Höggbylgjur gefa dýrmætar upplýsingar innan bannsvæðisins

BannsvæðiÞað er nauðsynlegt að komast í návígi við eldgos til að skilja hvað er að gerast og þá að greina hvaða tegund af gosi er um að ræða. Íslenskir ljósmyndarar og vísindamenn hafa ekki náð slíku myndefni og upplýsingum varðandi gosið í Eyjafjallajökli,  vegna þess að þeir hafa  fylgt þeim stífu takmörkunum um aðgang af svæðinu sem Almannavarnir hafa sett.  Eins og sjá má á mynd af bannsvæðinu til hliðar, þá kemst enginn innan um 10 km fjarlægðar frá gígnum, nema með sérstöku leyfi Almannavarna.  En ekki virðast  allir hafa fylgt þessu banni.  Maður einn heitir Martin Rietze.  Hann hefur tekið frábærar ljósmyndir af eldgosum víðs vegar um heim. Myndir hans af gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 eru ekki aðeins merkileg listaverk, heldur einnig mjög góðar heimildir.  Það er ekki ljóst hvernig Martin hefur náð slíkum myndum, þegar tekið er tillit til þess að svæðið er lokað.  Sögusagnir ganga um það að hann hafi gengið á jökulinn frá Stóru Mörk, upp Skerin og að Goðasteini til að ná þessum myndum, en það er milli 6 til 10 km, hvora leið.   Gangan hefur verið vel þess virði, eins og sjá má af myndum hans, hér.    Martin er orðin goðsögn meðal ljósmyndara um heim allan og þeirra, sem þrá  frekari upplýsingar um gosið í Eyjafjallajökli, eins og það sést í návígi.  Höggbylgja þotuEn nú þegar ég hef uppljóstrað þessu, þá bíða Almannavarnir hans sjálfsagt næst þegar henn fer um Keflavíkurflugvöll, eða hvað?  Fyrirgefðu, Martin!  En snúum okkur nú að höggbylgjum.  Nokkrir ljósmyndarar og vídeómenn hafa tekið eftir höggbylgjum yfir gígnum í Eyjafjallajökli.  Þetta eru mjög kraftmiklar bylgjur sem geisla út úr gígnum í aðeins eitt augnablik, en áhrifin eru einstök. Ég var einu sinni í grennd við gíginn í þyrlu þegar ein höggbylgjan birtist og það var eins og þyrlan fengi kraftmikið spark. Hljóðið er ekki mikið, en maður finnur bylgjuna sem titring og högg á bringuna.  Martin Rietze höggbylgjaEnda er hljóðið á miklu lægri tíðni eða riðum en okkar heyrn, sem er fyrir ofan 20 rið.  Í þurru lofti við 20 stiga hita er mestur hraði höggbylgju um 343 m/s,  sem er hraði hljóðsins.  Hraðinn breytist lítillega eftir lofthita og magni af ösku í loftinu.   Þá hefur  þrýstingsbreyting höggbylgjunar þau áhrif að raki í loftinu þéttist og  í augnablik framkallast ljósgrátt ský umhverfis upptök bylgjurnar.  Myndin hér til hliðar sýnir til dæmis slíka höggbylgju umhverfis herþotu.   Myndin fyrir neðan er úr myndbandi sem Matin Rietze tók af hljóðbylgju, eins og hún sést frá Goðasteini, á gígbarminum. Aðrir hafa náð myndum af höggbylgjunum, til dæmis Ómar Ragnarsson.   Niðurstöðurnar úr þessum upplýsingum  eru þær, að gas brýst út úr gígnum á hraða sem er nálægt 300 metrum á sekúndu. Á slíkum hraða getur gasið borið með sér nokkuð stór flyksi eða slettur af kviku, sem eru einn eða fleiri metrar í þvermál, auk miklu smærri brota eða dropa af mjög heitri kviku, sem breytast strax í  gler eða í það efni sem við köllum eldfjallaösku.  Þannig gefa höggbylgjurnar okkur mikilvægar upplýsingar um kraftinn og hraðann í gígopinu.  Þessi hraði bendir til þess að gosið sé vúlkanískt (“vulcanian eruption”). Ég mun blogga um það fyrirbæri næst, og túlka það í ljósi annara upplýsinga frá dýrmætum  myndum Martin Rietze.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Njörður Helgason

Þetta eru engar smávegis myndir þarna ofan af. Dýrlegt að sjá kraftinn í gosinu svona úr nálægð. Segir manni mikið.

Njörður Helgason, 20.5.2010 kl. 20:51

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Maður veltir fyrir sér hversvegna hraungosvirknin fjaraði út og sprengigos tók sig upp á ný. Má kannski eiga von á að hraun fari að renna aftur eða fjarar gosið bara út í þessum fasa? Þó að óróamælingar segi ekki allt þá er óróinn nánast komin í ekki neitt þessa stundina sem gefur vonir um að það versta sé afstaðið a.m.k. í bili.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.5.2010 kl. 21:38

3 identicon

Takk fyrir frábæra og fræðandi pisla. Langar til að spyrja þig um svolítið sem er að bögglast fyrir mér. Í upphafi var talað um það að ekki væri eiginleg kvikuþró í jöklinum, frekar að kvika hafi legið þar í innskotum og laggöngum síðan 1823. Nú hefur þróuð kvika komið upp í rúman mánuð  sem bendir til að umtalsvert magn hafi legið í fjallinu, eða hvað? Þarf ekki hólf til að svona mikið magn kviku geti þróast? Gætir þú varpað ljósi á þetta kvikuþróarmál í jöklinum og þá eins í því samhengi langar mig að forvitnast um hvort þú gætir eitthvað velt vöngum um það hvenær líkur eru á að sú kvika fari að klárast og frumstæð kvika nái upp á yfirborðið. Sakna þess síðan að fá ekki að heyra oftar í jarðfræðingum í fjölmiðlum með vangaveltur og útskýringar. Ótrúlega marga þyrstir í slíkt.

Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 00:02

4 identicon

Alltaf er gaman að skoða þessa pistla.

Mig langaði til að segja þér að ég hef verið með nokkra hópa af eldfjallafræðingum hjá mér í gistingu (er með gistiheimili við Hvolsvöll). Þeir fyrstu tengdust Cambridge, það kom hópur frá Boston, og svo eru núna Ítalir sem tengjast m.a. Munchen.

Hvað um það, mér skilst að þeir hafi fengið leyfi til að fara all nálægt, - þetta var gert í gegnum lögregluna á Hvolsvelli og var að mér skildist ekkert stórmál.

Ef þú sendir mér skeyti á info@gardsauki.is þá skal ég glaður koma til þín upplýsingum um þetta í gegn um tölvupóst, og ég lúri á myndum sem teknar voru nokkuð nærri.

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 09:45

5 identicon

Aldeilis frábærir pistlar, maður þarf sko ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki á svæðið!

Hulda Björg Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 12:30

6 identicon

Loksins alvöru myndir frá gosinu, og því eigum við að þakka óhlíðnum útlendingi.... Frábær pistill.

Ein spurning. Hversu vítt telur þú opið vera sem gosefnin koma upp um í þessu gosi?

Friðbjörn B .Möller (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 23:18

7 identicon

Sæll Haraldur og takk fyrir fræðandi og góða pósta.

Nú liggur gosið niðri eins og er. Er eitthvað sem bendir til að hreyfing sé á Kötlu? nú hefur verið einn og einn smáskjáfti þar í nágrenni, eru einhverjar aðrar vísbendingar um að hún vakni eða telur þú stærri líkur á að ´gosið brjóti sér leið annarsstaðar upp í Eyjafjallajökli ?

Eru kanski jafnmiklar líkur á að það brjótist upp hvar sem er á þessari sprungu sem virðist þvera jökulinn og í átt að Markarfljótsgljúfri ?

Hlynur Magnússon (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 08:20

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ekkert bendir til að neitt óvenjulegt sé að gerast undir Kötlu. Engir skjálftar og engin önnur merki um óróa eða jarðskorpuhreyfingar.  EN nú er tíminn til að fylgjast grannt með.  Eins og alþjóð veit, þá hafa sumir jarðvísindamenn lagt áherzlu á að Kötlugos fylgi fast á eftir gosum í Eyjafjallajökli, í þeim þremur tilfellum sem Jökullinn hefur gosið síðan land byggðist. Ef þetta er rétt, þá ber okkur að fylgjast nánar með jarðskjálftavirkni og GPS og öðrum vísbendingum um jarðskorpuhreyfingar nú en nokkru sinni fyrr.   Katla er hættuleg eldstöð.

Haraldur Sigurðsson, 24.5.2010 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband