Myndin Eldgos eftir Kristján H. Magnússon
15.3.2010 | 22:54
Góður listamaður getur skapað heila sögu með einni mynd. Ein sérkennilegasta mynd sem við sýnum í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er stórt olíumálverk sem ber heitið Eldgos, eftir Ísfirðinginn Kristján H. Magnússon (1903-1937). Myndin er nær einstök í íslenskri myndlist, þar sem hún er af sviðsettum ímynduðum atburði. Að því leyti er hún skyldari amerískri myndasögu frekar en evrópskri hefð í listum. Myndin sýnir ung hjón á flótta, með barn í reifum og aleiguna á bakinu. Klæðnaður þeirra minnir helst á lumpenproletariat í Austur-Þýskalandi. Þau flýja undan eldgosi og húsin umhverfis eru að liðast í sundur vegna áhrifa jarðskjálfta. Það er greinilegt að myndin er sviðsett í Vestmannaeyjum, með norðurklettana í bakgrunni og á bakvið er Eyjafjallajökull eða Hekla gjósandi í landi og dökkur gosmökkur rís til himins. Fjöldi fólks fylgir hjónunum á veginum sem liggur frá höfninni. Eru þau að flýja til Eyja, undan náttúruhamförum í landi? Það eru ýmiss önnur smáatriði, eins kirkja að falla af grunni, og hestur á flótta, sem gefur okkur mikið svigrúm til að túlka verkið og byggja upp söguþráðinn, hver á sína vísu. Þessi stóra og glæsilega mynd er í einkaeign í Mosfellsbæ. Kristján hóf listnám árið 1920 við hinn þekkta skóla í Boston sem nefnist Massachusetts School of Art, þá aðeins sautján ára gamall. För hans til náms í Boston var tengd fjölskylduböndum, en bróðir hans, Magnús G. Magnússon skipstjóri var búsettur þar. Magnús kemur einnig við sögu á Snæfellsnesi varðandi þáttöku hans í gullleit í Drápuhlíðarfjalli árið 1939. Kristján lauk námi árið 1926 við mjög góðan orðstír. Ein af myndum hans var þá valin á þjóðarsafn (National Academy) í New York og árið 1927 var sú mynd send á ferðasýningu um Bandaríkin af American Federation of Art. Hann hélt strax sína fyrstu einkasýningu í Copley Gallery í Boston 1927 og seldi mjög vel. Honum var spáð glæstri framtíð. Árið 1929 snýr Kristján aftur heim til Íslands og fer strax að mála víða um landið og er ótrúlega duglegur. Árið 1930 hélt hann tvær einkasýningar í Reykjavík, eina á Ísafirði og eina í Lundúnum og átti auk þess stóran hlut í Landakotssýningunni í Reykjavík það ár. Sýningin í London árið 1930 fékk frábæra dóma, til dæmis hjá listdómurum við "The Morning Post" og "The Times". En það var allt annar tónninn í Reykjavík. Listmálarinn Jón Þorleifsson (sem birti pistla sína undir nafninu Orri) var þá áhrifamikill listdómari, sem fjallaði um málverkasýningar í Morgunblaðinu, og hann gagnrýndi Kristján harðlega í skrifum sínum árið 1930 og 1934 og kallar hann til dæmis glanzmyndamálara. Sumir vilja telja að í þessum innlendu skrifum hafi verið meinfýsni efst á blaði. Á þessum tíma var það óalgengt eða jafnvel einstakt að íslenskir listamenn leiti sér menntunar í Vesturheimi, enda voru ýmsir hér vantrúaðir á listræna menningu Ameríkumanna. Kristján var því sniðgenginn með öllu þegar valið var úr verkum íslenskra listamanna til sýningar í Stokkhólmi árið 1932. Ekki vildi hann una því og leigði einn sal fyrir málverk sín skammt frá hinum opinbera sýningarstað. Gagnrýnendur í Stokkhólmi tóku sýningu Kristjáns ágætlega og veltu því fyrir sér af hverju hann væri ekki með á íslensku yfirlitssýningunni. Yfirleitt málaði Kristján með mjög natúralisku yfirbragði, og sumum finnst hann sýna áhrif frá Cezanne. Verk has eru gerð af mikilli leikni og skólaðri kunnáttu en viðfangsefnin einfölduð, drættirnir ljósir og litir með þíðum, áferðarfallegum blæ. Kristján hélt áfram ótruður að mála næstu árin, þótt undirtektir á Íslandi gætu verið betri. Á þessum tíma hefur hann sennilega komið til Eyja og málað verkið Eldgos. Sumarið 1937 fór hann í málunarferð um uppsveitir Borgarfjarðar á hestbaki. Skömmu eftir að hann kom heim lést hann skyndilega, sennilega úr garnaflækju, þá aðeins 34 ára gamall.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eldfjallalist | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög athyglisverð mynd og heilmikið að gerast. Ég hef ekki séð aðrar myndir eftir Kristján en af þessari mynd af dæma hefur hann verið dálítið á skjön við ríkjandi listastefnur síns tíma sérstaklega það sem var að gerast í Evrópu. Svo maður leggi smá listrænt mat á þetta þá hefur hann greinilega haft ágætis málarahæfileika en í þessari mynd finnst mér þó eiginlega votta fyrir smá naívisma.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.3.2010 kl. 13:06
Það hefur verið sagt að Kristján hafi málað með mjög natúralisku yfirbragði, þegar aðrir voru í síð-impressionisma.Ég hef séð nokkrar af myndum hans sem eru í einkaeign í Stykkishólmi, og eru þær aðallega tvennskonar. Annarsvegar stórkostlegar landslagsmyndir að vetrarlagi, og hins vegar stórar portrett myndir af glæsilegum konum, gerðar í stíl John Singer Sargent (1856-1925) sem var fremsti portrett málari Bandaríkjanna og búsettur í Boston. Kristján hefur vafalaust orðið fyrir áhrifum af honum.
haraldur sigurðsson (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 13:46
Maður á auðvitað ekki að vera að dæma málarann út frá einni mynd og það væri gaman að sjá fleiri myndir eftir Kristján.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.3.2010 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.