Stóri Skjálftinn í Síle
27.2.2010 | 17:12
Fréttir berast af mjög stórum jarðskjálfta í Síla í dag, 27 febrúar 2010. Að minnsta kosti 900 hafa farist. Hann mældist með styrkleika 8,8 Mw og á 35 km dýpi undir hafsbotninum um 100 km fyrir vestan borgina Chillan í Síle, þar sem allt hristist í meir en tvær mínútur. Til samanburðar var skjálftinn í Haítí 7,0 Mw. Takið eftir að ég gef styrkleikann í Mw, en á Mw (moment magnitude) skala er skjálfti sem er einu stigi hærri um 31,6 sinnum kraftmeiri. Til dæmis er 7,0 skjálfti 31,6 sinnum sterkari en 6,0 skjálfti, og um þúsund sinnum stærri en 5,0 skjálfti.
Stærsti skjálfti sem mælst hefur síðastliðin eitt hundrað ár varð í Síle árið 1960, og hann var 9,5. Þá rifnaði um 900 langt belti með strönd Síle og 1655 manns fórust í Síle en 61 manns fórust á Hawaí, Japan og Filipseyjum af völdum flóðbylgju sem skall á strönd Japan næsta dag.
Myndin til hliðar sýnir dreifingu á jarðskjálftum undir Síle, og eru litir dílanna mælikvarði á dýpi skjálftanna. Með 14 skjálfta stærri en 7,0 síðastliðin 100 ár er Síle eitt virkasta jarðskjálftasvæði jarðar. Skýringin er tengd sibeltinu sem liggur við vestur strönd Suður Ameríku. Hér sígur Nazca flekinn til austurs og niður undir Suður Ameríku flekann á um 80 mm hraða á ári. Kortið til hliðar sýnir sigbeltið undir Síle, og eru litirnir tengdir dýpi Nazca flekans undir meginlandi Suður Ameríku, í hundruðum kílómetra. En það er ekki hraðinn sem skiftir öllu máli, heldur viðnám flekanna þar sem þeir skella saman. Viðnámið er háð eðlisþyngd, hita og aldri flekans sem sígur niður, eða Nazca flekans. Hann er mjög ungur, og hefur myndast og hlaðist upp við eldvirkni tiltölulega nýlega á Kyrrahafshryggnum fyrir vestan. Smát og smátt kólnar 100 km þykkur flekinn, og um leið og hann kólnar þá dregst hann dálítið saman og eðlisþyngdin vex. Sá hluti Nazca flekans sem sígur undir Síle er aðeins um 30 miljón ára gamall. Hann hefur kólnað töluvert en er enn tiltölulega léttur og af þeim sökum rekst hann illa á Suður Ameríkuflekann. Myndin til hliðar sýnir Nazca flekann undir Suður Ameríku, og eru litirnir mælikvarði á dýpi flekans undir meginlandinu. Svarti hringurinn eru upptök 8,8 Mw skjálftans hinn 27. febrúar 2010. Áreksturinn getur stöðvað sigið um tíma og "læst" sigbeltinu, en mikil spenna hleðst þá upp í sigbeltinu, alveg eins og ef við tökum trjágrein og sveigjum hana. Fyr eða síðar kemur að því að spennan er meiri en greinin þolir og hún brotnar. Á sama hátt hleðst krafturinn upp í sigbeltinu undir Síle, þar til krafturinn er meiri en styrkleiki jarðskorpunnar og hún brotnar og jarðskjálfabylgjur dreifast út. Það er aðeins partur af sigbeltinu sem rifnar í hvert sinn. Þess vegna er mikilvægt að kortleggja þau svæði sem hafa rifnað, og enn meira atriði að kortleggja svæðin sem hafa EKKI rifnað. Þar verða stóru skjálftarnir í framtíðinni. Að lokum: það má skýra flest (en ekki allt) í jarðsögunni með flekakenningunni, sem er góður mælikvarði á það að þessi vísindakenning er nokkð næri lagi að vera rétt, þótt hún sé tiltölulega ung ennþá (frá 1963).
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Jarðskjálftar | Breytt 3.3.2010 kl. 18:30 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa frábæru grein sem er gríðarlega áhugaverð og fræðandi!! takk
Guðmudur júlíusson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 17:28
Sæll Guðmundur, og takk fyrir að kíkja inn hjá mér.
Haraldur
Haraldur Sigurðsson, 27.2.2010 kl. 17:38
Takk fyrir þessar góðu upplýsingar.
Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 17:56
Ég þakka fyrir MJÖG fróðleg og vel framsett skrif þín hér á þessu bloggi. Ég lít reglulega við til að upplýsast um jarðfræðileg efni og var einmitt að bíða eftir umfjöllun um skjálftana í Chile. Það er mikill fengur að þínum skrifum. Hafðu bestu þakkir fyrir að deila þekkingu þinni hér svona sskýrt og skilmerkilega á góðri íslensku líka.
IGG , 27.2.2010 kl. 18:04
Þakka upplysingarnar, hér er skjálfrinn í Chile 1960
kv. Sigurjón
Hekla Sól Ásdóttir, 27.2.2010 kl. 18:43
Þakka góðar undirtektir og ábendingu Heklu varðandi skjálftann 1960. Það er vel þess virði að spyrja um muninn á Síle skjálftanum í dag og Haítí skjálftanum fyrr í janúar. Auðvitað er Síle skjálftinn miklu stærri, en samt má búast við minna tjóni, vegna þess að hann er miklu dýpra, hann er undir hafsbotni, hús eru betur byggð í Síle. Haíti skjálftinn var meðal stór skjálfti mjög grunnt undir illa byggðri borg, en Síle skjálftinn var risaskjálfti miklu dýpra og fjær mannabyggðum.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 20:13
Takk fyrir skemmtilega grein Haraldur. Það er magnað hvað þessar flóðbylgjur geta orðið miklar og gengið langt því viðnámið í sjónum hlýtur að vera allnokkuð. Það eru 500 sjómílur til Hawaii en þar búast menn við allt að þriggja metra háum bylgjum.
Þorsteinn Sverrisson, 27.2.2010 kl. 21:22
Aldan fer ótrúlega hratt í hafinu þar sem dýpi er mikið, eða um 800 km á klst. Hæð flóðbylgjunnar á hverjum stað er mikið háð dýpi sjávar fyrir framan ströndina. Nú er búið að senda út tilkynningar um hættuna og því minni líkur á manntapi, en hins vegar hætt við skemmdum á mannvirkjum vegna öldunnar.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 21:39
Sæll Haraldur.
Þökk fyrir fræðandi pistil. Það eru mikil reginöfl að verki þegar flekarnir rekast saman. Mér fannst nóg um Suðurlandsskjálftana tvo, sem voru rúmlega 6 stig á Richter.Sannarlega hefur maður samúð með Zílebúum í þessum hamförum. Þú nefnir í greininni að flekakenningin hafi nokkurn veginn sannað sig þótt hún sé tiltölulega ung og nefnir ártalið 1963. Samkvæmt mínum bókum var þýski jarðfræðingurinn Alfred Wegener fyrstur til þess að setja fram landrekskenninguna 1912 og olli hún víst talsverðum deilum á þeim tíma og var ekki almennt viðurkennd fyrr en löngu síðar. Wegener fórst á Grænlandsjökli árið 1930 fimmtugur að aldri í rannsóknarferð. Nú langar mig að forvitnast um þessa kenningu frá 1963, sem þú nefnir. Er hún byggð á kenningu Wegeners en svo frábrugðin henni að kalla megi nýja kenningu eða tilgátu eða er hún sjálfstæð kenning, reist á öðrum lögmálum og þekkingu en tilgáta Wegeners.
Kær kveðja. Þorvaldur Ágústsson.
Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 00:07
Það er rétt að Wegener kom fram með kenningu varðandi rek meginlandanna, en hann hafði enga hugmynd um hvað var að gerast á hafsbotninum og enga skýringu á því hvaða kraftar væru að verki. Það var ekki fyrr en kortlagning hafsbotnsins fór fram (vegna rannsókna sem voru tengdar kafbátahernaði) að við fórum að skilja mikilvægi flekanna og rek flekanna. Rannsóknir á Reykjaneshrygg voru einmitt einn fysrti þátturinn í því. En Wegener á samt mikinn heiður skilið og nafn hans mun ætið vera hát á lofti meðal jarðvísindamanna. Eins og alltaf (Einstein er undantekning), þá er enginn einn vísindamaður sem stendur uppi í sambandi við einhverja uppgötvun, heldur stendur heil röð af vísindamonnum -- og konum -- á bakvið uppgötvunina.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 00:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.