Er jarðhiti undir Grænlandsjökli?

Vorið 2016 var óvenjulegt á Grænlandi vegna mikillar bráðnunar jökulsins. Í fyrri hluta apríl 2016 sýndu 12 prósent af yfirborði Grænlandsjökls meir en 1 mm bráðnun, samkvæmt dönsku veðurstofunni (DMI). Slíkt hefur aldrei gerst áður á þessum árstíma, en venjulega hefst bráðnun ekki fyrr en um miðjan maí.ngeo2689-f1

En það er fleira óvenjulegt í gangi með Grænlandsjökul, sem ef til vill er ekki beint tengt hlýnun jarðar, heldur jarðhita. Jöklafræðingurinn Jesse Johnson frá Montana birti vísindagrein í Nature í fyrra þar sem hann sýnir fram á að nær helmingur af norður og mið hluta Grænlandsjökuls situr á púða af krapi, sem auðveldar skrið jökulsins (fyrsta mynd). í kraplaginu eru rásir sem veita vatni til sjávar, milli jökulsins og bergsins sem er undir. Hann byggir kenningu sína á því að hraði hljóð- og skjálftabylgna sýnir að það er útilokað að jökullinn sé botnfrosinn. Til að skýra þetta fyrirbæri telur Johnson útilokað annað en að það sé jarðhita að finna undir jöklinum. Rannsóknir hans og félaga ná yfir norður og mið hluta Grænlands, eins og fyrsta myndin sýnir. Þeir setja fram þá tilgátu að bráðnunin í botni og jarðhitinn þar undir séu enn leifar af íslenska heita reitnum, sem fór undir Grænlandsskorpuna, frá vestri til austurs, fyrir um 80 til 40 milljón árum.IMG_2889

En nú koma aðrar og óvæntar upplýsingar frá athugun flugmanna yfir suður hluta Grænlandsjökuls, sem Björn Erlingsson og Hafliði Jónsson hafa sett fram. Í vor flugu bandarískir flugmenn með Twin Otter vél yfir Grænlandsjökul, á stefnu eins og kortið sýnir (þriðja mynd). Skammt fyrir vestan Kulusuk (um 75 km) sáu þeir mökk rísa upp úr sprungu í jöklinum og héldu í fyrstu að hér hefði flugvél hrapað niður. Staðsetingin er merkt með “plume” á kortinu. Ekki er enn staðfest hvort mökkurinn eða gufubólstrarnir á myndinni séu vegna jarðhita, en allar líkur eru á því. Ef svo er, þá breytir það miklu varðandi hugmyndir og kenningar okkar um jarðskorpuna undir Grænlandi. Jarðhiti kemur fram á nokkrum stöðum meðfram ströndum Grænlands, einkum í grennd við mynni Scoresby sunds á austur Grænlandi.Plumes - location


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bestu þakkir fyrir greinina Haraldur. Já, það er svo sannarlega jarðhiti undir Grænlandsjökli. Sprungubeltið nær norður fyrir Grænland.

Meint bráðnun Grænlandsjökuls stafar a.m.k. ekki af svokallaðri hnatthlýnun af mannavöldum. Hitinn kemur að neðan, ekki að ofan - eins og á vesturhluta Suðurheimskautsins.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.7.2017 kl. 23:03

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Sæll Haraldur.
Það er kannski áhugavert að velta fyrir sé hver áhrif sig jarðskorpunnar undan jökulfarginu hefur. Er það á við nokkur hundundruð metra djúpa borholu? Heldur varmaflæði í berginu í við kælingu af jöklinum? Velti þessu upp sem valkosti á móti því að heitum reitum fjölgi með skiptingu!

Kveðja,

Ómar Bjarki

Ómar Bjarki Smárason, 12.7.2017 kl. 01:52

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Gæti þetta ferli ekki hafa átt sér stað áður? T.d. þegar mikil hafístímabil voru við Íslandsstrendur. Þá kelfdi jökullinn meira en venjulega.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 12.7.2017 kl. 11:47

4 identicon

Sæll Haraldur

Þessar myndir eru athyglisverðar.  En þetta fyrirbæri líkist ekki merkjum um jarðhita sem við sjáum á jöklum hér á landi.  Ef jarðhiti er við botn jökuls sem hefur einhverja þykkt (yfir hundrað metra) myndast yfirleitt dæld í yfirborðið, þ.e.a.s. ef vatn nær að renna jafnóðum burtu með botninum.  Ef ekki, safnast vatnið fyrir og hleypur síðan svo að sigketill myndast.  Ef gufa risi upp jökulsprungu má búast við að hún kólnaði hratt og þéttist samhliða því sem sprungan víkkar vegna bræðslunnar.  Ef vatn nær að standa uppi í slíkri sprungu myndi gufan þéttast í vatninu og ekki ná upp til yfirborðs.  Ég get að sjálfsögðu ekkert fullyrt um þetta fyrirbæri.  Getur þetta verið eitthvert annað gas?  Og áður en lengra er haldið með vangaveltur um gufu þarf að ganga úr skugga um að þetta séu ekki skafskaflar sem stundum myndast við ójöfnur á jökli.  Þeir líta oft út svipað þessu.

Magnús Tumi

Magnús Tumi (IP-tala skráð) 13.7.2017 kl. 00:39

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Magnús: Það þarf anzi stóran skafskafl, til að sjást út meir en 10 km hæð. Ég tel það ólíklegt. Málið er allt dularfullt og aðeins getgátur eru frammi þar til náin athugun fer fram.

Haraldur Sigurðsson, 13.7.2017 kl. 07:05

6 identicon

Sæll Haraldur, 

Getur verið að þetta eigi að vera 175 km frá Kulusukk en ekki 75 km? 

75 km vestur af Kulusuk nær ekki að 39°V og er ekki nálægt þessum punkti sem er sýndur á myndinni.

Björn Sævar

Björn Sævar Einarsson (IP-tala skráð) 17.7.2017 kl. 23:32

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Björn: Ég hef því miður ekki betri staðsetningu en þetta. Málið er í athugun.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 17.7.2017 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband