Eyjafjallajökull andar: GPS Mælingar

 

GPS EyjafjallajökullÉg hef ekki bloggað sem skyldi um niðurstöður GPS mælinga  varðandi gosin í Eyjafjallajökli.   Sigrún Hreinsdóttir hefur fylgst með GPS mælistöðvum sem hafa verið settar upp af Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands umhverfis Eyjafjallajökul.  Allar stöðvarnar hafa sýnt töluverðar hreyfingar á jarðskorpunni síðan í desemberlok, og spegla þær GPS hreyfingar innstreymi af hraunkviku frá möttli jarðar og ínní jarðskorpuna undir Eyjafjallajökli.  Nánar um þetta efni hér

Ég sýni bara hreyfingar á stöðinni á Þorvaldseyri (sunnan eldfjallsins) í myndinni sem fylgir.  Skoðið vefsíðu Sigrúnar til að sjá gögn frá öllum hinum stöðvunum.  Aðeins er hreyfing á norður ásnum sýnd hér. Strax í desember byrjaði Þorvaldseyri að færast til suðurs, þegar eldfjallið lyftist upp vegna innstreymis kviku. Eins og myndin sýnir, þá hafði Þorvaldseyri færst um 60 mm til suðurs áður en gos byrjaði.  Þetta er aðdragandinn, en auðvitað var ekki hægt að ráða frá þessum gögnum HVENÆR gos kynni að hefjast, eða HVORT gos yrði.  Strax og gosið á Fimmvörðuhálsi hófst hinn 20, marz, þá breytist ferli á GPS mælinum. Fjallið er ekki lengur að þenjast út, heldur byrjar að jafna sig um tíma. Fljólega byrjar þenslan aftur og er í gangi þegar gosið í toppgíg Eyjafjallajökuls hefst hinn 14. apríl.  Strax og sprengigosið byrjar hefst skyndilega breyting, og fjallið stefnir nú hratt í upprunalegt horf.  Ef þessu heldur áfram, þá ætti fjallið að vera komið í jafnvægi aftur eftir eina viku eða svo.  Það er að segja, GPS mælirinn verður aftur kominn á sinn upprunalega stað.  Þannig “andar” eldfjallið.  Þegar kvika streymir inn í það, þá þenst það upp, en þegar gýs þá sígur það saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voru gerðar einhverjar þéttleika mælingar, í andrúmsloftinu, t.d. yfir Skotlandi, meðan á mesta gosinu stóð?? Gröm/ m3 ??

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 23.4.2010 kl. 20:36

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En stundum vara eldgos mánuðum og jafnvel árum saman. Þá hlýtur að vera um einhverskonar sístreymi kvikunnar að ræða..... ekki satt? Að "jafnvæginu" sé náð með gosi....?

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.4.2010 kl. 20:53

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ólafur: Mér er ekki kunnugt um slíkar mælingar.

Gunnar: Jafnvægi er náð þegar gosinu lýkur.

kv.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 24.4.2010 kl. 02:57

4 identicon

Sæll Haraldur:

Additional plots of VÍ data from GPS station THEY are available here:

http://hraun.vedur.is/ja/Katla2009/they_nordur.html

http://hraun.vedur.is/ja/Katla2009/THEY_faersla.html

Kveðja, Matthew

Matthew J. Roberts (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 11:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband