Landeyjahöfn – Þar sem Jörðin og Kjölurinn kyssast

Herjólfur siglir innStundum er styttsta leiðin ekki besta leiðin, og það kann að sannast nú í samgöngumálum þeirra Vestmannaeyinga.  Allt frá fyrsta degi  hefur hin nýja Landeyjahöfn á Bakkafjöru reynst Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi erfið.  Skipið tekur niðri við hafnarbakkann í Landeyjahöfn á fjörunni og  nú er frekari ferðum frestað en á meðan er höfnin að fyllast af sandi og ösku. Sumir telja hafnarframkvæmdirnar hina mestu vitleysu, og telja þetta “óþarfa framkvæmdir sem hefur verið þrýst fram á pólitíska sviðinu”  en aðrir  líta allt öðruvísi á málið:  “Höfnin er þrekvirki sem var byggð á stað þar sem ekki átti að vera hægt að byggja.”  “Landeyjahöfn er til marks um kjark okkar og snilli.” 

Það hefur verið lengi vitað að það er gýfurlegur sandburður meðfram suður strönd Íslands, og einnig er mikill framburður úr Markarfljóti.  Orkustofnun áætlar til dæmis framburðinn úr Markarfljóti vera um 150.000 m3 á ári.  Siglingastofnun telur að 300 til 400 þúsund m3 berist meðfram ströndinni á þessu svæði ár hvert, en í sterkum suðvestan eða suðaustan áttum getur sandburður með ströndu verið yfir 100 þúsund m3 á mánuði.  Framburðurinn og sandburður meðfram ströndinni orsaka það að hafsbotninn rétt undan ströndinni er á sífelldri hreyfingu.  Þannig hefur til dæmis myndast margra km langt sandrif um 1000 metra undan fjörunni fyrir framan Bakkafjöru, og er dýpi niður á sandrifið um 2 til 4 metrar að jafnaði.  Við slíkar aðstæður virkar ferjuhöfnin eins og risastór trekt þar sem sandburðurinn safnast fyrir.  Þannig  breyta báðir hafnargarðarnir öllu eðlilegu flæði á sandburðinum þar sem garðarnir skaga fram í sjóinn.  Við bætist nú að framburður Markarfljóts í jökulhlaupinu í apríl 2010 var að minnsta kosti 200 þúsund m3 á einum degi!  Það má reikna með eldgosum í framtíðinni og aurburðurinn heldur áfram.  Reksturinn á þessari höfn verður því að öllum líkindum endalaus og mjög dýr barátta við náttúruöflin.  Var einhver að tala um að berjast við vindmyllur?

Hafið þið tekið eftir því, að Bakkafjara skagar dálítið suður út í Atlantshafið, og myndar þannig syðsta tangann hér um slóðir.  Það er ekki tilviljun heldur eru tvær góðar og gildar ástæður fyrir því að svo er:  (a) framburður af aur úr Markarfljóti, og (b) var eða hlé sem Vestmannaeyjar mynda fyrir sunnan áttunum og orsaka þannig söfnun af aur og sandi við Bakkafjöru, eins og myndin til hliðar sýnir.  ölduhæð i suðvestan átt Í framtíðinni, á jarðsögulegum tíma, mun Bakkafjara teygjast enn lengra suður og að lokum umlykja Vestmannaeyjar, á sama hátt og Mýrdalssandur hefur umkringt Hjörleifshöfða og fært hann upp á þurrt land.  Þá þurfa Vestmannaeyingar ekki jarðgöng til að aka til Reykjavíkur. 

Tökum þá Mýrdalssand og Hjörleifshöfða sem nærtækt dæmi um stórkostlegar landslagsbreytingar af völdum eldgos og árframburði.  Við landnám Íslands skagaði Hjörleifshöfði út í Atlanshafið sem langur tangi. Inn af honum að vestan var Kerlingarfjörður, eins og fjallað er um í Landnámabók.   Síðan hafa jökulhlaup frá Kötlu flutt fram ógrynni af viki, ösku og sandi til sjávar og flutt fram ströndina á Mýrdalssandi um 3 til 4 km. Þannig hefur verið talið að Kötlugosið 1918 hafi til dæmis bætt við allt frá 1 til 8 km3, og víst er að ströndin er um 2.5 km sunnar en hún var fyrir gosið 1660.  Að vísu er ekkert sem bendir til að Eyjafjallajökull verði jafn iðinn og eldstöðin Katla, en samt sem áður verður að gera ráð fyrir slíkum hamförum í framtíðinni.  Það hefur auðvitað verið ljóst allt frá landnámsöld að hafnarskilyrið eru slæm á suðurströndinni víðast hvar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Egilsson

Haft er eftir Guðmundi bónda og togaraskipstjóra frá Reykjum í Mosfellssveit að hann hafi sett niður hæl í sandinn fyrir sunnan Hjörleifshöfða þar sem hann hafði sagst hafa togað fyrir Kötlugosið 1918 - reyndar innan landhelgi. Þetta er tekið sem dæmi um framhlaup í kjölfar eldgoss.

Reyndar má búast við, að Bakkafjara nýtist okkar kynslóð a.m.k., svo fremi að ekki komi til mikilla eldgosa í Kötlu eða Mýrdalsjökli. Er á meðan er.

Jónas Egilsson, 6.9.2010 kl. 21:04

2 identicon

Ath. við: Landeyjahöfn – Þar sem Jörðin og Kjölurinn kyssast

Þetta er í aðalatriðum þvæla. Það þýðir ekki að telja bara hvað berst til Suðurstrandarinnar. Meiri partur af því, hverfur út á dýpi í "turbitity currents". Suðurströndin er búin að vera að ganga til baka síðan 1918. Í næsta stórgosi, þ.e. líkt og kom úr Kötlu 1918, rýkur öll suðurströndin fram og byrjar svo að ganga ti baka hægt og rólega. Það eru þessir skrykkir sem menn verða að átta sig á ef þeir ætla að komast að einhverri vitrænni niðurstöðu um sandburð á suðurströndinni.

Jónas Elíasson (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 21:05

3 Smámynd: Njörður Helgason

 Frá Mýrdæling: http://nhelgason.blog.is/admin/blog/?entry_id=1092184

Njörður Helgason, 6.9.2010 kl. 21:30

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er örugglega allt satt og rétt, en eftir stendur að nú er loks komin höfn við suðurströndina sem hefur verið alveg hafnlaus frá landnámstíð. Engin nothæf höfn var þar til nú allt frá Þorlákshöfn til Hafnar í Hornafirði (sem raunar er mjög viðsjárverð). Þessi höfn markar, hvað sem hver segir, tímamót.

Vilhjálmur Eyþórsson, 7.9.2010 kl. 13:54

5 identicon

Góðan daginn.

Las  bloggið þitt og finnst bara skrambi gott ennnn rak augun í BAKKAFJÖRU . Hún er ekki til Landeyjasandur eða Maríufjara er það sem þetta heitir sorrý en allt annað til hamingju Vestmanneyingar verða bara að vera þolinmóðir..

MBK

Harpa Jónsdóttir

Bakka

Austur Landeyjum 

Harpa (IP-tala skráð) 7.9.2010 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband