Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Júní hiti nýtt heimsmet

NOAANOAA, haf og loftslagsstofnun Bandaríkjanna, hefur gefið út niðurstöður á hnattrænum hitamælingurm á landi og sjó fyrir júní mánuð. Meðalhiti mánaðarins á landi og sjávaryfirborði er sá hæsti sem mælst hefur á jörðu fyrir júní mánuð, eða 0,72 gráðum hærri en meðaltal fyrir alla tuttugustu öldina (15.5°C).  Á landsvæðum er meðalhitinn fyrir júní 0,95 gráðum hærra en tuttugustu aldar meðaltalið. Á hafinu er júní meðalhitinn 0,64  gráðum hærri en tuttugustu aldar meðaltalið.  Grænland var sérstaklega heitt í júní. Til dæmis fór hiti í Kangerlussuaq á suðvestur Grænlandi í 23,2 gráður hinn 15. júní, sem er nýtt met.  Hér í Stykkishólmi er þetta einnig hlýasti júní síðan mælingar hófust árið 1845.


Vogunarsjóðurinn Elliott og Eyjafjallajökull

ElliottStrax og eldgosið í Eyjafjallajökli hófst fékk ég símtöl frá fyrirtæki í New York sem heitir Elliott Management Corporation.  Þeir vildu fá reglulegar skýrslur frá mér varðandi hegðun gossins og spá um líkur á framvindu mála í Eyjafjallajökli.  Ég kom alveg af fjöllum varðandi þetta fyrirtæki og átti erfitt með að átta mig á hvað væri í gangi.  Áhugamál mín eru vísindin og fróðleikur en ekki viðskiptaheimurinn og ég hafði enga hugmynd um hvers vegna þeir sóttust eftir þessum upplýsingum.  Það er nú loks fjórum árum síðar að ég átta mig á hvað var að gerast.   Elliott er einn stærsti vogunarsjóðurinn eða “hedge fund”  á jörðu (númer 10, með $19 milljarða).  Þetta er einnig sá vogunarsjóður, sem hefur eignast flestar kröfur á fallna íslenska banka.  Kjarninn hefur nýlega fjallað um Elliott og gefið honum nafnið hrægammasjóður.   Kjarninn telur að Elliott sé á bakvið eða jafnvel eigandi af kröfum á stóru þrotabú föllnu íslensku bankanna Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.   Auðvitað var það í þeirra hag að fræðast um framvindu mála varðandi náttúruhamfarir á Íslandi á meðan á gosinu stóð. 


Olíuleit í Atlantshafi hefst aftur

Seismic surveyÁ föstudag tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún mun nú á ný veita leyfi til olíuleitar í Atlantshafi.  Reyndar verður leyfi aðeins veitt til jarðeðlisfræðilegra rannsókna á hafsbotninum, en ekki borunnar fyrst um sinn.  Þessar rannsóknir fela í sér olíuleit, þar sem tíðar sprengingar eru gerðar í hafinu. Við það kastast hljóðbylgjan niður í hafsbotninn  og sendir til baka upplýsingar um gerð og lögun setlaga undir hafsbotninum.  Fysta mynd sýnir slíkar mælingar, sem eru gerðar frá skipshlið.  Höggbylgjurnar gegnumlýsa hafsbotninn og gera sneiðmynd líkt og þeim sem eru gerðar á sjúkrahúsum.  seismic stratigraphyDæmi um slíka sneiðmynd af hafsbotnssetinu er á annari mynd, en með þessari aðferð er hægt að kanna setið niður á nokkra kílómetra dýpi. Slíkar mælingar eru nauðsynlegar til að fara á næsta stig við olíuleit:  borun.  Sprengingar af þessu tagi hafa verið bannaðar í nokkur ár vegna þess að þær eru skaðlegar lífríki í hafinu, einkum hvölum.  Það er fullsannað að spendýr eins og hvalir þola ekki höggið frá sprengingunum, sem gerast á nokkra sekúndna fresti.  Höggbylgjan getur sprengt hljóðhimnu í eyrum spendýra og valdið öðrum meinum.  En Obama hefur brotið hér blað og fer ámóti umhverfisverndarsinnum í Bandaríkjunum með þessari ákvörðun.   Svæðin eru undan austur strönd Bandaríkjanna, í Mexíkóflóa og í hafinu norðan Alaska, eins og myndin sýnir.  Svæði í olíuleitÞað má svo búast við að leyfi til borana á botni Atlantshafsins verði síðan veitt í kringum 2020.  Á þessu svæði er mjög þykk og gömul setmyndun, sem nær alla leið aftur til tímabils fyrir um 180 milljón árum síðan.  Þá byrjaði Norður Ameríka að klofna frá vestur Afríku og Evrópu og Atlantshaf byrjar að myndast. 


Kalda stríðið

Kalda stríðiðÉg var staddur í Bandaríkjunum sem skiftinemi í menntaskóla árið 1957, þegar Sovíetríkin settu á loft gervihnöttinn Sputnik.  Hann sveif umhverfis jörðina og sendi frá sér stöðugt beep-beep hljóð, sem var útvarpað um öll Bandaríkin.  Ég gleymi því aldrei hvað ameríkanar höfðu miklar áhyggjur af þessu framtaki rússa og voru reyndar dálítið óttaslegnir.  Þar fræddist ég um kalda stríðið, sem mótaði heimspólitíkina allan seinni helming tuttugust aldarinnar.  Þetta hefst eiginlega í Evrópu árið 1947, þar sem ójafnvægi ríkti milli stórveldanna tveggja.  Þá voru aðeins eitt hundrað þúsund bandarískir hermenn staðsettir í Þýskalandi, en 1,2 milljón rússneskir hermenn.  Hér skorti jafnvægi og ameríkanar hugsuðu málið.  Harry Truman, forseti Bandaríkjanna,  kom þá fram með þá hugmynd að láta í það skína við Sovíetríkin  að Ameríka myndi beita kjarnorkuvopnum ef rússar væru ekki stilltir í Vestur Evrópu.  Síðar komst Truman að því, að ameríkanar áttu aðeins eina kjarnorkusprengju í vopnabúri sínu og að það var ekki enn búið að setja hana saman.  Árið 1949 sprengdu rússar sína fyrstu kjarnorkusprengju og ameríkanar voru slegnir og undrandi að rússar væru komnir þetta langt.  Það var þó  Eisenhower forseti sem hóf kapphlaupið með kjarnorkuvopn fyrir alvöru.  Hann áleit að venjuleg vopn og allur rekstur hersins væri alltof dýr og taldi að kjarnorkuvopn væri ódýrari aðferð til að halda rússum á mottunni.  Ameríkanar sprengdu fyrstu vetnissprengjuna árið 1952 og rússar svöruðu í sömu mynt ári síðar.  Kennedy vann forsetakosninguna árið 1960 með því að telja almenningi trú um að Sovíetríkin vðru komin langt framúr Ameríku með kjarnvopnaframleiðslu. Það var ekki satt, því það ár áttu rússar aðeins fjórar eldflaugar vopnaðar kjarnorkusprengjum. Árið 1962 voru Ameríkanar komnir með 27 þúsund kjarnorkuvopn en rússar “aðeins”  3300.   Línuritið sýnir kjarnvopnabúnað stórveldanna.  Leyniþjónusta Bandaríkjanna ýkti alltaf styrk Sovíetríkjanna og þingið hélt áfram að dæla dollurum í kjarnorkuiðnaðinn og byggingu langdrægra eldflauga.  Í kringum árið 1970 voru rússar loks komnir með fleiri eldflaugar og ástandið var vægast sagt stórhættulegt.  VopnakapphlaupMesta hættan var vegna slysni.  Eitt slys gæti auðveldlega komið af stað heimsstyrjöld sem ætti engan sinn líka.  Slys í meðferð kjarnavopna gerðust oft. Eric Schlosser hefur nýlega gefið út merka bók um þessi slys: Command and Control.  Ekki má gleyma Dr. Strangelove.  Margir halda að kalda stríðinu hafi lokið með fundinum í Reykjavík árið 1986, en það er ekki svo einfalt því slysin héldu áfram.  Eitt stærsta slysið varð næstum að raunveruleika reyndar árið 1995, þegar Boris Yeltsin var við völd í Moskvu. Einn morguninn afhendir aðstoðarmaður hans Yeltsin kassa, sem sýnir að eldflaug er komin á loft fyrir fjórum mínútum frá Noregshafi og stefnir í átt til Moskvu.  Allur her Rússlands var settur í viðbragðsstöðu og eldflaugar með 4700 kjarnorkuvopn voru tilbúnar.  Óþekkta eldflaugin virtist vera frá kafbát og Yeltsin hafði aðeins innan við sex mínútur til að taka ákvörðun. Skömmu síðar kom í ljós að eldflaugin stefndi ekki á Moskvu og menn önduðu léttara. Þetta reyndist eftir allt saman vera eldflaug sem Norðmenn höfðu skotið upp til að rannsaka norðurljósin.  Sérfræðingarnir telja að þetta atvik hafi verið hættulegasta augnablikið í öllu kalda stríðinu. 

Eru háloftavindar að breytast?

SatúrnÞað er vel afmarkaður vindstraumur í andrúmsloftinu yfir jörðu, sem nefnist háloftavindur (Polar jet stream). Hann er vestanátt, þ.e.a.s. hann blæst oftast frá vestri til austurs, og er í um 10 til 15 km hæð.  Vindhraðinn getur verið gífurlegur hér, eða meir en 160 km á klst.  og flugmenn í millilandaflugi notfæra sér oft þennan straum til að flýta ferðinni. Reyndar eru háloftavindarnir tveir á norðurhveli.  Háloftavindurinn finnst á öðrum plánteum sólkerfisins.  Hér er til dæmis mynd af norðurpólnum á Satúrn, en háloftavindurinn hér er sexhyrndur.   Háloftavindurinn á jörðu verður til vegna þess að það er mikill munur á hita á heimskautssvæðinu og hita umhverfis miðbaug.   Því meiri sem hitamunurinn er, því hraðar blæs vindurinn.  Loftslagsfræðingar hafa lengi haldið því fram, að ef loftslag hlýnar, þá kunni að draga úr hraða háloftavindanna.  Háloftavindurinn hefur undanfarið verið mjög bugðóttur.  Hann tekur á stundum ótrúlega stóra hlykki á ferð sinni, eins og önnur mynd sýnir.  HáloftavindurÞar er mesti vindhraðinn sýndur með rauðum línum.  Það eru þessir hlykkir, sem vekja nú mikla athygli. Á annan bóginn getur hlykkur flutt mikinn hita langt norður í átt að pólnum, en hins vegar getur hlykkur eða bugða flutt mikinn kulda langt suður í lönd.  Allir straumar geta verið bugðóttir, eins og straumvötn eiga líka til, en yfirleitt er talið að bugður vaxi þegar dregur úr straumhraða.  Tökum til dæmis straumvatn á yfirborði jarðar.  Þegar áin rennur hratt og í miklum halla, þá myndar hún sér oftast fremur beinan farveg.  Hinsvegar, þegar dregur úr hallanum þá dregur einnig úr hraða straumsins og þá byrjar áin að verða bugðótt.   Nú telja sumir loftslagsfræðingar að háloftavindurinn sé að verða bugðóttari vegna þess að hann sé að hægja á sér.  En er hann að hægja á sér vegna þess að það er minni munur á hita fyrir norðan og sunnan vindinn?  Er hann þá að hægja á sér vegna hnattrænnar hlýnunar?  Eftir þennan langa inngang vil ég komast að aðal efninu. Það er ljóst að norðurheimskautið hlýnar hraðar en önnur landsvæði og að hafís í norðri minnkar hratt.  Sumir hafa stungið uppá því að þessi hraða bráðnun sé vegna þess að miklar bugður í háloftavindum flytja hita til norðurs.   Ef þetta er rétt, þá eigum við í vændum vaxandi sveiflur í hitafari á norðurslóðum. 


SILICOR þýðir meiri mengun á Grundartanga

Silikon tetraklóríðVið lesum í fréttum að amerískt fyrirtæki hyggst reisa verksmiðju á Grundartanga til að framleiða sólarsellur.  Sólarsellur eru að sjálfsögðu ágæt aðferð til að beisla endurnýjanlega orku, en það fylgir mikill böggull skammrifi.  Framleiðsla á sólarsellum og efninu polysilicon er mjög sóðalegt og mengandi verk og fylgir því mikil losun af eiturefninu sílikon tetraklóríð  -  SiCl4.  Það er talið að við framleiðslu af einu tonni af polysílikon verði til úrgangur sem er fjögur tonn af sílikon tetraklóríð.   En það eru fleiri hliðar á þessu máli, sem nauðsynlegt er að athuga náið.  Þar á meðal er saga og ferill fyrirtækisins Silicor.  Það þarf gífurlega raforku til að framleiða sólarsellur.  Kísilsandur  er innfluttur og  bræddur við mjög háan hita, allt að 2000 oC og við það er reynt að losna við mest af súrefninu sem er bundið í sandinn, en eftir er tiltölulega hreint sílikon.  Slíkar versmiðjur eru því reistar þar sem ódýr orka er fyrir hendi – eins og væntanlega á Íslandi.

Síðan er vökvinn sílikon tetraklóríð notað í miklu magni til að gera sílikon enn hreinna.    Framleiðsla á polysílikon er talin svo mengandi að Bandaríkin vilja helst ekki leyfa slíkan iðnað þar í landi og hafa hingað til látið Kínverja um sóðaskapinn heima hjá sér.  Nú er röðin komin að Íslandi.  Silicor vill svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku.   Hvar ætla þeir að loasa sig við allt þetta magn af eiturefninu sílikon tetraklóríð?  Hvað um klór gasið sem berst út í andrúmsloftið?  Er ef til vill búið að afskrifa Hvalfjörð og Akranes, og dæma þetta svæði sem iðnaðarhverfi, þar sem mengun er leyfileg?  Silicor hét áður Calisolar og breytti um nafn til að fela sinn fyrri feril í viðskiptaheiminum vestra.  Calisolar rak um tíma verksmiðju í Toronto, Kanada.  Það fóru ljótar sögur af þeim rekstri, eins og sagt er frá í dagblaðinu Columbus Dispatch.   Fyrirtækið var í Kaliforníu en reyndi svo fyrir sér fyrst í Ohio fylki og síðar í Mississippi og leitaði þar fyrir sér með lán til að reisa verksmiðju.    Þeir urðu að hverfa frá Mississippi vegna þess að fyrirtækið gat ekki einu sinni lagt fram $150,000 sem stofnfé.  Nú er forstjórum Silicor fagnað af fyrirmönnum Faxaflóahafna og þeir í Silicor ræða við Arion banka um lán til að reisa verksmiðju hér.  Hvað viljum við leggjast lágt til að fá iðnað inn í landið?


Loftslagsspá og Norðurheimskaut

HafísVísindin eru til lítils gagns, ef við getum ekki beitt þeim til að gera spár um framtíðina.  Þannig höfum við til dæmis veðurspá, hagspá og síðast en ekki síst loftslagsspá.  Loftslag á Norðurheimskautinu hlýnar nú hraðar en á nokkru öðru svæði á jörðu.  Hvað með framhaldið?  Mest áberandi af breytingum á þessu svæði er bráðnun hafíss, en hann hefur dregist saman sem nemur 75% síðan á áttugasta áratug síðustu aldar.   Fyrsta myndin sýnir flatarmál hafíss á norðurhveli (svarta þykka línan).  Lituðu línurnar sýna ýmis líkön af þróun hafíss á norðurhveli allt til ársins 2100.  Þetta er einn þáttur af spá, sem James Overland og félagar hafa nýlega birt um framtíðarhorfur loftslags á norðurslóðum.  Þetta er byggt á flóknu reiknilíkani, þar sem vaxandi CO2 er mikilvægur þáttur, en einnig breytingar sem verða á endurskini eða albedo jarðar þegar hafísinn fer af og dökkt hafið drekkur í sig sólarhitann.  Takið eftir að það er mikil breidd í hafísspánum  sem sýndar eru af lituðu línunum, en mér þykir merkilegast að raunveruleikinn (svarta línan) er fyrir neðan þær allar. Sem sagt: spárnar fyrir hafísinn eru sennilega of bjartsýnar.  Hafís á norðurhveli verður sennilega horfinn að fullu í kringum 2050. HitafarÞeir reikna út tvennskonar loftslagslíkön, sem sýnd eru í annari myndinni.  Annars vegar er bjartsýnislíkan þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði verulega úr CO2 útblæstri á jörðu í náinni framtíð (bláa línan), en hins vegar er svartsýnislíkan, sem byggist á business-as-usual, þ.e.a.s. að við jarðarbúar höldum áfram uppteknum hætti og mengum CO2 út í andrúmsloftið á sama hátt og nú ríkir (rauða línan).  Spáin er fyrir Norðurheimskautssvæðið (60oN–90oN) og nær því einnig yfir Ísland.  Kúrfurnar eru frávik frá langtíma meðaltalinu fyrir árin 1981 til 2005, en líkanið nær til ársins 2100 en ég sýni aðeins tvo mánuði hér: janúar og maí.  Takið eftir að línuritið sýnir ekki absolút hitastig, heldur hlutfallslega hækkun, miðað við 1981-2005 meðaltalið fyrir viðkomandi mánuð.  Það er augljóst að líkönin sýna stórfelda hlýnun á norðurhveli, jafnvel fyrir bjartsýnasta líkanið.  Hlýnun er hlutfallslega miklu meiri að vetri til en sumri.  Nú er bara að fylgjast með, og einnig sjá hvernig líkön verða bætt og endurbætt í náinni framtíð. 


Mengun í Kína

KínaÞegar ég var lítill snáði og tregur til að borða hafragrautinn, þá var oft sagt við mig:  “Vertu nú duglegur og borðaðu fyrir fátæku börnin í Kína, sem eru að þjást úr hungri.”  Nú er hungursneyð ekki lengur stóra vandamálið í Kína, heldur mengun af ýmsu tagi.   Árið 2005 fór Kína fram úr Bandaríkjunum hvað snertir útblástur af koltvíoxíði, eins og myndin sýnir. Þetta ár er útblástur Kína af þessu mengunarefni orðinn helmingi meiri en í Ameríku.  Kína er mesti mengunarvaldurinn í heiminum, en um einn fjórði af  þeirri mengun er vegna framleiðslu á vörum, sem eru fluttar út frá Kína.  Frá árinu 2000 hefur Kína orsakað útblástur á um 30% af öllu koltvíoxíði í heiminum.  Á meðan Ameríka og Evrópa draga úr útblæstri sem nemur um 60 milljón tonnum á ári, þá hefur útblástur á koltvíoxíði í Kína aukist um 500 milljón tonn.  Með því ógnar mengun frá Kína öllum heiminum.  Áhrif mengunar í Kína eru margvísleg, bæði í lofti og á landi. Víða er það komið svo, að ekki er hægt að drekka vatn úr ánum og sumstaðar má ekki einu sinni SNERTA vatnið, svo mengað er það.  Í fyrra náði mengun í lofti í Beijing nýjum hæðum. Svifryk komst upp í  40 sinnum meira magn en talið er leyfilegt.  Nú var mælirinn fullur og yfirvöld tóku ákvörðun um að berjast gegn menguninni á allan hátt.   En mengunin er allstaðar og einkum í landbúnaði. Það kom í ljós í könnun árið 2006 að um 10% af öllu landbúnaðarlandi í Kína er mengað af hættulegum þungmálmum eins og kadmíum.  Þegar hátt kadmíum fannst í kínverskum hrísgrjónum þá reyndu flestir kínverjar að útvega sér hrísgrjón frá Taílandi. Síðan hafa yfirvöld ekki viljað gefa út upplýsingar um þungmálmamengun af ótta við uppþot meðal neytenda.    En vatnsskortur og mengun vatns kann samt að vera stærsta vandamálið.   Á Beijing svæðinu er búið að dæla svo miklu vatni upp úr jörðu, að vatnsborð í berginu undir hefur fallið um 300 metra.  Gula Áin er líka menguð, og nú er svo komið að ekki má einu sinni nota vatn úr henni til áveitu á akrana.  Eyðimerkur breiðast út, akrar þorna upp og uppskera stendur í stað eða minnkar. En Kínverjar gera nú margt til að reyna að draga úr útblastri og mengun. Vatnsaflsorka er nú komin yfir 15% af heildar orkuframleiðslu,  og mikil áhersla er nú lögð á sólar og vindorku. Stærsta vonin er tengd kjarnorku, og þá einkum þóríum orku, eins og ég hef bloggað um hér áður.  En það eru áratugir þar til nýju þóríum kjarnorkuverin koma inn á orkunetið.   Á meðan halda kínverjar áfram að kafna í mengunarþokunni.


Gongshi - Steinar fræðimannsins

GongshiUm 200 f. Kr. tóku kínverjar að nota sérkennilega steina til að skreyta garða sína.  Fyrir suma táknuðu steinarnir fjöllin, og voru þannig mikilvægur þáttur í hugleiðingum.  Stundum voru smærri en sérstakir steinar færðir inn í stofu og stillt upp sem listaverki, eða þá  til að færa fjallið inn í húsið.     Nafnið Gongshi má þýða sem steinn andans, en það vísar að sjálfsögðu  til hugleiðingar.  Japanir tóku upp þennan sið frá kínverjum, en í Japan er steinninn nefndur Suiseki.  Á ensku er Gongshi kallaður scholar´s rock, eða steinn fræðimannsins eða þá spirit stone.   Upphaflega voru Gongshi steinar valdir valdir úti í náttúrunni vegna sérkennilegs forms steinsins. Oftast voru þeir kalksteinar eða marmari, sem hafði fengið á sig fantatískt form vegna veðrunar og rofs yfir langan tíma.  Kínverjar líta á slíka steina sem gersemar og setja þá á stall í heimili sínu.  GongshiÞað skiftir öllu máli að steinninn hafi skapast úti í náttúrunni og að honum hafi ekki verið breytt af mannshöndinni á neinn hátt.  Á síðari árum hefur risið upp heill iðnaður í Kína við að falsa slíka steina með slípun og öðrum aðferðum, til að líkja eftir hinum fornu náttúrusteinum, og nú eru eftirlíkingarnar allstaðar boðnar fram til sölu.  Það fer ekki framhjá neinum íslending, að Gongshi steinar eru nauðalíkir íslenskum hraunsteinum eða gjalli. 


Beinin frá Vopnafirði

 

 

ÞuríðargilÁrið 1980 fann Grétar Jónsson frá Einarsstöðum í Vopnafirði nokkur smábein í setlagi.  Hann var á ferð í Þuríðargili í um 330 metra hæð yfir sjó.  Rauði hringurinn á myndinni sýnir Þuríðargil, þar sem Þuríðará rennur úr Þuríðarvatni.  Beinin eru sýnd á annari mynd, sem Friðgeir Grímsson og félagar birtu. Á myndinni er strik, sem er 2 cm skali.  Þessi litlu bein, sem eru vart meira en 3 cm á lengd, eru talin vera úr spendýri og sennilega litlu dýri af hjartarætt.   Grímsson oflÞau fundust í  rauðum sandsteini í Bustafellsmynduninni, en Bustafellsmyndunin eru sandsteinslög, talin vera frá Plíósen, eða milli 3 og 3,5 milljón ára að aldri.   Ef rétt reynist, þá eru þetta EINU minjar eða steingervingar af land spendýrum, sem fundist hafa á Íslandi.  Þetta kann því að vera mikilvægt sönnunargagn um, að einhvern tíma í jarðsögunni hafi landbrú verið milli Íslands og nærliggjandi landa, annað hvort til austurs eða vesturs. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband