Færsluflokkur: Hagur

Silicor gerir árás

Ég bloggaði hér um áform Silicor hinn 18. Júlí í fyrra að reisa verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Það vakti töluverða athygli, bæði vegna þess að margir hafa áhyggjur af sölu orku á ódýrasta verði, margir eru á báðum áttum með frekari iðnað og verksmiðjurekstur á Íslandi og einnig vegna hugsanlegrar mengunar frá þessari tegund iðnaðar. En framleiðsla á kísil sólarsellum er fræg fyrir að vera mjög mengandi. Í viðbót er það mín skoðun að efnahagsleg framtíð Íslands líggi ekki í aukinni og vaxandi mengandi stóriðju. Nú er ferðaþjónustan orðin stærsta grein í efnahag landsins. Til að vernda ásynd og nátturu Íslands er mikilvægt að halda iðnaði og mengun í skefjum og draga úr, frekar en bæta við stóriðju.

 Fyrirtækið Silicor hefur frekar ófagran feril í Norður Ameríku og má segja að þeir hafi eiginlega flæmst úr landi. Hvorki Ameríkanar né Kanadamenn vilja lýða mengandi iðnað af þessu tagi og láta því Kínverja um slík skítverk. Ég rakti í blogginu hvernig Silicor, sem hét áður Calisolar, flæmdist frá Kaliforníu, komst ekki inn í Ohio eða Mississippi með verksmiðjur, fór frá Kanada, en virðist nú geta komið sér fyrir á Íslandi. Hér fá þeir ódýra orku og virðast geta mengað eins og þeim sýnist.

 Mér til nokkurrar undrunar svaraði fyrirtækið mér fullum hálsi, með því að gera árás á vefsíðu þá, sem vefritið Wikipedia hefur um mig og mín vísindastörf.   Þar hefur agent eða umboðsmaður Silicor komist inn og skrifað meðal annars að Haraldur Sigurðsson sé virkur í að deila á Banadríkjastjórn, deili á auðveldisstefnu heimsins, á starfsemi Kínverja á Norðurheimsskautinu, og einnig að ég hafi lýst því yfir að ég muni starfa gegn Hilary Clinton, ef hún fer í forsetaframboð.

Þetta virðist skrifað mér til lasta, og Silicor virðist ímynda sér að þessi skrif komi einhverju höggi á mig á þennan hátt. Nú, satt að segja er ég hreykinn af öllum þessum skrifum og tel, sem Bandariskur ríkisborgari til 40 ára að mér sé frjálst og heimilt að koma fram með mínar skoðanir á hverju máli sem er, í riti og í máli. Sem sagt: algjört vindhögg! Ég hef kosið Obama og Bill Clinton, en tel að Hillary sé ekki rétta forsetaefnið nú, vegna spillingar sem hefur komið sér fyrir í herbúðum hennar.  Það eru aðrir ágætir Demókratar sem ég tel hæfari, eins og Elizabeth Warren.

 Ég tel að Íslendingar eigi að vara sig á erlendum fyrirtækjum, eins og Silicor og alls ekki hleypa þeim inn. Ferill þess er ekki glæsilegur, og ferillinn er slíkur að það ætti að vera sjálfkrafa að þeim væri neituð aðstaða til að hefja verksmiðjurekstur hér. Skrif þeirra um mig sýna einnig að viðhorf fyrirtækisins eru fjandsamleg og að þeir muni beita öllum brögðum til að koma sínu fram. Hættulegir. Sennilega verð ég að fara að læsa útihurðinni hjá mér, sem við erum nú ekki vanir að þurfa að gera hér í Stykkishólmi. En varið ykkur Skagamenn: Hvernig líf viljið þið eiga í framtíðinni? Algjört mengandi verksmiðjuhverfi, sem venjulegt ferðafólk mun taka stóran krók á leið sína til að forðast.  


Akstur um Vaðlaheiðargöng mun kosta milljarð á mínútu

VaðlaheiðargöngÞað er ekki falleg myndin af Vaðlaheiðargöngum, sem birtist hér fyrir ofan og kemur frá RUV. Annar endinn er fullur af 46 stiga heitri gufu og hinn endinn er fullur af köldu vatni. Allar framkvæmdir virðast vera komar í stopp, nú þegar göngin eru hálfnuð. Allt bendir til að Vaðlaheiðargöngum hafi verið algjörlega klúðrað, bæði hvað snertir rannsóknir og undirbúnings verksins. Framkvæmdir hófust í ágúst 2012 og samkvæmt áætlun á gegnumslag að verða í september 2015. Þegar 46 stiga heit vatnsæð kom fram í greftri að vestan verðu í febrúar 2014, þá var verkinu snúið við og gröftur hófst austan frá. Þá kom þar fram mjög mikill leki, sem hefur nú stöðvað verkið.

Draumurinn var að þessi 7,4 km löngu göng spari ferðakostnað á norðurlandi. Eins og   Pálmi Kristinsson verkfræðingur hefur bent á í harðri ádeilu sinni á Vaðlaheiðargöng, þá er hinn áætlaði sparnaður ekki á rökum reistur. Vaðlaheiðargöng væru 15,7 km vegstytting og 11 mín tímasparnaður, miðað við akstur um Víkuskarð. Snemma á ferlinu var talað um 9 milljarða krónu kostnað við gangnagerð. Vandræðin sem nú blasa við benda til að kostnaður verði mjög miklu hærri. Ég spái að hann nágist 15 milljárða. Þá kosta göngin okkur milljarð á mínutu, í hvert sinn sem við ökum í gegnum þau.   Að spara 11 mínútur í akstri verður því dýrt spaug. Allt bendir til að eldsneytissparnaðurinn verði því mun lægri en kostnaðurinn vegna áætlaðra veggjalda.  Eins og Pálmi Kristinsson bendir á í skýrslu sinni, þá hefur undirbúningi verið klúðrað og reiknilíkön um rekstur ekki nægilega vel unnin. Sama má sennilega segja um könnun á svæðinu áður en gröftur hófst. Stófelldur leki og hátt hitastig í fjallinu eru þættir, sem ættu að koma fram við ítarlega rannsókn á jarðfræði fjallsins, en ekki uppgötvast í miðri framkvæmd. Svona fer, þegar stjórnmálamenn og verktakar ráða ferðum. Kostnaður við grunnrannsóknir er skorinn við nögl og verkinu flýtt eftir megni. Það vekur athygli að aðeins fimm kjarnaborholur voru gerðar til að kanna fjallið fyrirfram, samkvæmt skýrslum frá Vegagerðinni og frá Jarðfræðistofunni ehf.  Nú verður klúðrið afsakað sem afleiðing af ófyrirsjáanlegum vandamálum. En sannleikurinn er sá, að rannsóknir og forvinna voru alls ekki nægilegar til að hefja þetta verk. Sennilega verður nú þrjóskast við, og göngin kláruð, hvað sem það kostar. Enginn stjórnmálamaður dirfist að segja neitt, meðal annars vegna þess að þverpólítisk eining hefur ríkt um verkið, svipað og um Kröfluvirkjun hér fyrir um fjörutíu árum.

Í skýrsum varðandi ástand bergsins er minnst á að leki sé víða mikill í fjallinu, en það vekur óneitanlega eftirtekt að ekki var leki eða lekt bergsins mæld í neinu tilfelli við borun kjarnaborholanna. Það er tiltölulega auðveld aðgerð og hefði tvímælalaust sýnt fram á að búast mætti við miklu magni vatns í göngunum. Þar sem göngin eru íum 100 metra hæð yfir sjó, og jarðvatnsborð í fjallinu fyrir ofan er í um 500 metra hæð yfir sjó, er vel ljóst að vatnsþrýstingur getur verið gífurlegur og vatnsmagn mikið.


Fólksfjölgun er enn stærsta vandamálið

Lengi hefur það verið almennt haldið að draga myndi fljótlega úr hinum hraða vexti á fólksfjölda á jörðu. Nú reynist það rangt. Spár Sameinuðu Þjóðanna hafa alltaf reynst rangar. Fólksfjölgun er enn mjög mikil og hefur það bein áhrif á loftslagsbreytingar. Mannfjöldinn á jörðu tvöfaldast nú á aðeins um 40 árum. Þannig fjölgaði okkur frá 3 milljörðum árið 1960 til 6 milljarða árið 2000.   Línuritið í fyrstu mynd sýnir þróunina og það er ljóst að lítið hægir á fjölguninni. FjölgunTakið eftir að lóðrétti ásinn er logri eða logariþmi, í milljörðum. Við bætum við um 82 milljónum á hverju ári, sem er eins og eitt Þýskaland bætist við mannfólkið á jörðu á hverju ári. En fjölgun mannkyns dreifist nú öðruvísi en áður var. Viss lönd, einkum Kína, hafa náð góðri stjórn á fólksfjölda með ástundun og mikilli hörku, en í mörgum öðrum löndum, einkum í Afríku, er fjölgunin enn mjög mikil. Fjölgun á jörðu skapar mörg vandamál. Eitt er að fæða allt þetta fólk, en hitt gleymist oft að fólksfjölgun hefur bein áhrif á hnattræna hlýnun. Við brennum og borðum auðvitað í réttu hlutfalli við fólksfjöldann.   Með fólksfjölgun fylgir vaxandi losun lofttegunda, sem valda vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Um þetta hefur Stephen G. Warren fjallað nýlega í vísindaritinu Earth´s Future.   Stóra málið á bak við fjölgun mannkyns er frjósemi kvenna, eða fjöldi barna sem hver kona ber. Í Asíu hefur frjósemi minnkað úr 5,9 börnum á hverja konu árið 1950, niður í 2,2 börn árið 2013. Í Afríku stendur frjósemin hins vegar í stað, um 4,8 börn á hverja móður. Í Evrópu og Norður Ameríku er hún aðeins 1,6 og 1,9 börn á hverja móður. Frjósemi á Íslandi hefur breyst mjög hratt á síðustu öld. Frjósemi á Íslandi var hærri en annars staðar í Evrópu á fyrri árum. Eins og línuritið sýnir, þá var frjósemi kvenna hér á landi um 4,0 í kringum 1950 til 1960, en hefur svo lækkað um helming, niður í um tvö börn á hverja konu. Frjósemi á Íslandi

Vöxtur eða fjölgun allra tegunda í lífríkinu heldur áfram þar til einhver utanað komandi áhrif stöðva hann. Það geta verið takmarkanir eins og fæðuskortur, sjúkdómar, styrjöld, eða umhverfistruflun (loftslagsbreytingar ofl.). Páskaeyja í Kyrrahafi er eitt lítið dæmi. Þessi einangraða eldfjallsey var uppgötvuð í kringum 600 e.Kr. og aðeins 20 til 30 Polynesar komu hingað í smábátum. Þeim fjölgaði og árið 1600 voru þeir orðnir um 6000 að tölu. Þá var mannþröng svo mikil á eynni að allir skógar voru höggnir, hungursneyð ríkti, styrjöld og mannaát tók við.  Mannfræðin sýnir okkur að þessi offjölgun á Páskaeyju varð vegna þess að frjósemin var um eða yfir 2,3. Það þarf ekki mikið til að koma kerfinu í algjört öngþveiti.

Kína er alveg sérstakt tilfelli, sem vísar okkur veginn í stjórn fólksfjölgunar á jörðu. Í Kína var frjósemi lengi um sex börn allt til 1970, eins og línuritið sýnir. Þá innleiddi stjórn landsins harða stefnu um eitt barn, og síðan hefur frjósemi fallið niður í 1,8.   Það er magt sem hefur áhrif á frjósemi kvenna yfir leitt. Til dæmis er frjósemi í öfugu hlutfalli við menntun. Annað mikilvægt atriði er að getnaðarvarnir séu fyrir hendi í þjóðfélaginu. Ef til vill er mikilvægasta atriðið samt einfaldlega frelsi kvenna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Frjósemi er há á svæðum þar sem trúarofstæki er ríkjandi, eins og til dæmis meðal mormóna í Utah í Bandaríkjunum og í Ísrael. Sínasta línuritið sýnir svo frjósemina í Kína. Kína frjósemi


Möskvastærð er ekkert mál!

fishing-in-cambodia11.jpgHort vilt þú deyja úr hungri, eða úr malaríu? Í Afríku er þetta ekkert grín, heldur alvöru mál. Í Zambíu og mörgum öðrum löndum Afríku eru moskítónet algeng vörn gegn malaríu, en nú eru margir íbúar búnir að taka netið niður fyrir ofan rúmið og farnir með það út á vatn eða út í ána, sem rennur í nágrenninu. Húsbóndinn er búinn að taka öll netin ur heimilinu, sauma þau saman og notar þau til að trolla eftir fisk í ánni eða vatninu. Það er ekkert spursmál um möskvastærð hér. Netið fangar bókstaflega allt sem lifir í vatninu, ungviði sem fullorðinn fisk og ekkert er skilið eftir. Þessi dásamlegu moskítónet, sem hjálparstofnanir færa heimamönnum ókeypis eru að bjarga þeim, ekki frá malaríunni, heldur frá hungri. Netin eru ókeypis, en þau eru menguð af permethin, sem drepur moskító flugur en einnig mikið af lífriki vatnanna. Hjálparstofnanir dreifa hundruðum milljóna moskítónetja á hverju ári í Afríku, sem öll eru menguð efnum til að fæla frá moskító flugur. En nú eru þessi efni að fara í vatnið.  En þessi aðferð er ekki bundin við Afríku.  Myndin sem fylgir er reyndar frá Kambódíu, þar sem þeir nota sömu aðferð með moskító net.


Rætur hryðjuverkamanna

hry_juverk.jpgHvað segir félagsfræðin og mannfræðin um uppruna hryðjuverkanna? Ekki mikið, en þó er ýmislegt að koma fram. Til dæmis er bent á eitt athyglisvert í sambandi við samanburð á innflytjendum í París og Bandaríkjunum. Bandaríski mannfræðingurinn Scott Atran hefur kannað þetta mál. Í Bandaríkjunum er talið að innflytjendur nái þeirri menntun og efnahag, sem einkennir meðalmanninn í landinu eftir aðeins eina kynslóð. Í Frakklandi eru innflytjendur fimm til tuttugu sinnum líklegri að vera fátækari og minna menntaðir en miðstéttin, jafnvel eftir þrjár kynslóðir í landinu. Stéttaskiftingin er, þrátt fyrir allt, miklu lífseigari í Frakklandi en í Ameríku.   Uppruni fanga í fangelsum þessara landa segir einnig sína sögu. Í Frakklandi eru múslimar á bilinu 8 til 10% af allri þjóðinni, en þeir eru um 60 til 75% af öllum föngum landsins. Það er svipað hlutfall og hjá ungum svertingjum í Bandaríkjunum.  En í Frakklandi sitja margir í steininum vegna hugmyndafræði sinnar. Í Bandaríkjunum er það öðruvísi. Þar eru svertingjarnir fangar aðallega vegna smáglæpa, tengdum neyslu og verslun með eiturlyf. Skoðanakannarnir sýna að í Frakklandi hafa 27% af öllu ungu fólki (milli 18 og 24 ára) frekar jákvæða skoðun á ISIS. Meðal þeirra eru margir atvinnulausir utangarðsmenn, sem líta á ISIS sem samtök, þar sem þeir séu velkomnir og sjá jihad sem aðferð til að breyta heiminum sér í vil.   Þannig tókst þremur fyrrum föngum í París að ná heimsathygli í síðustu viku og breyta heiminum á sinn hátt, þótt það kostaði þá lífið. Mannfræðingarnir telja að milli 7 og 14% allra múslima í heiminum styðji árás Al Quaeda á Bandaríkin árið 2001. Ef svipað hlutfall styður ISIS nú, þá er það hvorki meira né minna en um 100 milljón manns. En hve margir þeirra væru tilbúnir að berjast og deyja fyrir slíkan málstað? Það veit enginn. Slíkt hugarfar myndast aðeins við sérstakar aðstæður, eins og til dæmis í litlum klíkum múslima í fangelsi, þar sem þeim finnst að allur hinn vestræni heimur vinni á móti sér. Mannfræðingarnir telja því að klíkurnar myndist ekki í moskunum heldur fyrst og fremst í fangelsum, eða þá á fótboltavellinum. Ekki í moskum, því að þar er þögn og menn talast ekki við. Ræturnar eru fátækt, misrétti, atvinnuleysi og félagsleg vandamál, sem hafa að mestu leyti skapast vegna auðvaldsskipulagsins sem stýrir heiminum í dag.


Eftirköst Parísargöngunnar

Göngunni miklu er lokið. Frakkar luku göngunni á þann hátt, sem þeir kunna best: að halda veizlu. Ég var gestur í einni slíkri í kvöld í 16. hverfi borgarinnar. Við vorum tólf saman og kampavín og krásir á borðum. Þá losnaði um málbeinið. Mér þótti merkilegt að af þessum tólf höfðu aðeins fimm (allt konur) farið í gönguna, en karlarnir fjórir allir setið heima. Sumir sátu heima til að lýsa mótmælum við stefnu vinstri stjórnarinnar. Almennt er stemningin sú, að ríkið þurfi að taka miklu harðar á málum sem varða hættulega einstaklinga og hreyfingar innan Frakklands. Ég varð margs vísari af því, að hlusta á spjallið yfir matborðinu. Mig grunar að það sé ef til vill að gerast grundvallarbreyting á hugarfari Frakka varðandi réttvísi. Nú vilja margir Frakkar, að það verði heimilt að taka fasta og setja í fangelsi þá, sem gætu verið grunsamlegir og hættulegir ríkinu. Hingað til hafa að sjálfsögðu aðeins þeir verið fangelsaðir, sem hafa hlotið dóm fyrir rétti. Stefna George Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum er nú að ná vissri fóstfestu hér í landi, sem er vagga lýðræðisins (að forn-Grikkjum ógleymdum). Bush hafði þá aðferð að varpa grunsamlegu fólki í fangelsi í Guantanamo í Kúbu án dóms og laga. Nú tala Frakkar um að setja upp fangabúðir, til dæmis í Guiana, nýlendu Frakka í Suður Ameríku, fyrir óæskilega einstaklinga. Eins og kunnugt er, þá voru öfgamennirnir, sem unnu hryðjuverkin í París í síðustu viku allir á skrá hjá lögreglu, bæði í Frakklandi og í Bandaríkjunum, sem vafasamir einstaklingar. Þeim hefið til dæmis aldrei verið hleypt inn til Bandaríkjanna. Fangelsun án laga og réttar er auðvitað eitt af fyrstu skrefum til fasisma, en margir Frakkar líta ekki á það sem stórt vandamál. Þeir vilja að ríkið geri eitthvað róttækt í málinu, til að forðast slíka atburði í framtíðinni.   Það verður spennandi að fylgjast með þróun stjórnmála í Frakklandi á þessu sviði á næstunni, en þau munu hafa áhrif um alla Evrópu.  Já, og að lokum: það tók enginn hér eftir því að forsætisráðherra Íslands vantaði í gönguna.  Þið getið því öll andað léttara þarna heima á Fróni.


Sviðsmenn Carnegie Hall fá 40 milljónir í árslaun

labour-unions.jpgÉg hef verið í verkalýðsfélagi í Bandaríkjunum frá 1974 (AAUP, stofnað 1915) og hef notið góðs af því, en ef til vill valdi ég ekki rétt! Ef ég væri að velja mér verkalýðsfélag í dag, þá væri það tvímælalaust félag sviðsmanna í Carnegie Hall í New York. Einn trésmiðurinn er með $441,223 í árslaun, einn rafvirkinn með $425,872 og aðrir eftir því. Carnegie Hall er að sjálfsögðu einn fremsta hljómleikahöll í heimi, en fyrr má nú vera! Eins og gefur að skilja þá ganga stöður oftast frá föður til sonar í þessu verkalýðsfélagi.   Fyrsta konan fékk loks inngang í félagið árið 1975. Ein kona sem starfaði í hljómsveit á sviðinu sagði mér að það hefði kostað $2000 að fá einn hljóðnema fluttan um fimm metra á sviðinu. Svona mafíu-háttarlag hefur yfirleitt eyðilagt mikið fyrir verkalýðsfélögum í Bandaríkjunum og hafa þau því verið sprengd upp hvert á fætur öðru. En á Íslandi er þessu öðruvísi háttað. Mér sýnist helst að atvinnurekendur ráði mestu hér í verkalýðsfélögunum?


Kjarnorkuvetur eftir stríð milli Indlands og Pakistan

pakistan_nuclear_missile.jpgKjarnorkustyrjöld milli stórveldanna væri svo hryllileg tilhugsun, að hún virðist óhugsandi. En styrjöld milli tveggja ríkja, sem hafa yfir einhverjum kjarnavopnum að ráða, er alls ekki svo fjarstætt dæmi. Ísrael og Íran? Jú, þeir hata hvorn annan, múslimar öðru megin og gyðingar hinu megin. Ísrael hefur átt kjarnorkusprengjur í meir en 20 ár. En Íran ekki ennþá. Indland og Pakistan? Hér er stóra vandamálið. Þar er hatrið ekki síðra, hindú trú öðrumegin og múslimar hinumegin og fullt af sprengjum þegar fyrir hendi á báða bóga. Á meðan Ameríkanar hafa reynt að koma í veg fyrir að Íran komi sér upp kjarnavopnum, þá hefur Pakistan haldið stöðugt áfram að bæta við vopnabúr sitt.  Nú er talið að Pakistan hafi á milli 100 og 120 kjarnorkusprengjur, en Indland, nágranninn fyrir sunnan, hefur um 90 til 110 kjarnavopn.   Sérfræðingar telja því að langlíklegasta kjarnorkustyrjöldin í framtíðinni sé á milli Pakistan og Indlands. Pakistan hefur fremur lélegan her, og hugsar sér því að vinna slaginn strax með stórum sprengjum, sem að sjálfsögðu leggja bæði löndin í algjöra auðn.  Michael J. Mills og félagar (2014) hafa nýlega birt merkilega grein í vísindaritinu Earth´s Future um áhrif slíkrar styrjaldar á loftslag á jörðu. Hér er loksins komið fram það vísindarit, sem margir hafa beið eftir, helgað því að beita vísindunum til að spá fyrir um framtíðina – hugsanlega, raunverulega eða ímyndaða framtíð. Í líkani þeirra byrja þeir með kjarnorkustyrjöld, þar sem hvor þjóð beitir 50 kjarnorkusprengjum og er hver sprengja jafn stór og sú sem grandaði borinni Hiroshima í Japan árið 1945, eða jafnt og 15 kílótonn af venjulegu sprengiefni. Eitt kílótonn er eitt þúsund tonn, og er ein Hiroshima kjarnsprengja því jafn kraftmikil og 15 þúsund tonn af venjulegu sprengiefni. Þetta er þá um eða undir helmingur af vopnabúrinu í hverri þjóð. Bruni borganna leiðir af sér sót ský, sem rís upp í heiðhvolf og reiknast magn sóts um 5 Tg eða 5 milljón tonn. Þegar stórborg brennur, þá er hitinn svo gífurlegur að jafnvel tjaran í malbiki gatnanna brennur líka. Sótið sem myndast dreifist jafnt um heiðhvolf umhverfis jörðu. Eins og sést á annari mynd, þá er magn af sóti í lofti mjög hátt fyrsta árið en varir allt að 13 ár um heim allan. Sót hefur þann hæfileika að það drekkur í sig og endurvarpar meira magni af sólargeislum en nokkuð annað efni. Það hleypir því mjög litlu af sólargeislum niður til jarðar. Þetta veldur því að heiðhvolf hitnar en jörðin kólnar að sama skapi. Eftir 13 ár hefur megnið af sóti fallið til jarðar og áhrifin dvína. Yfirborðshiti jarðar kólnar um 1,1 gráðu um heim allan fyrsta árið og heldur áfram að kólna í fimm ár, niður um 1,6 gráður. Þá byrjar jörðin aftur að hlýna. Úrkoma minnkar í meir en einn áratug um heim allan. Hafís breiðist hratt út fyrstu fimm árin á norðurslóðum, eins og önnur mynd sýnir (bláa línan), og enn meir og lengur á suðurskautinu (rauð lína) í um 20 ár. Heimshöfin kólna í allt að 20 ár niður á 300 metra dýpi.sót

Vegna þess að heiðhvolf hlýnar um allt að 30 stig, þá verður stórfelt tap af ósón frá lofthjúp jarðar. Af þeim sökum streyma útfjólubláir geislar sólarinnar óhindrað niður á jörðina árum saman og valda sjúkdómum, stökkbreytingum og krabbameini. Þannig mætti lengi telja, því Mills og félagar hafa gert líkan einnig af áhrifum á landbúnað og fleira. Hörmungarnar eru ótrúlegar, þótt aðeins sé um að ræða styrjöld með 100 kjarnavopn. Gleymum því ekki, að Rússar og Bandaríkjamenn eiga sennilega ennþá um 10 til 20 þúsund kjarnavopn í sínum vopnabúrum í dag. Samt sem áður trúi því að kjarnorkuver séu ein skynsamlegasta orkulind mannkyns í framtíðinni, en kjarnavopn geta líka bundið enda á okkar skammvinna skeið á jörðu.hafís


Þorskurinn og hlýnun hafsins

Aflaverðmæti þorsks á Íslandi er enn á bilinu fra 45 til 50 milljarðar króna á ári og er hann því lang mikilvægasta tegundin, sem dregin er hér úr sjó. Við lítum á það sem sjálfsagðan hlut að þorskurinn skili sér áfram á land sem ein meginstoð í hagkerfi landsins, en svo kann ekki að vera. Er þorskurinn nú í hættu vegna hnattrýnnar hlýnunar hafsins? chounard.jpgEf til vill getum við nú lært af afdrifum þorsksins á fjarlægum miðum langt fyrir vestan okkur, einkum á Georgesbánka og Maine flóa. Eins og kunnugt er, þá var þorskur veiddur í miklu magni af Evrópumönnum undan Nýfundnalandi allt frá sextándu öld og miðin í Maineflóa og á Georgesbánka hafa verið nýtt í stórum stíl af Ameríkönum frá átjándu öldinni. Hér voru tekin um 300 þúsund tonn á ári í mörg ár og árið 1968 náði aflinn hámarki í Maineflóa og Gergesbánka, þegar 800 þúsund tonnum var landað. En uppúr því hrundi stofninn og nú er öll þorskveiði bönnuð í Maineflóa og á Georgesbánka. Fyrsta myndin sýnir þessa risastórtu sveiflu í þorskaflanum á þessum slóðum, samkvæmt Kanadamanninum Ghistain Couinard. Það er enginn vafi að ofveiði átti mikinn þátt í hruni stofnsins, en hefur hlýnun sjávar einnig sett strik í reikninginn hin síðustu ár?  botnhiti.jpgÖnnur mynd er hiti á botni sjávar í Maineflóa, samkvæmt Andy Pershing. Hér hefur átt sér stað langtíma hlýnun, en takið eftir hinni snöggu hlýnun, sem er að gerast nú síðsta áratuginn. Nú virðist sjór hlýna um fjórðung gráðu á hverju ári!  Ef til vill er þetta tímabundin sveifla, en ekki er útilokað að hér sé á ferðinni langtíma hlýnun sjávar á þessu svæði. Það getur verið fyrir sterkum áhrifum Golfstraumsins. Það er botnhitinn sem skiftir öllu máli varðandi þorskinn. Blátt er meðal árshitinn á botninum, en rautt er september-október botnshitinn. Ken Drinkwater hefur haldið því fram, að í sjó með bothita um eða yfir 8 stig dragi verulega úr ástandi og fjölgun þorsksins. Þegar hitinn er kominn í 10 til 12 stig þá sérst þorskur varla. Hlýnandi sjór dregur úr framleiðslu á svifi og öðru næringarefni þorsksins. Hvað er að gerast með hitafar í sjó umhverfis Ísland? Vinir mínir, sem synda nær daglega í sjó, telja að hann sé að hitna. Ég hef engin góð gögn um það, en vil til dæmis benda á sjávarhita í hafinu vestan Látrabjargs, sem Ólafur K. Pálsson ofl. (2012) hafa birt.o_769_lafurkp.jpg Það er á þriðju myndinni fyrir 0 til 150 m dýpi (rautt er ágúst en blátt er febrúar).  Hlýnun hafsins vestan Látrabjargs er hér greinileg síðan 1995. Hvenær fer hún að hafa áhrif á þorskstofninn? Þetta er Atlantssjór en auðvitað er botnhitinn töluvert lægri en þessar yfirborðsmælingar sýna.


Huang Nubo tókst það ekki, en CNOOC er komin inn, með Eykons hjálp

Árið 2011 munaði litlu að Kínverski auðmaðurinn Huang Nubo næði fótfestu á 300 Eykon á Drekaferkílómetra eign á Grímsstöðum á Fjöllum. Málið vakti mikla athygli og deilur, en flestir Íslendingar voru hreinlega furðu lostnir á þessum áhuga Kínverja á landssvæði inni á öræfum og við fengum aldrei fulla skýringu á hvað Kínverjar væru eiginlega að fara. Það mun hafa verið skelegg mótstaða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sem kom í veg fyrir að svo færi. Nubo er nú horfinn af sjónarsviðinu, en aðrir Kínverskir umboðsmenn eru komnir í stað hans og í þetta sinn hefur þeim tekist að koma sér fyrir í Íslenskri lögsögu, að því er virðist á þess að nokkur taki varla eftir.   Sérleyfi var veitt til olíuleitar á Drekasvæðinu í janúar 2014. Leyfið var veitt til CNOOC Iceland ehf. sem rekstraraðila með 60 % hlut, Eykon Energy ehf., með 15 % hlut og Petoro Iceland AS með 25 % hlut. CNOOC er China National Offshore Oil Corporation, risastórt Kínverskt olíufélag, sem er eigandi margra borpalla og ræður yfir miklu fjármagni. Þeir eru færir um að bora margar borholur, en ein slík getur kostað eins og heil Harpa, eða marga tugi milljarða. Orkuleitarfyrirtækið sem nú er skráð inn á Drekasvæðinu er undir nafninu Eykon Energy, en nú vitum við að Kínverski olíurisinn CNOOC er 60% meirihluta hlutafi í Eykon.   Þannig hafa Kínverjar náð fótfestu án nokkura mótmæla innan Íslenskrar lögsögu. Drekinn er að verða Kínverski Drekinn. Þetta eru tímamót, ekki einungi á Íslandi, heldur á öllum norðurslóðum: fyrsta Kínverska fyrirtækið, sem kemur sér fyrir í þessum heimshluta, þrátt fyrir mótstöðu Kanada, Bandaríkjanna og Rússa. Sennilega er mikilvægara fyrir Kína að komast inn á norðurskautasvæðið, en að finna hér olíu. Það var sennilega alla tíð markmið Nubos, að komast inn, án þess að hafa áhyggjur af hagnaði eða viðskiftalíkani rekstursins. Loksins komast Kínverjar inn á norðurskautasvæðið, í gengum Ísland, þrátt fyrir mótstöðu stórveldanna. Fáir hér á landi virðast gera sér grein fyrir því, að við erum orðinn leppur í refaskák stórveldanna á þennan hátt. Jú, að vísu gætum við fengið einhverjar tekjur af þessum leik, því skattlöggjöf tryggir Íslendingum hluta af tekjum, allt að 50%, EF einhver olía finnst á Drekasvæðinu. En, eins og ég hef áður bloggað um hér fyrir neðan, þá eru vissar jarðfræðilegar aðstæður, sem benda á að mjög litlar líkur séu á olíu undir Drekasvæðinu. Það skiftir Kínverja ekki miklu máli, af því að alþjóðapólítík, ekki gróðasjónarmið, er aðalmarkmið Kínverja á norðurslóðum. Þeir vilja fyrst og fremst koma löppinni í gættina.

En hvað um CNOOC? Þar kemur margt fremur skuggalegt í ljós. Dagblaðið DV birti í júní 2013 umfjöllun um þennan vafasama Kínverska olíurisa árið 2013.  CNOOC hóf fyrir nokkru samvinnu með heróín og opíum baróninum Lo Hsing Han við olíuleit í Burma í fyrirtækinu Goldern Aaron.  Frekari fróðleik um CNOOC, samstarf þess við Lo Hsing Han og viðleitni til að komast inn í Grænland og Ísland má finna á vefsíðu Jichang Lulu hér: http://jichanglulu.tumblr.com/iceland-jan-mayen-cnooc


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband