Varðúð: Gossóttin er að breiðast út til Bárðarbungu!
13.5.2010 | 21:44
Strax og eldsumbrotin hófust í Eyjafjallajökli barst talið meðal almennings að Kötlu og fjölmiðlar réru undir orðróm um að Kötlugos væri yfirvofandi. Almenningur varð orðinn spenntur og viðkvæmur gagnvart fréttum af eldgosum. Sannkölluð gossótt tók að breiðast út. Nú er gossóttin farin að berast til Bárðarbungu, ef dæma má af þeim fjölda hringinga sem ég hef fengið frá fjölmiðlum síðustu daga. Það er ekkert spaug að gefa í skyn að Bárðarbunga kunni að fara að gjósa, því þetta er mjög stór eldstöð og ef til vill ein sú stærsta á Íslandi. Við skulum því líta aðeins til Vatnajökuls og sjá hvað hefur gerst í Bárðarbungu síðustu árin. Loftmyndin sem fylgir er tekin úr ESA ERS-2 gervihnettinum í október árið 1996. Sporöskjulagaða svæðið í miðri myndinni er askjan sem er í miðri Bárðarbungu. Neðst til hægri er askjan í Grímsvötnum. Stóra flykkið efst til vinstri er Tungnafellsjökull. Hlykkjótta sprungan milli Grímsvatna og Bárðarbungu eru gosstöðvarnar í Gjálp þar sem gos hófst í lok september 1996. Bárðarbungu er fyrst getið í Landnámu, þegar búferlaflutningur Gnúpa-Bárðar fer fram, úr Bárðardal og suður um Vonarskarð til Fljótshverfis á landnámsöld. Eldstöðin sem við nefnum Bárðarbungu er flókið kerfi, sem spannar ekki aðeins fjallið og öskjuna undir norðvestanverðum Vatnajökli, heldur einnig sprungukerfið sem liggur til norðurs á Dyngjuháls og suður í Vatnaöldur. Kerfið er því um 190 km á lengd. Það er talið að um 23 gos hafi orðið í Bárðarbungu og sprungukerfinu síðan Ísland byggðist. Mörg gosin hafa orðið í jöklinum og sum þeirra hafa orsakað jökulhlaup sem fóru til norðurs í Jökulsá á Fjöllum, einkum á átjándu öld.
Fyrir um 8600 árum var eitt stærsta gos Íslands í sprungukerfinu suður af Bárðarbungu, þegar Þjórsárhraun rann, og er það um 25 rúmkílómetrar að stærð, eða næstum því helmingi stærra en Skaftáreldar 1783. Þrjú gos hafa orðið í sprungukerfinu síðan land byggðist, fyrst um 870 er Vatnaöldur gusu, þá 1477 er gos það varð sem myndaði Veiðivötn, og síðast 1862 í Tröllagígum. Árið 1996 hófst eldgos í Vatnajökli á milli Bárðarbungu og Grímsvatna, og hefur gosið verið ýmist kennt við Gjálp, eða Jökulbrjót. Jarðfræðinga deilir á um hvort gos þetta telst til Grímsvatna eða Bárðarbungu, eða hvort kvikan er ef til vill blanda frá þessum tveimur eldstöðvum. Rétt áður en gosið hófst varð mjög sterkur jarðskjálfti í norður hluta Bárðarbungu, með styrkleika 5,6. Þessi skjálfti og fyrri skjálftar í Bárðarbungu hafa myndað ótrúlega reglulegan hring umhverfis eldstöðina. Greint er frá rannsóknum á þessu merkilega fyrirbæri í grein árið 1998 eftir M. Nettles og G. Ekström hér. Sennilega er þetta vitneskja um hringlaga sprungu sem afmarkar misgengið umhverfis öskjuna. En hvað hefur gerst í Bárðarbungu síðan? Þar koma frábær jarðskjálftagögn Veðurstofunnar að gagni. Fyrst lítum við á myndina fyrir ofan, sem sýnir uppsafnaða orku sem hefur verið leyst úr læðingi í jarðskjálftum frá 1992 til 2001. Þarna kemur greinilega fram kippur sem er tengdur skjálftavirkni undir Bárðarbungu árið 1996 og tendur eldgosinu það ár. Eftir það gerðist eiginlega ekki neitt sérstakt. Næst lítum við á mynd sem sýnir uppsafnaðan fjölda af jarðskjálftum frá árinu 2001 og fram á okkar daga, árið 2010. Það var töluverður kippur seinni part árs árið 2004, þegar um 200 skjálftar komu fram undir eldstöðinni. Síðan hefur verið nokkuð stöðug skjálftavirkni undir Bárðarbungu, en engar stórvægilegar breytingar. Línuritið sýnir jafna og stöðuga tíðni skjálfta síðastliðin fimm ár, en engar meiri háttar breytingar. Auðvitað geta atburðir gerst mjög hratt og óvænt í slíkri eldstöð og gos kunna að gera lítil eða engin boð á undan sér, en ég sé ekki ástæðu til að halda að neitt sérstakt sé í vændum, og vonandi fer gossóttin að réna.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Bárðarbunga | Breytt s.d. kl. 21:50 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er fróðlegur pistill. Takk fyrir hann.
Sumarliði Einar Daðason, 13.5.2010 kl. 21:58
Fyrir nokkrum vikum síðan (í Mars minnir mig) varð kvikuinnskot í Bárðarbungu. Það olli jarðskjálftum sem náðu alveg styrkleikanum ML4 á ricther kvarðann samkvæmt kerfi Veðurstofunnar. Sú jarðskjálftahrina setti Grímsvötn næstum því af stað og munaði engu að þar yrði eldgos í kjölfarið.
Ég tel að á þessari stundu sé eldgos ekki yfirvofandi. Það gæti hinsvegar breyst með mjög skömmum fyrirvara (minna en þrem mánuðum) ef svo ber undir.
Jón Frímann (IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 23:03
Góð og fróðleg lesning Haraldur, þakka þér fyrir.
Njörður Helgason, 13.5.2010 kl. 23:34
Þetta er skemmtileg lesning. Mér finnst bloggið vera vel heppnað og í anda sannra fræðimanna sem vilja miðla af reynslu sinni og þekkingu til almennings.
Flokkast Kistufellið sem hluti af Bárðarbungu? Mér þætti gaman að fræðast um Öskjusvæðið líka. Mig langar að vita hvernig það tengist Bárðarbungu og Kröflusvæðinu því jarðskjálftarnir virðast koma á svipuðum tíma í allar þrjár eldstöðvarnar.
Helga (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 11:17
Tek undir með Helgu hér að ofan með hversu dýrmætt það er að eiga frábæra vísindamenn, sem eru til með að túlka sín flóknu fræði fyrir almenningi á aðgengilegan hátt. Á hinn bóginn er auðvitað ámælisvert þegar fjölmiðlafólk nýtir sér fáfræði fólks um jarðfræðileg fyrirbrigði til að vekja upp skelfingu í þeim tilgangi einum að selja sig. Þá er sannarlega gott að geta lesið yfirveguð skrif manns, sem hefur vit á því sem hann er að tala um. - Má til með að koma því að hér, að það er sérstakt fagnaðarefni að dr. Haraldur skuli hafa léð máls á því að fara sem leiðsögumaður í fræðsluferðir um jarðfræði í nágrenni Eldfjallasafnsins í Stykkishólmi, eins og lesa mátti um í Morgunblaðinu í morgun (14.5.2010).
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 11:38
Vil bara taka undir með Helgu og þakka kærlega fyrir velþeginn fróðleik frá fyrstu hendi.
Bestu þakkir
Jón Baldur Hlíðberg (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 11:46
Ég er sammála Helgu en ég mæli með því að fólk fari á Eldfjallasafnið í hólminum og kynni sér safnið. Ég fór nýlega í skólaferðalag þangað og fékk að spurja Harald nokkura spurninga um eldgos og tókst honum frábærlega að létta mig af gosóttanum.
Takk fyrir frábærar greinar Haraldur og endilega halltu áfram að rita þær!
Ástþór Sigurvinsson (IP-tala skráð) 14.5.2010 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.