Steinblómin í Drápuhlíðarfjalli

dendrítÞegar ég var að alast upp í Stykkishólmi gafst mér stundum tækifæri til að sjá stein, sem átti hug minn allan. Þetta var nokkuð stór steinn úr Drápuhlíðarfjalli, sem stillt var upp í stofu þeirra hjóna Sigurðar Ágústssonar og Ingibjargar Helgadóttur í Clausenshúsi.  Yfirborð steinsins var eins og heill blómagarður, þar sem brúnar greinar kvíslast og breiðast út.  Allir sem skoðuðu steininn voru á einu máli um að hér væru steingerðar plöntur.  Að vísu finnast plöntusteingervingar í Drápuhlíðarfjalli, og jafnvel steinrunnin tré, 4 milljón ára gömul.  En steinblómin þeirra Sigurðar og Ingibjargar eru ekki steingervingar, heldur kristallar af mángan oxíði.  dendrítSteinninn er alveg jafn fagur og merkilegur fyrir það, en skreytingin er ekki af lífrænum uppruna.  Steinninn mun hafa fundist þegar gullleitin var gerð í Drápuhlíðarfjalli árið 1939.  Síðan hef ég rekist á nokkra steina af svipaðri gerð í fjallinu, en þó engan jafn stóran og fagran. Hér með fylgja nokkrar myndir af þeim.  Mángan oxíð kristallar með þetta form eru nefndir dendrítar vegna þess að þeir skifta sér sífellt í ýmsar greinar í vexti.  Með því myndar kristallinn einskonar blað, sem líkist helst margskiftu laufblaði af burkna.  dendrítSennilega berst mángan oxíð upp í sprungur í berginu með jarðhita og við vissar aðstæður fellur vökvinn út MnO2 og myndar kristalla af ýmsum tegundum af mangan oxíði, eins og hollandít, romanechit, cryptomelan og todorokít. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband