Þegar Færeyjar voru við Grænland

FæreyjarNorður Atlantshafið er hlutfallslega ungt á jarðsögulegum tíma.  Fyrir um 55 milljón árum var Grænland hluti af meginlandi Evrópu og þá samfellt land með Skandinavíu og með því landsvæði sem nú eru Bretlandseyjar.  Fyrsta myndin sýnir legu landanna á þeim tíma.  Fyrr hafði landrek eða flekahreyfingar rifið sundur meginlandsskorpuna fyrir vestan Grænland og skilið Baffinseyju frá Grænlandi, en úr því varð nú ekki mikið haf heldur aðeins Davis Sund.  Af einhverjum örsökum hætti gliðnun í Davis Sundi og myndaðist þá mikil sprunga í jarðskorpunni, sem skildi Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Það var upphaf Norður Atlantshafsins.  Gliðnunin var samfara mikilli eldvirkni eftir flekamótunum öllum.  Eldvirknin myndaði úthafshrygg á hafsbotni þar sem flekarnir skildust að, en einnig gubbaðist mikið magn af basalt kviku upp á jaðra meginlandanna unhverfis.  Þá varð til blágrýtismyndunin sem er útbreidd á austur strönd Grænlands og einnig á Bretlandseyjum. Á sama tíma hlóðst upp blágrýtismyndunin sem hefur skapað Færeyjar. Önnur mynd sýnir staðsetningu Færeyja á þessum tíma, fyrir um 55 milljón árum, skammt undan austur strönd Grænlands.  Grænland-FæreyjarÞar eru blágrýtismyndanir sýndar með rauðum lit. Eins og myndin sýnir voru Færeyjar þá aðeins um 150 km undan strönd Grænlands.  Nú hefur einnig verið sýnt framá með efnafræði greiningu basalt myndananna að hægt er að rekja sömu myndanirnar milli Færeyja og Grænlands.  Ísland var auðvitað ekki til á þessum tíma, en myndaðist svo miklu síðar (sennilega hefur það byrjað að koma uppúr sjó fyrir um 20 milljón árum) á hafsvæðinu, sem var og er síbreikkandi milli Færeyja og Grænlands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Haraldur og þakka þér kærlega fyrir fróðlega pistla! Áttu nokkuð skýringarmyndirnar í betri upplausn?

Þú segir að Ísland hafi sennilega byrjað að koma upp úr sjó fyrir um 20 milljón árum, en er ekki allt eins sennilegt að það hafi alltaf verið þurrlendi yfir heita reitnum, og að í fyrstu hafi jafnvel verið landbrú milli meginlandanna?

Ef ég man rétt er úthafshryggur sem tengir Ísland við Grænland og Færeyjar. Er það ekki einmitt vísbending um að eldvirkni hafi verið hér mikil alveg frá upphafi, og þessi hryggur sé leifar fyrra þurrlendis?

Brynjólfur Þorvarðsson, 9.7.2014 kl. 13:22

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Betri útgáfu af myndum má sjá í dálknum hér til hægri, sem nefnist Nýjustu Myndir. Það er ekki vitað hvort landbrú var nokkurntíma til. Ef svo var, þá kynnu hafa varðveist einhver spendýr frá Norður Ameríku eða alla vega steingerfingar þeirra á Íslandi.  Hryggirnir milli Íslands og Færeyja og einnig milli Íslands og Grænlands eru á miklu dýpi, sem bendir til að eldvirkni hafi verið minni um tíma, áður en landgrunn Íslands hlóðst upp.  Ég held að landið okkar hafi alla tíð verið einangruð eyja.

Haraldur Sigurðsson, 9.7.2014 kl. 14:54

3 identicon

Það eru ekki bara spendýr sem gætu hafa einangrast á Íslandi, aðrar lífverur gætu einnig hafa lifað þar af eða varðveist sem steingervingar. Erfðafræðilegar athuganir  á grunnvatnsmarflóm á Íslandi, sem ég vann að ásamt nemenda mínum Etienne Kornobis, benda til þess að þær að þæri hafi lifað í landbrú og hafi varðveist í grunnvatni  Íslands þegar landbrúin rofnaði.

Snæbjörn Pálsson (IP-tala skráð) 9.7.2014 kl. 22:05

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Varðandi spendýr á forn Íslandi, hvað með þessi 3 miljóna ára gömlu bein sem fundust í Vopnafirði og talin hafa verið af hjartardýri? Ef það er rétt hefur það varla verið eitt á ferð og einhvers staðar að hefur það komið. Eða er kannski búið að afskrifa þesssi bein.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.7.2014 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband