Snorri goði: fyrsti Jarðfræðingurinn?

Þingvellir eftir CollingwoodÞegar ég ólst upp í Stykkishólmi var alltaf litið á Helgafell sem einstaklega merkan stað. Ekki mun það hafa verið vegna kristni, enda var fellið gert helgt á níundu öld af heiðingjanum Þórólfi Mostraskegg, heldur var virðingin tengd þeim persónum Íslandssögunnar er bjuggu á Helgafelli áður fyrr, einkum þeim Guðrúnu Ósvífursdóttur og Snorra goða Þorgrímssyni. Ég hef alltaf haldið að Snorri goði (963-1031) hafi verið frekar lítill og sköllóttur karl, en hann var sennilega einn færasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar - og virðist einnig hafa haft töluverða þekkingu hvað snertir jarðfræði. Hann Snorri barst aldrei mikið á. Þegar ráðist var til utanfarar í verzlunarferð á 14 ára aldri var útbúnaður hans þannig: “En Snorri var í svartri kápu og reið svörtu merhrossi góðu. Hann hafði fornan trogsöðul og vopn lítt til fegurðar búin.” Síðar er honum þannig lýst í Eyrbyggju: “Snorri var meðalmaður á hæð og heldur grannlegur, fríður sýnum, réttleitur og ljóslitaður, bleikhár og rauðskeggjaður. Hann var hógvær hversdaglega.” Ég vil minnast hér á þátt Snorra goða í kristnitöku á alþingi. Kristnitakan á Íslandi árið 1000 er einn merkasti atburður í sögu landsins, ekki vegna þess að atburðurinn hafði áhrif á trúarfarið, heldur vegna þess að hann gefur óvenjulega innsýn í stjórnmál á þeim tíma og einnig þekkingu á jarðfræði. Þetta atvik á Lögbergi er eitt af örfáum tilvikum þar sem fjallað er um náttúrulegt umhverfi í Íslendingasögum. Hér var minnst á jarðeld, ekki vegna þess að stórkostlegar náttúruhamfarir voru í gangi, heldur eingöngu vegna þess að hann hafði stjórnmálalega þýðingu. Sagan er alþekkt, en helstu þætti eru sem hér segir: Erindrekar Noregskonungs, Gissur og Hjalti, gengu til Lögbergs á Þingvöllum og boðuðu kristna trú. Þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu varð uppi fótur og fit. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli og leit út fyrir að Ísland yrði tvö ríki. Þorgeir Ljósvetningagoði og lögsögumaður var fenginn til að fella úrskurð í þessu máli. Sannfæringakraftur Þorgeirs Ljósvetningagoða réði úrslitum. Á meðan á þessu stóð kom maður hlaupandi og sagði að jarðeldur væri byrjaður í Ölfusi og að hann stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn sögðu “Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum” Snorri goði að Helgafelli mælti þá. “Um hvað reiddust goðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á.” Þar með flutti Snorri goði íslenska menningu út úr forneskju og hjátrú, inn í meira raunsæi, þar sem hamfarir eins og eldgos eru náttúruviðburður, og ekki stjórnað af reiðum guðum. Merkilegast við þennan atburð er vísbendingin um að Snorri goði gat greint bergtegund, eins og basalt bergið á Þingvöllum, og áttað sig á því að það var hraun að uppruna. Ég sé hann í anda, standa í Lögbergi og stappa niður fætinun ofan á hraunið, orðum sínum til áherzlu. Hraunið sem Snorri goði stóð á er Þingvallahraun, runnið fyrir um níu þúsund árum. En hann áttaði sig á því að þetta gamla grá berg var myndað í eldgosi. Þetta er mjög mikilvægt atriði, því almennt voru fræðimenn úti í hinum stóra heimi ekki búnir að átta sig á þvi að gamalt basalt væri hraun að uppruna fyrr en á nítjándu öldinni. Kristnitökuhraun  Sigmundur EinarssonVar Snorri goði fyrsti jarðfræðingurinn? Svínahraunsbruni norður af Þrengslum á Hellisheiði mun vera eldgosið og hraunið sem kom við sögu á Lögbergi. Með geislakolamælingum hefur verið staðfest að Svínahraunið rann um 1000. Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Jarðfræðikortið eftir þá Sigmund Einarsson og Kristján Sæmundsson, sem fylgir hér með, sýnir eldrauðu svæðin, en það eru hraun runnin um þetta leyti. Elsta lýsing af kristnitökunni á alþingi mun vera í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, frá um 1130. Ari nam og marga fræði að Þuríði dóttur Snorra goða, enda einn af afkomendum hans. Það er því merkilegt að Ari fróði minnist ekkert á þátt Snorra goða. Hins vegar kemur umfjöllun um Snorra goða og jarðeldinn fram í Kristni sögu, en sumir telja að Sturla Þórðarson (1214–1284) hafi ritað hana. Ég læt fylgja hér með vatnslitamynd af Þingbrekku á Þingvöllum, eftir enska listamanninn W.G. Collingwood (1897). Var Lögberg þannig útlítandi árið 1000? Collingwood kom líka við sögu á Helgafelli, þar sem hann gróf upp leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur og varð fyrir vonbrigðum með að finna aðeins bein og spýtur, en ekkert gullið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur. Þetta er skarpleg ályktun hjá þér um jarðfræðiþekkingu Snorra goða og undarlegt að menn hafi ekki veitt þessu athygli fyrr. Ég er þeirrar skoðunar að þekking manna á náttúruöflunum og lögmálum þeirra hafi verið miklu meiri á þessum tíma og reyndar miklu fyrr en nútímamenn almennt gera sér grein fyrir. Ég vil nefna tvo menn, sem voru snjallir vísindamenn, annar er Þorsteinn surtur Hallsteinsson, sonarsonur Þórólfs Mostrarskeggs. Hann leiðrétti tímatalið, áreiðanlega vegna kunnáttu sinnar í gangi himintungla. Hann hefur líklega verið einni eða tveimur kynslóðum   eldri en Snorri goði. Hinn er Stjörnu-Oddi Helgason, sem var uppi um aldamótin 1100. Hann er talinn hafa verið einn fremsti stjarnvísindamaður í Evrópu á sinum tíma.  

         Með þökk fyrir þína fræðandi pistla.

                                  Þorvaldur Ágústsson

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 23:15

2 identicon

Ég er alveg sammála þér varðandi þetta, en því miður vantar okkur frekari heimildir. Sonarsonur Þórólfs Mostraskeggs var Þorsteinn Hallsteinsson, nefndur surtur. Ólst upp á Hofstöðum en settist að á Þórsnesi, sem nú er kallað Jónsnes, skammt frá Stykkishólmi. Hann var raunvísindamaður, stundaði stjörnufræði , reiknaði út tímatal og fann sumarauka. Kær kveðja

Haraldur

Haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband