Klofin menning – Vísindi og Listir

Menning er öll sú skapandi starfsemi sem hefur hafið mannkynið á æðra plan.  Menning nær því yfir mjög umfangsmikið svið,  og þar á meðal auðvitað ritverk, listir, vísindi og tækni.  Síðan ég fluttist aftur heim til Íslands hef ég velt fyrir mér æ oftar hvað vísindi og tækni virðast reyndar lágt skrifuð á yfirborðinu í hinum íslenska menningarheimi.  Hvað er það oft sem þið heyrið fréttir eða umfjöllun um vísindalegt efni í fjölmiðlum hér á landi?  Ríkisútvarpið, oft nendur mesti menningarviti þjóðarinnar, er svo upptekið af bókmenntum og listum að vísindin finna það nær ekkert pláss.  Ég tala nú ekki um tækni!  Minnist þess, góði lesandi, að nær öll þjóðin situr fyrir framan tölvu einhvern hluta dagsins, en aldrei er fjallað um slík tæknileg málefni í fjölmiðlum hér.  Hin “opinbera” menning okkar hefur þróast á vissan hátt, en ekki af tilviljun, og þar hafa reyndar fjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið spilað stórt hlutverk.  Þannig hefur Ríkisútvarpið lyft miklu Grettistaki í að gera klassíska tónlist aðgengilega og aðlaðandi.  Eldri kynslóðin man sennilega vel eftir því, fyrir um fimmtíu eða sextíu árum, þegar klassísk tónlist eða jafnvel heilar symfóníur voru fyrst leiknar í útvarpinu.  “Æ, nú byrjar þetta helvítis garg!  Góða slökktu á þessu” sagði bóndinn stundum við húsfreyjuna þar sem ég var einu sinni í sveit.   En smátt og smátt síaðist klassíska tónlistinn inn í íslensku sálina, var kennd í barnaskólanum, og þjóðin menntaðist og lærði að kunna að meta og njóta tónlistarinnar.  Nú er “kool” að fara til útlanda til að stunda nám í klassískri list, en alls ekki “kool” að fara erlendis til náms á sviði vísinda og tækni. Þeir krakkar eru jafnvel kallaðir “nördar” og þykja frekar púkalegir.  Þannig heldur klofningurinn milli vísinda og listar áfram og dýpkvar.  CP Snow

Klofningurinn í menningu  byrjaði að koma í ljós á sextándu öldinni.  Allt fram á sextándu öld var litið á allar rannsóknir sem snerta náttúru og eðli heimsins sem einn part af hinni umfangsmiklu og alvitru heimsspeki.  Þannig voru þeir nefndir “natural philosophers” eða heimspekinagr náttúrunnar sem sýndu sérstakan áhuga á vandamálum og spurningum varðandi umhverfið, efni jarðar, eðli hluta, lífíkið og náttúruna í heild.    Það var árið 1959 að breski vísindamaðurinn og rithöfundurinn C.P. Snow flutti stórmerkilegt erindi  í Cambridge háskóla undir titlinum “The Two Cultures and the Scientific Revolution”.   Myndin til hliðar er af Snow, sem síðar varð lávarður og barón af Leicester borg.  Aðal boðskapur hans var sá, að hinn vestræni heimur væri að klofna meir og meir í tvo andstæða menningarheima: raunvísindi annars vegar og listir og hugvísindi hins vegar.  Snow benti á að sambandið milli þessara tveggja menningarheima færi stöðugt versnandi í nútímaþjóðfélagi.  Heimar vísindanna og listanna skiftust ekki lengur á skoðunum og skildu reyndar ekki hvorn annan og það gæti staðið þróun heimsmenningar fyrir þrifum. Það er algjör misskilningur á líta á hugmyndir C.P. Snow sem tilraun vísindanna eða húmanismans að ná yfirhöndinni.  Heldur er þetta viðleitni til að brúa hina miklu gjá, vantraust, grunsemd og  skilningsleysi, sem hefur mjög slæm áhrif á viðleitni okkar til að beita vísindum og tækni til betrunar mannkynsins. 

Hver er orsök fyrir klofningnum, og hvað er hægt að taka til bragðs til að sameina frekar hina tvo heima menningarinnar?    Mér sýnist að það sé  ekki gott jafnvægi í viðhorfum til vísinda og lista.  Það virðist vera boðlegt fyrir rithöfundinn eða listamanninn að vita ekkert um vísindi, og jafnvel státa sig af því, en  hins vegar er búist við að vísindamaðurinn fylgist með því helsta sem er að gerast í listum.  Í menntaskóla hjálpar það ekki til að nemendum hefur verið skift í fremur andstæðar stærðfræði- og máladeildir.   En ef til vill er sökin að nokkru leyti vísindunum að kenna. Vísindamenn eru yfirleitt ekki sérlega lagnir við að ræða almenning um sín störf og gildi vísindanna, heldur láta það nægja að birta niðurstöður af sínum rannsóknum á ensku í erlendum alþjóðaritum.  En  það þarf stórt átak til að flytja boðskað vísindanna til almennings, alveg eins og Ríkisútvarpið kenndi okkur að elska klassíska tónlist.  Til frekari umhugsunar, þá vísa ég  á skemmtilega ritgerð eftir Richard King um vandann mikla að brúa bilið milli vísinda og listar: http://richardjking.blogspot.com/2010/07/flesh-and-stardust-meanjin-volume-69.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband