Eldstöðin Rabaul

Radarmynd af RabaulEitt af virkustu eldfjöllum jarðar er Rabaul í Papua Nýju Gíneu. Ég hef nýlega fengið tækifæri til að kanna Rabaul eldstöðina, og er satt að segja enn undrandi á hvað hér er mikið umn að vera, neðan jarðar og ofan.  Rabaul er askja, sem er um 14 sinnum 9 km á stærð, og á öskjubrúninni eru margir virkir gígar.  Það er alveg einstakt varðand Rabaul, að hér hafa tveir gígar verið virkir samtímis, sitt hvoru megin á öskjubrúninni. Þetta gerðist fyrst árið 1878, þegar gígarnir Vulcan og Tavurvur gusu saman, og svo aftur árið 1937 og nú síðast árið 1994.  Rabaul askjan er flói sem er að mestu neðansjávar, og af þeim sökum völdu Þjóðverjar flóann sem bestu höfn nýlendu sinnar í Nýju Gíneu á nítjándu öld.  Efri myndin er radarmynd af Rabaul öskjunni, tekin af NASA.  Vinstra megin eða vestan við flóann er gígurinn Vulcan, en beint á móti, hægra megin, er gígurinn Tavurvur, og eru um 6 km milli gíganna.  Það er augljóst að gígarnir tveir eru nátengdir, og að þeir gjósa saman úr sömu kvikuþrónni undir öskjunni.  Jarðeðlisfræingar hafa sýnt fra á, að risastór kvikuþró liggur á 3 til 5 km dýpi undir allri öskjunni, og mun kvikan koma þaðan í síðustu gosum.  En svo kemur í ljós önnur kvikuþró á um 8 km dýpi, og sú þriðja hefur fundist rétt fyrir norðaustan öskjuna.  Það er ekki furða að Rabaul er með allra virkustu elstöðum jarðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt að lesa þetta og takk fyrir pistilinn. Hvaða líkur teljið þið fræðimenn á sprengigosi við þessar aðstæður, fáfróðum virðist sem líkur geti verið á því að sjór komist í gosrásina ef einhverjar gliðnunarhreyfingar eru í gangi þarna?

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 17.6.2011 kl. 09:46

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Eins og ég mun fjalla um síðar, þá er kvikuþróin mjög stór undir Rabaul.  Síðasta stórgosið varð fyrir um 1400 árum. Þá streymdu gjóskuflóð í allar áttir frá öskjunni, allt að 50 km fjarlægð. Ekkert bendir til að sjór hafi komist í kerfið ennþá.

Haraldur Sigurðsson, 17.6.2011 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband