Gull Norðmanna á Mohns hrygg

lwyw4bxqmjqh7pnh9oyflqdyig5eiawezh1hvxhmqeqa.jpgNorðmenn telja sig nú hafa uppgötvað gull á hafsbotni á jarðhitasvæðum á Mohns hryggnum, fyrir norðan Jan Mayen. Flekamótin sem skera sundur Ísland halda áfram norður í haf og nefnist sá hluti flekamótanna Kolbeinseyjarhryggur, alla leið norður til Jan Mayen. Síðan halda flekamótin áfram norður í Íshafið en nefnast þar Mohns hryggur.  Síðan beygir hryggurinn skyndilega til norðurs rétt hjá Svalbarða, og nefnist þar Knipivich hryggur. 

Hér á mótum Mohns og Knipovich hryggjanna hafa Norðmenn fundið hverasvæði, þar sem allt að 13 m háir strompar af hverahrúðri dæla út svörtum “reyk” eða súpu með 310 til 320 stiga hita.  Hveravökvinn inniheldur mikið af ýmsum brennisteinssamböndum. Umhverfis hverina hefur myndast stór hóll af efnasamböndum úr hveravökvavnum, einkum steindum eða mínerölum sfalerít, pýrít, pyrrótít og kalkópýrít.

Setið og vökvinn sem streymir upp úr hverunum inniheldur mikið magn af málmum.  Hér er gull, silfur, kopar, blý, kobalt, zink og fleira. Norðmenn hafa enn ekki gefið upplýsingar um efnainnihald setsins og hveranna, en þeir telja að hér  á 3.5 km dýpi séu vinnanleg verðmæti um 1000 milljarðar norskar krónur.

Verðmætir málmar hafa hingað til verið unnir eingöngu í námum á landi en slíkar námur eru að þverra.  Nú er athyglinni fyrst og fremst beint í áttina að málmríkum lögum á hafsbotni, í grennd við hveri eins og þessa á Mohns hrygg.  Eitt stærsta svæðið af þessu tagi er á hafsbotni á um 1.6 km dýpi norðan Papúa Nýju Gíneu, og hefur Kanadískt námufyrirtæki  stefna að því í nokkur ár að vinna það.  En heimamenn hafa stöðvað allar framkvæmdir í ótta við mikið umhverfisslys.  Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig Norðmenn fást við stóru vandamálin, sem eru bæði tæknileg og umhverfisleg, við námugröft undir þessum erfiðu kringumstæðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur

Er einhver ástæða til að halda að þarna séu einhverjir þeir málmar sem ekki er að finna annarsstaðar og verðskulda það að farið sé í það að róta sjávarbotninum með mögulegum afleiðingum á lífríkið.

Miðað við kennslubækurnar eru helstu málmarnir Cu-Pb-Zn og líklegast Fe með Au-Ag og annara málma sem þú nefndir í pistlinum.

Það er minn skilningur að í dag haldi menn að sér höndum með vinnslu á mörgum þessara fyrstnefndu þar sem verð á þessum málmum er of lágt til þess að réttlæta gröft í þekktum "birgðalögum" (deposits). Eins er líklegt að kæling kínverska hagkerfisins geti haft mikil áhrif á einhverjar námur sem eingöngu eru arðbærar vegna áhrifa kínverska hagkerfisins.

Á sama tíma er notkun gulls í iðnaði ekki nema 10% meðan hin 90% eru glingur og gullstangir". Gröftur eftir gulli á hafsbotni er ekki mikilvægasta mál mannkyns.

Það verður hinsvegar fróðlegt að rýna í tölurnar þegar þær verða gefnar út en miðað við vinnsluaðferð sem fyrirtækið (Nautilus Minerals) hefur lagt til þá verð ég fyrir mína part að segja að vinnsla á hafsbotni hlýtur að teljast síðasti valkostur til að vinna þessa tilteknu málma.


http://www.nautilusminerals.com/s/Projects-Solwara.asp

Tjörvi Fannar (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 12:43

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Tjörvi:  Kosturinn við málmana sem finnast í jarðhitakerfum á hafsbotni er að þeir eru aðgengilegir, á yfirborði, og þeir ERU alltaf að myndast.  Stóri vandinn er sá, að þessi jarðhitakerfi innihalda alveg einstakt lífríki og námurekstur mun rústa slíkum lífríkjum algjörlega. Viljum við fórna því fyrir gróðann? Vill norska ríkið leyfa slík vinnubrögð?  Ég held að tæknivandamálin séu vel leysanleg, eins og Nautilus Mienrals hefur sýnt.   Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 28.4.2014 kl. 13:44

3 identicon

Miðað við það litla sem eǵ veit um norsk lög þá virðist vera ákveðin linkind gagnvart námuúrgangi og hvert honum er hent. Þetta hefur verið í fréttum í tengslum við mögulega koparnámu í Nussir í Repparfirði í Noregi.

http://www.nrk.no/nordnytt/anbefaler-gruvedrift-1.11542604

Það gilda þó eflaust önnur lög um vinnslu á sjávarbotni.

Tjörvi Fannar (IP-tala skráð) 28.4.2014 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband