Uppruni Brexit: Stórifoss í Ermasundi

ncomms15101-f1.jpgBretland er að skilja við Evrópu með Brexit þessa dagana, en jarðfræðilegur skilnaður frá meginlandinu gerðist miklu fyrr. Bretland var hluti af Evrópu í margar milljónir ára. Samfeldur hryggur af kalksteini tengdi England við Frakkland, sem loðfílar, flóðhestar og menn gengu um, fram og til baka. Það eru aðeins 450 þúsund ár síðan kalksteinsmyndunin var rofin af hamfaraflóði, sem sennilega á sér engan líka. Þá fossaði fram af Hvítuklettum -- the White Cliffs of Dover – þegar nýr farvegur opnaðist frá stóru jökullóni þar sem nú er Norðursjór. Sjávarmál var þá um 100 m neðar en nú í dag, vegna þess að mikið magn af vatni var bundið í ísaldarjöklinum. Farvegir eftir flóðið eru greinilegir á botni Ermasunds, eins og myndin sýnir. Þegar flóðinu lauk hafði nýtt landslag komið í ljós, en landbrú tengdi England við Evrópu alltaf öðru hvoru þar til fyrir um níu þúsund árum. Síðan hefur Bretland verið eyja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband