Færsluflokkur: Grænland
Eru afkomendur Thule fólksins í Ammassalik?
24.7.2017 | 05:46
Í síðasta bloggi fjallaði ég um hvernig heill þjóðflokkur af Thule fólki á norðaustur Grænlandi hvaf árið 1823. Breski skipstjórinn Clovering hitti tólf manna hóp þeirra á eyju þar sem skilyrði til veiða voru best. Næsta dag voru þeir allir horfnir. Héraðið var mannlaust á eftir, í nákvæmlega eitt hundrað ár, þar til Danir fluttu 85 manna hóp af Inuitum, nauðuga -- viljuga, 70 frá Ammasalik og 15 frá vestur Grænlandi, til Scoresbysunds og settu á laggirnar nýja þorpið Ittoqqortomiit.
Hvert fóru þeir, eða dó stofninn hreinlega út vegna sjúkdóma, við smit frá evrópskum hvalföngurum? Fundur á nokkraum dauðahúsum (rústir þar sem mannaleifar finnast innan húss, ógrafnar) bendir til mikilla sjúkdóma eða sults.
Suður mörk þessa svæðis Thule fólksins á norðaustur Grænlandi eru eins og jökulveggurinn í Game of Thrones: nær algjörlega ófær. Þetta er fjallgarður úr blágrýti eða gömlum basalt hraunlögum. Hann ber nafnið Geikie Plateau, og er þar hvergi lendingu að fá. Austur oddi á Geikie Plateau fjallgarðinum er Kap Brewster. Það beygir ströndin skarpt til suðurs, en samfellt hamrabelti kallað Blosseville ströndin, tekur við í mörg hundruð kílómetra til suðurs. Hvergi er lendingu aða skjól að fá á þeirri strönd. Thule fólk fór þá yfirleitt lítið eða ekkert sunnar en Scoresbysund. Fólksflutningar fóru fram á sjónum eða á hafís, ekki yfir fjöll og firnindi.
Það eru samt heimildir sem sýna að Thulefólk fór búferlum frá Scoresbysundi og alla leið til Ammassalik (Tasiilaq), 850 kílómetra langa leið, og á afkomendur þar í dag. Það var árið 1884 að kaptainn Gustav Holm kom til Ammassalik, fyrstur evrópumanna, en leiðangur hans fór á konubátum (umiaq) frá vestur Grænlandi og fyrir suður odda Grænlands og réru þeir síðan up með norðaustur ströndinni þar til þeir koma til Ammassalik. Þar uppgötvar Holm byggð Inuita sem höfðu verið algjörlega einangraðir frá Evrópumönnum um aldur og ævi. Þetta var og hafði lengi verið eina byggðin á allri austurströnd Grænlands þar til Ittooqortomit nýlendan var stofnuð í Scoresbysundi árið 1924. Það kom strax í ljós að íbúar Ammassalik voru sérstæðir. Þeir höfðu til dæmis ólíkan framburð Grænlenskunnar.
Trúboðar setja upp búðir í byggðinni árið 1894 og byrjuðu að kristna fólkið. Einnig kemur danska stjórnin upp verslunardtöð það ár. Það var árið 1905 sem danski mannfræðingurinn William Tahlbitzer kemur til Ammassalik og dvelur yfir eitt ár í þorpinu. Þá voru 470 íbúar á Ammassalik svæðinu og nær allir hétu þeir heiðnum nöfnum. Fólkið var enn á steinöldinni hvað snertir menningu og tækni. Verslunarmiðstöð danska ríksins og kirkjan urðu smátt og smátt miðpúnktar þjóðlífsins fyrir íbúana.
Tahlbitzer sýndi fram á að í Ammassaliq ríkir mállýska sem er mjög ólík þeirri sem ríkir á vestur strönd Grænlands. Tahlbitzer gerði mjög merkar athuganir á íbúum og skráði hina ýmsu þætti í menningu þeirra. En hann tók líka myndir. Hér með fylgir ein af myndum Tahlblitzers, sem er tekin af fjölskyldu í sumarbúðum á Kap Dan, á suður enda Kulusuk eyjar. Það er angakokinn eða galdramaðurinn Ajukutoq sem stendur hér fyrir miðju, ber að ofan, með konu sinni Söru til vinstri og hinni konu sinni Helenu og fimm börnum þeirra. Hárgreiðsla kvennana, með stóran topphnút og strengi af hvítum og lituðum glerperlum, er sérstök og einkennandi fyrir þetta svæði. Hnúturinn er mikið tískufyrirbæri, sem hækkar konurnar og gerir þær tignarlegri, eins og íslenski skautbúningurinn gerði. Myndin er algjörlega klassísk sem listræn ljósmynd, en hún gefur einnig innsýn í horfna menningu, sem heyrði steinöldinni til. Galdrakarlinn Mitsuarnianga sagði Tahlbitzer sögur af ferðum forfeðra sinna frá norðaustur Grænlandi og suður til Ammassalik, en langafi hans tók þátt í þeirri ferð, þegar hópar Inuita fóru frá Scoresbysund svæðinu og all leið suður til Ammassalik í lok átjandu aldar eða í byrjun nítjándu aldar. Sennilega sigldu þeir þessa leið á umiaq eða konubátum. Tunu er Grænlenskt orð sem þýðir hin hliðin, og vísar það til austur Grænlands, en íbúar austurstrandarinnar eru oft kallaðir Tunumiuts. Ég þakka Vilhjálmi Erni Vilhjálmssyni fyrir aðstoð með myndefni.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar síðasti maðurinn hvarf frá Scoresbysundi
20.7.2017 | 21:47
Hinn 18. ágúst árið 1823 hittust Evrópubúar og Thule fólk eða Inuitar í síðasta sinn á Norðaustur Grænlandi. Þessi fundur varð þegar skipstjórinn á HMS Griper, Charles Douglas Clavering að nafni, hitti tólf Inuita í sumarbúðum þeirra á suður hluta eyjarinnar, sem nú ber nafn skipstjórans: Claveringö. Clavering var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi í gegnum hafísinn og komst í land á norðaustur Grænlandi. Eftir þennan fund hafa margir Evrópumenn farið um þessar slóðir, en enginn hefur hitt fyrir neina Inuita eða Thule fólk hér síðan. Sá kynþáttur er því talinn útdauður á norðaustur Grænlandi. Hreindýrin hurfu frá norðaustur Grænlandi um aldamótin 1900.
Árið 1925 fluttu Danir hóp af Grænlendingum , 85 talsins, til Scoresbysunds, til að stofna nýlendu þar. Þetta var gert í þeim tilgangi að helga svæðið danska ríkinu, en Norðmenn gerðu einnig tilkall til norðaustur Grænlands á þessum tíma. Þessi nýlenda er nú þorpið Ittoqqortoormiit við Scoresbysund, með um 450 íbúa.
En hvaðan kom fólkið, sem var hér fyrir árið 1823? Og hvað varð um það? Nú er vitað að Thule fólkið kom upprunalega norðurleiðina, frá Thule á norðvestur Grænlandi, til norðaustur Grænlands. Sennilega hefur fólkið farið þessa ferð að mestu í umiaq bátum. Í byrjun fimmtándu aldar voru miklir mannflutningar á Grænlandi. Þá birtist Thule fólkið fyrst á norðaustur Grænlandi, umhverfis Scoresbysund. Sennilega var þetta landnám tengt loftslags- og umhverfisbreytingum. Rannsóknir á borkjörnum úr vatnaseti benda til þess að fyrir komu Thule fóksins til austur Grænlands hafi ríkt hlýrra loftslag og meiri snjór. En frá 13 öld og fram á nítjándu öldina hafi veðurfar verið kaldara, þurrara, en fremur sveiflukennt. Þegar landnámið gerist, á fimmtándu öldinni, var mikill hafís ríkjandi en minni snjókoma, einkum á því tímabili sem við nefnum Litlu Ísöldina frá fimmtándu öld og fram á nítjándu öldina. Á þessum tíma gerði samfelld hafísbreiða og tiltölulega lítil snjókoma Thule fólkinu kleift að ferðast um og nýta sér stórt svæði austur og norðaustur Grænlands með þeirri einstöku tækni sem þeir höfðu þróað: léttum sleðum, snjóhúsum, kayak og sela- og hvalaskutlum. Ef til vill var tækni og kunnátta þeirra við að skutla sel niður um ís mikilvægust, en til þess þurfti að þróa sérstaka skutla og annan sérútbúnað. Við gerum okkur yfir leitt ekki neina grein fyrir því, að fólkið sem forfeður okkar kölluðu skrælingja, hafði þróað mikla tækni sem gerði þeim kleift að lifa og komast sæmilega af á heimskautssvæðinu, miklu betur en forfeður okkar Eiríkur rauði og Grænlandsfararnir frá Breiðafirði, sem réðu ekkert við Litlu Ísöldina og dóu út í Eystribyggð og Vestribyggð á miðöldum.
Fornleifarannsoknir sýna að Thule fólkið hafðist við hluta ársins á annesjum norðaustur Grænlands, þar sem stutt var á miðinn til að taka sel undir ísnum eða í grend við polynyas eða stórar vakir, sem haldast opnar árið um kring og gefa kost á veiðum hvala. En greining á beinum Thule fólksins og leifum í byggðum þeirra sýna að hreindýr voru líka mikilvægur þáttur í matarræði þeirra og jafnvel mikilvægari en selur. Hreindýr þrífast í heimskautaumhvefi þar sem úrkoma (snjókoma) er í lágmarki. Bestu skilyrði fyrir hreindýr á norðaustur Grænlandi ríktu frá um 1600 til um 1850. Fornleifarannsóknir sýna að byggð Thule fólksins var eftir allri norðaustur ströndinni, eins og kortið sýnir. Það kemur í ljós út frá rannsóknum Mikkel Sørensen og Hans Christian Gulløv (2012) að fjöldi torfkofa er meðfram ströndinni og einnig í innfjörðum. Á þessu svæði lifði Thule fólkið í um 450 ár, um það bil átján kynslóðir. Í nokkrum hluta af torfkofunum finnast mannabein, eins og fjölskyldan hafi dáið inni, annað hvort af sulti eða sjukdómum. Slík hús eru nefnd dauðahús. Ef til vill er örnefnið Dödemandsbugten á Claveringö af þessum uppruna.
Upplýsingar um norðaustur Grænland koma fyrst frá hvalföngurum sem sigldu frá Evrópu. Breskir hvalfangarar komu fyrst í grennd við norðaustur Grænland árið 1608, á leið sinni til hvalveiða umhverfis Svalbarða. Árið 1612 voru Hollendingar á þessum slóðum og svo skömmu síðar Frakkar, Spánverjar og Danir á hvalveiðum. Hvalfangararnir sáu til lands á norðaustur Grænlandi, en ekki er vitað um lendingar þar. Árið 1822 gerði enski hvalfangarinn William Scoresby furðu nákvæmt kort af þessari strönd. En það er mjög líklegt að hvalfangarar hafi farið í land í norðaustur Grænlandi og haft samneyti við Thule fólkið. Sönnun þess eru einstaka munir úr málmum og gleri og brenndum leir, sem finnast við uppgröft í byggðum Thule fólksins. Fyrst Evrópumenn skiftust á gjöfum og gripum við innfædda, þá hafa þeir einnig skilið eftir smitnæma sjúkdóma. Sennilega hefur orðið mikil fólksfækkun meðal Thule fólksins af þeim sökum, en sú saga er algjörlega óþekkt. Skýrir það að hluta til þessa miklu fólksfækkun og hvarf Thule fólksins á svæðinu?
Árið 2014 sigldi ég um Scorebysund og kom í mynnið á firði, sem ber nafnið Rypefjörd eða Rjúpufjörður. Mér leist vel á svæðið og velti fyrir mér hvort Thule fólk hefði ef til vill haft aðsetur hér. Best leist mér á grasbala og móa við litla á nálægt mynni fjarðarins (sjá kort). Við fórum í land og, viti menn, þarna gengum við beint á rúst við árbakkann. Hér voru leifar af torfkofa, með hlaðna stein- og torf veggi, svipað því og þekktist á Íslandi fram á tuttugustu öldina. Myndin sýnir skissu af slíkum Thule kofa. Þar er pallur innst inni, sennilega til hvílu, lægra svæði sem hefur verið notað við eldamennsku og svo hlaðin, þröng göng, um tveir metrar á lengd, sem skriðið var út um. Göngin eru hlaðin með steinhellum, sem eru reistar á rönd.
Utan í vegg sá ég standa út úr jarðveginum eitt fallegt bein, sem hafði greinilega verið tálgað til og notað í smíði, sennilega sem rif í kajak. Smiðurinn hafði borað göt í beinið til að binda það við grind kajaksins. Ég stóðst ekki mátið og tók beinið til aldursgreiningar með geislakola- eða C14 aðferðinni. Aldursgreining á þesu rifbeini gefur aldur um 1660 AD eða um 1780 AD. Það er um tvo möguleika að ræða hvað snertir aldur, vegna þess að kúrvan fyrir C14 tekur lykkju á þessu tímabili, eins og myndin sýnir. Sennilega er yngri aldurinn líklegri, sem bendir til að hér hafi búið Thule fólk um fjörutíu árum áður en kynstofninn þurkaðist út.
Grænland | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Grænlandsjökull þar sem "mökkurinn" sást
20.7.2017 | 07:07
Þannig lítur yfirborð Grænlandsjökuls út á svæðinu þar sem furðulegur mökkur sást á yfirborði jökulsins í flugi í lok april og aftur hinn 11. júlí í ár. Þessi loftmynd er frá Google Earth af svæðinu. Staðsetningin á þessu svæði er lauslega 66.29° N og 38.85° W, um 80 km fyrir vestan Kulusuk. Takið eftir hvað jökullinn er mikið sprunginn á þessu svæði, en sprungur hafa flestar austur-vestur stefnu. Svarti bletturinn efst til hægri kann að vera stöðuvatn á yfirborði jökulsins. Þvermál myndarinnar er um 10 km.
Grænland | Breytt s.d. kl. 07:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gullið í Grænlandi
15.7.2017 | 03:28
Af hverju finnst gull á Grænlandi, en eiginlega ekkert í bergi á Íslandi? Það er aldur og jarðsaga sem ræður því. Grænland er meðal elstu landa jarðar, allt að 4 milljarðar ára gamalt. Gamalt berg hefur gengið í margt í gegnum jarðaldirnar, eins og gefur að skilja. Grænland hefur til dæmi verið staðsett fyrir sunnan miðbaug, en rak síðan norður. Grænland hefur líka verið grafið djúpt í jörðu, tugi kílómetra, sem hefur hitað og soðið jarðskorpuna og skilið að ýmsar efnasamstæður og frumefni á vissum svæðum. Þá ummyndast bergið og hnoðast, eins og þegar við bökum marmaraköku. Heitir vökvar, sem eru eins konar millistig milli hraunkviku og heita vatnsins okkar, bera með sér þessi efni úr dýpinu, en svo falla þau út og kristallast þegar vökvinn kemur upp í kaldara berg. Þá myndast málmæðar, sem eru grundvöllur fyrir námurekstri.
Það er ótrúleg fjölbreytni í málmum og verðmætum frumefnum í jarðskorpu Grænlands. Framtíðin mun skera úr um, hvernig Grænlendingar munu fara með þessi miku auðæfi í jörðu, en námuvinnsla þar mun hafa gífurleg og neikvæð áhrif á umhverfið, allt til Íslands. Til þessa hefur námugröftur gengið fremur illa, vegna þess að aðstæður allar eru erfiðar og innviði vantar (orka, hafnir, vinnuafl, samgöngur, veðurfar ofl.). Í dag eru fiskveiðar aðal atvinnugrein Grðnlendinga, með fisk um 90% af öllum útflutningi.
En þetta mun breytast með hnattrænni hlýnun jarðar. Auðæfi Grænlands er risastór og merkileg saga. Þar er gull, demantar, rúbínar, heilt fjall af járni, sjaldgæfu jarðefnin (rare earths) sem eru ómissandi í raftækni iðnaðinn og ef til vill olía. Til þessa hafa það verið aðallega námufélög frá Ástralíu og Kanada, sem grafa í Grænlandi, sem eyða um 500 milljón danksar krónur á ári þar.
Þrátt fyrir öll þessi auðæfi, þá er gull eiginlega eina efnið sem hefur verið unnið í námum Grænlands til þessa. Það er gullnáman Nalunaq á suður Grænlandi, sem Angel Mining félagið hefur grafið í síðan árið 2004 í fjallinu sem nefnist Kirkespiret eða kirkjuturninn (sjá mynd). Hún er staðsett um 100 km fyrir suðaustan Bröttuhlíð. Hér kemur gullið fyrir í æðum af kvartzi, sem eru allt að 1 meter á breidd. Í æðunum er magnið af gulli milli 18 g 21 grömm í hverju tonni af bergi. Um tíma komu um 11 til 15 kg af gulli út úr námunni í hverjum mánuði. Þetta er sem sagt hágæða náma, en þrátt fyrir það var námunni lokað í ágúst árið 2013 vegna falls á gulli á heimsmarkaðnum. Þá féll gull um 30%, frá $1872/oz. og niður fyrir $1300/ oz. Það borgaði sig ekki að halda áfram rekstri. Eins og línuritið sýnir, þá hefur gull frekar lækkað eða staðið í stað á heimsmarkaðnum síðan.
Nú berast fréttir þess efnis að íslenskt fyrirtæki, Alopex Gold, sé að hefja gröft eftir gulli í Nalunaq námunni. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur með námugröft og rekstur á þessu einangraða og erfiða svæði.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þykkt Grænlandsjökuls
13.7.2017 | 09:07
Mökkurinn sem sést úr flugi yfir Grænlandsjökli skammt fyrir vestan Kulusuk (sjá tvö fyrri blogg hér), er lauslega staðsettur á svæði, þar sem jökullinn er á milli 1.5 til 2 km á þykkt. Rauða stjarnan sýnir staðsetningu flugmanna á Twin Otter vél. Kortið er frá Scott Polar Institute. Bláa jafnþykktarlínan sýnir 500 m þykkt. Svörtu þykktarlínur jökulhettunnar eru á 500 metra bili. Rauða línan markar jaðar jökulsins. Mesta þykkt íshellunnar er um 4 km yfir miðju landsins.
Grænland | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Staðfesting á jarðhita undir Grænlandsjökli
12.7.2017 | 23:12
Ágúst Arnbjörnsson flugstjóri hjá Icelandair tók þessa ágætu mynd í gær yfir Grænlandi á leið frá Keflavík til Portland, í 34 þúsund feta hæð (10.4 km). Hún sýnir greinilega sama fyrirbærið og ég bloggaði um í gær í íshellu Grænlands, nokkru fyrir vestan Kulusuk. Það virðist vera sprunga í jöklinum og þrír gufumekkir rísa upp úr sprungunni, en mökkurinn berst með vindi í norðvestur átt. Því miður höfum við ekki enn nákvæma staðsetningu á þessu fyrirbæri, annað en að það sé í um 75 km fjarlægð frá Kulusuk. Það er athyglisvert að mökkurinn er greinilegur jafnvel úr meir en 10 km hæð. Ég þakka Sigþóri Gunnarssyni flugstjóra fyrir upplýsingarnar.
Grænland | Breytt s.d. kl. 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Er jarðhiti undir Grænlandsjökli?
11.7.2017 | 16:56
Vorið 2016 var óvenjulegt á Grænlandi vegna mikillar bráðnunar jökulsins. Í fyrri hluta apríl 2016 sýndu 12 prósent af yfirborði Grænlandsjökls meir en 1 mm bráðnun, samkvæmt dönsku veðurstofunni (DMI). Slíkt hefur aldrei gerst áður á þessum árstíma, en venjulega hefst bráðnun ekki fyrr en um miðjan maí.
En það er fleira óvenjulegt í gangi með Grænlandsjökul, sem ef til vill er ekki beint tengt hlýnun jarðar, heldur jarðhita. Jöklafræðingurinn Jesse Johnson frá Montana birti vísindagrein í Nature í fyrra þar sem hann sýnir fram á að nær helmingur af norður og mið hluta Grænlandsjökuls situr á púða af krapi, sem auðveldar skrið jökulsins (fyrsta mynd). í kraplaginu eru rásir sem veita vatni til sjávar, milli jökulsins og bergsins sem er undir. Hann byggir kenningu sína á því að hraði hljóð- og skjálftabylgna sýnir að það er útilokað að jökullinn sé botnfrosinn. Til að skýra þetta fyrirbæri telur Johnson útilokað annað en að það sé jarðhita að finna undir jöklinum. Rannsóknir hans og félaga ná yfir norður og mið hluta Grænlands, eins og fyrsta myndin sýnir. Þeir setja fram þá tilgátu að bráðnunin í botni og jarðhitinn þar undir séu enn leifar af íslenska heita reitnum, sem fór undir Grænlandsskorpuna, frá vestri til austurs, fyrir um 80 til 40 milljón árum.
En nú koma aðrar og óvæntar upplýsingar frá athugun flugmanna yfir suður hluta Grænlandsjökuls, sem Björn Erlingsson og Hafliði Jónsson hafa sett fram. Í vor flugu bandarískir flugmenn með Twin Otter vél yfir Grænlandsjökul, á stefnu eins og kortið sýnir (þriðja mynd). Skammt fyrir vestan Kulusuk (um 75 km) sáu þeir mökk rísa upp úr sprungu í jöklinum og héldu í fyrstu að hér hefði flugvél hrapað niður. Staðsetingin er merkt með plume á kortinu. Ekki er enn staðfest hvort mökkurinn eða gufubólstrarnir á myndinni séu vegna jarðhita, en allar líkur eru á því. Ef svo er, þá breytir það miklu varðandi hugmyndir og kenningar okkar um jarðskorpuna undir Grænlandi. Jarðhiti kemur fram á nokkrum stöðum meðfram ströndum Grænlands, einkum í grennd við mynni Scoresby sunds á austur Grænlandi.
Grænland | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hafsbotn Íshafsins
4.7.2017 | 16:15
Hafsbotninn rétt fyrir norðan okkur er merkilegt svæði, en góð landakort af honum hefur skort til þessa. Nú er búið að leysa úr því og ágætar upplýsingar eru fyrir hendi um hafsbotn Íshafsins, einnig undir ísþekjunni. Í framtíð munu siglingar færast í aukana á þessu svæði, þegar íshellan hopa enn frekar. Næst okkur og austast er Gakkel hryggurinn (Gakkel Ridge á kortinu), en hann er ungur úthafshryggur og því nátengdur Mið-Atlantshafshryggnum og gosbelti Íslands. Kolbeinseyjarhryggurinn tengir Gakkel við íslenska gosbeltið. Norðan við Gakkel og þvert yfir norðurpólinn liggur Lomonosov hryggurinn, eins og langur og mjór ormur sem tengir Grænland við Síberíu. Sennilega er Lomonosov hryggurinn þunn sneið af meginlandsskorpu, sem var skorin af meinlandsflekanum sem Svalbarð, Síbería og Rússland sitja á, þegar Gakkel hryggurinn varð fyrst virkur fyrir um 60 milljón árum. Handan við Lomonosov hrygginn er langur hryggur, sem heitir Alpha hryggur næst Grænlandi en síðan Mendeleev hryggur næst Síberíu. Þessi hryggur skiftir okkur Íslendinga miklu máli, því sennilega er hann slóðin, sem Íslenski heiti reiturinn hefur farið á leið sinni undan Síberíu, undir Ellesmere eyju, undir Baffin eyju og síðan undir þvert Grænland, frá vestri til austurs, þar til heiti reiturinn kom fram þar sem nú er Ísland.
Grænland | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar sífrerinn hopar
25.6.2017 | 17:06
Allir sem hafa til Grænlands komið dást að fjallendinu þar. Snarbrött fjöll rísa meðfram allri strandlengjunni, einkum þegar norðar dregur. Reyndar eru það ekki fjöllin, sem eru merkileg, heldur hinir djúpu dalir og þröngu firðir, með nær þverhníptum hlíðum. Þeir eru afleiðing skriðjökla, sem hafa grafið út dalina allt frá því að ísöld hófst fyrir rúmum þremur milljónum ára. Myndin hér til vinstri er til dæmis úr Öfjord í Scoresbysundi á norðaustur Grænlandi, þar sem fjöllin eru upp undir 2 km á hæð og þverhnípt.
Sífreri ríkir á Grænlandi, fyrir norðan um 68 gráðu breiddar. Sífreri er skýrður þannig: ef berg eða jarðmyndanir hafa hitastig undir frostmarki í meir en tvö ár, þá er þar sífreri. Hann getur innihaldið allt að 30% ís eða mjög lítinn ís, sem fer eftir lekt og holumunstri bergsins og jarðlaganna. Urð og skriður hafa einhvern tíma verið vatnssósa og í sífreranum frýs allt slíkt vatn og hjálpar til að binda jarðlögin. Skriður og urðir í sífrera geta því verið mjög brattar og jafnvel lóðréttar myndanir, á meðan hitastig er undir frostmarki. Sífrerinn gerir laus jarðefni að föstu bergi á meðan frostið ríkir. Svo fer allt af stað þegar bráðin kemur.
Það hlýnar á Grænlandi. Merki þess er til dæmis hvað jöklar minnka hratt. Myndin sýnir að Grænlandsjökull tapar mörg hundruð rúmkílómetrum á hverju ári og bráðnunin gerist hraðari með hverju árinu. Línuritið er í gígatonnum, en eitt gígatonn er einn milljarður tonna af ís. Þetta er að mestu leyti vegna hækkandi hitastigs, eins og önnur myndin sýnir. Það má því búast við aukinni tíðni berghlaupa á Grænlandi, þegar sífrerinn hopar fyrir hlýnandi loftslagi.
Það er magt annað sem hopandi sífreri hefur í för með sér. Umhverfis Ilulissat á vestur Grænlandi eru til dæmis merkar fornminjar frá þremur mikilvægustu fornmenningum Grænlandinga, sem eru kenndar við Saqqaq, Dorset og Thule. Nú eru þessar leifar enn varðveittar eins og í ísskáp, en þegar sífrerinn fer úr jörð á þessu svæði verða þessar menningaleifar bakteríum að bráð og hverfa að mestu.
Grænland | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orsök berghlaupsins a Grænlandi
25.6.2017 | 14:28
Nú er að skýrast málið varðandi berghlaup og flóðöldu á vestur strönd Grænlands. Jarðskjálftamælar sýna að jarðskjálftinn stóð yfir í um tvær mínútur og myndaði flóðbylgjuna. Orsök skjálftans er berghlaupið, sem kom úr mjög brattri fjallshlíð. Vandaðir þriggja-ása jarðskjálftamælar í um 30 til 500 km fjarlægð frá Nuugaatsiaq skráðu atburðinn. Efsta stöðin a linuritinu til vinstri er sennilega Upernavik og sú næstefsta Nuuk (klikkið a myndina til að stækka). Tímaásinn er láréttur, frá vinstri til hægri. Rauða lóðrétta línan sýnir hvenær atburðurinn hefst. Línuritið, sem er rautt (magenta) er lárétti skjálftaásinn, sem skráir hreyfingu frá austri til vesturs. Græna línuritið er lóðrétti ásinn og gula línuritið er norður-suður ásinn. Rétt eftir kl. 23:39 UTC (vestur Grænlandstími er -2 klst. frá UTC) sést stuttur 5 sek. púls eða truflun á rauða línuritinu (magenta). Þetta er yfirborðsbylgja (Love wave), sem er oft fyrsta bylgjan í jarðskjálfta. Kettir og hundar skynja hana en fólk oft ekki. Þar á eftir koma venjulegar jarðskjálftabylgjur.
Líklega markar fyrsta bylgjan um 23:39 UTC brotið á jarðlögum fjallsins og byrjun á berghlaupinu. Í kjölfarið kemur strax um 50 sek. skruðningur, þegar skriðan fer af stað og síðan um 50 sek. frekari og meiri skruðningur tengdur skriðufallinu (milli bláu lóðréttu línanna). Það er því ljóst að berhlaupið orsakaði sjálftvirknina. Þetta höfum við fra Anthony Lomax.
Við vitum því ekki beinlinis hvað hleypti berghlaupinu af stað. Ef til vill var það tengt loftslagsbreytingum, en þegar sífrerinn þiðnar í fjöllum Grænlands minnkar bindiefni í berglögum og skriður kunna að myndast.
Grænland | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)