Ný hrina - sterkara gos?

Skjálftar 10. maí 2010 Mikil skjálftahrina hófst undir Eyjafjallajökli í nótt og hélt áfram í morgun, 10. maí.  Meir en 50 skjálftar hafa komið fram, allir smáir, undir styrkleikanum 3,0, en þeir dreifast á mismunandi dýpi.  Myndin til hliðar sýnir dreifinguna í dýpi, sem er frá um 30 km, eða alveg neðst í jarðskorpunni, og upp undir yfirborð.  Það er athuglisvert hvað margir skjálftanna eru í kringum 20 km, en einnig er athyglisvert að skjálftar hefjast á öllu dýpi á svipuðum tíma.  Þannig er ekki ljóst að skjálftavirknin færist smátt og smátt upp á við.  Vafalaust er þetta ný viðbót af frumkviku úr möttli jarðar og inn í jarðskorpuna.  Nú er eftir að sjá hvernig Eyjafjallajökull vinnur úr þessum nýja skammti af kviku.  Hingað til hefur það verið svo, að kvikan sem gýs í toppgíg er trakí-andesít kvika, og því ekki alkalí basalt frumkvikan sem kemur beint úr möttli og inn í skorpuna.  En það var frumkvikan sem kom upp á Fimmvörðuhálsi.  Samt sem áður getur ný frumkvika flýtt fyrir myndun á andesít kvikunni í kvikuþró undir toppgíg og því má búast við sama áframhaldi.   Öskumökkurinn hefur verið nokkuð stöðugur í um 4 til 5 km hæð, samkvæmt radar mælingum, og óróinn er svipaður og fyrr.  Það er hins vegar athyglisvert að dregið hefur úr hraunrennsli um tíma, en alltaf má gera ráð fyrir slíkum sveiflum í hegðun gossins. Ég veit ekki hvort það er tilviljunj, en skjálftarnir raða sér upp á norð-austlæga stefnu, eins og þeir gerðu snemma í skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli.  Þetta er auðvitað aðal sprungustefnan í eystra gosbeltinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Njörður Helgason

Þetta er skammtur kvikunnar til lítilla bóta. Mér sý nast skjálftarnir hafa flestir staðsetninguna undir toppi jökulsins, en þó eru nokkrir í sprungustefnuna norðaustur af honum.

Ég fór og leit á öskuna og íbúa undir Eyjaföllum á laugardaginn http://www.flickr.com/photos/njordur/sets/72157623898290881/

Svo sem ekki mikil aska þar niður á láglendinu. Ekki þykkt lag en áhrif öskufallsins eru ótvíræð. Fjúkandi aska og gróðurinn á í basli. Vonandi að þessi skammtur fæði toppgígin, en fari ekki að valda eldsumbrotum annars staðar. Ég var reyndar að spá í hvort ekki ætti að fá beskska herinn til að bomba niður ír gígnum í norður. Þó ekki væri nema í tilefni af 70 ára árstíð hernámsins.

En yfir vestanverðu landinu er himininn með mori. Ekki eðlileg þoka heldur aska. Ætli það sé vegna háþrýstisvæðisins að gjóskan fer í hring með vindinum og kemur inn á vesturlandið þrátt fyrir að vindurinn feyki öskunni í austsuðausturveg frá Eyjafjallajökli?

Njörður Helgason, 10.5.2010 kl. 14:57

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Að fylgjast með þessu gosi er mjög spennandi ef maður dregur frá það neikvæða sem það veldur þeim sem búa þar í kring.

Ég fylgdist með gosinu í gegnum vefmyndavélum Mílu um miðnætti í gær og þar sá maður glóandi hraun spýtast svakalega hátt upp og kastast langt frá sjálfum gígnum. Ég hélt að fjallið myndi springa á hverri stundu.

Miðað við fréttaflutning og það efni sem hægt er að nálgast, sem áhugamaður, þá hef ég það á tilfinningunni að það sé hreinlega verið að rannsaka hegðun fjallsins og læra af því jafnóðum. Ég átta mig ekki á því hversu nákvæm þessi vísindi eru, en er vitað hvernig kvikur og hólf liggja neðanjarðar á þessu svæði, sem og öðrum hér á landi?

Er ekki bara stutt síðan að landslagið undir Mýrdalsjökul var kortlagt með einhverri þrívíddartækni?

Sumarliði Einar Daðason, 10.5.2010 kl. 22:27

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Askan til Ísrael?

 

Volcanic ash cloud nears Israel

May 10, 2010

JERUSALEM (JTA) -- A volcanic ash cloud that has closed airports throughout Europe is set to reach Israel.

The Israeli Transportation Ministry has begun emergency preparations for the volcanic ash cloud, which is expected to hit Israel on Monday night, according to reports.

The ministry may cancel airline flights due to the situation, Ynet reported.

Thousands of flights throughout Europe were canceled last month as a result of the cloud, formed after the eruption of the Mount Eyjafjallajokull volcano in Iceland. Some airports also were forced to close this week.   

It is feared that volcanic ash can damage an airplane's engines.

 JTA: The Global News Service of the Jewish People

Ágúst H Bjarnason, 10.5.2010 kl. 22:30

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Sumarliði: Þú átt sennilega við könnun á yfirborði lands undir Mýrdalsjökli, en það var kannað með ratsjá.  Nvað varðar kvikuhólf undir Eyjafjallajökli, þá hafa jarðeðlisfræðilegar mælingar ekki enn fundið það, og ef til vill er það annað hvort fremur lítið eða ekki til.  Hins vegar hefur kvikuhólf fundist undir Kötlu.  Já, auðvitað erum við alltaf að læra eitthvað nýtt.

Haraldur Sigurðsson, 10.5.2010 kl. 22:37

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Sumarliða, mér fannst ógnarkraftur í gosinu um 01.30 sl. nótt. Ég giska á að eldstrókurinn hafi náð 4-500 metra upp í loft í öflugustu kviðunum.

Manni er hætt að standa á sama

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2010 kl. 00:29

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Gunnar: Lestu nýja bloggið mitt fyrir ofan. Það skýrir hlutfallið milli hæðar gosins og kvikumagnsins.  Glóandi slettur og meiri glóð vísar á minna vatn í gígnum og getur verið vísbending um að gígurinn sé að þorna upp smátt og smátt.  Þá má búast aftur við hrauni.

Haraldur Sigurðsson, 11.5.2010 kl. 06:59

7 Smámynd: Njörður Helgason

Það væri til bóta ef gosið breyttist í hraungos. Alla vega betra að losna við svona mikla öskuframleiðslu og er núna,

Njörður Helgason, 11.5.2010 kl. 08:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband