Hafið umhverfis Bretlandseyjar er orðið volgt

Hiti hafs BretlandsBretar hafa til þessa ekki gert mikið af því að synda í sjónum umhverfis Bretlandseyjar. Í staðinn hafa þeir helst sótt í Miðjarðarhafið.  En nú kann þetta að vera að breytast: hafið umhverfis Bretlandseyjar er að hlýna.  Línuritið sýnir árlegt meðaltal fyrir hita í yfirborði hafsins umhverfis Bretlandseyjar, frá 1870 til 2007.  Það er gífurlegt magn af gögnum, sem felst í þessu línuriti, sem nær yfir stórt svæði og allar árstíðir.  Meðaltalið fyrir árin frá 1961 til 1990 var 11,09 oC.  Rauða línan er meðaltal sem eyðir litlum sveiflum og sýnir feril hlýnunarinnar vel.  Síðasti áratugurinn sker sig alveg úr.  Hitinn á sjónum hefur hækkað um 1,6 gráður síðan 1980.   Eins og ég hef oft bent á, þá er hiti hafsins mun mikilvægari en lofthitinn. Aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn!   Þessi mikla hlýnun umhverfis Bretland er auðvitað tengd því að þeir fá stóran skerf af Golfstraumnum.  En hlýnunin er einnig vegna þess hvað grunnt er á þessum slóðum, einkum í Norðursjó.  Hlýnun hafsins hefur einnig mikil áhrif á fiskstofna umhverfis Bretlandseyjar.  Nú er rætt um, að fish-and-chips fari út af matseðlinum hjá Bretum.  Alla vega verður fiskurinn í réttinum ekki þorskur, heldur einhver ömmur tegund, sem þolir betur heitari sjó.  Þorskurinn þolir nokkuð vel að svamla í heitari sjó, en hann vill ekki hrygna, nema sjávarhitinn sé á bilinu 1 til 8 oC samkvæmt mælingum í Norðursjó.   Þess vegna færir hann sig norðar, til okkar og áfram til Grænlands.   Kenneth F. Drinkwater og fleiri fiskifræðingar hafa kannað áhrif hlýnunar á fiskstofnana í Norður Atlantshafi.   Síðastliðin 35 ár hafa 15 af 36 tegundum í Norðursjó flutt sig norðar, og að meðaltali hafa þær flutt sig 300 km norðar á þessum tíma.  Þorskur finnst varla umhverfis Bretland en í hans stað eru komnar nýjar tegundir eins og ljóti fiskurinn sem nefnist John Dory (pétursfiskur).  Hvað vitum við hér um áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskstofna og reyndar allt umhverfi okkar á Íslandi?  Ég held að málið hafi ekki verið mikið rannsakað.  Árið 2006 starfaði ég í vinnuhóp á vegum forsætisráðherra, sem fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga.  Höfuð niðurstaða okkar var sú, að rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra væri langmikilvægasta verkefni íslenskra vísinda í dag og náinni framtíð.  Skýrslunni var skilað.  Síðan gerðist ekki neitt í þessu máli og hið opinbera virðist ekki hafa neinar áhyggjur né neinn áhuga á rannsóknum á þessu mikilvæga máli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Meðal sjávarhiti á jörðinni hefur aukist um nálægt 0,02 °K síðatliðin 20 ár. Hlýnunin er 80 sinnum meiri við Bretland samkvæmt þessu sem er stórmerkilegt, en þú virðist ekki átta þig á því Haraldur ?

Guðmundur Jónsson, 9.8.2014 kl. 13:38

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Mig grunar að þú sért að blanda saman sjávarhita og lofthita hér.

Haraldur Sigurðsson, 9.8.2014 kl. 14:10

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Línuritið fyrir ofan er birt af bresku umhverfisstofnuninni DEFRA:

http://chartingprogress.defra.gov.uk/sea-temperature-salinity-and-circulation

Haraldur Sigurðsson, 9.8.2014 kl. 17:10

4 identicon

albert (IP-tala skráð) 9.8.2014 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband