Mengun í Kína

KínaÞegar ég var lítill snáði og tregur til að borða hafragrautinn, þá var oft sagt við mig:  “Vertu nú duglegur og borðaðu fyrir fátæku börnin í Kína, sem eru að þjást úr hungri.”  Nú er hungursneyð ekki lengur stóra vandamálið í Kína, heldur mengun af ýmsu tagi.   Árið 2005 fór Kína fram úr Bandaríkjunum hvað snertir útblástur af koltvíoxíði, eins og myndin sýnir. Þetta ár er útblástur Kína af þessu mengunarefni orðinn helmingi meiri en í Ameríku.  Kína er mesti mengunarvaldurinn í heiminum, en um einn fjórði af  þeirri mengun er vegna framleiðslu á vörum, sem eru fluttar út frá Kína.  Frá árinu 2000 hefur Kína orsakað útblástur á um 30% af öllu koltvíoxíði í heiminum.  Á meðan Ameríka og Evrópa draga úr útblæstri sem nemur um 60 milljón tonnum á ári, þá hefur útblástur á koltvíoxíði í Kína aukist um 500 milljón tonn.  Með því ógnar mengun frá Kína öllum heiminum.  Áhrif mengunar í Kína eru margvísleg, bæði í lofti og á landi. Víða er það komið svo, að ekki er hægt að drekka vatn úr ánum og sumstaðar má ekki einu sinni SNERTA vatnið, svo mengað er það.  Í fyrra náði mengun í lofti í Beijing nýjum hæðum. Svifryk komst upp í  40 sinnum meira magn en talið er leyfilegt.  Nú var mælirinn fullur og yfirvöld tóku ákvörðun um að berjast gegn menguninni á allan hátt.   En mengunin er allstaðar og einkum í landbúnaði. Það kom í ljós í könnun árið 2006 að um 10% af öllu landbúnaðarlandi í Kína er mengað af hættulegum þungmálmum eins og kadmíum.  Þegar hátt kadmíum fannst í kínverskum hrísgrjónum þá reyndu flestir kínverjar að útvega sér hrísgrjón frá Taílandi. Síðan hafa yfirvöld ekki viljað gefa út upplýsingar um þungmálmamengun af ótta við uppþot meðal neytenda.    En vatnsskortur og mengun vatns kann samt að vera stærsta vandamálið.   Á Beijing svæðinu er búið að dæla svo miklu vatni upp úr jörðu, að vatnsborð í berginu undir hefur fallið um 300 metra.  Gula Áin er líka menguð, og nú er svo komið að ekki má einu sinni nota vatn úr henni til áveitu á akrana.  Eyðimerkur breiðast út, akrar þorna upp og uppskera stendur í stað eða minnkar. En Kínverjar gera nú margt til að reyna að draga úr útblastri og mengun. Vatnsaflsorka er nú komin yfir 15% af heildar orkuframleiðslu,  og mikil áhersla er nú lögð á sólar og vindorku. Stærsta vonin er tengd kjarnorku, og þá einkum þóríum orku, eins og ég hef bloggað um hér áður.  En það eru áratugir þar til nýju þóríum kjarnorkuverin koma inn á orkunetið.   Á meðan halda kínverjar áfram að kafna í mengunarþokunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband