Bráðnunin mikla á Grænlandi

 

Bráðnun Grænlands júlí 2012Dagurinn 12. júlí árið 2012 var merkisdagur á Grænlandi. Þá í fyrsta sinn bráðnaði yfirborðið á um 98,6% af íshellunni, sem þekur Grænland.  Fyrsta myndin sýnir Grænland eins og bráðnunin kom fram á mælingum frá gervihnetti NASA.  Ég kom til Grænlands þrisvar á síðastliðnu sumri og var vitni af stórkostlegum atburðum, sem fylgdu í kjölfar bráðnuninnar: stór stöðuvötn voru á víð og dreif um yfirborð jökulsins, stórfljót runnu yfir jökulinn milli vatnanna og steyptust niður í hyldjúpar jökulsprungur, jökulhlaup brutust út undan jöklinum og eyddu brúm og vegum. Bráðnun af  þessu tagi hefur ekki gerst síðan árið 1889, og þar á undan fyrir um 700 árum.  Jöklafræðingar sjá vitnesku um slíka bráðnun í ískjörnum við borun í jökulinn. Í kjörnunum koma gömul bráðnunarlög fram mjög greinilega, sem lag af hreinum og tærum ís, alveg eins og sá ís, sem þú færð út úr kæliskápnum og inniheldur enga loftbólur.  Bráðnunin fyrir 700 árum gerðist á hlýskeiði. Loftslag Grænlands

Eins og önnur mynd sýnir, þá hafa verið miklar sveiflur á loftslagi á Grænlandi í gegnum aldirnar. Skömmu eftir Krists burð var hlýskeið, sem er kennt við Rómverja (Roman Warm Period RWP). Því fylgdi kuldatími, sem varði í nokkur hundruð ár (DACP á myndinni).  Þá í kringum 800 til 900 eKr. tók við annað hlýskeið sem kennt er við Miðaldir (MWP).  Í byrjun þessa hlýskeiðs hófst landnám á Íslandi  og íslendingar settust að á Grænlandi í kjölfar landnáms Eiríks Rauða. Þetta hlýskeið gerði löndum okkar fært að nema land hér á Grænlandi. En seint á miðöldum kólnaði aftur og í kringum 1450 var byggðin komin í eyði vegna loftslagsbreytinga.  Litla ísöldin gekk nú í garð (LIA á myndinni).

Það þarf ekki að leita lengra til að fá skýringu á hvarfi byggðar norrænna manna á Grænlandi. Hnignandi veðurfar gerði þeim illmögulegt að heyja fyrir sauðfé og annan búpening og forfeður okkar vildu ekki aðlaga sig að háttum eskimóa, sem kunnu að nýta sér sel, hval og annað sem hafið hefur uppá að bjóða.  Af þeim sökum varð einangrun, hnignun samfélagsins, samdráttur, fólksfækkun og að lokum útdauði og endir á hinni merkilegu tilraun Eiríks Rauða að gera bólfestu hér á nyrsta útjaðri hins byggilega heims.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sá áðan í sjónvarpsþætti um veður, skýringar á tilurð ísalda. Að þar þurfi að fara saman 3 atriði sem hvert um sig endurtaka sig reglulega en ekki í sama fasa nema á löngu millibili og þá kólnar verða sumrin það köld á norðurhveli að ísöld gengur í garð.

Þessi 3 atriði eru; breytingar á möndulhalla,mismundandi staðsetning á sporbaug við vetrarsólhvörf og svo breytilegur sporbaugur.  Hafði ekki áður heyrt/séð þessar skýringar á ísöld.    

Getur verið að einhverjar þessara þriggja breyta orsaki þessi hita og kuldaskeið sem þú nefnir?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.1.2013 kl. 21:59

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Bjarni, þú ert væntanlega að spyrja um svokallaðar sveiflur Milankovitch, sem m.a. má lesa um á loftslag.is, sjá Orsakir fyrri loftslagsbreytinga. Þessar sveiflur hafa klárlega áhrif á loftslag jarðar - en taka þó mjög langan tíma, þúsundir ára, þannig að það þetta hefur væntanlega ekki áhrif til skamms tíma og það þarf væntanlega að horfa til annarra þátta varðandi þessi hita- og kuldaskeið sem Haraldur nefnir.

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.1.2013 kl. 22:49

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Haraldur og takk fyrir góða pistla.

Varðandi Grænland þá gæti verið gagn í hitaferli sem unninn er úr GISP2 ískjarnanum á miðjum Grænlandsjökli. Sjá hér. Velja [Global Temperatures] við vinstri jaðar og skoða síðan þriðja ferlinn að ofan.

Þarna má sjá áætlaða breytingu á hitastigi á þessum stað s.l. 10.000 ár og þar eru merkt inn Minoan warm period, Roman warm period, Medieval warm period og Modern warm period.

Ágúst H Bjarnason, 22.1.2013 kl. 06:57

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst: undarlegt að flokka GISP tölur undir Global Temperatures, eins og þarna er gert.

Ef einhver nennir að skoða myndina sem Ágúst vísar í þá er hún ekki raunhæf mynd af stöðunni í dag. Það vantar hlýnun undanfarna áratuga á myndina og þegar sú hlýnun er bætt við þá sést að núverandi hlýnun er á pari við hlýjustu skeið nútímans (e. holocene). Sem er náttúrulega merkilegt út af fyrir sig þar sem sú hlýnun var af náttúrulegum orsökum (stöðu jarðarinnar miðað við sólu) - en nú er þessi hlýnun að langmestu leyti af manna völdum.

Höskuldur Búi Jónsson, 22.1.2013 kl. 08:19

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Höskuldur

[Global Tempertures] er skipt í marga undirkafla.  Fyrsti kaflinn nefnist An overview to get things into perspective.  Sem sagt til að reyna að setja hitaferla síðustu áratuga í samhengi við fortíðina.

Síðan koma 20 undirkaflar til viðbótar undir  [Global Tempertures], m.a. um "recent temperature"

-

Ástæðan fyrir því að síðustu árin vantar á ferilinn er væntanlega að GISP gögnin, sem ferillinn er teiknaður eftir, ná ekki til síðustu ára, eðli málsins samkvæmt.

Gögnin sem ferillinn er teiknaður eftir gætu verið hér (Richard Alley).

Síðasti punkturinn í gögnunum er:

"1. Temperature in central Greenland

Column 1: Age (thousand years before present)
Column 2: Temperature in central Greenland (degrees C)

          Age           Temperature (C)
       0.0951409         -31.5913"


þ.e. líklega um 1900  ef ég skil þetta rétt.

Hvað ætli hafi hlýnað mikið síðan 1900?  Við gætum prófað að bæta við svo sem 0,8°C sem ætti að vera ríflegt, held ég.

-31.5913 + 0,8 = -30,7913, eða því sem næst -30,8°C

Nú getum við staðsett þennan punkt og framlengt ferilinn.


Þetta er auðvitað bara leikur með tölur sem hefur út af fyrir sig ekkert gildi.
Það gæti þó verið fróðlegt að velta aðeins vöngum yfir því hvar núverandi hitastig ætti að vera á ferlinum, þ.e.a.s. ef mæligögnin hefðu náð til dagsins í dag...

-

Ég hefði ekkert á móti því að einhver hluti hlýnunarinnar á seinni hluta 20. aldar hafi verið af manna völdum, því þá er síður hætta á að hlýnunin gangi til baka eins og fyrir árþúsundi.
Ég verð þó ekki sannfærður fyrr en eftir áratug eða svo...
Kannski fer hlýnunin aftur af stað, kannski mun hitinn standa í stað áfram eins og undanfarin ár, og hugsanlega fer að kólna aftur eftir fáein ár. Það vona ég þó innilega að verði ekki, því ég kæri mig ekki um kulda :-)



Ágúst H Bjarnason, 22.1.2013 kl. 09:53

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Nú ert þú að rugla Ágúst - þú bætir hnattræn gögn ofan á staðbundin. Það er búið að hlýna mun meira á Grænlandi heldur en hlýnað hefur hnattrænt (samanborið við fréttir af bráðnun). Skoðum mynd úr arctic report fyrir árið 2012 (svarta línan):

 http://www.arctic.noaa.gov/reportcard/images-terrcryo/g-fig5.18.jpg

Ef við tökum mismunin á 1900 og 2012 þá sýnist mér við þurfa að bæta við allt að 2,0 °C. Þá erum við komin í- 29,6 á GISP staðnum (áætlað). Mun betri nálgun.

Höskuldur Búi Jónsson, 22.1.2013 kl. 10:49

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Þakka góðar ábendingar varðandi loftslag á Grænlandi. Það er ekki meiningin hér að fjalla um orsakir þessarra breytinga, heldur afleiðingarnar fyrir forfeður okkar. Gögnin varðandi hitafar eru frá GISP2 borkjarnanum í íshellu Grænlands. Varðandi hlýskeiðið á Miðöldum, sjá til dæmis hér: http://www.co2science.org/articles/V7/N22/EDIT.php

Haraldur Sigurðsson, 22.1.2013 kl. 11:58

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hér er mynd af því sem ég var að tala um.

Ég setti punktinn eða litla hringinn um 0,8°C hærra en árið 1900 sem ég held að ferillinn nái til. Þá rak ég reyndar augun í að við hægri jaðar stendur (Approximate global temperature anomaly (Deg.C). Punkturinn sem ég setti er aðeins hærra en "0" á hægri lóðrétta ásnum, þannig að miðað við það hef ég ekki verið að villast mikið.

Það er svo auðvitað annað mál að mjög varasamt er að tengja saman ferla. Við eigum til feril sem sýnir hnattrænt hitastig aftur til um 1840 eins og á ferlinum sem þú birtir, en við höfum engan slíkan ferlil sem nær aldir eða árþúsundir aftur í tímann.

Haraldur var að fjalla um ástand Grænlandsjökul nú og fyrr á tímum og minntist á  "miklar sveiflur á loftslagi á Grænlandi í gegnum aldirnar". Hann fjallar einnig um landnám á Íslandi og Grænlandi. Af þessum sökum hlýtur að vera áhugavert að reyna að gera sér grein fyrir veðurfarsbreytingum fyrr á tímum, áður en hefðbundnar mælingar hófust.

Ég geri mér vel grein fyrir að það er glannalegt að splæsa svona inn á feril, en þetta er fyrst og fremst umræðugrundvöllur. Ætti punkturinn að vera enn hærra, þ.e. meiri hækkun en 0,8°C frá 1900?   Sjálfur hef ég ekki hugmynd.

 http://agbjarn.blog.is/users/fa/agbjarn/img/gisp2-2013-600w.jpg

Ágúst H Bjarnason, 22.1.2013 kl. 12:01

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Haraldur. Takk fyrir ábendinguna varðandi greinina "The Establishment and Demise of the Medieval Nordic Settlements on Greenland: The Role of Natural Climate Change".

GISP2 ferillinn sem ég var af ábyrgðarleysi að fikta við er hér.

Ágúst H Bjarnason, 22.1.2013 kl. 12:18

10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sælir

Ágúst er að leika sér að GISP ferlinum sem er auðvitað skemmtilegt. Ferillinn sýnist mér vera sá sami og má finna hjá http://www.climate4you.com/GlobalTemparatures.htm en þar er tekið fram að hann endi 1855 en ekki 1900 sem Ágúst gengur út frá. Ekki að það skipti svo miklu máli.

Á heimsvísu steig hitastig um c.a. 0,8 gráður á celsíus á 20. öldinni, trúlega eitthvað meira frá 1855. Norðurhvel hefur hlýnað meira en suðurhvel, og því norðar sem maður fer því meiri virðist hlýnunin hafa orðið. Hver hlýnunin hefur orðið á Grænlandi er ekki gott að segja en hér er að finna nokkrar talnaraðir þaðan: http://www.worldclimatereport.com/index.php/2007/10/16/greenland-climate-now-vs-then-part-i-temperatures/

Landnám Íslands og Grænlands fellur ágætlega saman við hlýskeið miðalda en spurning hvort hlýnunin hafi verið orsök landnáms. Mér þykir líklegt að landnám Íslands hefði verið nánast með sama hætti jafnvel þótt meðalhiti hefði verið eitthvað lægri, jafnvel að sama megi segja um Grænland. En landnám og búseta er auðvitað ekki það sama. Landnámið hefur átt sér stað á bakgrunni veiða (einkum rostungsveiða) en búseta byggir á landbúnaði og sjávarútvegi.

Brynjólfur Þorvarðsson, 22.1.2013 kl. 12:54

11 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hver ætli ástæðan sé fyrir því að Ágúst reynir ekki einu sinni að rökræða minn punkt

Höskuldur Búi Jónsson, 22.1.2013 kl. 17:43

12 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Annars notar Ágúst svipaðar aðferðir og við höfum gagnrýnt á loftslag.is, sjá:

Að fela núverandi hlýnun

Þar má sjá, svipað graf - nema búið að leiðrétta og setja núverandi hita: 

 http://www.loftslag.is/wp-content/uploads/2010/05/GISP2graph480.png

Höskuldur Búi Jónsson, 22.1.2013 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband