Færsluflokkur: Grænland

Hamfarir a Grænlandi

EarthÞað er ótrúlega erfitt að fá tryggar heimildir fyrir því hvað gerðist á vestur Grænlandi, laugardagskvöld, hinn 17. júní, 2017. Við vitum að flóðbylgja skall á þorpið Nuugaatsiaq, og fjórir fórust af völdum hennar. Þorpið er á eyju í Uummannaq firði.

Í fjalli sem er um 21 km fyrir norðvestan þorpið varð jarðskjálfti að styrk 4.5 hinn 16. júní, kl. 10:48 á um 10 km dýpi. Kortið sem fylgir sýnir staðsetningu skjálftans og þorpsins fyrir sunnan. Þessi skjálfti verður því meir en einum sólarhring áður en flóðbylgjan rís í Nuugaatsiaq. Þá verður annar skjálfti hinn 17. júní kl. 20:39, sem er minni, eða 3.9 að styrk, en á 0 km dýpi. Hann kemur fram á IRIS kerfinu. Staðsetning seinni skjálftans er í fjallendi um 50 km austar, en stðseting kann að vera óviss.  

Arktisk Kommando hefur birt góðar myndir af fjallshlíðinni fyrir norðan Uummannaq fjörð, teknar hinn 20. júní, sem sýna að hlíðin er öll á hreyfingu og að berghlaup hafa farið af stað. Það er líklegt að fyrri skjálftinn hafi komið af stað hreyfingu í fjallshlíðinni, sem leiddi af sér berghlaup og síðan flóðbylgjuna.  Jarðlög i fjallinu virðast vera blagrytislög, sem eru algeng fra Tertier tima a miðri vestur strönd Grænlands.


Sóra sprungan í Petermann jökli

petermann-crack.jpgEinn stærsti jökull Grænlands er Petermann jökullinn, nálægt nyrsta odda Grænlands. Jökultungan er um 70 km löng og um 15 km breið, og flýtur á hafinu. Þykktin á ísnum er um 600 m syðst, en um 30 til 80 m þar sem hún flýtur á hafinu.   Árin 2010 og 2012 brotnaði jökullin og tvær risastórar íseyjar, samtals um 388 ferkm. ráku til hafs og bráðnuðu.   Nú er að opnast ný sprunga í Petermann, og ef hún opnast, þá losnar frá íseyja sem er um 180 ferkm. að flatarmáli. Sennilega myndast sprungurnar vegna þess að jökullinn er að bráðna neðan frá, vegna þess að heitari sjór streymir inn sundið. Sennilega brotnar eyjan frá í sumar, þegar hafið fyrir framan Petermann verður íslaust. En þegar Petermann brotnar á þennan hátt, þá er hætt við að aðaljökullinn skríði fram í meira mæli í náinni framtíð. Það getur haft hröð áhrif á sjávarmál um heim allan.


Nýjar rústir Norrænna manna í Ameríku?

point_rosee_settlement_site_map.jpgEins og öllum er kunnugt, þá fundust rústir norrænna manna á L’Anse aux Meadows á norður odda Nýfundnalands árið 1961. Nú virðist sem önnur norræn byggð sé hugsanlega að koma í ljós nærri suðvestur odda Nýfundnalands. Fyrsta myndin sýnir staðsetningar þeirra. Þessi umdeilda forna byggð fannst fyrst á Google Earth, í skaga sem vefnist Point Roose. Hér með fylgir mynd, sem ég hef tekið af Google Earth. Rauði hringurinn umlykur svæðið, sem er athyglisvert og til rannsóknaar. Þar má sjá á myndinni útlínur, sem kunna að vera gamlir torveggir eða garðar. Einnig hefur fundist eldstó, mýrarrauði og vísbendingar um járnvinnslu. En engar aldursgreiningar hafa verið gerðar, og engin örugg merki hafa komið í ljós enn sem benda öruggt á vist norrænna manna á þessum stað. point_rosee.jpg


Hlýtt haust

temp_1295775.jpgÞað er ekki aðeins á Íslandi sem að haustið hefur verið óvenju milt. Áhrifanna gætir um allar norðurslóðir. Í október var til dæmis hiti yfir norðurslóðum allt að átta stigum yfir (1980-2010) meðaltali, eins og fyrsta myndin sýnir. Mikið af þessari hlýnun stafar af stórum svæðum sem eru opið haf, með óvenju hlýjan sjó, sem er fjórum stigum heitari en í venjulegu ári. Á þessum svæðum er hitinn yfir frostmarki, en þar ætti nú að ríkja um 25 stiga frost í venjulegu ári. Ein afleiðingin er sú, að hafís er langt undir meðallagi, eins og önnur myndin sýnir. Nú í haust er hafísþekjan á norðurslóðum jafnvel minni en hún var árið 2012, sem setti nýtt met. Við erum nú orðin vitni af stökkbreytingu í hnattrænni hlýnun. ice.jpg


Beerenberg og hvalfangarar

whaling.jpgVinur minn hér í Newport rekur gallerí með gömlum listaverkum víðsvegar að úr heiminum. Þar á meðal var þetta málverk eftir Hollendinginn Bonaventura Peeters (1614-1652). Það eru hvalveiðimenn að verki undan ströndum Jan Mayen, en Beerenberg eldfjall gýs ákaft uppi á landi. Myndin er frá um 1640. Hann seldi myndina nýlega til Hvalasafnsins í New Bedford í Massacussets.  Verkið minnir okkur á, að Hollendingar sigldu reglulega á norðurslóðir til hvalveiða og versluðu einnig töluvert við Grænlendinga, löngu áður en Hans Egede sigldi til Grænlands árið 1721. Það er því ekki útilokað að Hollendingar hafi rekist á síðustu Íslendingana á Grænlandi, áður en þeir dóu út í kringum árið 1450. En Hollendingar voru á norðurslóðum aðallega til að veiða norðurhvalinn. Hann er sléttbakur eða grænlandssléttbakur, sem heldur sig við ísröndina og var hér í miklu magni á sautjándu öldinni. Sléttbakurinn er mjög hægfara og því auðvelt að skutla hann. Um 200 Hollendingar voru í vinnu hér í hvalstöðinni á Jan Mayen á sautjándu öldinni. Veiðar Hollendinga lögðust af um 1640, en þá var þessi hvaltegund nær útdauð í norðurhöfum. Hollendingar reistu einnig hvalstöðvar á þessum tíma á Íslandi á Ströndum, á Kóngsey, Strákatanga og Strákey. Nafnið Jan Mayen er hollenskt og var gefið eynni árið 1620, eftir hollenskum skipstjóra. Nafnið Beerenberg er einnig hollenskt, og þýðir björnsfjall, eftir hvítabirninum. Það er virkt eldfjall staðsett á Mið-Atlantshafshryggnum, sem gaus síðast árið 1985.


Hver hreinsar skítinn í Camp Century?

iceworm.jpgNú þegar Grænlandsjökull bráðnar, þá er hætta á að geislavirk efni, skolp, saur og úrgangur frá heilli borg inni í jöklinum berist út í Atlantshafið. Það getur haft áhrif á sjóinn og lífríkið, alla leið til Íslandsmiða. Árið 1959 reistu Ameríkanar herstöðina Camp Century í norðvestur Grænlandi. Reyndar var herstöðin ekki reist, heldur grafin niður í jökulinn. Hún er staðsett uppi á meginjöklinum, skammt fyrir austan herstöðina Thule. Með mikilli leynd komu Ameríkanar fyrir langdrægum eldflaugum í ísnum undir Camp Century, vopnuðum kjarnorkusprengjum. Sovíetríkin voru auðvitað skotmarkið, ef alvöru stríð brytist út í kalda stríðinu. Samtímis voru langdrægar sprengjuflugvélar með kjarnorkusprengjur staðsettar í flugherstöðinni Thule.

Ameríkanar grófu mörg löng göng í gegnum jökulin, í um 2000 m hæð yfir sjó. Þar komu þeir fyrir Camp Century herstöðinni í þágu verkefnis, sem mikil leynd hvíldi yfir: Project Iceworm. Hvorki Danir né Grænlendingar vissu neitt um markmið Project Iceworm, og sannleikurinn um kjarnvopnaðar eldflaugar kom ekki fram að fullu fyrr en árið 1995, þegar Danska þingið rannsakaði málið.

Kjarnaofn framleiddi tvö megawött af raforku fyrir borgina umdir ísnum. Stöðin var rekin frá 1959 til 1966, en var þá yfirgefin vegna þess að jökullinn var á hreyfingu. Kjarnaofninn var fjarlægður þegar stöðinni var lokað, en geislavirk úrgangsefni, rusl, skólp og skítur eru enn undir ísnum, seð óðast þynnist. Þar á meðal eru um 200 þúsund lítrar af dísel olíu.

Loftslagsfræðingar telja að allur sóðaskapurinn muni koma upp á yfirborðið vegna bráðnunar jökulsins og hnattrænnar hlýnunar, og reikna með að það gerist ekki seinna en árið 2090. Hverjir sjá um hreinsunina? Ameríkanar, Danir, Grænlendingar? Hér þarf ríkisstjórn Íslands að skifta sér af mengunarmálinu fyrir alvöru, því geislavirku úrgangsefnin geta auðveldlega háft áhrif á og umhverfis Ísland.

 

 


Elstu lífverurnar

strom.jpgHvenær byrjaði líf á jörðu?  Við vitum að jörðin varð til fyrir um 4,54 milljörðum ára. En elsta efni eða steinar sem hafa fundist á jörðu eru kristallar af zirkon í Ástralíu, sem eru um 4,4 milljarðar ára gamlir.   En hvenær kviknaði líf, eða hvenær barst líf til jarðar utan úr geimnum? Nú virðist sem elstu steingervingarnir séu fundnir í elsta bergi jarðar á Grænlandi, og þeir reynast vera um 3,7 milljarðar ára gamlir. Ef til vill munu enn eldri leifar af lífverum finnast síðar, en þessi merki fundur sýnir okkur að líf varð til á jörðu ótrúlega snemma í sögu plánetunnar, eða minna en 840 milljón árum eftir að hún varð til. Það er snemma, af því að í fyrstu var jörð algjörlega óbyggileg, glóandi heitur eldhnöttur. Hún þurfti því að kólna töluvert áður en líf sem er myndað úr kolvetnissamböndum gat þróast. Einnig var jörðin fyrir sífeldri árás loftsteina á þessum tíma, sem gerði öllu lífi erfitt uppdráttar.   Fyrri myndin sýnir elstu steingervingana á Grænlandi.    stromatolite_block_copy.jpg Fundarstaðurinn á Grænlandi er í Isua mynduninni, sem myndar jarðskorpuna á vestur hluta landsins, skammt fyrir norðaustan höfuðborgina Nuuk. Steingervingarnir eru stromatolites eða strýtuþörungar, sem eru myndaðir af fremur frumstæðum blágerlum eða cyanobacteria. Að sumu leyti minna þeir mig mest á skófir á steinum.   Stromatolites eða strýtuþörungar eru ekki enn alveg útdauðir á jörðu. Ég hef fundið þá á lífi í dag á tveimur stöðum. Annar staðurinn er í öskjunni á eynni Santorini í Eyjahafi, eins og myndin sýnir. Hinn staðurinn er í gígnum Satonda í Indónesíu, en báðir þessir gígar eru fylltir sjó.


Framtíð hafíssins

hafis_1290654.jpg

 

Viðbrögð mannkyns við loftslagsbreytingum eða hnattrænni hlýnun eru nú allt of máttlítil til að stemma stigu við bráðnun hafíss og jökla.  Það er vaxandi magn af CO2 í andrúmslofti, sem keyrir áfram hnattræna hlýnun, en nú er CO2 í andrúmslofti komið yfir 400 ppm. Almennt er talið að hættuástand muni ríkja á jörðu ef meðalhiti á yfirborði jarðar hækkar um 1.5 til 2oC miðað við árið 1990. Líkön sýna að það verður um 2°C hlýnun fyrir viðbót af hverjum 1000 GtC (gígatonn af kolefni) í andrúmsloftinu (gígatonn er einn miljarður tonna).

Í dag inniheldur andrúmsloft jarðar um 775 GtC, eða 775 milljarða tonna af kolefni. Síðan iðnbyltingin hófst um árið 1751, hafa alls um 356 gígatonn af kolefni bættst við í andrúmsloftið vegna notkunar á eldsneyti og vegna framleiðslu á sementi (um 5%).  En helmingur af allri útlosun af CO2 hefur orðið síðan árið 1980.

Fundur Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmál í París árið 2015 setti sér það markmið að halda meðalhita jarðar innan 2oC miðað við hita fyrir iðnbyltinguna, og þar með að skuldbinda sig um að halda útlosun af CO2 innan við 1000 GtC mörkin. Til að ná þessu settu marki þarf að draga úr útlosun á CO2 strax, og hætta algjörlega allri CO2 útlosun árið 2050. Þetta er mjög erfitt markmið og sennilega ekki kleyft í núverandi þjóðfélagi á jörðu.

Þróun útlosunar á CO2 í heiminum hefur bein áhrif á hafísþekjuna á norðurslóðum og framfarir á þessu svæði. Hingað til hefur svæðið umhverfis Norðurheimsskautið reynst erfitt fyrir landnema, iðnað, landbúnað og alla þá þróun, sem við vestrænir menn köllum einu nafni framfarir. Loftslag, kuldi og hafís hafa valdið því að þróun er mjög hægfara á þessu svæði til þessa. En nú þer þetta ástand allt að breytast vegna hnattrænnar hlýnunar og mun það hafa mikil áhrif á allt Norðurheimskautssvæðið, einnig í grennd við Ísland á komandi árum og öldum.   Nú hlýnar um helmingi hraðar á Norðurskautssvæðinu en á maðaltali á jörðu. Allt bendir til að Íshafið verði að mestu laust við allan hafís allt sumar og meiri hluta ársins innan fárra ára.

Það eru margar spár eða líkön vísindanna um framtíð hafíssins á Norðurslóðum næstu áratugina, eins og sýnt er á myndinni. Allar sýna þær mikla minkun og jafnvel að hafís hverfi að mestu í kringum árið 2050. Svarta línan sýnir raunverulegan samdrátt hafíssins, og það er eftirtektarvert, eins og oft áður með spár um hlýnun, að svartsýnasta spáin er næst raunveruleikanum. Samkvæmt henni verður svæðið nær íslaust á sumrin í kringum 2040.

Þá opnast frekar þrjár siglingarleiðir milli Kyrrahafa og Atlantshafs yfir pólinn. Norðvestur leiðin er þekktust þeirra en erfið og fremur grunn (minnst 11 metra dypi). Norðaustur leiðin undan strönd Síberíu er einnig fremur grunn. Talið er að hún verði opin um 6 vikur á hverju sumri eftir árið 2025. Loks er það leiðin yfir pólinn, sem er stytst og yfir djuphaf að fara. Hún verður opin amk. 2 vikur á ári eftir 2025.


Hafísinn hverfur í norðri

 2016.jpg

 

Árið 1970 var flatarmál hafíss á og umhverfis norður heimskautið á þessum tíma árs um 8 milljón ferkílómetrar. Nú í sumar er það aðeins um 3.4 milljón ferkílómetrar og fer hratt minnkandi. Síðustu 30 árin hefur hafísinn einnig þynnst sem nemur um 40%. Við erum nú vitni af því að hafísinn er næstum allur að hverfa á einni mannsævi.  Línuritið sem fylgir hér með sýnir sveifluna á útbreiðslu hafíss á norðurhveli yfir árið og einnig undanfarin ár. Bráðnunin nær hámarki í september ár hvert og þá er flatarmálið í lágmarki, um eða undir 4 milljón ferkm. Ísinn nær mestri útbreiðslu í mars hvert ár.

Meðaltalstölur fyrir öll árin frá 1981 til 2010 eru sýndar með svörtu þykku línunni á myndinni og gráa beltið umhverfis það er frávik eða skekkjan fyrir þessi ár. Seinni ár sýna mun minni hafís, einkum árið 2012, sem er frægt sem árið þegar hafísinn næstum hvarf. Það ár er sýnt með svörtu brotalínunni. Árið 2016 er sýnt með rauðu línunni og það er greinilega mjög svipað og árið 2012.

            Minnkandi hafís hefur margt í för með sér. Í fyrsta lagi drekkur þá dökkur sjórinn mikinn hita í sig, sem venjulega endurkastast út í geim frá hvítum ísnum. Þar með vex hnattræn hýnun í keðjuvirkun. Í öðru lagi dregur úr myndun á vissri tegund af sjó á norðurhveli. Það er sjór, sem myndast þegar hafís frýs. Sá sjór er saltur og þungur og sekkur til botns, rennur eftir botninum í gegnum sundið milli Grænlands og Íslands og langt suður í Atlantshaf. Þessi straumur er reyndar mótorinn í færibandi heimshafanna. Svörun við þessum straum er Golfstraumurinn. Nú telja sumir vísindamenn að Golfstraumurinn sé að hægja á sér af þessum sökum. Ef svo fer, þá getur hnattræn hlýnun leitt af sér staðbundna kólnun í framtíðinni á vissum svæðum á norðurhveli, eins og hér á Fróni.


Er Grænlandshákarl elsta lifandi hryggdýr jarðar?

ha_769_karl.jpg
 

Ég var í hákarlasafninu í Bjarnarhöfn í dag með hóp frá Bandaríkjunum. Þeir gæddu sér á hákarl. Þegar ég kom heim, þá las ég grein þess efnis, að hákarlinn umhverfis Ísland og Grænland er sennilega langlífasta hryggdýr jarðar. Samkvæmt nýjustu rannsóknum getur hann náð um 400 aldri. Hann er samt ekki langlífasta dýrið. Það er kúfskel, sem fanst á hafsbotninum undan Norðurlandi fyrir nokkrum árum, en hún reyndist vera 517 ára gömul, þegar vísindamenn drápu hana með því að skera hana í tvennt. Aldursgreining á hákarlinum er gerð með því að mæla geislavirk efni (geislakol) í augasteininum. Miðja augasteinsins er elst, og svo hlaðast utan á hann yngri og yngri lög. Sá elsti, sem er hákarl yfir 5 metrar á lengd, reyndist vera um 392 ára gamall, samkvæmt rannsókn Julius Nielsen og fleiri danskra líffræðinga. Ef þið eruð að smjatta á hákarlsbita og skola honum niður með Svarta Dauða á næsta Þorrablóti, þá eru töluverðar líkur á að þið séuð með nokkur hundruð ára gamlan fiskbita í kjaftinum.

 Er það  tilviljun, að hákarlinn og kúfskelin, sem bæði lifa í mjög köldum sjó, séu langlífustu dýrin á jörðu? Sennilega er það engin tilviljun, heldur tengt kuldanum sem þau lifa við.  Kuldinn hægir á allri líkamsstarfsemi og gefur þeim lengra líf.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband