Færsluflokkur: Hagur

Olíuveslun Bandaríkjanna snýst við

 

 

olía USANýlega sigldi olíuskipið BW Zambesi frá Houston í Bandaríkjunum til Suður Kóreu, hlaðið um 400 þúsund tunnum af olíu. Það er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við það, nema að hér með eru Bandaríkin aftur orðin útflytjandi af olíu, í fyrst sinn eftir nær fjóra áratugi.  Svo virðist sem að hér eftir muni Bandaríkin ekki eyða dýrmætum gjaldeyri í olíuinnflutning og getur þetta haft mikil áhrif á efnahag þjóðarinnar – en ekki hjálpar það umhverfismálum, því miður.   Á alþjóða olíumarkaðinum er viðbúið að útflutningi Bandaríkjanna á þessu eldsneyti sé einkar velkomin lausn á þeim markaðsvanda, sem til dæmis Evrópuríki eru komin í vegna hegðunar Rússa í Úkraníu.

Aukin framleiðsla á olíu innan Bandaríkjanna er fyrst og fremst vegna nýrrar tækni (fracking), þar sem olía og gas er kreist út úr jarðlögunum undir miklum þrýstingi og með því að dæla niður vökva sem ýtir olíunni upp á yfirborð.  Einnig er lóðrétt borun mikilvæg.    Olíuframleiðsla hefur aukist um 70% síðustu sex árin innan Bandaríkjanna, sem er alveg ótrúlega mikill vöxtur.   Innflutningur frá OPEC löndunum (mest Arabar) hefur af þeim sökum minnkað um helming.  Línuritið sýnir hvernig innflutningur á olíu hefur snúist við (rauða línanog hvernig útflutningur á olíu hraðvex (gula línan) .  En margir spá því að þetta sé skammvinnur gróði, og að innan fárra ára verði ekki hægt að ná meiri olíu út úr jarðskorpunni undir Bandaríkjunum, jafnvel með fracking aðferð. 

Bandaríkin og allur heimur verður að komast út úr þessum slæma vana að treysta á olíu sem mesta orkugjafann.  Hnattræn hlýnun og náttúruspjöll vegna olíunnar eru stærstu vandamál okkar allra.  Við verðum að taka upp aðra orkugjafa strax, og þurfum ekki að bíða þar til olían er búin.  Við eigum að enda Olíuöldina nú, strax, en ekki bíða þar til öll olían er búin í jarðskorpunni.  Munið eftir, að Steinöldin endaði ekki vegna þess að menn gátu ekki fundið fleiri steina.


Hafið umhverfis Bretlandseyjar er orðið volgt

Hiti hafs BretlandsBretar hafa til þessa ekki gert mikið af því að synda í sjónum umhverfis Bretlandseyjar. Í staðinn hafa þeir helst sótt í Miðjarðarhafið.  En nú kann þetta að vera að breytast: hafið umhverfis Bretlandseyjar er að hlýna.  Línuritið sýnir árlegt meðaltal fyrir hita í yfirborði hafsins umhverfis Bretlandseyjar, frá 1870 til 2007.  Það er gífurlegt magn af gögnum, sem felst í þessu línuriti, sem nær yfir stórt svæði og allar árstíðir.  Meðaltalið fyrir árin frá 1961 til 1990 var 11,09 oC.  Rauða línan er meðaltal sem eyðir litlum sveiflum og sýnir feril hlýnunarinnar vel.  Síðasti áratugurinn sker sig alveg úr.  Hitinn á sjónum hefur hækkað um 1,6 gráður síðan 1980.   Eins og ég hef oft bent á, þá er hiti hafsins mun mikilvægari en lofthitinn. Aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn!   Þessi mikla hlýnun umhverfis Bretland er auðvitað tengd því að þeir fá stóran skerf af Golfstraumnum.  En hlýnunin er einnig vegna þess hvað grunnt er á þessum slóðum, einkum í Norðursjó.  Hlýnun hafsins hefur einnig mikil áhrif á fiskstofna umhverfis Bretlandseyjar.  Nú er rætt um, að fish-and-chips fari út af matseðlinum hjá Bretum.  Alla vega verður fiskurinn í réttinum ekki þorskur, heldur einhver ömmur tegund, sem þolir betur heitari sjó.  Þorskurinn þolir nokkuð vel að svamla í heitari sjó, en hann vill ekki hrygna, nema sjávarhitinn sé á bilinu 1 til 8 oC samkvæmt mælingum í Norðursjó.   Þess vegna færir hann sig norðar, til okkar og áfram til Grænlands.   Kenneth F. Drinkwater og fleiri fiskifræðingar hafa kannað áhrif hlýnunar á fiskstofnana í Norður Atlantshafi.   Síðastliðin 35 ár hafa 15 af 36 tegundum í Norðursjó flutt sig norðar, og að meðaltali hafa þær flutt sig 300 km norðar á þessum tíma.  Þorskur finnst varla umhverfis Bretland en í hans stað eru komnar nýjar tegundir eins og ljóti fiskurinn sem nefnist John Dory (pétursfiskur).  Hvað vitum við hér um áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskstofna og reyndar allt umhverfi okkar á Íslandi?  Ég held að málið hafi ekki verið mikið rannsakað.  Árið 2006 starfaði ég í vinnuhóp á vegum forsætisráðherra, sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga.  Höfuð niðurstaða okkar var sú, að rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra væri langmikilvægasta verkefni íslenskra vísinda í dag og náinni framtíð.  Skýrslunni var skilað.  Síðan gerðist ekki neitt í þessu máli og hið opinbera virðist ekki hafa neinar áhyggjur né neinn áhuga á rannsóknum á þessu mikilvæga máli. 


Hverjum eigum við að trúa?

makríllÍ dag er þessi fyrirsögn í frétt hjá RUV: “Útbreiðsla makríls við Ísland lítið breyst. Útbreiðsla makríls við Ísland virðist svipuð og síðustu ár að sögn Sveins Sveinbjörnssonar leiðangursstjóra á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.”

Í sama fjölmiðli er þessi frétt:  Miklar breytingar á lífríki.  Lífríkið í Norður-Atlantshafi hefur tekið miklum breytingum vegna hækkunar sjávarhita. Nýjar rannsóknir norskra sjávarlíffræðinga í sumar sýna að síld og markríll færa sig norður í höf.  Norskir vísindamenn hafa nú í fyrsta sinn kortlagt mörk útbreiðslu makríls til norðurs. Í ljós kom að makríllinn færir sig æ lengra til norðurs meðan norski síldarsofninn hefur nú þrýstst út á ytri kant markílsvæðisins í norðvestri.  Makrílnum heldur áfram að fjölga en ástand síldarstofnsins heldur áfram að versna, lítið finnst af fullorðinni síld.  Við hækkandi hitastig í sjónum flytur átan sig sem makríll og síld lifa á.  Kenningar eru um að þegar makrílnum fjölgi éti hann meira af síldarseiðum og því fækki síldinni. Búist er við hækkun hitastigs sjávar síðsumars og þá er búist við að  makríllin fari enn norðar, allt til Svalbarða. Allt bendi til að hlýnun hafsins haldi áfram næstu árin og makríll og  ýmsar aðrar  fisktegundir fari þá enn norðar.”

 

Hvers vegna sér Hafró engar breytingar, en norðmenn leggja höfuðáherslu á gögn sem sýna miklar breytingar?  Eru þeir kannski ekki á sömu blaðsíðunni? 


Þergar kýrnar valda sprengingu

Hlaðan springurSíðastliðin janúar varð dálítið sérstæð sprenging í fjósi í Rasdorf í Þýskalandi. Níutíu kýr fórust, en orsök sprengingarnar var að það kviknaði í metan gasi í fjósinu.  Loftræsting var lítil eða engin og metan sem kýrnar gáfu frá sér í báða enda safnaðist fyrir, þar til einhver rafmagnsneisti kveikti í  og þakið fauk af.    Myndin sýnir fjósið í ljósum logum.  Já, nautgripir gefa frá sér mikið metan gas, bæði þegar þeir ropa og reka við. Það er talið að venjuleg kýr gefi frá sér milli 100 og 500 lítra af metan á dag, eða sambærilegt við magnið af mengun frá einum bíl.  Útlosun á metan gasi er alvarlegt mál, því þessi gas tegund hefur 21 sinnum meiri áhrif á hlýnun heldur en sambærilegt magn af koltvíoxíði.  Öll dýr, sem eta gras (kýr, sauðfé, geitur, úlfaldar ofl.) hafa fjóra maga, þar sem melting fóðurs fer fram.  Það eru bakteríur eða örverur (methanogens) í maganum, sem stuðla að rotnun.  Afleiðing þess er að mikið magn af metan og koltvíoxíð gasi myndast í maganum, sem kýrnar losa sig við úr báðum endum metlingarvegsins.  Þetta er oft nefnt biogas.  Taflan sýnir efnagreiningu þess.  BiogasÞað er heilmikið gas, sem myndast.  Til dæmis í Ástralíu er talið að nautgripir og skyld húsdýr gefi frá sér rúmlega 13% af öllu gasi, sem berst út í andrúmsloftið. Þar við bætist mikið magn af metan gasi, sem myndast í mykjuhaugum.  Þetta er ekkert grín lengur, þegar við höfum í hug að það eru yfir 1,5 milljarður nautgripa á jörðu.  Sennilega gefur kýrin frá sér um 70 til 120 kg af metan á ári.  Það jafngildir loftslagsáhrifum frá 2300 kg af koltvíoxíði á ári.  Það er jafn mikið magn af koltvíoxíði og það sem losnar úr læðingi við að brenna 1000 lítrum af bensíni.  Ef bíllinn eyðir um 8 lítrum á 100 km, þá samsvara það 12500 km á ári.   Það eru ekki til nákvæmar tölur um biogas, en FAO stofnun Sameinuðu Þjóðanna segir að nautgripir og landbúnaður yfirleitt losi um 18% af öllum gróðurhúsagösum á ári.  Málið er orðið svo alvarlegt, að Hvíta Húsið gaf út skipan í júní um að nú beri að draga úr metan útblæstri frá landbúnaði um 25% fyrir árið 2020.


Hvað heldur þú um orsök hnattrænnar hlýnunar?

SkoðanakönnunHnattræn hlýnun er staðreynd, en hverjar eru orsakir hennar?  Rúmlega 97% af vísindamönnum telja hlýnun vera af manna völdum. Hinir halda að hlýnun sé náttúrufyrirbæri og óháð mengun mannkyns á lofthjúpnum.  Meðal almennings í heiminum er svarið nokkuð annað, en það er misjafnt milli landa, eins og meðfylgjandi línurit sýnir fyrir tuttugu lönd.   Það er í enskumælandi löndum (Bandaríkjunun, Bretlandi og Ástralíu) sem efasemdir eru mestar um áhrif mannsins á hlýnun jarðar.  Það er í Kína, sem flestir trúa að hlýnun sé af manna völdum.  Hið síðara kemur ekki á óvart, því hvergi í heiminum er mengun meiri en í Kína.  Hvers vegna er almenningur í enskumælandi löndum svo tortrygginn á að hlýnun sé af manna völdum?  Er það tilviljum, eða er það tengt tungumálinu?  Eða er það vegna pólitísks þrýstings og áróðurs í þessum löndum?  Í Bandaríkjunum eru til dæmis 91 stofnanir sem eru vel fjármagnaðar af yfir $900 milljón sem eru í afneitum, eða vinna gegn þeirri skoðun á hlýnun sé af manna völdum. Þessar stofnanir eru styrktar af olíufélögum og álíka fyrirtækjum.   Í þessu löndum er ný-frjálshyggja nú mjög ríkjandi, þar sem margir hallast að þeiri skoðun að hinn frjálsi markaður eigi að ríkja en að draga þurfi úr áhrifum hins opinbera.   Einnig er bent á, að fjölmiðlar í þessum þremur löndum séu að miklu leyti í höndum eins einstaklings: Roberts Murdoch.  Hann er þekktur fyrir þá skoðun að hlýnun sé á engan hátt tengd starfsemi mannkyns.  En þessar skýringar eru reyndar eins og að klóra í bakkann: enginn veit hversvegna hinn enskumælandi heimur hagar sér þannig.


Flug M17: Af hverju Evrópa gerir ekki neitt

Rúsneski björninnNú er talið sannað að farþegaþotan Malaysian flug 17 hafi verið skotin niður með rússneskri eldflaug sem rússneskir aðskilnaðasinnar í Úkraníu sendu á loft.  Lík 193 fórnarlamba eru nú loks komin til Hollands. Reiðin er mikil í Hollandi og Evrópu allri, enda er ekki farið með líkamsleifar af þeirri virðingu sem talin er nauðsynleg í siðuðu þjóðfélagi.  En allt bendir til að Evrópa geri ekkert í málinu annað en nokkrar harðar orðsendingar til Putins.  Ástæðan fyrir aðgerðarleysi er sú, að rússar hafa efnahagslegt tangarhald á Evrópu, jafnvel á Þýskalandi.  Tökum Holland sem dæmi um efnahagstengslin við rússa.  Holland er háð rússum hvað varðar olíu og jarðgas.  Hollenska olíufélagið Shell hefur gert miklar fjárfestingar í gas og olíulindum í Síberíu. Shell er stærsta fyrirtækið í Hollandi og flestir lífeyrissjóðir þar í landi hafa keypt í Shell. Ef Shell tapar, þá lækka eftirlaun allra kennara og iðnaðarmanna í Hollandi.   Tengslin milli Shell og hollenska ríkisins eru mikil og flókin. Shell mun gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þvinganir eða hömlur á verslun og viðskipti við rússa.

Árið 2012 fluttu hollendingar inn  vörur frá Rússlandi fyrir $27.3 milljarða, mest jarðgas.  Síðan seldu þeir 95% af þessu gasi til annara Evrópuríkja.  Rússland flutti inn $9.7 milljarða það ár af vörum frá Hollandi: mest blóm, matvöru og skrifstofuvörur.  Putin getur að sjáfsögðu lokað á strauminn af þungum vopnum og fjármagni til byltingasinna í Úkraníu.  En Pútin er harður nagli. Hann er afkvæmi KGB, leyniþjónustu Sovíetríkjanna. Evrópa þorir ekki að gera neitt á meðan meginlandið er algjörlega háð Rússlandi hvað varðar olíu og gas.


Ég þrái Elizabetu

Elizabeth WarrenÞrátt fyrir alt, þá er enn til vonarneisti um lýðræði í Bandaríkjunum. Það sem gerist í þessu stórveldi stórveldanna hefur auðvitað bein eða óbein áhrif á okkur öll.  Vonin virtist bjartari þegar Obama var kosinn forseti.  Hann gat þó varla verið verri en Bush!  Svartur maður, vel menntaður, sem hlaut að vera lýðræðissinnaður og maður fólksins, ekki satt?  Ég kaus hann, en því miður hefur hann reynst vera tól í höndum auðjöfra og Wall Street.  Næstu kosningar verða haldnar árið 2016.  Talið er líklegt að Hillary Clinton fari í framboð fyrir hönd Demókrata, en hún hefur ekki gefið kost á sér formlega.  Ég mun vinna gegn henni. Hún er búin að vera of lengi í pólitík og orðin gjörspillt.  Nú fær hún $200 þúsund fyrir hvern fyrirlestur sem hún flytur. Hún kom dóttur sinni Chelsea í stöðu, þar sem hún fær greitt $600 þúsund á ári fyrir að gera ekki neitt. Clinton fjölskyldan er heltekin græðgi (nú metin á $25 milljónir) og verður að afskrifast í stjórnmálum.  Eina vonin hjá mér er nú hún Elizabeth Warren.  Hún er 65 ára og starfar sem lagaprófessor við Harvard háskóla í Boston og nú þingmaður í Washington.  Hún hefur lengi unnið við rannsóknir á því hvernig stjórnmálamenn og bankar hafa hagrætt lögum í landinu sér í hag og gefið út fræðirit og bækur um það mál.  Hún segir þetta um auðvaldið: “Þeir hafa svindlað á amerískum fjölskyldum, valdið efnahagshruni, látið svo ríkið bjarga sér á kostnað almennings, og nú eru stóru bankarnir orðnir enn stærri en þeir voru þegar hrunið varð 2008.”   “Strákur er tekinn fastur og settur í steininn fyrir að vera með einn vindling af marijúana, en stóru bankarnir þvo peninga fyrir stóru eiturlyfjasalana og enginn þeirra er settur inn.  Spilið em við lifum í er eintómt svindl!”  “Bankastjórinn borgar minna í tekjuskatt en einkaritarinn. Hvernig er það hægt?  Það er hægt vegna þess að þeir eiga lobbyista og Repúblikana fulltrúa á þinginu.”   Fylgist með þessari konu.  Hún er eina vonin.


Vogunarsjóðurinn Elliott og Eyjafjallajökull

ElliottStrax og eldgosið í Eyjafjallajökli hófst fékk ég símtöl frá fyrirtæki í New York sem heitir Elliott Management Corporation.  Þeir vildu fá reglulegar skýrslur frá mér varðandi hegðun gossins og spá um líkur á framvindu mála í Eyjafjallajökli.  Ég kom alveg af fjöllum varðandi þetta fyrirtæki og átti erfitt með að átta mig á hvað væri í gangi.  Áhugamál mín eru vísindin og fróðleikur en ekki viðskiptaheimurinn og ég hafði enga hugmynd um hvers vegna þeir sóttust eftir þessum upplýsingum.  Það er nú loks fjórum árum síðar að ég átta mig á hvað var að gerast.   Elliott er einn stærsti vogunarsjóðurinn eða “hedge fund”  á jörðu (númer 10, með $19 milljarða).  Þetta er einnig sá vogunarsjóður, sem hefur eignast flestar kröfur á fallna íslenska banka.  Kjarninn hefur nýlega fjallað um Elliott og gefið honum nafnið hrægammasjóður.   Kjarninn telur að Elliott sé á bakvið eða jafnvel eigandi af kröfum á stóru þrotabú föllnu íslensku bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.   Auðvitað var það í þeirra hag að fræðast um framvindu mála varðandi náttúruhamfarir á Íslandi á meðan á gosinu stóð. 


Kalda stríðið

Kalda stríðiðÉg var staddur í Bandaríkjunum sem skiftinemi í menntaskóla árið 1957, þegar Sovíetríkin settu á loft gervihnöttinn Sputnik.  Hann sveif umhverfis jörðina og sendi frá sér stöðugt beep-beep hljóð, sem var útvarpað um öll Bandaríkin.  Ég gleymi því aldrei hvað ameríkanar höfðu miklar áhyggjur af þessu framtaki rússa og voru reyndar dálítið óttaslegnir.  Þar fræddist ég um kalda stríðið, sem mótaði heimspólitíkina allan seinni helming tuttugust aldarinnar.  Þetta hefst eiginlega í Evrópu árið 1947, þar sem ójafnvægi ríkti milli stórveldanna tveggja.  Þá voru aðeins eitt hundrað þúsund bandarískir hermenn staðsettir í Þýskalandi, en 1,2 milljón rússneskir hermenn.  Hér skorti jafnvægi og ameríkanar hugsuðu málið.  Harry Truman, forseti Bandaríkjanna,  kom þá fram með þá hugmynd að láta í það skína við Sovíetríkin  að Ameríka myndi beita kjarnorkuvopnum ef rússar væru ekki stilltir í Vestur Evrópu.  Síðar komst Truman að því, að ameríkanar áttu aðeins eina kjarnorkusprengju í vopnabúri sínu og að það var ekki enn búið að setja hana saman.  Árið 1949 sprengdu rússar sína fyrstu kjarnorkusprengju og ameríkanar voru slegnir og undrandi að rússar væru komnir þetta langt.  Það var þó  Eisenhower forseti sem hóf kapphlaupið með kjarnorkuvopn fyrir alvöru.  Hann áleit að venjuleg vopn og allur rekstur hersins væri alltof dýr og taldi að kjarnorkuvopn væri ódýrari aðferð til að halda rússum á mottunni.  Ameríkanar sprengdu fyrstu vetnissprengjuna árið 1952 og rússar svöruðu í sömu mynt ári síðar.  Kennedy vann forsetakosninguna árið 1960 með því að telja almenningi trú um að Sovíetríkin vðru komin langt framúr Ameríku með kjarnvopnaframleiðslu. Það var ekki satt, því það ár áttu rússar aðeins fjórar eldflaugar vopnaðar kjarnorkusprengjum. Árið 1962 voru Ameríkanar komnir með 27 þúsund kjarnorkuvopn en rússar “aðeins”  3300.   Línuritið sýnir kjarnvopnabúnað stórveldanna.  Leyniþjónusta Bandaríkjanna ýkti alltaf styrk Sovíetríkjanna og þingið hélt áfram að dæla dollurum í kjarnorkuiðnaðinn og byggingu langdrægra eldflauga.  Í kringum árið 1970 voru rússar loks komnir með fleiri eldflaugar og ástandið var vægast sagt stórhættulegt.  VopnakapphlaupMesta hættan var vegna slysni.  Eitt slys gæti auðveldlega komið af stað heimsstyrjöld sem ætti engan sinn líka.  Slys í meðferð kjarnavopna gerðust oft. Eric Schlosser hefur nýlega gefið út merka bók um þessi slys: Command and Control.  Ekki má gleyma Dr. Strangelove.  Margir halda að kalda stríðinu hafi lokið með fundinum í Reykjavík árið 1986, en það er ekki svo einfalt því slysin héldu áfram.  Eitt stærsta slysið varð næstum að raunveruleika reyndar árið 1995, þegar Boris Yeltsin var við völd í Moskvu. Einn morguninn afhendir aðstoðarmaður hans Yeltsin kassa, sem sýnir að eldflaug er komin á loft fyrir fjórum mínútum frá Noregshafi og stefnir í átt til Moskvu.  Allur her Rússlands var settur í viðbragðsstöðu og eldflaugar með 4700 kjarnorkuvopn voru tilbúnar.  Óþekkta eldflaugin virtist vera frá kafbát og Yeltsin hafði aðeins innan við sex mínútur til að taka ákvörðun. Skömmu síðar kom í ljós að eldflaugin stefndi ekki á Moskvu og menn önduðu léttara. Þetta reyndist eftir allt saman vera eldflaug sem Norðmenn höfðu skotið upp til að rannsaka norðurljósin.  Sérfræðingarnir telja að þetta atvik hafi verið hættulegasta augnablikið í öllu kalda stríðinu. 

SILICOR þýðir meiri mengun á Grundartanga

Silikon tetraklóríðVið lesum í fréttum að amerískt fyrirtæki hyggst reisa verksmiðju á Grundartanga til að framleiða sólarsellur.  Sólarsellur eru að sjálfsögðu ágæt aðferð til að beisla endurnýjanlega orku, en það fylgir mikill böggull skammrifi.  Framleiðsla á sólarsellum og efninu polysilicon er mjög sóðalegt og mengandi verk og fylgir því mikil losun af eiturefninu sílikon tetraklóríð  -  SiCl4.  Það er talið að við framleiðslu af einu tonni af polysílikon verði til úrgangur sem er fjögur tonn af sílikon tetraklóríð.   En það eru fleiri hliðar á þessu máli, sem nauðsynlegt er að athuga náið.  Þar á meðal er saga og ferill fyrirtækisins Silicor.  Það þarf gífurlega raforku til að framleiða sólarsellur.  Kísilsandur  er innfluttur og  bræddur við mjög háan hita, allt að 2000 oC og við það er reynt að losna við mest af súrefninu sem er bundið í sandinn, en eftir er tiltölulega hreint sílikon.  Slíkar versmiðjur eru því reistar þar sem ódýr orka er fyrir hendi – eins og væntanlega á Íslandi.

Síðan er vökvinn sílikon tetraklóríð notað í miklu magni til að gera sílikon enn hreinna.    Framleiðsla á polysílikon er talin svo mengandi að Bandaríkin vilja helst ekki leyfa slíkan iðnað þar í landi og hafa hingað til látið Kínverja um sóðaskapinn heima hjá sér.  Nú er röðin komin að Íslandi.  Silicor vill svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku.   Hvar ætla þeir að loasa sig við allt þetta magn af eiturefninu sílikon tetraklóríð?  Hvað um klór gasið sem berst út í andrúmsloftið?  Er ef til vill búið að afskrifa Hvalfjörð og Akranes, og dæma þetta svæði sem iðnaðarhverfi, þar sem mengun er leyfileg?  Silicor hét áður Calisolar og breytti um nafn til að fela sinn fyrri feril í viðskiptaheiminum vestra.  Calisolar rak um tíma verksmiðju í Toronto, Kanada.  Það fóru ljótar sögur af þeim rekstri, eins og sagt er frá í dagblaðinu Columbus Dispatch.   Fyrirtækið var í Kaliforníu en reyndi svo fyrir sér fyrst í Ohio fylki og síðar í Mississippi og leitaði þar fyrir sér með lán til að reisa verksmiðju.    Þeir urðu að hverfa frá Mississippi vegna þess að fyrirtækið gat ekki einu sinni lagt fram $150,000 sem stofnfé.  Nú er forstjórum Silicor fagnað af fyrirmönnum Faxaflóahafna og þeir í Silicor ræða við Arion banka um lán til að reisa verksmiðju hér.  Hvað viljum við leggjast lágt til að fá iðnað inn í landið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband