Haroun Tazieff og Stefnumót með Djöflinum


Les Rendez-vous du DiableÍ Eldfjallasafni í Stykkishólmi er fallegt plakat eða auglýsing fyrir heimildakvikmynd um eldgos.  Það er reyndar gert í gömlu Sovíetríkjunum, en auglýsir myndina “Les Rendez-vous du Diable” eða Fundur með Djöflinum, eftir Haroun Tazieff.  Hann Haroun Tazieff var mjög sérstakur maður.  Þegar ég var stúdent í kringum 1964, og starfandi með Sigurði Þórarinssyni og öðrum íslenskum eldfjallafræðingum, þá var stundum kvíslað á göngunum:  “Tazieff er að koma!”   Þá birtist þessi goðsögn, og sópaði af honum.   Þá var hann á ferð til að kvikmynda Surtseyjargosið, og önnur merk eldfjöll á Íslandi.  Ég átti eftir að hitta hann nokkrum sinnum á ýmsum fundum, og síðast í vestur Afríku, eins og ég kem að síðar.  Ekki vorum við þá alltaf sammála.  Tazieff var sannur heimsborgari sem var fæddur í Varsjá í Pólandi árið 1914 og lést í París árið 1998.  Í æsku fluttist Tazieff til Belgíu þar sem hann var við nám í landbúnaðarfræðum og einnig í jarðfræði, og síðar settist hann að í Frakklandi.   Árið 1984 var hann gerður að sérstökum ráðherra til að fjalla um náttúruvá og umhverfismál.  Hann varð svo frægur í Frakklandi að þeir gáfu út frímerki með honum við andlát hans.  Annars var hann frekar óheppinn í yfirlýsingum sínum.  Eitt sinn spáði hann því að stór jarðskjálfti myndi skella á Frakkland,  en ekki hefur sú spá ræst.   Tazieff var ekki sannfærður um hlýnun jarðar, þvert á móti.  Hann lýsti því yfir að kenningin um hlýnun jarðar væri hreinn uppspuni, og væru tómar lygar.   Einnig hélt hann því fram að gatið í ózón laginu hefði ekkert með flúrokarbon efni að gera, heldur hefði gatið verið þegar komið á himinn árið 1926, laungu áður en flúrókarbon efni voru fundin upp.  Þetta var auðvitað vitleysa.   En samt sem áður var Tazieff áhrifamikill og vinsæll meðal almennings, sökum þess að hann hélt áfram að framleiða mjög vinsælar heimildamyndir af eldfjöllum sem voru sýndar um heim allan.   Það er ekki oft sem jarðfræðingar eða eldfjallafræðingar ná hylli lýðsins eða verða frægir, en það gerði Tazieff. Sennilega hefur hann lært af meistaranum sjálfum, Jacques Cousteau, en þeir unnu sman á sextugasta áratugnum.  Einn af lærisveinum Tazieffs var Maurice Krafft, sem ég mun fjalla um síðar. Tazieff á frímerki

Síðasta sinn sem ég hitti Tazieff var í lyftu í hóteli í Yaounde, höfuðborg Kameroon í vestur Afríku.  Við vorum á alþjóðafundi jarðfræðinga, þar sem fjallað var um dularfullar gas sprengingar sem gerðust í gígvötnum í Kameroon  árin 1984 og 1986.  Ég var sá fyrsti til að rannsaka þessi fyrirbæri og þá kom ég fram með þá kenningu að sprengingarnar væru ekki af völdum eldgosa, heldur vegna koltvíoxíðs sem safnaðist fyrir í botni gígvatnanna. Tazieff var algjörlega ósammála, taldi að sprengingarnar væru venjuleg eldgos, og leit mig illum augum í lyftunni.  Hann sagði að ég væri svikari eldfjallafræðinga, að  láta mér detta í hug að halda fram að þetta væri ekki eiginlegt eldgos.  Síðan hafa aðrir jarðfræðingar samhyllst mína skoðun,  og eru sprengingarnar fyrstu og einu tilfellin sem við vitum um af þessu tagi.  Hvað sem öðru líður, þá var Tazieff ágætur kvikmyndaframleiðandi og gerði mikið til að vekja athygli almennings á stórbrotinni fegurð og tign mikilla eldgosa -- en hann var ekki mikill vísindamaður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband