Færsluflokkur: Hagur

Mengun í Kína

KínaÞegar ég var lítill snáði og tregur til að borða hafragrautinn, þá var oft sagt við mig:  “Vertu nú duglegur og borðaðu fyrir fátæku börnin í Kína, sem eru að þjást úr hungri.”  Nú er hungursneyð ekki lengur stóra vandamálið í Kína, heldur mengun af ýmsu tagi.   Árið 2005 fór Kína fram úr Bandaríkjunum hvað snertir útblástur af koltvíoxíði, eins og myndin sýnir. Þetta ár er útblástur Kína af þessu mengunarefni orðinn helmingi meiri en í Ameríku.  Kína er mesti mengunarvaldurinn í heiminum, en um einn fjórði af  þeirri mengun er vegna framleiðslu á vörum, sem eru fluttar út frá Kína.  Frá árinu 2000 hefur Kína orsakað útblástur á um 30% af öllu koltvíoxíði í heiminum.  Á meðan Ameríka og Evrópa draga úr útblæstri sem nemur um 60 milljón tonnum á ári, þá hefur útblástur á koltvíoxíði í Kína aukist um 500 milljón tonn.  Með því ógnar mengun frá Kína öllum heiminum.  Áhrif mengunar í Kína eru margvísleg, bæði í lofti og á landi. Víða er það komið svo, að ekki er hægt að drekka vatn úr ánum og sumstaðar má ekki einu sinni SNERTA vatnið, svo mengað er það.  Í fyrra náði mengun í lofti í Beijing nýjum hæðum. Svifryk komst upp í  40 sinnum meira magn en talið er leyfilegt.  Nú var mælirinn fullur og yfirvöld tóku ákvörðun um að berjast gegn menguninni á allan hátt.   En mengunin er allstaðar og einkum í landbúnaði. Það kom í ljós í könnun árið 2006 að um 10% af öllu landbúnaðarlandi í Kína er mengað af hættulegum þungmálmum eins og kadmíum.  Þegar hátt kadmíum fannst í kínverskum hrísgrjónum þá reyndu flestir kínverjar að útvega sér hrísgrjón frá Taílandi. Síðan hafa yfirvöld ekki viljað gefa út upplýsingar um þungmálmamengun af ótta við uppþot meðal neytenda.    En vatnsskortur og mengun vatns kann samt að vera stærsta vandamálið.   Á Beijing svæðinu er búið að dæla svo miklu vatni upp úr jörðu, að vatnsborð í berginu undir hefur fallið um 300 metra.  Gula Áin er líka menguð, og nú er svo komið að ekki má einu sinni nota vatn úr henni til áveitu á akrana.  Eyðimerkur breiðast út, akrar þorna upp og uppskera stendur í stað eða minnkar. En Kínverjar gera nú margt til að reyna að draga úr útblastri og mengun. Vatnsaflsorka er nú komin yfir 15% af heildar orkuframleiðslu,  og mikil áhersla er nú lögð á sólar og vindorku. Stærsta vonin er tengd kjarnorku, og þá einkum þóríum orku, eins og ég hef bloggað um hér áður.  En það eru áratugir þar til nýju þóríum kjarnorkuverin koma inn á orkunetið.   Á meðan halda kínverjar áfram að kafna í mengunarþokunni.


Þóríum orkuver er framtíðin


Kapphlaupið er hafið.  Það er kapphlaup um hver er fyrstur til að byggja ný þóríum kjarnorkuver á jörðu.  Ég hef áður bloggað um þóríum hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1280271/     Yfirvöld í Kína hafa látið boð út ganga um að hraða verði byggingu fyrsta þóríum orkuversins og skal það vera tilbúið á tíu árum en ekki 25 árum, eins og áður var boðað.  Ákafinn er sagður jafn mikill og þegar menn undirbúa sig í styrjöld.  Við fögnum öll þessum ákafa Kínverja, því þóríum orkuverin munu draga úr eða jafnvel leiða undir lok brennslu kola, olíu og jarðgass, sem mengar allan heiminn.  En vesturlönd eru enn sofandi í þessu máli.  Þau reka enn gamaldags úran kjarnorkuver,  sem nota tækni sem  var  upphaflega þróuð fyrir kjarnorkuknúna kafbáta í kringum 1950.   Þóríum orkuver eru hreinni, ódýrari og öruggari í rekstri heldur en úran orkuver.  Einnig er lítil hætta á að þóríum sé beitt sem kjarnorkuvopnum og útbreiðsla þeirra sem vopn því ekki vandamál.   Það er enginn skortur á þóríum á jörðu.  Mestar birgðir af þóríum er að finna í Ástralíu, Bandaríkjunum, Tyrklandi, Indlandi og Venezuela.  Sennilega eru mjög miklar birgðir af því að finna í bergi á suðvestur Grænlandi.  Efnið þóríum kemur aðallega fyrir í kristöllum eða steindum sem heita monasít.  Það er jarðefni eða kristaltegund, sem inniheldur mikið magn af Rare Earths eða sjaldgæfu málmunum.   Það er eitt ár síðan Kína byrjaði á þóríum verkefninu eins og greinir frá í South China Morning Post.  Fyrrum forseti Jiang Zemin skipaði son sinn  Jiang Mianheng til að stjórna því.  Hann fékk í upphafi $350 milljón og 140 vísindamenn með doktorsgráðu til starfa. Á næsta ári verða vísindamennirinir orðnir 750.  Svo virðist sem þeir stefni í að byggja þóríum kjarnorkuver af þeirri tegund sem Bandaríkjamaðurinn Alvin Weinberg þróaði árið 1962.  En Nixon forseti rak Weinberg og lokaði þóríum orkuverinu.  Nixon vildi úran orkuver, en þau framleiða, auk orku, einnig hið illræmda geislavirka efni pútóníum, sem er nauðsynlegt til að smíða kjarnorkuvopn.  Kalda stríðið réð ferðinni þá, og Bandaríkjamenn hafa ekki enn vaknað af svefninum.    Í Ameríku hefur NASA verkfræðingurinn Kirk Sorensen hafið áróðursherferð til að vinna að þóríum orkuverum, en Ameríkanar hlusta ekki á hann.   Kínverjinn Jiang Mianheng fór þá til Bandaríkjanna og komst yfir teikningar af orkuverinsu, sem Alvin Weinberg hafði uppgötvað og fór með gögnin til Kína.  Þeir eru nú þegar að reisa 28 orkuver.Þóríum orkuver

Myndin sem fylgir gerir samanburð á úran orkuveri (fyrir ofan) og þóríum orkuveri (fyrir neðan), sem hvort um sig framleiðir  1 GW af orku, en það er töluvert meira en Kárahnjúkar framleiða.   Úran orkuverið þarf 250 tonn af úran til verksins, og afgangurinn er 35 tonn af geislavirkum efnum, sem  verður að geyma undir mjög erfiðum aðstæðum í meir en tíu þúsund ár.    Til samanburðar þarf eitt tonn af þóríum í orkuverið, en afgangurinn er efni, sem geyma þarf aðeins í tíu til 300 ár þar til það er orðið óvirkt og hættulaust.  Kostirnir við þóríum eru augljósir og reyndar ekki auðvelt að skilja að helstu ríki heims hafi ekki sett meiri kraft í rannsóknir á þessu verkefni og byggingu þóríum orkuvera. Kínverjar eru að flýta sér, því þeir eru að kafna í kolaryki.


Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd!

PoulsonFjármálaráðherra Bandaríkjanna í valdatíð George Bush var Hank Poulson. Hann var við stjórnvölinn þegar efnahagshrunið mikla varð á Wall Street árið 2008 og kreppan hófst.  Hann er hinn dæmigerði kapítalisti, auðkýfingur og repúblikani og er alltaf talinn fremstur í röð þeirra sem orsökuðu hrunið árið 2008.  En á seinni árum hefur Poulson iðrast og sýnt á sér nýjar hliðar. Í grein sem hann skrifar í New York Times í gær hefur Poulson algjörlega snúið við blaðinu.  Reyndar er greinin ein sprengja.  Hann spáir enn stærra efnahagshruni af völdum loftslagsbreytinga ef ekki er tekið strax í taumana. Helsta ráð hans við vandanum er að koma á kolefnisskatti sem leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Það er reyndar furðulegt en auðvitað mjög gleðilegt að maður í hans stöðu og með slíkan bakgrunn skuli nú koma fram úr röðum repúblikana og horfast í augu við staðreyndir í loftslagsmálum.  Takið sinnaskiptum því að dómsdagur er í nánd! 

En tekur almenningur nokkuð mark á tali um loftslagsbreytingar? Okkur, sem fylgjumst vel með breytingunum, finnst þær gerast hratt og óttumst afleiðingarnar.  En hættan er að almenningur og kjósandinn sé eins og froskurinn í potinum á eldavélinni.  Ef kveikt er undir og hitað rólega, þá stekkur froskurinn ekki uppúr pottinum og soðnar að lokum.


Ekvador valdi dollarann$

Árið 2000 kaus ríkið Ekvador í Suður Ameríku að taka upp einhliða ameríska dollarann sem opinbera mynt landsins. Íbúum var gefið eitt ár til að skila inn sinni gömlu mynt. Ekvador hafði barist við mikla spillingu og verðbólgan var um 60% árið fyrir umskiftin.

            Hver er reynslan og getum við lært eitthvað af þessu, í sambandi við umræðu varðandi íslensku krónuna?  Aðstæðurnar eru að vísu allt aðrar en hér, en samt er fróðlegt að skoða hvað hefur gerst eftir dollarvæðingu landsins.  Í Ekvador eru um 16 milljón íbúar, sem flytja út banana, olíu, rækjur, gull og bóm.  Árið fyrir dollaravæðinguna hafði efnahagur dregist saman um 7.3% og algjört hrun blasti við. Árið 2000 snérist þetta við og efnahagur óx um 2.3%, 5.6% árið á eftir, 6.9% árið 2004 og svo framleiðis. Efnahafur Ekvador

            Önnur jákvæð hlið er sú, að Ekvador getur ekki leyst sig út úr efnahagsvanda í framtíðinni eingöngu með því að prenta peningaseðla.  En því fylgir sú neikvæða hlið að ríksistjórn Ekvador ræður ekki að öllu leyti yfir mikilvægum ákvörðunum um mynt sína, heldur er sú stjórn í ríkisbanka Bandaríkjanna í Washington DC. Sacagawea

Hvernig tóku íbúar Ekvador nýja dollaranum?  Hé kom í spilið alveg ótrúleg tilviljun.  Það vildi svo vel til, að sama árið, 2000, gaf ameríski bankinn út gullpening, sem er eins dollara virði og á honum er greypt mynd af indíánakonu, með barn sitt á bakinu.  Þetta er hin fræga Sacagawea, sem veitti landkönnuðunum Lewis og Clark leiðsögn vestur yfir Klettafjöllin og að strönd Kyrrahafsins árið 1804.  Hinir innfæddu í Ekvador sáu strax andlit sem þeir þekktu og vildu helst engan annan pening nema gullpeninginn með mynd Sacagawea.  Síðan hefur nær allur forðinn af þessum gullpening flutst frá Bandaríkjunum til Ekvador.  


Thomas Piketty gerir árás á frjálshyggjustefnuna: Arftaki Karls Marx?


 

PikettyBókin  “Capital in the Twenty-first Century” eftir franska hagfræðinginn Thomas Piketty er að setja allt á annan endan.  Hver hefði getað ímyndað sér að bók um hagfræði væri nú “top seller” hjá Amazon.com?  Áhrif hennar geta orðið sambærileg við hið fræga verk “Das Kapital”, sem Karl Marx gaf út árið 1867.  En að sjálfsögðu valdi Piketty titil sinnar bókar nú til að minna á þetta klassíska verk kommúnistans Marx. Það skal þó tekið strax fram, að Piketty er alls ekki marxisti.chart-01.jpg

Piketty fjallar fyrst og fremst um það í bók sinni hvernig auði er deilt í þjóðfélaginu.  Auðvitað er það sama gamla sagan, en munurinn er sá, að hann og félagar hans hafa  nú lagt sig í líma við að safna hagtölum og nýjum gögnum um dreifingu og skiftingu auðs í heiminum sem nær yfir meir en þrjár aldir.   Rannsóknir þeirra leiða margt nýstárlegt í ljós, til dæmis að tuttugasta öldin er algjörlega frábrugðin venjulegri þróun um dreifingu auðs, sennilega vegna áhrifa heimsstyrjaldanna tveggja.  Það sem Piketty bendir hvað mest á, er að ójöfn skifting auðs fer mjög vaxandi í þjóðum heims, sem er bein afleiðing frjálshyggjustefnunnar.  Meðal lokaorða hans í bókinni er þetta:  “Market economy, based on private property, if left to itself, …. is potentially threatening to democratic societies and to the values of social justice on which they are based.”

Hingað til hafa fræðimenn aðallega fjallað um meðaltekjur og sögulega þróun þeirra, en Piketty og félagar fara aðra leið.  Fyrsta línuritið sýnir ójöfnuð í tekjum í Bandaríkjunum.  Það sýnir að tekjur hjá auðugustu 10% þjóðarinnar í eitt hundrað ár eru á bilinu  35 til 50%.  Ójöfnuðurinn var mikill í byrjun tuttugustu aldar, og svo aftur nú í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar. Línurit fyrir önnur lönd segja sömu sögu.  Ójöfnuðurinn er gífurlegur og fer vaxandi.  chart-06.jpg

En það sem veldur Piketty mestum áhyggjum (hann kallar það “hræðilegt ástand”) er síðasta línuritið.  Það sýnir að tekjurnar af ávöxtun eigin fjár og ávöxtun fjárfestingar (rauða línan) er nú langt yfir hagvexti (“growth rate of world output”), og bilið fer sívaxandi. 


Félagslegt Réttlæti

Getur þetta verið? Að Ísland sé á toppnum, hvað varðar félagslegt réttlæti í heiminum? Stofnunin Bertelsmann Stiftung hefur gert mikla könnun á ýmsum þáttum þjóðfélgagsins, sem varða félagslegt réttlæti í öllum 31 OECD löndunum. Þar lendir Ísland á toppnum og Tyrkland á botninum, eða númer 31. Hin Norðurlöndin eru að sjálfsögðu einnig nálægt toppnum. Hins vegar eru Bandaríkin mjög neðalega, númer 27, og er síðasta stórveldið lítið betra en Mexíkó, sem er númer 30. Hinis ýmsu þættir sem eru kannaðir eru fátækt (Ísland númer 4), menntun (1), atvinnuhorfur (1), jafnrétti (10) og heilsufar (1). Á einu sviði stendur Ísland sig mjög illa, og er mjög nærri botninum (númer 28). Það er á sviði skulda, en það eru skuldir sem næsta kynslóð verður ábyrg fyrir. Þar er Ísland í góðum félagsskap, með Grikklandi, Ítalíu og Japan. Sjálfsagt má deila um þær aðferðir, sem notaðar hafa verið til að mæla hina ýmsu þætti varðandi félagslegt réttarfar, en það kemur mér satt að segja mjög á óvart hvað Frón stendur sig vel í þessari könnun. Stórblaðið New York Times hefur tekið saman helstu þætti skýrslunnar, og set þá upp í myndformi, eins og sjá má hér fyrir neðan. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér http://www.bertelsmann-stiftung.de/cps/rde/xchg/SID-7475996A-0738890B/bst/hs.xsl/nachrichten_110193.htm  29blow-ch-popup-v2

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband