Þegar Vilhjálmur Stefánsson stakk af

 

Ferð KarluksFyrir um eitt hundrað árum, árin 1913 og 1914, urðu þáttarskil í sögu heimskautarannsókna. Þessi ár lögðu af stað tveir síðustu leiðangrarnir í tréskipum, fyrir daga loftskeyta, sendistöðva og flugvéla. Annar leiðangurinn var á skipinu Endurance, undir Stjórn Ernest Shackleton.  Hann stýrði í átt að Suðurpólnum, og veitti mönnum sínum frábæra forystu í gegnum skipsbrot og aðrar miklar hörmungar, en honum tókst að koma þeim öllum aftur heim, heilu og höldnu. Hinn leiðangurinn var á skipinu Karluk í átt að Norðurskauti, undir stjórn Vilhjálms Stefánssonar.  Vestur Íslendingurinn stakk af:  hann yfirgaf bæði skip og áhöfn þegar á reyndi.  Ellefu af tuttugu og fimm þátttakendum leiðangurs hans fórust.  

Að minnsta kosti þrjár bækur hafa nú komið út, þar sem fjallað er um Karluk leiðangurinn. Ein þeirra er eftir skotann William Laird McKinlay (1976) sem var einn af vísindamönnum leiðangursins. Önnur bókin er eftir sjálfan skipstjóra Karluks, Robert Bartlett (1916, 2007), og sú þriðja eftir Jennifer Niven (2000).  Ég las nokkuð af þessu merkilega efni nú yfir hátíðirnar. Þessar áreiðanlegu heimildir um afdrif leiðangursins, áhafnarinnar á Karluk  og undarlega framkomu Vilhjálms Stefánssonar er ekki fallegur lestur.   

Karluk var 39 metra langt tréskip, með 13 manna áhöfn. Um borð voru auk þeirra voru 10 vísindamenn og 7 eskimóar, sem voru veiðimenn leiðangurins.  Þeir sigldu frá Alaska og síðan inn á Íshafið um Beringssund. Í byrjun ágúst voru þeir komnir í lausan og gisinn rekís, en Vilhjálmur gaf skipun um að sigla norður, inn í ísinn. Hann var að leita að nýju og áður óþekktu meginlandi, sem hann taldi vera í grennd við Norðurpólinn.  Skipið sat nær strax fast í ísnum, sem teygðist eins langt og augað eygði.  Vilhjálmur varð fljótlega órólegur um borð og þoldi ekki biðina.  Hinn 20. september yfirgefur hann skipið Karluk og lýsir yfir að hann ætli að skreppa í veiðiferð á hafísnum í nokkra daga. Hann tekur með sér tvo eskimóa veiðimenn, nokkra hundasleða, þrjá vísindamenn og miklar birgðir. Vilhjálmur sagðist munu koma til baka eftir viku til tíu daga.

Karluk var enn fastur í  ísnum og rak fyrst til austurs en síðar nokkuð hratt til vesturs. Á meðan hélt Vilhjálmur yfir ísinn til suðurs og tók land í Alaska með fámennt lið sitt. Hann gerði  enga tilraun til að hafa aftur samband við skipið Karluk.  Næstu mánuði rak skipið með hafísnum stöðugt til vesturs. Úti var hörkufrost, vetur og myrkur. Stöðugt óx óttinn um, að skipið myndi brotna vegna hins gýfurlega þrýstings.  Ísinn kreisti skipsskrokkinn og miklir brestir dundu yfir öðru hvoru. Bartlett skipstjóri gerði sér grein fyrir að innan skamms myndi skipið brotna og flakið sökkva í hafið. Hann skipaði því áhöfninni að fytja birgðir út á ísinn og reisa þar búðir skammt frá skipinu. Karluk í ísnumEftir nokkra daga var kominn stór bingur af birgðum á ísnum: 250 kolapokar, 6 kassar af saltfisk, 114 kassar af kexi, 9 hundasleðar, 3 kolaofnar, 33 kassar af benzíni, 2000 fet af timbri og fleira.  Jólin gengu í gar og enn var áhöfnin um borð, en tilbúin að yfirgefa Karluk ef hættu bæri að garði. Enn rak skipið til vesturs, í átt til Wrangeleyjar í Íshafinu fyrir norðan Síberíu.  

Hinn 10. janúar braut ísinn að lokum skipið og áhöfnin flutti í búðirnar á ísbreiðunni, sem voru á um 73oN breiddargráðu. Á meðan skipið sökk tóku þeir þá ákvörðun að ganga yfir ísinn með hundasleða og birgðir til Wrangeleyjar, sem var nú í um 200 km fjarlægð.  En fyrst var standrað við í búðunum á ísnum og ferðin vel undirbúin.  Fyrsta tilraun til að gang yfir ísinn til Wrangel hófst hinn 21. janúar.  Hópurinn lenti strax í mikilli ófærð, þar sem ísinn hafði hrannast upp í mikla hryggi og á milli voru stórar vakir.  Sumir sneru aftur til ísbúðanna. Næstu daga fóru fleiri hópar af stað yfir ísinn og árangurinn var svipaður: miklar svaðilfarir, kal á fingrum og tám, slys og dauði. Smátt og smátt tókst þeim að merkja færa leið og nálgast eynna. 

Loks var landi náð á Wrangel hinn 12. mars.  Þar er alger auðn, óbyggð eyja, en nokkuð af rekaviði, selveiði og fuglabjarg.  Bartlett skipstjóri gerði sér strax ljóst að nú væri nauðsynlegt að koma boðum til byggða í Síberíu. Hann sá að enginn af áhöfninni var fær um slíka þolraun nema hann sjálfur og einn eskimóinn. Þeir lögðu af stað frá Wrangel yfir ísinn hinn 18. mars og eftir miklar raunir náði Bartlett til Síberíu í byrjun apríl og komst til byggða innfæddra. Það tók nú Bartlett skipstjóra einn mánuð í viðbót að komast yfir Síberíu til hafna í austri, þar sem von var á að fá bát til Alaska.  Hann var staðráðinn í að gera út björgunarleiðangur til hjálpar mönum sínum, sem eftir sátu á Wrangeleyju. 

Þegar Bartlett komst loks til Alaska hinn 28. maí hóf hann strax undirbúning til að senda bát til Wrangel. Á meðan kom í ljós að Vilhjálmur hafði ekkert aðhafst varðandi leit að hinni horfnu ahöfn og skipinu Karluk.  Á meðan versnaði ástandið á Wrangel. Sumir létu nú lífið af næringarskorti og einn skipbrotsmannanna var myrtur. Allir mannasiðir og siðfræði var nú farin land og leið meðal áhafnarinnar og deilur um matarleifar urðu heiftúðlegar.  Aðeins eskimóarnir héldu sönsum og héldu reyndar lífinu í mannskapnum með veiðum. 

Meðal hinna sjö eskimóa sem Vilhjálmur valdi í leiðangurinn á Karluk var ein fjölskylda: faðirinn Kuraluk, kona hans Kiruk og dæturnar Helen (8 ára) og Mugpi (3 ára).  Fjölskyðdan komst öll af, en Mugpi lifði lengst allra leiðangursmanna. Hún létst í Alaska árið 2008, 97 ára að aldri.    Kurruluk fjölskyldanLoks kom sumar á eynni en það var kalt og í byrjun ágúst gekk vetur aftur í garð.  Það var loks hinn 7. september að hjálp barst þegar skip frá Alaska náði loks til eyjarinnar í gegnum ísinn. Ellefu höfðu nú farist af þeim 31 sem upphaflega tóku þátt í leiðangrinum.  

Fréttin um björgun áhafnarinnar af Karluk barst út um allan heim inn 14. september 1914, á sama tíma og fyrstu stórorustur fyrri heimsstyrjaldarinnar byrjuðu að geisa í Evrópu. Fjórtán mánuðir höfðu nú liðið frá því að Karluk sigldi fyrst úr höfn.  Vilhjálm Stefánsson var hvergi að sjá, en ritari hans reyndi að taka viðtöl við skipbrotsmennina með það fyrir augum að birta birta greinar í blöðum og ritum, sem Vilhjálmur hafði samband við. Andúð áhafnarinnar á Vilhjálmi var nú svo mikil, að enginn þeirra féllst á að veita sendimanni Vilhjálms viðtal. 

En Vilhjálmur var ekki af baki dottinn. Árið 1922 gerði hann út leiðangur til Wrangeleyjar í þeim tilgangi að eigna Kanada eynna. Í þennan leiðangur sendi hann fjóra menn og eina eskimóakonu, en hætti sjálfur við þáttöku á síðustu stundu. Allir mennirnir fórust en eskimóakonan Ada Blackjack komst ein af úr þeirri ferð tveim árum síðar.  

Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur.  Einn nefndi hann “an explorer-cum-swindler”.  Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit  á honum og kallaði Vilhjálm “the greatest humbug alive”.   Einnig var gert grín af fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað  “ljóshærðu eskimóana”.  En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað þeð því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur.  Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spennandi efni en skortur á greinarskilum gerir þetta illlesanlegt. Fólk les öðruvísi af tölvuskjám en blaðsíðu og því þarf jafnvel tíðari skil en á síðu.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 17.1.2013 kl. 20:33

2 identicon

Óli,hvað ert þú að tala um ?,Vilhjálmur var skíthæll.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 17.1.2013 kl. 23:11

3 identicon

Hafðu þökk fyrir þessa grein sem og flestar greinar þínar. Las Ísherrann nýlega og það var dapur vitnisburður um þá lygi sem haldið hefur verið að okkur Íslendingum varðandi Vilhjálm.

Alma Jenný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 01:13

4 identicon

Takk fyrir þetta, miklu þægilegra.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 07:41

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Þakka þér fyrir Haraldur- upplýsandi.

Höskuldur Búi Jónsson, 18.1.2013 kl. 08:33

6 identicon

Sannarlega satt að Vilhjálmur var frægur af endemum en ég er ósammála að þessi vitneskja sé að koma fram í nýlegum rannsóknum. Þetta hafa allir vitað sem viljað hafa vita. Það hefur enginn haldið neinu öðru að Íslendingum nema þeir sjálfir. Var sjálfur við rannsóknir á heimskautasvæðum Kanada og í samfélagi þarlendra fræðimanna og innfæddra þykir hann ekki merkilegur pappír. Í þesu sambandi má nefna að Vilhjálmur hvatti kanadísk stjórnvöld til þess að flytja inúíta nauðungarflutningum á norðlægar eyjar heimskautasvæðanna til að styrkja tilkall þeirra til svæðanna sem og þeir og gerðu. Þetta leiddi til dauða hundraða. Það er hreint ótrúlegt að Háskóli Íslands skuli nefna stofnun eftir þessum manni.

kristinn guðjónsson (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 10:20

7 identicon

Þessar sögur heyrði ég sem barn og ólst upp við að Vilhjálmur væri nú kannski ekki eins "trúverðugur" eða "göfugur" og einhverjir vildu halda fram.

Ég get ekki varist þeirri hugsun hvort að einhverjum íslenskum framapoturum hefði ekki bara vantað athygli hérna um árið þegar að safnið var sett á stofn og maðurinn var settur á þennan stall sem hann er kominn á? Við, þessi þjóð, erum jú dáldið gjörn á að sækja í að verða fræg út á "afrek" annarra..

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 20:12

8 identicon

Ég las eina af þessum bókum (líklega sögu Bartlett skipstjóra) og eftir þann lestur missti ég allt álit á Vilhjálmi Stefánssyni. Skildi ekki þá og hef ekki skilið síðan hvað honum er mikið hampað af Íslendingum.
Þessi bók sem ég las var á íslensku og hafði mikil áhrif á mig.

Láki (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 21:41

9 identicon

Las þessa bók fyrir mörgum árum - átti að koma fram hjá mér.

Láki (IP-tala skráð) 18.1.2013 kl. 21:42

10 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Það hvarflar að manni eftir lestur þessa ágæta pistils, Haraldur, hvort síðari tíma útrásarvíkingar hafi ekki að sumu leyti starfað í anda Vilhjálms landkönnuðs?

Hafðu þakkir fyrir að halda þessu til haga og upplýsa okkur fávísari.

Ómar Bjarki Smárason, 18.1.2013 kl. 22:50

11 identicon

Þetta var áhugavert, aldrei vitað mikið um Vilhjálm eins og kannski hinn almenni íslendingur, bara heyrt um hann útundan mér og það í þjóðernislegum hillingum, hefði vonast til að heyra e-ð betra og merkilegra, að hann hefði verið harður af sér og hinn mesti kappi en því miður er greinilega ekki svo (hafði gaman af þessari kenningu um blöndun víkinga og eskimóa á sínum tíma þegar ég heyrði hana en ekkert kom meira og staðfesti það).

p.s.  Heimsótti annars krá Tom Creans (sem var með í Endurance) í sumar í smábænum Annascaul á SV-Írlandi, fékk mér Guinness þar og skoðaði kránna sem er eiginlega safn líka,  tók svo mynd af styttu hans, það var alvöru nagli, traustsins verður og hógvær. Úr Ardada leiðangri Scotts á wiki: "With only one or two days' food rations left, but still four or five days' man-hauling to do, they decided that Crean should go on alone to fetch help. With only a little chocolate and three biscuits to sustain him, without a tent or survival equipment, Crean walked the distance to Hut Point in 18 hours, arriving in a state of collapse. He reached safety just ahead of a fierce blizzard, which probably would have killed him, and which delayed the rescue party by a day and a half. The rescue was successful, however, and Lashly and Evans were both brought to base camp alive. Crean modestly played down the significance of his feat of endurance. In a rare written account, he wrote in a letter: "So it fell to my lot to do the 30 miles for help, and only a couple of biscuits and a stick of chocolate to do it. Well, sir, I was very weak when I reached the hut."

   http://en.wikipedia.org/wiki/Tom_Crean_(explorer)

Ari Egilsson (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband