Er kjarnorkan lausnin?

 

LosunVið íslendingar höfum nokkra sérstöðu í orkumálum, með fremur hreinar orkulindir í vatnsorku og jarðhita. En við erum ennþá undantekningin, þar sem virkjun jarðvarma er enn stutt á veg komin í hinum stóra heimi.  Á meðan halda nær allir jarðarbúar áfram að brenna olíu, gasi og kolum og spúa miklu magni af koltvíoxíði út í andrúmsloftið, menga lofthjúpinn og orsaka hnattræna hlýnun.  

Nýlega kom út merk skýrsla frá þeirri alþjóðastofnun vísindamanna, sem nefnist Global Carbon Project (GCP).  Í skýrslunni Global Budget 2012 er tekinn saman mikill fróðleikur um bruna kolefna og losun koltvíoxíðs.  Eins og fyrsta myndin sýnir, þá vex losun koltvíoxíðs í heiminum stöðugt, og er nú um tíu petagrömm á ári (petagramm er sama og gígatonn, sem er sama og einn milljarður tonna).  Þetta er ógnvænlegt og ekkert virðist hægja á, þar sem meðal hnattræn aukning losunar er um 3% á ári. Evrópulönd

En það sem kom mér mest á óvart í skýrslunni er það, að í nokkrum löndum (Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð, Bretlandi) hefur dregið töluvert úr losun koltvíoxíðs undanfarinn áratug, eins og kemur fram á mynd númer tvö hér til hliðar.  Hið sama er að sega í Bandaríkjunum, eins og þriðja myndin sýnir, þar sem minna koldíoxíð losnar út í andrúmsloftið vegna þess að kolanotkun hefur dregist saman en hagkvæmara og umhverfisvænna jarðgas komið í staðinn.  En hvers vegna hefur þá heildarlosun á koltvíoxíði í heiminum vaxið svo mikið, eins og sýnt er á fyrstu myndinni? Jú, það er auðvitað vegna kola- og olíunotkunar í Kína (og að nokkru leyti í Indlandi), eins og kemur fram á fjórðu myndinni. USA Í Kína er árleg aukning losunar  koltvíoxíðs langmest, eða um 10%.  Kínverjar munu að sjáfsögðu halda áfram að brenna sínum kolum til að keyra verksmiðjur sínar, á meðan vesturlandabúar halda uppi mikilli eftirspurn á kínverskum vörum.

Snúm okkaru aftur að mynd númer tvö, sem sýnir losun koltvíoxíðs í Evrópulöndunum fjórum: Belgíu, Frakklandi, Svíþjóð og Bretlandi.  Hér er smá vonarneisti sjáanlegur. Í þessum löndum hefur tekist að draga úr losun koltvíoxíðs til andrúmsloftsins um 1 til 5% á ári. Það er kraftaverki líkast og þessari staðreynd þarf að halda á lofti. En hvað er það sem gerðist? Í öllum þessu löndum hefur notkun kjarnorku vaxið til muna, sem mikilvæg orkulind.

 Ég hef lengi haft þá skoðun, að kjarnorka verði megin orkugjafi á jörðu í framtíðinni, en auðvitað mun nýting jarðhita, sólar og vinda vaxa samhliða því.  Það eru mörg vandamál, sem þarf að leysa varðandi kjarnorkuverin og eitt það stærsta er: hvað gerir maður við geislavirka úrganginn af cesíum, strontíum og öðrum hættulegum efnum? Hann er geislavirkur í allt að því tíu þúsund ár!  Japanir fengu skrekk,  þegar jarðskjálftinn mikli  skall yfir í marz árið 2011. Flóðbylgja sem fylgdi í kjölfar skjálftans lamaði Fukushima kjarnorkuverið, enda var það byggt fast við ströndina.  Slík slys valda afturkipp í nýtingu kjarnorku, en það er að mínu áliti óhjákvæmilegt fyrir margar þjóðir að kanna betur þennan kostinn í orkumálum sínum, ef við viljum halda loftslagsbreytingum í skefjum.  Kína

Kjarnorka er enn mjög dýr og ekki samkeppnishæf við olíu og kol, nema þar sem ríki hafa niðurgreitt kjarnorkuna með stórum fjárframlögum. Samt sem áður er talið að kjarnorkuver sé ódýrari lausn fyrir framleiðslu raforku en vindorkustöðvar.   Og svo er það hráefnið: málmar eins og úraníum eru fremur sjaldgæfir og alls ekki óþrjótandi í jarðskorpunni.  Nú eru um 439 kjarnorkuver á jörðu og þar af 104 í Bandaríkjunum.  Ég er því sammála hinum þekkta breska umhverfisvini og vísindamanni James Lovelock, en hann sagði árið 2004: "only nuclear power can now halt global warming".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gallinn við kjarnorkuna er sá að ef notkun hennar verður margfölduð, þverra uraníumbirgðir jarðarinnar á nokkrum áratugum.

En nú munu bæði Kínverjar og Japanir vera að rannsaka þann möguleika að nota thorium í staðinn en það myndi leysa flest þeirra vandamál varðandi hita, kælingu og úrgang, sem nú plaga kjarnorkuiðnaðinn, en aðal kosturinn þó verða margfalt lengri ending thoriums en uraníums. 

Ómar Ragnarsson, 24.1.2013 kl. 00:30

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég er sammála því, að þóríum lofar góðu, en málið er á algjöru frumstigi. Enn hefur enginn byggt orkuver sem notar þóríum.  Svo hafa komið fram niðurstöður sem sýna að það er enginn leikur að meðhöndla þóríum.

Haraldur Sigurðsson, 24.1.2013 kl. 00:48

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góðan dag

Varðandi notkun kjarnorku í heiminum má vísa á vefsíðu World Nuclear Association .   Á upplýsingasíðunni WNN má sjá hve stór hluti orkuframleiðslu einstakra landa kemur frá kjarnorkuverum.

Sjá http://www.world-nuclear.org/info/reactors.html og töfluna sem vísað er í neðst.

Þar kemur t.d. fram að í Finnlandi eru 4 kjarnorkuver samtals 2741MW og verið er að reisa eitt 1700MW til viðbótar.

Í Frakklandi eru 58 kjarnorkuver samtals 63139MW og eitt í smíðum.

Til viðbótar við þau 435 kjarnorkuver sem eru í notkun er verið að reisa 65 í hinum ýmsu löndum.  Það virðist því ekki vera neinn samdráttur á þessu sviði.

-

Það er ekki bara á landi þar sem úraníumnámur eru. Í hafinu er óhemju mikið af uppleystu úrani og hafa menn giskað á a.m.k. fjóra milljarða tonna. Gerðar hafa verið tilraunir sem lofa góðu til að vinna úran úr hafinu, en enn sem komið er er það dýrara en að vinna það á landi.  Menn virðast þó bjartsýnir á að það verði hagkvæmt.

Hér má lesa um þessa tækni:

http://www.independent.co.uk/environment/sea-uranium-extraction-close-to-economic-reality-8069731.html

http://www.world-nuclear-news.org/ENF_The_sea_is_the_key_to_uranium_bounty_2308121.html

-

Svo er það auðvitað stóri draumurinn um beislun vetnisorkunnar sem menn hefur dreymt um í marga áratugi.

http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/680725/

Ágúst H Bjarnason, 24.1.2013 kl. 09:20

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Krækjan í fjórðu línu hér að ofan virkar ekki. Reyni aftur:
http://www.world-nuclear.org/info/inf01.html

Ágúst H Bjarnason, 24.1.2013 kl. 09:24

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þóríum lofar góðu, en eins og fram kemur, þá er kjarnorkan tiltölulega dýr enn sem komið er og það eru umhverfisvandamál tengd notkun hennar. Það gæti þó verið að notkun á þóríum leysi eitthvað af þeim vandamálum. Það er ljóst í mínum huga að kjarnorka verður hluti lausnarinnar - ásamt líka sjálfbærri orkuframleiðslu eins og t.a.m. vind-, sólar-, sjávarfalla-, ásamt vatns- og jarðhitaorku.

Það virðist vera sem hin leyndi kostnaður við notkun jarðefnaeldsneytis sé of hár til að hægt sé að verja ótakmarkaða notkun á þannig orkugjöfum og því verða þjóðir heims að vakna upp og leggja ríkari áherslu á aðra orkugjafa - jafnvel þó þeir geti (til skamms tíma allavega) verið dýrari. Ef ekkert verður gert við loftslagsvandanum, þá munum við upplifa mun heitari jörð í framtíðinni og það gæti þýtt meiri vandamál heldur en það að orkuverð hækki til skamms tíma.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.1.2013 kl. 13:53

6 identicon

http://www.telegraph.co.uk/finance/comment/ambroseevans_pritchard/9784044/China-blazes-trail-for-clean-nuclear-power-from-thorium.html

GB (IP-tala skráð) 24.1.2013 kl. 19:49

7 identicon

Það er til nóg af Þóríum og hægt að gera það svo að mjög lítið af úrgangi verði eftir:

http://energyfromthorium.com/

Egill (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 19:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband