Einn mælikvarði á goskraftinn í Eyjafjallajökli

Veðursjá kl. 525 11. maíHæðin á öskumekkinum er nokkuð góður mælikvarði á magnið af kviku sem nú berst upp í gíginn á Eyjafjallajökli.  Hæðin á  mekkinum er gefin á fimm mínútna fresti  af veðursjá eða radar Veðurstofunnar á Keflavíkurflugvelli.  Upplýsingarnar má nálgast hér.   Það eru ýmsar útgáfur af veðursjánni, en ég fylgist mest með ETOP(Z).  Myndin sýnir niðurstöður veðursjár kl. 525 í morgun, og takið eftir tölunni 5.0 fyrir ofan Eyjafjallajökul, en það er hæð gosmakkarins sem veðursjáin sér á þeim tíma.  Hæð makkar 11. maíReyndar mælir veðursjáin mökkinn aðeins þegar hann er hærri en 2.5 km, en til þessa hefur hann oftast verið hærri en svo.  Myndin til hliðar sýnir breytingar á hæð hans nú í morgun, 11. maí,  frá kl. 2:30 til kl. 6:00, en á þeim tíma hefur hann verið mest á 3.9 til 5.0 km hæð.   Í nótt bar meir á glóð í  mekkinum en áður, en það má ekki túlka sem aukinn goskraft.  Heldur er líklegra að meiri glóð bendi á minni áhrif vatns úr jöklinum á sprengivirknina.  Ef til vill er gígurinn að þorna upp smám saman.  Eitt af því sem  við skiljum nokkuð vel í sambandi við eldgos er  hegðun makkarins.  Hann fylgir mjög einfaldri eðlisfræði.  Morton jafnan og hæð makkar Morton jafnan, H=1.37Q1/4  gefur okkur hlutfallið milli hæðar gosmakkarins og magns af kviku (Q) sem berst upp í gosinu. Það eru til margar útgáfur af  Morton jöfnunni, en ég sýni þá einföldustu hér.  Aðal skilaboðin eru þau, að það er magnið af hita sem berst út í andrúmsloftið í gosinu sem ræður því hversu hátt mökkurinn rís. Það er því ekki goskrafturinn sjálfur sem stjórnar hæðinni, heldur kvikumagnið, sem við getum til dæmis mælt í rúmmetrum af kviku sem berst upp úr gígnum á sekúndu.  Þegar heit aska og gjall þeytist upp í loftið, þá blandast gosmökkurinn við andrúmsloft.  Hitinn frá öskunni hitar um leið loftið og þá minkar eðlisþyngd  loftsins sem hefur blandast inn í mökkinn.  Við það rís mökkurinn hærra.  Þetta er alveg sama fyrirbæri og venjulegur loftbelgur sem menn ferðast í langar leiðir.  Hann rís upp vegna þess að  blossi af logandi gasi streymir inn í belginn að neðan og dregur með sér hitað loft sem þenst út, léttist  og lyftir belgnum.  Hér með fylgir mynd sem sýnir hlutfallið milli hæðar gosmakkar, í km, og magns af kviku sem gýs, í rúmmetrum á sekúndu.  Samkvæmt því er Eyjafjallajökull nú að gjósa um eða undir eitt hundrað rúmmetrum af hraunkviku á sekúndu.  Magnið í virkilega stórum gosum getur verið mörg hundruð þúsund rúmmetrar á sekúndu og fer mökkurinn þá í 30 til 40 km hæð.  Við getum því sætt okkur við það að málið er ekki svo slæmt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Takk fyrir að deila öllum þessum vísindum á mannamáli, frábær síða kem oft og iðulega til að reyna skilja þessi fræði betur. En ég var að velta fyrir mér einu.. er  einhver tenging á milli stórra skjálfta út í heimi  við t.d Kötlugos sem hafa verið í gegnum aldirnar.....

Kveðja Helga

Helga S (IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 11:59

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er ekkert sem bendir til að fjarlægir jarðskjálftar hafi áhrif á eldfjöll og hleypi af stað eldgosum. Auðvitað eru eldgos og jarðskjálftar tengd flekahreyfingum, en það er ekki neitt beint orsök-og-afleiðing samband milli þess, þegar stór skjálfti verður t.d. í Síle eða í Haítí, og eldgos verða á Íslandi.  Málið er því miður ekki svo einfalt!

Haraldur Sigurðsson, 11.5.2010 kl. 17:11

3 Smámynd: Hrappur Ófeigsson

Blessaður Haraldur.

Hverjar eru líkurnar á að það verði hreyfing á flekunum nær Reykjavík en nú hefur orðið og hversu stóra jarðskjálfta værum við að tala um ?

Hrappur Ófeigsson, 11.5.2010 kl. 21:53

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Hrappur: Í grennd við  Reykjavík eru flekamótin milli Norður Ameríkuflekans og Evrasíuflekans eftir endilöngu Reykjanesinu.  Jarðskjálftar verða á þessum flekamótum öðru hvoru, til dæmis í Krýsuvík. Árið 1151 hófust Krýsuvíkureldar, þegar Ögmundarhraun rann. Þá gaus einnig við Trölladyngju og Afstapahraun og Kapelluhraun runnu. Síðan á miðöldum hefur ekki gosið á þessum flekamótum, en þau verða að teljast virkt gosbelti og munu gjósa í framtíðinni. Sennilega verðajarðskjálftar á þessu svæði ekki stærri en 6.5 eða svo, og ættulangflest nýrri hús að standa það vel af sér  Hins vegar hef ég miklu meiri áhyggjur af áhrifum eldgosa á byggðina og einkum af hraunrennsli í grennd við stór-Reykjavík.

Haraldur Sigurðsson, 12.5.2010 kl. 06:12

5 identicon

Blessaður Haraldur

Takk fyrir frábæra fræðslu fyrir okkur leiðsögumenn á laugardaginn.

Kveðja

Úlfheiður

ulfheidur ingvarsdottir (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 22:16

6 identicon

Ég get ekki annað en þakkað þér fyrir hvað upplýsingar þínar eru auðskiljanlegar og góðar. Mikið held ég að þú sért  góður kennari.

Ég bý norðu í Eyjafjarðarsveit og verð ekki vör við eitt né neitt sem bent gæti til eldgoss á suðurlandi, hvorki eitt gos hvað þá 2. þetta eiga ættingjar mínir í Noregi og vinir í Hollandi afar erftitt með að skilja.

það eina sem ég verð vör við er þegar millilandaflugvélarnar svífa tígulega yfir höði mér á leið til lendingar hér á Akureyrarflugvelli. ( Hollendingurinn orðaði þetta afar skemmtilega, Anna I arrived in your backyard )

 Kveðja að norðan.

 Anna Sigga

Anna S. Péturdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2010 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband