Parícutín Eldfjall og David Alfaro Siqueiros

SiqueirosEin uppáhaldsmyndin mín í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er “Eldgos í Paricutín” eftir mexíkanska málarann og byltingarsegginn David Alfaro Siqueiros (1896 - 1974). Eins og mörg verk Siqueiros, þá er myndin máluð með pyroxilin litum. Þessir litir eru mjög sérstakir, og einnig hættulegir. Aðal uppistaðan er nítrósellulós, en pyroxilin efnið var fundið upp af Du Pont fyrir Ford bílaverksmiðurnar og nefnt Duco. Þetta lakk hefur þá eiginleika að þorna mjög hratt en var hættulega eldfimt og óhollt. Myndin er máluð 1962, en hún er af eldgosinu í Parícutín, en það er eldfjallið sem spratt upp í akri bóndans Dionisio Pulido árið 1943 og hét áfram að gjósa í níu ár.  Siqueiros í steininumÉg hef áður bloggað um þeta gos og Dr. Atl, sem einnig málaði margar myndir af gosinu, í pistli mínum hinn 6. október 2009.Siqueiros (1896-1974), ásamt Diego Rivera og Jose Clemente Orozco eru taldir fremstu málarar í múralista hreyfingunni í Mexíkó. Siqueiros var innan við tvítugt þegar hann var skipaður liðsforingi í Byltingarher Mexíkó, og síðar var hann hátt settur í Borgarastyrjöldinni á Spáni. Hann var mjög virkur í verkalýðshreyfingunni í Mexíkó og vegna afskipta hans af stjórnmálum dvali hann mörg ár í fangelsum eða flúði land. Það var einmitt í fangelsinu sem hann málaði flest verk sín, og þar á meðal þetta sem hér er sýnt. Siqueiros byrjaði snemma að taka þátt í byltingarhreyfingunni í Mexíkó, en árið 1911 voru helstu leiðtogar byltingarinnar þeir Pancho Villa, Emiliano Zapata og Pascual Orozco. Baráttan hélt áfram og hann var orðinn kapteinn í byltingarhernum þegar barátunni lauk árið 1918. En hann hélt áfram að vera mjög virkur í stjórnmálum og verkalýðsmálum, enda harður Marxisti allt sitt líf. Árið 1930 var hann fyrst settur í steininn vegna stjórnmálaskoðana, en slapp til Bandaríkjanna árið 1932. Hann snéri aftur til Mexíkó 1934 þegar mildari stjórn tók völdin. siquier 1sStrax og borgarastyrjöldin brautst út á Spáni árið 1936 þá var Siqueiros mættur á staðinn, og var mjög virkur þáttakandi og barðist á móti fasistahreyfingu harðstjórans Francisco Francos þar til 1938. Siqueiros hafði alla tíð verið mikill fylgismaður stalínista í Sovíetríkjunum. Á þessum tíma klofnai Leon Trotsky út úr kommúnistaflokknum og flúði Sovétríkin, en settist að í Mexíkó. Siqueiros reyndi að fá mexíkönsk yfirvöld til að vísa Trotsky úr landi, en árangurslaust. Hann taldi veru Trotskys svo hættulega í Mexíkó að hann skipulagði morðtilraun á hendur honum í maí 1940. Siqueiros safnaði saman 25 listamönnum, verkalýðsleiðtogum og vinum sínum til að gera árás á heimil Trotskýs í Mexíkóborg. Trotsky og eiginkona hans földust undir rúmi og sluppu í þetta sinn. Siqueiros var vísað úr landi og settist að í Suður Ameríku þar til 1943, er hann snéri aftur til Mexíkó. Alltaf hélt hann áfram að mála, en gekk aftur í kommúnistaflokkinn.  siqueiros55Hann var aftur tekinn fastur í Mexíkó árið 1960 og sat inni til 1964. Það var einmitt á þessu tímabili sem hann málaði myndina af Parícutín, sem er sýnd í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Siqueiros undirritaði öll verk sem hann gerði í fangelsi C.P., sem er skammsetning á "Carcel Presidiario" eða fangi í fangelsi. Myndin í Eldfjallasafni er einmitt undirrituð “Siqueiros C.P. 62”.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill eins og reyndar allir. Þessi kappi var flottur málari sem kallaði ekki allt ömmu sína. (Sem ég hef aldrei skilið, því það er flott að kalla allt ömmu sína).

Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 15:16

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Siqueiros var brautryðjandi, en það verður að telja hann dálítið öfgafullan í stjórnmálum. Hins vegar ber að geta þess, að alþýðan í Mexíkó átti mjög erfitt líf á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, og flestir voru nánast þrælar landeiganda. Marxisminn var því eðlileg lausn, sem Siqueiros kaus. Hann beitti hæfni sinni sem listamanns mjög mikið í stjórnmálabaráttunni.

Haraldur Sigurðsson, 22.2.2010 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband