Norður Atlantshafs á þessum tíma, frá vestur strönd Frakklands og alla leið til Maine á austur strönd Norður Ameríku.  Ísland var langt inni í ísbreiðunni.  Á þessum tíma var þjóðflokkur í vestur hluta Evrópu sem er kenndur við fellið Solutré í Frakklandi: Solutrean menningin.  Minjar þeirra finnast einnig á Spáni og í Portúgal.  Helsta einkenni þeirra voru glæsilegir örvaroddar og spjótsoddar úr tinnu, sem gerðir voru af miklum hagleik, eins og önnur myndin sýnir.  Oddarnir líkjast mjög þeim sem Clovis menningin skildi eftir á meginlandi Norður Ameríku fyrir um þrettán til fjórtán þúsund árum, sem ég hef nýlega bloggað um hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1153257/   Eru Clovis og Solutrean menningarnar skyldar?  Fóru Solutre menn meðfram hafísröndinni, og lifðu eins og eskimóar á því sem hafið gaf, þar til þeir komust alla leið til austur strandar Norður Ameríku? Hittu þeir þar fyrir fók sem hafði komið til Nýja Heimsins frá Asíu tvö þúsund árum áður?  SolutreanÞetta eru spennandi spurningar, og margir hafa vellt þessu fyrir sér undanfarið.  Þessu til stuðnings hefur verið bent á að fundist hafa í Norður Ameríku þrjár eða fjórar hauskúpur af fólki sem hefur cro-magnon einkenni Evrópubúa, ólík einkennum Asíumanna.  Ein er til dæmis hauskúpa af konu í Minnesota, sem er talin um 15 til 20 þúsund ára. Önnur er hauskúpa af konu í Mexíkó sem er frá því um 13600 árum.  Mannfræðingar og fornleifafræðingar munu halda áfram rannsóknum á þessu sviði, og deila um niðurstöður.  En málið er sérstaklega viðkvæmt fyrir índíánana í Norður Ameríku, sem vilja alls ekki taka til greina neinar tilgátur um frumbyggja frá Evrópu á þessum tíma.  Nýlega fannst beinagrind af karlmanni í Washington fylki, um níu þúsund ára gömul: Kennewick maðurinn. Fornleifafræðingar bentu á ákveðin cro-magnon einkenni hans. Indjánar á svæðinu náðu eignarhaldi á beinagrindinni og bönnuðu frekari sýnatöku sem var nauðsynleg til að gera greiningu á erfðarefni.  Samkvæmt lögum er þessi beinagrind elsti indíáninn, en vísindin fá hvergi nærri að koma til að prófa málið. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Haraldur

Þetta er allt vissulega áhugavert, en mig langar að benda á nokkur atriði:

1) Samsvarandi tækni við framleiðslu örvar- og spjótsodda getur vel þróast á mörgum stöðum samtímis, sem svar við aukinni veiði í tengslum við hörfun ísbreiðunnar. Það er fyrst og fremst efnið, steinninn, sem ræður endanlegri mynd oddsins.

2) Þó N-Evrópa og N-Ameríka hafi vissulega verið þakin ísbreiðum langt til suðurs þá eru litlar líkur á að samfelld ísbreiða hafi náð yfir N-Atlantshaf og tengt þær saman líkt og myndin sýnir. Þetta er frekar afrakstur ímyndunarafls myndasmiðar en rannsókna. Auðvitað er ekki ólíklegt að lagnaðarís hafi tengt ísbreiðurnar meira og minna á veturna en trúlega mun norðar en myndin sýnir. Ágæt vísbending er lega jökla í Danmerku á síðustu Ísöld, þeir náðu aldrei nema inn í mitt Jótland og flatlendið mikla milli Jótlands og Englands voru Skeiðarársandar miklir, íslausir (V-Jótland með sinni flatneskju eru síðustu leifar þessara miklu sandbreiða sem enn eru ofan sjávar).

3) Þótt menn hafi getað siglt yfir opið úthaf í amk 50.000 ár (sbr. landnám Ástralíu og Tasmaníu) þá er það fyrst fyrir um 1000 - 1500 árum að forfeður ínúíta í Alaska þróuðu þá veiðitækni sem gerði þeim kleift að dreifa sér langs með ströndum N-Íshafs, til Grænlands. Norrænir menn settust að í Grænlandi um 1000 og fundu enga innfædda, en inúítar komu stuttu seinna aðvífandi úr norðuátt, eyddu Vesturbyggð með vopnavaldi og hafa búið á Grænlandi síðan. Það má því teljast ólíklegt að Evrópubúar hafi getað leikið sama leik fyrir tugum þúsunda ára.

4) Nýjustu rannsóknir í N-Ameríku benda til að íbúar álfunnar hafi komið í fleiri en einni bylgju og að Clovis-menningin sé ekki sú fyrsta. Erfitt hefur þó reynst að staðreyna aldursgreiningar. Clovis menn voru alla vega mjög snjallir veiðimenn og af mongólskum ættum. En þjóðflokkar með mongólsk einkenni voru þá frekar nýir af nálinni, voru einnig í mikilli útbreiðslu á meginlandi Asíu og virðast hafa þar ýtt til hliðar þjóðflokkum með kákasísk einkenni (svipað evrópubúum). Einu leifar þessara þjóðflokka í austanverðri Asíu eru Ainuar í norðureyjum Japans. Reynist það rétt að eldri bylgjur hafi borist til N-Ameríku, t.d. fyrir 15-20.000 árum, gætu þar vel hafa verið kákasískir þjóðflokkar þótt úr austri hafi komið, sem gæti skýrt hauskúpurnar sem þú nefnir. Þessir þjóðflokkar voru mun frumstæðari en hinir mongólsku Clovis-menn enda hurfu þeir með öllu - ef þeir hafa þá verið til.

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.3.2011 kl. 22:57

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

"Homo sapiens diversus" 

Kennewick maðurinn ber ekki fleiri einkenni "kákasískra" manna en t.d. ein beinagrindin sem Dr. Hans Christian Petersen frá Syddansk Universitet rannsakaði hér um árið á Þjóðminjasafni Íslands. Dr. Hans Christian, sem m.a. er sérfræðingur í Neanderthalsmönnum fann einstaklinga í kumlum á Íslandi, sem voru með herðablöð eins og Neanderthalsmenn. Ekki dreymdi Hans Christian þó um að lýsa því yfir að skagfirski kumlbúinn hafi verið kominn af Neanderthalsmönnum. Hans veit sem fullmenntaður mannfræðingur að beinabreytingar geta orsakast af mörgum þáttum.

Þeir bandarísku mannfræðingar sem með sensasjónsfornleifafræði hafa gert því skóna að Kennewickmaðurinn hafi verið frá Evrópu, eru fornleifafræðinni og mannfræðinni til skammar.

Fornleifafræðingar vita flestir að svipuð menning getur orðið til á mismunandi stöðum án þess að nokkur tengsl sú þar á milli. Sumir gleyma þessu, og því miður eru margir fornleifafræðingar sem ólmir vilja komast á forsíðu National Geography með hvaða vitleysu sem er. Það selst og maður verður frægur - og þá er hamingjan fengin í US of A. 

Hauskúpugerð og gerð tinnuverkfæra fara ekki saman og gefa enga ástæðu til að tala um "frumstæðu" manna eins og hinn mikli fræðaþulur Brynjólfur Þorvarðarson heldur.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.3.2011 kl. 07:06

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Brynjólfur. Hvaðan færð þú það að norrænir hafi verið murkaðir niður í Grænlandi. Það er algjörlega út í hött. Það eru ummerki um að þeir hafi farið yfir á meginlandið allt frá baffin eyju til NY. Það eru ummerki að þeir hafi verið í SD, ND, Manitoba og áfram inn Hudson bay, NF NE alveg niður til Rhode Island og einhvað áfram. Það eru varðar verslunar leiðir. Það eru rúnasteinar sem bæði íslendingar og Norrænir segja falsaða. Einhvað af þessum rúnasteinum eru frá um 1400AD og einn í hið minnsta er stilltur af í fjöru borði miðað við Jafndægur. Sjá ef þú hefir áhuga. Þetta er ekkert vísindarit en gefir þér hugmynd.  http://www.amazon.com/Englands-Narragansett-Rune-Stone-ebook/dp/B004HKIJD4/ref=sr_1_16?ie=UTF8&qid=1301223065&sr=8-16

Vörðurnar í Leifsbúð sem dæmi en það finnast slíkar vörður niður alla Nýja Englands ströndina. Það eru Dolemn, standing stones í línu, haugar (mounds). Ef þú lest dagbækur Lewis og Clark þá tala þeir um hauga á vissu svæði upp með Missori ánni sem passar við komu Íslensku Grænlendingana. Það er vörðu kerfi á þessu svæði. Það eru hringaheimar eins og heimurinn sem Einar Pálsson uppgötvaði á Suðurlandi með KRS rúnasteinn í miðju með vörðum á réttum stöðum miðað við heilögu vegalengdina en svona gæti ég haldið áfram en maður lifandi blóð okkar er út um öll mið norður og aust norður ríkin.  

Valdimar Samúelsson, 27.3.2011 kl. 11:08

4 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Samgöngur við Ameríku fyrir daga Kólumbusar hafa líklega verið meiri en áður var talið og staðið lengur yfir.  Smátt og smátt hafa verið að koma fram vísbendingar um það. 
http://en.wikipedia.org/wiki/Pre-Columbian_trans-oceanic_contact

Ef til vill eiga rannsóknir á sviði erfðavísinda eftir að leiða í ljós ný sannindi sbr. fréttina um daginn af Íslendingunum sem eru með idíánagen.
http://www.steinisv.blog.is/blog/steinisv/entry/1117308/ 

Þorsteinn Sverrisson, 27.3.2011 kl. 11:20

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég tel líka að það hafi verið önnur menning en innfæddir s.s. bændamenning í kring um Boston og Rhode island, NY og örugglega upp með St Lawrance ánni en það er vitaðu að bændur lifðu í langhúsum þar sem kellur réðu ríkjum eins og kallar. Það er skömm hve Íslendingar hafa lagt litla rækt á þann möguleika að þeir hafi numið Norður Ameríku. Kíkið á Ara Márson í landnámu kafla 43 eða þar um bil og munið fólkið sem var á ferð með Eirík Rauða. Fólk heldur alltaf að það hafi gufað upp.

Valdimar Samúelsson, 27.3.2011 kl. 11:57

6 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Hvernig sem á því stóð Valdimar þá náðu norrænir menn ekki fótfestu í Norður Ameríku. Þeir voru allir horfnir um 1500. Líklega hefur landnám þeirra verið takmarkað og skammvinnt. Genarannsóknir hafa hingað til  ekki bent til þess að þeir hafi blandast indíánum en slíkt hefði örugglega gerst ef norrænir menn hefðu verið útbreiddir.

Það vantaði herslumuninn á að víkingum hefði tekist varanlegt landnám í Norður Ameríku. Ef þeir hefðu náð að flytja meiri fólksmassa yfir þá hefðu norrænir menn líklega haft nægilegan styrk til að standast árásir Skrælingja. Með því að flytja með sér nautgripi og hross hefðu þeir fljótt náð umtalsverðu forskoti á frumbyggja sem höfðu ekki sambærileg húsdýr til dráttar og akuryrkju.  Þá var tækni víkinga til að smíða áhöld og vopn úr járni meiri en frumbyggja.

Það er gaman að geta sér til um hverju þetta hefði breytt fyrir mannkynssöguna. Norrænir menn hefðu væntanlega stofnað ríki á borð við það sem þeir gerðu á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi.  Þ.e. stofnað alþingi, byggt kirkjur, farið að rita bækur á skinn o.s.frv.  Kólumbus hefði þá aldrei fundið Ameríku, heldur hefðu aðrir Evrópubúar smátt og smátt flust þangað í kjölfar víkinganna. Þó líklega ekki að ráði fyrr en eftir nokkur hundruð ár.  Á meðan hefðu norrænir menn með sínum dugnaði og ferðaþrá getað fjölgað sér mikið og dreifst út um allt meginland Ameríku.

Eins hefði sagan mögulega getað þróast þannig að norrænir menn hefðu einangrast í Ameríku, þ.e. ef þeir hefðu verið búnir að nema þar land varanlega, en skipaferðir við Grænland og Ísland síðan lagst af vegna kólnandi veðurfars. Þá hefðu "Sigurður" og "Þorgerður" ef til vill tekið á móti Kristófer Kólumbus 500 árum síðar og boðið í slátur og kjötsúpu.

Annars erum við komnir í annan tímaramma í þessum umræðum en upphafleg grein Haraldar fjallar um :) 

Þorsteinn Sverrisson, 27.3.2011 kl. 13:02

7 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Kanadíski fornleifafræðingurinn Patricia Sutherland var í fréttum hér fyrir nokkrum árum þegar hún taldi að landnám víkinga í N-Ameríku hefði átt sér stað talsvert fyrr en áður var talið.

Hún hefur einna mest kannað minjar um Víkinga í Vesturheimi.
http://www.civilization.ca/cmc/explore/resources-for-scholars/essays/archaeology/patricia-sutherland/dorset-norse-interactions-in-the-canadian-eastern-arctic

Þorsteinn Sverrisson, 27.3.2011 kl. 13:39

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er gleðilegt að sjá viðbrögð við þessu bloggi.  En ef til vill fóru sumar athugasemdir úr leið, og í átt norrænna víkinga, sem var nú ekki meiningin í upphafi. Fór eins fyrir Clovis og norrðnum vesturförum: þeir lögðu á flótta eða féllu fyrir örvum hinna "innfæddu"?

Haraldur Sigurðsson, 27.3.2011 kl. 14:16

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Haraldur, ég vil byrja á að taka fram að ég skoðaði ekki myndina með greininni nógu vel. Lega jökla í greininni er talsvert góð, en lega hafíss er ekki samkvæmt því sem ég hef lesið mér til um. T.d. lá stærsta útfall (jökulá) jöklanna á Jótlandi til N-Vesturs, þ.e. út meðfram suð-vesturstörnd Noregs. Það passar varla við myndina.

Stærð jökla á Íslandi á síðasta jökulskeiði bendir einnig til talsverðrar úrkomu sem aftur bendir til þess að lægðakerfi hafi farið meira og minna sömu leið og núna - sem aftur bendir til ísslausra hafsvæða miklu norðar en myndin sýnir. Lagnaðarís gæti þó hafa tengt Ísland við Grænland og Skandínavíu að vetri til, enda hefur heimskautarefurinn eflaust nýtt sér þá leið til að komast hingað.

Varðandi það sem Valdimar nefnir, um vopnuð átök milli ínúíta og norrænna manna á Grænlandi, þá sýna fornleifarannsóknir svo ekki verði um villst að í Vesturbyggð voru menn drepnir í vopnuðum átökum. Vesturbyggð var miklu norðar en Austurbyggð og afdrif íbúa Austurbyggðar eru enn ráðgáta. En þeir hurfu vissulega.

Norrænir menn numu eflaust land á austurströnd N-Ameríku, við höfum ritheimildir (að vísu skrifaðar nokkrum öldum seinna) og einnig fornleifar frá L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi. En tæknikunnátta evrópskra miðaldamanna var ekki nægjanleg til að stofna landbúnaðarnýlendu í tempraða beltinu, og reyndar má segja það sama langt fram á nútíma, sbr. hörmulegar tilraunir á ofanverðri 16. öld undir forystu Raleigh lávarðar (miklu sunnar, í Virgíníu-fylki) og nánast algjörlega misheppnaða tilraun til landnáms í Nýja-Englandi á 17. öld sem aðeins tókst með aðstoð "skrælingja", sbr. þakkargjörðardag Bandaríkjamanna.

Einstaklingar Clovis menningarinnar voru án efa forfeður núverandi frumbyggja Vesturálfu. Þeir þróuðu með sér veiði- og vopnatækni við hörfandi ísjaðar og hlýnandi veðurlag og eltu veiðidýr sín um landleiðina, sem þá var opin, frá Asíu til Ameríku. Þeir námu án efa undir sig álfurnar tvær og yfirgnæfðu fyrri kynslóðir manna, ef einhverjar voru.

Jared Diamond (og fleiri) hafa bent á að meðal-greind veiðimannaþjóða er mun hærri en meðal-greind landbúnaðarþjóða. Á miðöldum og fram á nútíma voru enn til sjálfstæðar og öflugar þjóðir veiðimanna sem voru eflaust miklu klárari en við bændalýðurinn. En leynivopn okkar, það sem bjargaði mannkyni frá útrýmingu hjá H.G. Wells, voru sýklarnir. Pestirnar koma frá búfénaði og við bændadurgarnir vorum ónæmir - en höfðingjar gresjunnar svo illilega særanlegir.

En það er gaman að velta fyrir sér útbreiðslu manntegunda. Cro-Magnon maðurinn er af tegundinni Homo Sapiens Sapiens, uþb 35000 ára gamall. Evrópskir afkomendur hans sýna erfðafræðileg tengsl við Neandertalmanninn, forvera Homo Sapiens Sapiens. Íbúar Ástral-asíu komu þangað fyrir um 50.000 árum, yfir opið úthaf, og einangruðust t.d. á Tasmaníu og á hálendi Nýju-Gíneu. Þjóðflokkar skyldir þeim finnast t.d. á einangruðum eyjum Indlandshafs.

Kákasískir þjóðflokkar, þ.e. forfeður Evrópubúa, virðast hafa dreifst um alla Evrasíu fyrir tugum þúsunda ára. Nýjasta tegund manna eru mongólar sem útrýma kákasumönnum í austanverðri Asíu (nema Ainuar nyrst á Hokkaido) og leggja undir sig báðar álfur Vesturheims. Mongólar eru greinilega þróaðasta grein manna, með mestu greind, minnstu líffræðilegu kyngreiningu og smæst kynfæri.

Og þó - samkvæmt þróunarkenningunni ætti þróunin að gerast hraðast þar sem kringumstæðurnar eru mest krefjandi - og hvar annars staðar en í Afríku getur það átt við? Einkum vegna þess að í Afríku hefur náttúran þróast á móti - samspil manns og náttúru hefur án efa leitt til þess besta sem mennskar erfir munu geta af sér, Homo Sapiens Sapiens Negros.

Brynjólfur Þorvarðsson, 27.3.2011 kl. 21:59

10 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég þakka margar ágætar ábendingar og leiðréttingar.  En ég vil halda mér við kjarna efnisins eftir bestu getu. Það er: er það mögulegt að menn hafi getað ferðast með ísröndinni frá Evrópu til Norður Ameríku á jökultíma?  Hugsum okkur að það hafi farið margar kynslóðir í slíka þjóðflutninga, og að flest efnin eru aðeins þau sem þeir fengu við veiðar sínar við ísröndina: bein, tennur, sinar og skinn.  Útlit eða lega ísrandarinnar skiftir ef til vill ekki mestu máli í þessu sambandi, heldur hæfileikar veiðimannsins til að sjá sínu fólki fyrir björg í bú.  Ef til vill er til nægileg þekking á lífstíl inuíta í dag til að dæma um það hvort þessi hugmynd nái nokkurri átt.

Haraldur Sigurðsson, 27.3.2011 kl. 22:25

11 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Haraldur, auðvitað er það ekki óhugsandi - en ólíklegt. Ísrönd á landi er allt annað en ísrönd á hafi og við höfum engin fordæmi um slíka þjóðflutninga. Inúítar þróuðu með sér veiðitækni sem gerði þeim kleift að lifa af veiðum við íshaf á vetrum en það var mjög seint, ekki fyrr en á miðöldum.

En gætu aðrir hafa þróað sömu tækni á undan þeim? Jú, sjálfsagt er það hugsanlegt. En þeir hefðu þá verið í Grænlandi þegar norrænir menn komu þangað. Skv. Ara þá fundu menn ummerki um fyrri byggðir á Grænlandi og fornleifafræðingar hafa einnig fundið ummerki um tvær eða þrjár bylgjur íbúa fyrir komu Norrænna manna. Wikipedia er með ágætis greinar um dreifingu ínúíta, sjá t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Inuit En málið er að þessar fyrri þjóðir höfðu ekki þá tæknikunnáttu sem til þurfti.

Það er fyrst og fremst hvalveiðitækni ínúíta sem gerir þeim kleift að leggja undir sig strendur N-Íshafs. En þeir hafa ekki tækni til að fyljga hafísrönd, þeir veiða af landi og hafa búsetu á landi. Jafnvel þótt fyrri þjóðflokkar hafi haft svipaða tækni þá dugar hún ekki til búsetu meðfram hafísrönd.

Lagnaðarís er afskaplega rýr þegar kemur að dýralífi. Fiskigegnd er lítil undir ísnum, selar fáir og hvalir enn færri. Bæði selir og hvalir þurfa aðgengi að andrúmslofti, selir halda öndunaropum opnum en eingöngu í mjög þunnum ís. Ísröndin er gríðarlega breytileg milli árstíða og lagnaðarísinn brotnar upp og flyst úr stað. Það er mjög erfitt að sjá hvernig hópar manna geta lifað meðfram ísrönd á opnu hafi, enda er ísröndin síbreytileg og sjaldnast föst rönd heldur miklu frekar kraðak af ísjökum og frosnum sjó.

Allt í allt tel ég mjög ólíklegt að hópar manna hafi getað lifað meðfram ísrönd á opnu hafi. Spurningin er einnig, hvers vegna? Hinir hörfandi jöklar ásamt hlýnandi veðurfari sköpuðu gósenland veiðimannsins á hinum gríðarlegu veiðilendum Síberíu, Kanada og Norður-Evrópu. Þróun veiðitækninnar, sem sést hjá Clovis og Solutran mönnum, er beint svar við þessum uppgripum. Til hvers að eltast við sjávardýr á hverfulli ísbreiðu þegar mammútar og bísonar voru út um allt, kjötfjöll í hvers manns garði?

Brynjólfur Þorvarðsson, 27.3.2011 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband