Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Eldstöðin Rabaul

Radarmynd af RabaulEitt af virkustu eldfjöllum jarðar er Rabaul í Papua Nýju Gíneu. Ég hef nýlega fengið tækifæri til að kanna Rabaul eldstöðina, og er satt að segja enn undrandi á hvað hér er mikið umn að vera, neðan jarðar og ofan.  Rabaul er askja, sem er um 14 sinnum 9 km á stærð, og á öskjubrúninni eru margir virkir gígar.  Það er alveg einstakt varðand Rabaul, að hér hafa tveir gígar verið virkir samtímis, sitt hvoru megin á öskjubrúninni. Þetta gerðist fyrst árið 1878, þegar gígarnir Vulcan og Tavurvur gusu saman, og svo aftur árið 1937 og nú síðast árið 1994.  Rabaul askjan er flói sem er að mestu neðansjávar, og af þeim sökum völdu Þjóðverjar flóann sem bestu höfn nýlendu sinnar í Nýju Gíneu á nítjándu öld.  Efri myndin er radarmynd af Rabaul öskjunni, tekin af NASA.  Vinstra megin eða vestan við flóann er gígurinn Vulcan, en beint á móti, hægra megin, er gígurinn Tavurvur, og eru um 6 km milli gíganna.  Það er augljóst að gígarnir tveir eru nátengdir, og að þeir gjósa saman úr sömu kvikuþrónni undir öskjunni.  Jarðeðlisfræingar hafa sýnt fra á, að risastór kvikuþró liggur á 3 til 5 km dýpi undir allri öskjunni, og mun kvikan koma þaðan í síðustu gosum.  En svo kemur í ljós önnur kvikuþró á um 8 km dýpi, og sú þriðja hefur fundist rétt fyrir norðaustan öskjuna.  Það er ekki furða að Rabaul er með allra virkustu elstöðum jarðar.

Er heimurinn kominn yfir olíutoppinn?


olíutoppurinnFlestar ef ekki allar auðlindir náttúrunnar ganga til þurrðar fyrr eða síðar.   Svo er einnig með olíu, og nú ríkir deila um hvort jarðarbúar hafi náð olíutoppnum, „peak oil“,  og að nú fari að draga úr olíframleiðslu í heiminum.  Myndin sýnir tvær spár um olíubirgðir í heiminum.  Sú efri er frá IEA, alþjóðaorkustofnuninni, en sú neðri er frá háskólanum í Uppsölum, Svíþjóð.   Svíar telja að olíutoppurinn hafi gerst í kringum árið 2006, en IEA stofnunin er bjartsýn og telur að olíutoppnum verði ekki náð fyrr en um 2030.  Munurinn á milli þessara spáa er fyrst og fremst í sambandi við olíulindir sem ekki eru enn uppgötvaðar (og eru ef til vill ekki til?) og einnig olíulindir sem ekki hafa enn verið þróaðar.  IEA  er The International Energy Agency, en það er að nafninu til sjálfstæð stofnun sem starfar fyrir 28 þjóðir.  Tíminn mun skera úr um hvor hefur rétt fyrir sér, en alla vega erum við komin mjög nærri olíutoppnum. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband