Andy Warhol og íslenski skurðlæknirinn

hsandwarhol_1093740.jpgMyndin af eldgosi í Vesúvíusi eftir Andy Warhol (1928-1987) vekur alltaf mikla og verðskuldaða athygli í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, enda var Andy einn af frægustu listamönnum heims. Hann var að vísu umdeildur, en það eru allir sammála um, að hann innleiddi alveg nýja stefnu lista í hinn vestræna heim.  Á myndinni hér til hliðar er ég búinn að bregða mér í gerfi Andy Warhol: svarta leðurjakkann, og stend fyrir framan eldgosið hans. Aðeins tveimur árum eftir að þessi mynd var gerð var Andy Warhol allur.  Hann lést eftir uppskurð hinn 21. febrúar árið 1987 í New York Hospital, einum þekktasta spítala stórborgarinnar. Andy hafði verði með miklar kvalir í nokkra daga, og strax og hann lagðist inn var hann skorinn upp.  Gallablaðran var mikið bólgin og stífluð og var hún fjarlægð.  Skurðlæknirinn sem framkvæmdi uppskurðinn var dr. Björn Þorbjarnarson, Íslendingur sem er einn helsti sérfræðingur heims í slíkum uppskurði, og prófessor við Cornell Háskóla. WarholAndy var á skurðborðinu í þrjá og hálfan tíma. Síðan var hann þrjá tíma í sérgæzlu og þá næst í einkasjúkrastofu.  Hann var vakandi, horfði á sjónvarp og hringdi í vini sína. Klukkan 4 að morgni næsta dag, 22. febrúar, var blóðþrýstingur hans eðlilegur.  En klukkan 5:45 um morguninn dofnaði púlsinn og litarháttur hans varð bláleitur.  Einkahjúkrunarkona hans hringdi strax á aðstoð og læknar reyndu að koma honum til lífs aftur í meir en 45 mínútur.  Hann var talinn látinn kl. 6:21 um morguninn.

 

Ættingjar Andy Wahol fóru strax í mál við New York Hospital og lækna hans. Lögfræðingar ættingjanna héldu því fram fyrir réttinum í desember 1991, að Andy hefði látist sökum vanrækslu, og einkum að hann hefði fengið alltof mikið af vökvum inn í líkamann.   Hins vegar lýsti krufningarlæknir því yfir að Wahol hefði látist vegna hjartaáfalls, sem væri ekkert tengt uppskurðinum eða meðferð hans á sjúkrahúsinu.  Tuttugu dögum síðar, á aðfangadag 24. desember árið 1991,  lýstu lögfræðingar ættingja Andys og lögfræðingar New York Hospital því yfir að þeir hefðu komist að samkomulagi og var málið nú látið niður falla.  Sjúkrahúsið greiddi ættingjum og erfingjum Warhols ákveðna summu, en peningaupphæðin var ekki gefin upp.  Ættingjar voru ´very happy´og talsmenn New York Hospital lýstu því yfir að niðurstaðan væri ´fair and equitable.´   Saksóknari New York lýsti því einnig yfir að ekkert benti til þess að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða varðandi dauða listamannsins og málið var þá látið niður falla.  Að lokum skal þess getið, að hinn vinsæli rithöfundur, aktivisti og náttúruunnandi, Andri Snær Magnason, er dóttursonur Björns Þorbjarnarsonar, skurðlæknis Andy Warhol. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband