Eldgosið á Eynni Montserrat

Montserrat 2009Árið 1980 starfaði ég við eldfjallarannsóknir í Vestur Indíum, en það er eyjaklasinn sem skilur Atlantshaf frá Karíbahafi. Flestar eru þessar eyjar eldfjöll sem hafa risið úr hafi vegna flekahreyfinga milli Atlantshafsflekans í austri og Karíbaflekans fyrir vestan. Þá bárust fregnir um dularfulla atburði í Soufriere Hills eldfjalli á eynni Montserrat og ég fór þangað til athugana og kynntist þessari fögru eyju, en hún er nú eina nýlendan sem eftir er af breska heimsveldinu. Ég kannaði hlíðar eldfjallsins Soufriere Hills á suður hluta eyjarinnar, og rakst á hverasvæði þar sem bráðinn brennisteinn rann niður úr fjallinu eins og hraun. Það var greinilegt að hiti var að færast í fjallið, eins og kom vel fram fimmtán árum síðar.Gosið í Soufriere Hills hófst árið 1995, eftir fimm hundruð ára dvala eldfjallsins. Strax var ljóst að allur suður helmingur eyjarinnar var í hættu, og þar á meðal höfuðborgin Plymouth, með um 4000 íbúa. Ég snéri aftur til Montserrat árið 1996, en þá var hafinn mikill flótti íbúanna frá eynni. Gosið hélt áfram, en það var með þeim hætti, að mjög seig hraunkvika kreistist upp úr gosopinu og myndaði stóran hraungúl efst á fjallinu. Montserrat 1997Öðru hvoru hrundu stór björg úr hraungúlnum og mynduðu glóandi heitar skirður eða gjóskuflóð niður brattar híðarnar. Árið 1997 hrundi mikill hluti hraungúlsins sem hafði safnast fyrir ofan á gígnum, og myndaði það stórt gjóskuflóð sem drap 19 manns. Skömmu síðar var um 80% af byggðinni í Plymouth eyðilögð af gjóskuflóðum og borgin þá yfirgefin fyrir fullt og allt. Árið 1998 starfaði ég við rannsókn á hafsbotninum umhverfis Montserrat. Yolanda WoodberryÍ þeim leiðangri kom ég við á nágrannaeynni Antigua. Þar hitti ég fyrir tilviljun svörtu listakonuna Yolanda Woodberry sem býr þar. Við ræddum um gosið og hún sagðist hafa glóandi fjallið fyrir augunum daglega, og væri byrjuð að mála gosið. Þannig eignaðist ég olíumálverkið af gosinu í Soufriere Hills eftir Woodberry, sem hangir uppi í Eldfjallasafni í Stykkishólmi, og er hér til hliðar. Myndin sýnir eldvirknina að nóttu til, þar sem glóandi heitir og eldrauðir straumar af grjóti og ösku streymir niður hlíðarnar, þegar hraungúllinn hrynur. Ljósmyndin hér fyrir neðan sýnir samskonar fyrirbæri. Á daginn sést glóðin lítt eða ekki, þar sem gjóskuflóðin hylja hlíðarnar og fela glóðina. Soufrier Hills heldur áfram að gjósa, og í gær fór gjóskustrókurinn í 16 km hæð og gjóskufall truflaði flugsamgöngur í Karíbahafi.Soufriere Hills á nóttinni

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli eldgos í Eyjafjallajökli muni líta svona út þegar sú eldstöð fer að gjósa.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 02:11

2 identicon

Kvikan sem kemur uppí Montserrat er súr, seig og myndar hraungúl. Slík gos gerast mjög sjaldan á Íslandi. Hér á landi er kvikan oftast basísk - basalt - þunnfljótandi og rennur sem hraun, eða súr og gas-rík og myndar sprengigos. Dæmi um hraungúl á Íslandi er Mælifell á Fróðárheiði á Snæfellsnesi, sem myndaðist sennilega skömmu eftir að ísöld lauk. Eyjafjalajökull hefur gosið bæði súrri og basískri kviku, en likurnar á gjóskuflóðum þar eru litlar, að mínu áliti. Annars held ég að sennlegast sé ad Eyjafjallajökull skili kvikunni mest sem innskoti grunnt undir eldfjallinu, en ekki á yfirborði. Órói í eldfjöllum þarf ekki að enda með gosi.

haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 13:04

3 identicon

Samkvæmt sjálfvirkri GPS mælingu á færslu í Eyjafjallajökli, þá er færslan í dag orðin rúmlega ~22mm og hefur verið að aukast hægt og rólega síðan í Desember, eftir að núverandi hrina í Eyjafjallajökli hófst.

Jarðskjálftanir sem hafa verið í Eyjafjallajökli í Janúar og fyrri hluta Febrúar hafa tekið sig upp aftur eftir smá hlé núna um miðjan Febrúar. Þannig að er mikið að gerast undir Eyjafjallajökli, sem heldur áfram að þenjast út samkvæmt GPS mælingum.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 20:04

4 identicon

Þetta er gífurleg þensla, en þó ekki eins mikil og í Sánkti Helenu í Washington fylki í Bandarikjunum árið 1980, en hlíð fjallsins bógnaði eða þandist út um nokkra metra á nokkrum viku. Þá var gúll af kviku að koma sér fyrir undir yfirborði, inni í eldfjallinu. Að lokum var þenslan svo mikil, að norður hlíð fjallsins varð of bröt og skriða féll úr hlíðinni. Þá létti á kvikunni í gúlnum neðan jarðar og sprengigosið hófst. Eldfjallafræðingar áttuðu sig ekkert á því sem var að gerast, og höfðu komið sér fyrir undir norður hlíðinni og sumir þeirra fórust. Nú vitum við meira...

Hver er slóðin á þennan GPS mæli?

haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 20:39

5 identicon

Hérna er vefslóðin beint á GPS mæli Veðurstofu Íslands. Nánari GPS upplýsingar er að finna hérna, ásamt fleiri stöðvum sem Veðurstofa Íslands er með.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 22:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband