Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Flúoríð mengun

Flúor mengun

 

Það kemur alltaf betur og betur í ljós, að opinbert eftirlit á Íslandi með matvælum, vörum, umhvefi, mengun og bókstaflega öllum atriðum sem snerta neytandann og hinn almenna bogara er sérstaklega veikt og lélegt og því fer hrakandi.  Bæði Ólafur Stephensen og Stefán Ólafsson hafa bent nýlega á þetta vandamál á prenti varðandi stjórnsýslu landsins.   Áður fyrr voru Neytendasamtökin mjög virkur aðli, sem bar hag almenning í brjósti, en nú virðist mér að við heyrum miklu minna úr því horni. Landvernd hefur hins vegar verið dugleg við að fjalla um náttúruverndarmál, en hefur ekki undan í dag, þar sem krafturinn í virkjanamálum og stóriðnaði virðist fara sívaxandi.

Öðru hvoru heyrum við um flúoríð mengun umhverfis álver á Íslandi og er það áhyggjuefni.  Flúor er eitt efnahvarfgjarnasta frumefni á jörðu og þess vegna er það nauðsynlegt við álbræðslu. Þá er blandað saman krýólíti (Na3AlF6) eða sviðuðum hvata og álríkum jarðefnum (báxít  eða súrál Al2O3) í rafknúnum bræðsluofnum og við það myndast eða skilst frá málmurinn ál.  Fúór-ríku íblöndunarefnin lækka bræðslumarkið frá yfir 2000 og niður að um 1000 gráðum C.   Við bræðsluna losna mengandi efni út í andrúmsloftið og er rætt um að fyrir hvert tonn af ál berist út 0,6 kg af flúoríði út í loftið og einnig um 0,6 kg af flúor-ryki.   Mér skilst að Alcoa Fjarðarál noti um 5450 tonn af álfúorið á ári og fer mikill hluti þess flúors út í andrúmsloftið. Kortið sýnir staðsetningu verksmiðju Alcoa Fjarðarál á ströndinni rétt fyrir austan byggðina í  Reyðarfirði.  Almennt er talið að óæskilegt sé að flúor fari yfir 30 til 50 míkróg/g í heyi eða grasi.  Eins og glöggt kemur fram á kortinu, þá er gildi flúors í grasi víða yfir 50 míkróg/g (rauðu blettirnir) og sex mælingar eru jafnvel yfir 100 míkróg/g.  Mér er ekki kunnugt um hvað mikið magn af flúor Alcoa er leyfilegt að dæla út, en hér er hættulegt ástand að þróast.


Þóríum orkuver er framtíðin


Kapphlaupið er hafið.  Það er kapphlaup um hver er fyrstur til að byggja ný þóríum kjarnorkuver á jörðu.  Ég hef áður bloggað um þóríum hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1280271/     Yfirvöld í Kína hafa látið boð út ganga um að hraða verði byggingu fyrsta þóríum orkuversins og skal það vera tilbúið á tíu árum en ekki 25 árum, eins og áður var boðað.  Ákafinn er sagður jafn mikill og þegar menn undirbúa sig í styrjöld.  Við fögnum öll þessum ákafa Kínverja, því þóríum orkuverin munu draga úr eða jafnvel leiða undir lok brennslu kola, olíu og jarðgass, sem mengar allan heiminn.  En vesturlönd eru enn sofandi í þessu máli.  Þau reka enn gamaldags úran kjarnorkuver,  sem nota tækni sem  var  upphaflega þróuð fyrir kjarnorkuknúna kafbáta í kringum 1950.   Þóríum orkuver eru hreinni, ódýrari og öruggari í rekstri heldur en úran orkuver.  Einnig er lítil hætta á að þóríum sé beitt sem kjarnorkuvopnum og útbreiðsla þeirra sem vopn því ekki vandamál.   Það er enginn skortur á þóríum á jörðu.  Mestar birgðir af þóríum er að finna í Ástralíu, Bandaríkjunum, Tyrklandi, Indlandi og Venezuela.  Sennilega eru mjög miklar birgðir af því að finna í bergi á suðvestur Grænlandi.  Efnið þóríum kemur aðallega fyrir í kristöllum eða steindum sem heita monasít.  Það er jarðefni eða kristaltegund, sem inniheldur mikið magn af Rare Earths eða sjaldgæfu málmunum.   Það er eitt ár síðan Kína byrjaði á þóríum verkefninu eins og greinir frá í South China Morning Post.  Fyrrum forseti Jiang Zemin skipaði son sinn  Jiang Mianheng til að stjórna því.  Hann fékk í upphafi $350 milljón og 140 vísindamenn með doktorsgráðu til starfa. Á næsta ári verða vísindamennirinir orðnir 750.  Svo virðist sem þeir stefni í að byggja þóríum kjarnorkuver af þeirri tegund sem Bandaríkjamaðurinn Alvin Weinberg þróaði árið 1962.  En Nixon forseti rak Weinberg og lokaði þóríum orkuverinu.  Nixon vildi úran orkuver, en þau framleiða, auk orku, einnig hið illræmda geislavirka efni pútóníum, sem er nauðsynlegt til að smíða kjarnorkuvopn.  Kalda stríðið réð ferðinni þá, og Bandaríkjamenn hafa ekki enn vaknað af svefninum.    Í Ameríku hefur NASA verkfræðingurinn Kirk Sorensen hafið áróðursherferð til að vinna að þóríum orkuverum, en Ameríkanar hlusta ekki á hann.   Kínverjinn Jiang Mianheng fór þá til Bandaríkjanna og komst yfir teikningar af orkuverinsu, sem Alvin Weinberg hafði uppgötvað og fór með gögnin til Kína.  Þeir eru nú þegar að reisa 28 orkuver.Þóríum orkuver

Myndin sem fylgir gerir samanburð á úran orkuveri (fyrir ofan) og þóríum orkuveri (fyrir neðan), sem hvort um sig framleiðir  1 GW af orku, en það er töluvert meira en Kárahnjúkar framleiða.   Úran orkuverið þarf 250 tonn af úran til verksins, og afgangurinn er 35 tonn af geislavirkum efnum, sem  verður að geyma undir mjög erfiðum aðstæðum í meir en tíu þúsund ár.    Til samanburðar þarf eitt tonn af þóríum í orkuverið, en afgangurinn er efni, sem geyma þarf aðeins í tíu til 300 ár þar til það er orðið óvirkt og hættulaust.  Kostirnir við þóríum eru augljósir og reyndar ekki auðvelt að skilja að helstu ríki heims hafi ekki sett meiri kraft í rannsóknir á þessu verkefni og byggingu þóríum orkuvera. Kínverjar eru að flýta sér, því þeir eru að kafna í kolaryki.


Óvissustig

Lýst hefur verið óvissustigi umhverfis Mýrdalsjökul vegna vatnavaxta og brennisteinsfýlu í Múlakvísl.  Það er gott og blessað og allur er varinn góður varðandi Kötlu.  En glöggur lesandi hefur bent mér á, að Almannavarnir gefa út tilkynningar öðru hvoru um óvissustig, en aldrei er tilkynnt þegar óvissustigi lýkur.  Það virðist bara fjara út og gleymast.  Væri ekki rétt að gefa í skyn þegar mesta hættan eða óvissan er liðin hjá?

Þegar Færeyjar voru við Grænland

FæreyjarNorður Atlantshafið er hlutfallslega ungt á jarðsögulegum tíma.  Fyrir um 55 milljón árum var Grænland hluti af meginlandi Evrópu og þá samfellt land með Skandinavíu og með því landsvæði sem nú eru Bretlandseyjar.  Fyrsta myndin sýnir legu landanna á þeim tíma.  Fyrr hafði landrek eða flekahreyfingar rifið sundur meginlandsskorpuna fyrir vestan Grænland og skilið Baffinseyju frá Grænlandi, en úr því varð nú ekki mikið haf heldur aðeins Davis Sund.  Af einhverjum örsökum hætti gliðnun í Davis Sundi og myndaðist þá mikil sprunga í jarðskorpunni, sem skildi Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum. Það var upphaf Norður Atlantshafsins.  Gliðnunin var samfara mikilli eldvirkni eftir flekamótunum öllum.  Eldvirknin myndaði úthafshrygg á hafsbotni þar sem flekarnir skildust að, en einnig gubbaðist mikið magn af basalt kviku upp á jaðra meginlandanna unhverfis.  Þá varð til blágrýtismyndunin sem er útbreidd á austur strönd Grænlands og einnig á Bretlandseyjum. Á sama tíma hlóðst upp blágrýtismyndunin sem hefur skapað Færeyjar. Önnur mynd sýnir staðsetningu Færeyja á þessum tíma, fyrir um 55 milljón árum, skammt undan austur strönd Grænlands.  Grænland-FæreyjarÞar eru blágrýtismyndanir sýndar með rauðum lit. Eins og myndin sýnir voru Færeyjar þá aðeins um 150 km undan strönd Grænlands.  Nú hefur einnig verið sýnt framá með efnafræði greiningu basalt myndananna að hægt er að rekja sömu myndanirnar milli Færeyja og Grænlands.  Ísland var auðvitað ekki til á þessum tíma, en myndaðist svo miklu síðar (sennilega hefur það byrjað að koma uppúr sjó fyrir um 20 milljón árum) á hafsvæðinu, sem var og er síbreikkandi milli Færeyja og Grænlands.


Þegar möttull Íslands var undir Grænlandi

Basaltsvæði Grænland ÍslandBasaltkvikan, sem veldur eldgosum, myndast við bráðnun í möttli jarðar. Hér á landi er yfirborð möttulsins á um 20 til 40 km dýpi undir jarðskorpunni.  Basaltkvikan, sem kemur upp úr möttlinum og gýs á yfirborði Íslands, er í stórum dráttum allstaðar á landinu mjög keimlík hvað snertir efnasamsetningu.  En þegar jarðefnafræðingar greina viss snefilefni, einkum samsætur eða ísótópa þeirra, þá kemur í ljós að viss svæði á Íslandi hafa séreinkenni hvað snertir ísótópa af efnunum neódiníum og blýi.   Fyrsta myndin sýnir niðurstöður Abigail Barker og félaga um efnafræði basaltkvikunnar á þessum svæðum á Íslandi.  Þar eru þrennskonar svæði afgreind: Reykjanes (rautt),  Snæfellsnes og syðri hluti eystra gosbeltisins (blátt), og að lokum nyrðri hluti eystra gosbeltisins (grænt).  Auðveldasta skýringin er sú, að basaltkvikan á þessum þremur svæðum komi uppúr þrennskonar möttulefni.  Það þýðir að möttullinn undir Íslandi er alls ekki allur eins, heldur ríkja þar nokkrar vel aðgreindar bergtegundir, sem bráðna og gefa af sér mismunandi basalt.  Eftir þennan fremur langa inngang snúum við okkur loks að Grænlandi.  Möttullinn, sem nú er undir Íslandi á sér langa sögu, sem er miklu lengri en aldur Íslands (16 milljónir ára).  Möttullinn “okkar” er fremur óvenjulegur, ef til vill óvenju heitur, og honum er oftast lýst sem “hot spot” meðal jarðfræðinga.  Vegna flekahreyfinga hefur þessi heiti reitur ferðast víða.  Þannig var hann undir Baffin eyju fyrir um 65 milljón árum, síðan ferðaðist hann undir allt Grænland, frá vestri til austurs og var undir Scoresby sundi í austur Grænlandi fyrir um 55 milljón árum. Önnur mynd sýnir dæmigert landslag á austur Grænlandi, þar sem blágrýtismyndunin er alveg eins í útliti og á til dæmis Vestfjörðum.   Takið eftir að heiti reiturinn í möttlinum er reyndar staðbundinn, hreyfist ekki, en jarðskorpan fyrir ofan hreyfist og rekur stöðugt til vesturs.  Ef sami möttullinn var undir austur Grænlandi fyrir 55 miljón árum, þá ætti hann hafa gosið þar samskonar basalti og nú gýs á Íslandi.  Geikie PlateauOg einnig, þar ætti að koma fram sama dreifing basalttegunda hvað snertir bý og neódiníum ísótopa eins og á Íslandi.  Ungfrú Barker og félagar hafa einmitt kannað þessa hugmynd, eins og kemur fram á fyrstu mynd.  Það er mikill stafli af basalt hraunum í og fyrir sunnan Scoresby sund á austur Grænlandi.  Efnafræðirannsóknir á þessum hraunum sýna, að þau hafa sama innihald af bý og neódiníum ísótopum og basaltsvæðin á Íslandi.  Hér í grennd við og fyrir sunnan Scoresby sund eru vel afmörkuð basaltsvæði, sem hafa sömu efnaeinkenni og svæðin á Íslandi, eins og litirnir sýna.  Þetta er reyndar stórmerkilegt, og sýnir að sami heiti reiturinn var forðum undir Grænlandi og er undir okkur nú, og sýnir einnig að vel aðgreind svæði möttulsins koma fram  bæi hér og á Grænlandi.  Að lokum:  Á fyrstu mynd er Ísland og Grænland sýnt í sama stærðarskala.


Kvikuþró - ein stór og önnur lítil

KatlaUndir flestum stórum og langvirkum eldfjöllum er kvikuþró.  Hún er einskonar tankur eða forðabúr af kviku ofarlega í jarðskorpunni.  Í stórgosum tæmist kvikuþróin að miklu leyti og þá kann fjallið að hrynja niður í tómarúmið undir.  Við það myndast hringlaga sigdalur á yfirborði, sem við nefnum öskju eða caldera á erlendum málum.  Katla er eitt af þeim íslensku eldfjöllum, sem talin er hafa kvikuþró á dýpinu, eins og fyrsta mynd sýnir.  Mælingar jarðeðlisfræðinga hafa gefið vísbendingu um kvikuþró á um 1,5 km dýpi undir sjávarmáli, eða um 2 til 3 km undir yfirborði fjallsins. Kvikuþróin er talin um  það bil 5 km í þvermál og gæti rúmmál af kviku í þrónni verið um 4 rúmkílómetrar.  Ólafru GuðmundssonÖnnur mynd sýnir niðurstöður Ólafs Guðmundssonar og annara jarðeðlisfræðinga á skorpunni undir Kötlu.  Ljósa svæðið sýnir staðsetningu kviku í þrónni undir.  Þetta verður að teljast fremur lítil kvikuþró, miðað við það, sem finnst í jarðskorpunni á sumum öðrum eldfjallasvæðum.  Ein þekkasta, best rannsakaða og stærsta kvikuþró sem vitað er um er undir Yellowstone í Bandaríkjunum.  Þriðja mynd sýnir þversnið af henni.  Hún er um 80 til 90 km á lengd og yfir 20 km á breidd. Kvikuþróin er talin vera á dýpinu frá 5 km og ná niður á 17 km undir yfirborði.  Fyrri niðurstöður sýndu að í henni eru um 4000 rúmkílómetrar af kviku en sennilega er það lágmark. YellowstoneReyndar er talið að í þrónni sé blanda af kviku og kristöllum, þ.e.a.s.  einskonar kristal-ríkur hrærigrautur.  En yfirleitt getur kvika ekki gosið ef hún inniheldur meir en 50% kristalla.  Þá er hún einfaldlega of stíf og rennur ekki.  Risastór gos hafa komið upp úr þessari kvikuþró undir Yellowstone. Síðasta stórgosið var fyrir um 640 þúsund árum og þá gaus 1000 rúmkílómetrum af kviku í sprengigosi, sem dreifði ösku yfir alla Norður Ameríku. Hvað er einn rúmkílómeter?  Surtsey er til samanburðar einn rúmkílómeter.  Okkar stærsta gos síðan land byggðist, Skaftáreldar, er um 15 rúmkílómetrar.  Þúsund er alveg ótrúlegt magn, en fyrri sprengigos í Yellowstone hafa verið enn stærri. Til dæmis var gosið fyrir 2,1 milljón árum um 2500 rúmkílómetrar.  Stærsta sprengigos af þessari gerð  varð þó í eldfjallinu Toba í Indónesíu fyrir um 74 þúsund árum,  en þá kom upp 2800 rúmkílómetra á yfirborðið.  Yellowstone er elsti og merkasti þjóðgarður Bandaríkjanna og það er ævintýraland ferðamannsins og jarðfræðingsins. En jarðskopran þar er sífellt á hreyfingu. Jarðskjálftar eru mjög tíðir og land ýmist rís eða sígur. Síðasta gosið í Yellowstone var líparít hraungos fyrir 70 þúsund árum. Það var "aðeins" um 30 rúmkílómetrar að stærð, en hefur ekki valdið miklum umhverfisspjöllum þar sem hraunið var takamarkað í útbreiðslu innan öskjunnar. Enginn veit hver framtíð Yellowstone elstöðvarinnar er.  Kvikan er fyrir hendi í miklum mæli, órói er tíður í jarðskorpunni og allt er fyrir hendi til að stórgos gæti orðið.  En hins vegar hafa engar breytingar orðið, sem benda til að slíks sé að vænta á næstunni.  Á meðan svæðið er rólegt, þá hvet ég alla til að fara til Yellowstone amk. einu sinni á ævinni, því þessi þjóðgarður er engu líkur --  en varist bjarndýrin!  Ég starfaði þar um tíma við rannsóknir árið 1985. Við fórum víða á göngu utan vega um garðinn allan.  Það hafði verið brýnt fyrir okkur að koma bjarndýrunum ekki á óvart.  Ég hafði það þá fyrir sið að halda á steini í vinstri hendi og jarðfræðihamrinum í þeirri hægri, og slá á steininn í hverju spori. Þá heyrðu birnirnir í okkur langar leiðir og vissu hvar við vorum á ferð.  Ef þeir hrökkva við og ef þú gengur milli móður og unga þá getur þú átt von á árás.  Á slíkum gönguferðum er mér ávalt í huga minningin um konu, sem ég þekki.  Hún er jarðfræðingur og vann í Alaska árið 1977.  Það vað hún fyrir árás bjarndýrs og hann bókstaflega át af henni báða handleggina.  Ef þið sækið Yellowstone heim, þá haldið ykkur á göngustígunum!


Er Bigfoot til?

Bigfoot mythMeð tilkomu vísindalegra aðferða má segja, að ekki er lengur hægt að komast upp með það að gera hvaða yfirlýsingar sem manni dettur í hug, því nú eru til aðferðir til að prófa sanngildi þeirra. Í mög ár hafa menn þóttst sjá bregða fyrir í skóginum furðuveru, sem líkist stórum og loðnum manni. Myndin sem fylgir er tilbúin og ekki raunveruleiki.  Í Norður Ameríku er hann kallaður Sasquatch eða Bigfoot. Í Himalayafjöllum kallast hann yeti. Rússar kalla hann Almasty. Stundum sést honum bregða fyrir og stundum finnast risastór fótspor hans í jarðveginum. Stundum skilur hann eftir hár á trjágreinum. Fyrir tveimur árum sendu vísindamenn í Oxford og Lausanne út boð til heimsins, að safna saman einhverjum leifum sem finnast af bigfoot til rannsóknar.  Þeim bárust 57 sýni víðsvegar að úr heiminum, sem voru flest af einhverskonar hárum.  Reyndar reyndust sjö vera af gróðri. Vísindamennirnir, sem voru flestir erfðafræðingar, greindu erfðamengi eða DNA í hinum sýnunum,  en aðeins 30 voru nothæf til rannsókna. Tíu þeirra reyndust vera af björnum, fjögur af hestum, fjögur af úlfum eða hundum, eitt af manni, og hin af kúm, dádýrum, og eitt af ísbirni. Ekkert af sýnunum var því frábrugðið vel þekktum dýrategundum.  Bigfoot er bara plat, eins og aðrar sögusagnir um öll hin skrímslin. Vel á minnst: hvað er að frétta af opinberu rannsóknarnefndinni, sem á að fjall um tilvist ormsins í Lagarfljóti?  Setur hið opinbera pening í slíka vitleysu?


Fracking: niðurdæling sem mengar

Borholur og niðurdælingFyrir 70 árum komu nokkrir jarðfræðingar og verkfræðingar saman umhverfis borholu í Kansas og gerðu tilraun. Þeir dældu niður á  700 metra dýpi blöndu af benzíni og sandi undir miklum þrýstingi í þeirri von, að blandan myndaði sprungur í berginu og losaði þannig um jarðgas.  Borholan fer fyrst niður lóðrétt, en síðan tekur hún boga og gengur lárétt inn í jarðlögin, sem innihalda gasið.  Þetta var byrjunin á aðferð sem nefnist “hydraulic fracturing” eða fracking og hefur hún valdið byltingu í olíu og gas iðnaðinum.  Með þessari aðferð er nú hægt að ná út gasi og olíu úr jarðlögum, sem áður voru talin orðin þurr.  Shale gasBókstaflega að kreista gas og olíu út úr steininum.  Fracking hefur síðan verið beitt við gas og olíuvinnslu í þúsundum borhola í Pennsylvaníu, Texas og Norður Dakóta.  Myndin sýnir að borholum er þétt dreift yfir stór svæði og allt berg er þar undir þrýstingi. Enn er þessari tækni nær eingöngu beitt í Bandaríkjunum og gasið er nefnt shale gas.  Allt í einu eru Bandaríkin orðin fremsti jarðgas framleiðandi heims!  Framleiðsla af shale gasi hefur aukist um 700% í Bandaríkjunum síðan 2007.  Þar með hefur verð á jarðgasi fallið mikið, eins og línurítið sýnir.   Jákvæðar hliðar á fracking eru þær að gasið er ódýrt og dregið hefur mikið úr brennslu kola í raforkuverum í Bandaríkjunum og gas hefur tekið við.  Við það hefur minnkað verulega útblástur af koltvíoxíði og einnig brennisteinsgösum.  Gasverð

En neikvæðu áhrifin eru risastórt vandamál. Umhverfisáhrif vegna fracking eru margskonar.  Efnasamseting vökvans, sem dælt er niður í borholur er iðnaðarleyndamál og hvert gasfyrirtæki hefur sína formúlu.  Rannsóknir sýna að vökvinn er oft einhverskonar díselolía, með ýmsum aukaefnum.  Það á meðal er benzen, sem veldur krabbameini.    Hingað til hefur gasiðnaðurinn haft frjálsar hendur með fracking og af þeim sökum mengað jarðvatn í mjög stórum svæðum í Ameríku.   Hér er listi yfir nokkur af þeim 600 efnum, sem hefur verið dælt niður í sambandi við fracking: benzene, ethylbenzene, toluene, xylene, naphthalene, methanol, formaldehyð, ethylene glycol, saltsýra, og einnig kemur fram í þessum blöndum efni eins og blý, úran, radon, kvikasilfur.   Auk þess er vatnsþörf fyrir fracking gífurleg.  Ein borhola tekur um 15 milljón litra af vatni og það hefur því mikil áhrif á vatnsbúskap á yfirborði jarðar.  Hin hliðin er að fracking er að menga og eyðileggja jarðvatn á stórum svæðum.  Oft er þetta jarðvatn, sem er aðal uppspretta drykkjarvatns á þessum svæðum. Þegar skrúfað er frá krananum í eldhúsinu streymir stundum út froða af metan, vatni og drullu.  Eitt af því versta varðandi nýfundna gasið er, a' það mun seinka þróun sjálfbæra og endurnýjanlegra orkulinda í landinu. Í viðbót við allt þetta, þá veldur fracking einnig jarðskjálftum. En gas og olíuiðnaðurinn er sterkur og hefur góð sambönd í þinginu í Washington DC.  Enn er því löggjöf um fracking á frumstæðu stigi.  Hvílíkt böl, að eiga slík auðæfi í jörðu, sem gera menn viti fjær af græðgi.


í maí var heimsmet

Maí heimshitiLínuritið sýnir meðal hita fyrir maí mánuð á jörðinni allri frá 1880 til 2014. Lóðrétti mælikvarðinn er frávik frá meðalhita fyrir allt 134 ára tímablilið. Þar kemur í ljós, að sá maí mánuður, sem nú er nýafstaðinn, setti nýtt heimsmet í hita.  Hitamælingarnar eru fyrir bæði land og yfirborð hafsins.  Bláu svæðin eru að sjálfsögðu tímabil þar sem hiti er undir meðallagi, en hin rauðu eru tímabil yfir meðallagi.  Maí í ár er 0,74 stigum fyrir ofan langtímameðallagið fyrir jörðina alla.  Gögnin eru frá NOAA.   Þetta er ekki heimsmet, sem ég held mikið uppá eða gleðst yfir. Hnattræn hlýnun verður vaxandi böl fyrir mannkynið og allt lífríki jarðar.   Hitabeltið hefur hingað til verið talið svæðið, sem er milli 23,5 beiddargráðu á norðurhveli og 23,5 breiddargráðu á suðurhveli jarðar.  Í þessu belti er hitinn hár og lítil hitabreyting yfir árið eða yfir sólarhringinn.  Hitabeltið stækkar nú ár frá ári, en það er talið að hitabeltið færist nú norður um 140 til  270 kílómetra á hverju 25 ára tímabili.   Þetta hefur þau áhrif að árið 2050 mun meir en helmingur mannkyns búa í hitabeltinu. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband