Eru upptök Íslenska heita reitsins í Síberíu?

heiti reiturinnJarðskorpuflekarnir eru á hreyfingu á yfirborði jarðar, en heitu reitirnir eru nokkurn veginn kyrrir, og fastir eins og þungt akkeri langt niðri í möttlinum.   Þetta er ein höfuð kenningin, sem jarðvísindamenn hafa stuðst við undanfarin ár. Þessu fylgir, að heitu reitirnir skilja eftir slóð eða farveg sinn á yfirborði flekanna. Við vitum hvernig flekarnir hreyfast í dag og getum komist mjög nærri því hvernig þeir hafa hreyfst í sögu jarðar, hundruðir milljónir ára aftur í tímann.  Í dag er miðja Íslenska heita reitsins staðsett nokkurn veginn á 64.5° N og 17° W, undir Vatnajökli norðanverðum. Þar undir, djúpt niðri í möttlinum, á þessari breidd og lengd, hefur hann ætíð verið, milljónir ára. En hver er saga hreyfinga fleka yfir þessum reit í gegnum jarðsöguna? Það hefur verið kannað all náið, til dæmis af Lawrene Lawver og félögum (2000) í jarðeðlisfræðistofnun Texas Háskóla. Saga heita reitsins síðustu 50 til 60 milljón árin er nokkuð skýr, en þá rak Grænland yfir heita reitinn, á þeim tíma sem Norður Atlantshaf var að opnast. Þá var Grænland hluti af fleka Norður Ameríku og á leið sinni til norðvestur fór Grænland yfir heita reitinn og þá gaus mikilli blágrýtismyndun, fyrst á vestur og síðar á austur Grænlandi. Heiti reiturinn eða möttulstrókurinn undir honum, var grafkyrr, staðsettur nokkurn veginn á á 64.5° N og 17° W, þegar Grænland rak framhjá. En Lawver og félagar hafa rakið söguna miklu lengra aftur í tímann. Þeir telja að fyrir um 250 milljón árum hafi Síbería verið fyrir ofan möttulstrókinn eða heita reitinn sem við nú kennum við Ísland. Myndin sem fylgir sýnir útlínur meginlandanna fyrir 200 milljón árum, og er staðsetning heita reitsins (64.5° N og 17° W) sýnd með rauðum hring. Glöggir menn átta sig fljótt á landakortinu: Ameríka er hvít, Grænland er fjólublátt, Bretlandseyjar gular, Skandínavía, Rússland og Síbería eru græn. En Ísland er að sjálfsögðu ekki til (kom fyrst í ljós fyrir um 20 milljón árum) og Norður Atlantshaf hefur ekki opnast. Nú vill svo til að mesta eldgosaskeið í sögu jarðar hófst í Síberíu fyrir um 250 milljón árum og þá myndaðist stærsta blágrýtismyndun sem við þekkjum á jörðu: Síberíu basaltið. Í dag þekur það landflæmi sem er um 2,5 milljón ferkílómetrar.  Samkvæmt þessum niðurstöðum markar sá atburður upphaf Íslenska heita reitsins. Hann er þá ekki Íslenskur eftir allt saman: Hann er reyndar Rússneskur að uppruna, ef kenning Lawvers og félaga stenst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skrif þín, dr. Haraldur, eru afar fróðleg, en vekja skuggalegar kenndir, sérstaklega uppl. þínar fyrr um mikil og víðtæk sprengigos í Síberíu – og svo hitt, að nú virðist svo stutt niður á möttulinn undir Bárðarbungu. Eða hef ég misskilið þig?

Jón Valur Jensson, 29.12.2014 kl. 08:16

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

 Gosin í Síberíu voru fyrst og fremst hraungos, svipað og það sem nú er í gangi í holuhrauni, em miklu stærri. Magn gosefna var mikið og það kann ða hafa valdið útdauða margra tegunda lífríkis á  jörðu. Það er talið að möttullinn sé á um 40 km dýpi undir Bárðarbungu.

Haraldur Sigurðsson, 29.12.2014 kl. 08:49

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér greinargóðar upplýsingar. Fargi af mér létt.

Jón Valur Jensson, 29.12.2014 kl. 08:54

4 identicon

Áhugavert,

skv. myndinni virðast Grænland og upphafsstaður Íslands hafa komið siglandi sunnan úr höfum.

Vekur forvitni um hvort og mögulega að hve miklu leyti heitu reitirnir séu drifkraftur landreksins, og hvað sé vitað um tengslin milli tilurðar landsins, heita reitsins og plötuskilanna sem liggja gegnum landið, hvort jarðskorpan sé að ferðast sem heild í einhverjar áttir óháð heitu reitunum, eða hvort heildar landrekið sé nálægt núlli að meðaltali...?

Kris B (IP-tala skráð) 31.12.2014 kl. 09:57

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Já, Grænland ásamt Norður Ameríku allri rak úr suðri til norðvesturs. Nei, heitu reitirnir eru ekki drifkraftur landreks, en þeir geta hins vegar orsakað sprungur meginlandanna og þannig skapað grundvöll fyrir gliðnun.   Þannig braut Íslenski heiti reiturinn Grænland frá Skandinavíu og Bretlandseyjum og orskaði flekamótin, sem umlykja nú norður hluta Atlantshafsins.  Aðal drifkraftur flekahreyfinganna eru sigbeltin, þar sem jarðsorpan hnígur aftur niður í möttul jarðar.

Haraldur Sigurðsson, 31.12.2014 kl. 10:22

6 identicon

að ýta eða toga, það tvennt hreyfir, ætti sem sagt frekar tog að drífa landrekið áfram, eða kannski (convection) hringhreyfingar á heildina litið?

...og orkan, hlýtur hún ekki að vera að mestu upprunnin að innan, í varmaorku möttulsins, þótt margt annað hafi áhrif, eins og e.t.v. tunglið...?

og alltaf jafn forvitinn um upphaf Íslands:
...að okkar heiti reitur hafi orsakað flekamót þegar hann var laus undan Grænlandi, Ísland komið þar upp og það sé í stuttu máli sagan öll um upphaf landsins?

Gæti stór loftsteinn hafa komið við sögu, kannski miklu fyrr og hinum megin á hnettinum, sbr. vangaveltur Jonathans Hagstrums um andfætlinga meðal heitra reita, og Belleny sem andfætling okkar? 

Kris B (IP-tala skráð) 31.12.2014 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband