Súðir á Grænlandssiglingu

Afi minn, Oddur Val, lóðs eða hafnsögumaður, stýrði oft strandferðaskipinu Súðinni inn Breiðafjörð og til hafnar í Stykkishólmi. Ég hafði ekki mikið velt fyrir mér þessu sérstaka nafni súðin, fyrr en ég fór að grúska í Grænlandsferðum á miðöldum. Súð er auðvitað gamalt norrænt nafn fyrir skip, sem sum bestu skáld okkar hafa nýtt sér í kveðskap á nítjándu öldinni eins og til dæmis Einar Benediktsson í siglingavísum:

 

Siglir dýra súðin mín,

sveipuð himinbjarma,

yfir heimsins höf til þín,

hrundin bjartra arma.

 

Strandferðaskipið Súðin var seld úr landi árið 1949 og var um tíma við Grænland. Það á einkar vel við, því á miðöldum sigldu mörg skip milli Noregs og Grænlands, sem báru súðarnafnið. Sagt er að Ólafssúðin hafi verið stærsta skip sem til Íslands kom á miðöldum, en hún fórst í hafi á leið til Noregs árið 1361 og með henni Gyrðir Ívarsson Skálholtsbiskup. Enn eitt skip sem bar nafnið Ólafssúðin sigldi til Grænlands árið 1381 og sneri aftur til Noregs 1383. Það var meðal síðustu siglinga sem þekktar eru til Grænlands um þær mundir.   Nafnið Ólafssúð kemur einnig fram fyrir eldra herskip. Í sjóorustu í Sogni milli Sverris konungs (1151-1202) og Magnúsar konungs voru það Birkibeinar Sverris konungs sem mönnuðu Ólafssúðina. Það mun hafa verið stærsta skipið í þeirri orustu en þá féll Magnús og um 2000 af hans mönnum. Súðarnafnið var því mjög vinsælt á miðöldum. Maríusúðin sem Sverrir konungur lét smíða í Niðarósi veturinn 1182-1183 var með 33 rúm eða áraraðir á borð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ég man vel eftir Súðinni gömlu. Hún kom oft til Þingeyrar,en líklega hætt þegar Esjan fór að sigla reglulega kringum landið,með viðkomu í hverri einustu höfn. Á Google segir að hún hafi verið smíðuð í Þýskalandi,en Skipaútgerð ísl.keypti hana frá Gautaborg.Skipið varð fyrir loftárás þýskra orrustuvéla Á Skjálfandaflóa 16júní 1943.,þá misstum við 2 sjómenn. -En ég líki oft hæggengi farartækja við súðina,fjölskyldan er nú farin að skilja orða tiltækið.  

Helga Kristjánsdóttir, 28.12.2014 kl. 15:17

2 identicon

Súðn var smíðuð í Þýskalandi 1895, keypt til Íslands 1930 og notuð sem strandferðaskip til 1949, þá seld Útvegi h/f í Reykjavík.  Það félag sendi Súðina til Grænlands sem móðurskip fyrir íslenska trillubáta sem skipið flutti með sér þangað.  Ekki varð sú ferð til fjár og komst skipið aftur í eigu ríkisins 1950, var selt útgerðarmanni í Reykjavík 1951.  Hann seldi svo Súðina til Indlands í febrúar 1952 og var hún þar með úr sögunni.

Þorvaldur Guðmundsson (IP-tala skráð) 28.12.2014 kl. 17:23

3 identicon

Það þótti góður aulabrandari á mínum unglingsárum að segja að það væri  mikið ryðið í Súðinni.

geirmagnusson (IP-tala skráð) 29.12.2014 kl. 08:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband