Skriðu-Fúsi er enn í Kerlingarskarði
31.5.2010 | 12:20

Í bernsku man ég eftir mörgum ferðum yfir Kerlingaskarð á Snæfellsnesi í rútubílnum. Þegar komið var að sunnan var oftast stanzað í Efri Sneið, þar sem útsýnið yfir Breiðafjörð birtist eins og svift væri frá blæju. Hvílík fegurð! sagði móðir mín. Karlarnir tóku upp vasapelana og jafnvel sjálfur bílstjórinn fékk alltaf einn vel útilátinn brennivínssnaps, áður en það var rennt niður í Stykkishólm. En nú er leiðin um Kerlingarskarð lögð af, og fólkið ekur í staðinn yfir fremur sviplitla Vatnaleið, tekur ekki eftir neinu, og missir alveg af þeirri fegurð og sögu sem Kerlingarskarð hefur að geyma. Á miðju Kerlingarskarði eru skorningar eða lækjadrög sem bera nafnið Fúsaskurðir. Ég man að faðir minn minntist oft á draugagang á þessum slóðum, en það var miklu seinna að ég fékk alla draugasöguna. Á seinni hluta 18. aldar varð óreiðumaður og förukarl, sem Vigfús hét, úti hér í skorningunum, sem síðan bera nafnið Fúsaskurðir. Af einhverjum sökum var Fúsi illa liðinn af samtíðarmönnum. Fyrir afbrot eitt var hann dæmdur til þess að skríða ávalt á fjórum fótum í annarra viðurvist og hlaut þannig viðurnefnið Skriðu-Fúsi. Hann mátti þó ganga uppréttur, þar sem ekki var mannavon, og gat hann því farið í sendiferðir og verið selsmali. Ef hann sá til manna, þá varð hann að kasta sér á fjóra fætur. Oft lá Skriðu-Fúsi á alfaravegum og veinaði eins og hann væri í nauðum staddur. Þannig tældi hann til sín brjóstgóðar konur. Þegar þær komu nær þá tók hann þær með valdi. Eitt sumar starfaði hann í Selgili við Húsafell, ásamt tveimur dætrum séra Sigvalda Halldórssonar (1706-1756). Talið er að hann hafi skriðið heldur nærri systrunum, því báðar urðu ófrískar af hans völdum. Eitt sinn var Skriðu-Fúsi á ferð yfir Kerlingarskarð að vetri til, þegar óveður mikið skall á. Þá varð hann úti þar sem nú heita Fúsaskurðir. Um nóttina var komið á gluga á Hjarðarfelli og vísa kveðin:
Skriðu-Fúsi hreppti hel,
hálfu fyrr en varði.
Úti dó það ei fór vel,
á Kerlingarskarði.
Þegar farið er um Kerlingarskarð í dag má enn sjá Skriðu-Fúsa, eins og myndirnar tvær sýna, sem fylgja hér með. Þetta mun vera listaverk sem nemendur í Grundarfirði hafa skapað til minningar um ólánsmanninn. Verkið var gert fyrir nokkrum árum og er orðið anzi mikið veðrað. Nú fer hver að verða síðastur að sjá Skriðu-Fúsa, áður en hann fýkur út í veður og vind. Skáldið Þorsteinn frá Hamri hefur ort eftirfandi kvæði um Skriðu-Fúsa:
Ég sem aldrei
uppréttur mátti ganga,
aðeins brölta á fjórum
og sleikja ruður
með áfellisskuld
og skelfingu aldalanga
skelli mér suður.
Í farartækinu
fyrnist glæpur minn stórum.
Ég flyt af Kerlingarskarði
í borgarhallir.
Mér fer að skiljast
hve gott er að ganga á fjórum.
Það gera nú allir.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Snæfellsnes, Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa sögu og takk fyrir skemmtilegar og fræðandi greinar um eldgos gömul og ný. Kveðja
Eyþór Árnason, 31.5.2010 kl. 13:03
Þakka þér fyrir góða sögu og fræðandi. Er ekki hægt að komast um Kerlingarskarðið á sumardegi?
Njörður Helgason, 31.5.2010 kl. 22:45
Kerlingarskarð er fært að norðan verðu, suður fyrir Fúsaskurði, en ég held að ein brúin sunnar á skarðinu sé farin í sundur.
Haraldur Sigurðsson, 1.6.2010 kl. 02:51
Ég þekki Kerlingaskarðið nokkuð vel og sem unglingur gekk ég þar yfir að kvöldlagi og varð heldur draugahrædd á leiðinni. Margir hafa orðið úti á Kerlingaskarðinu. M.a. langaafi minn sem var póstur.
Anna Einarsdóttir, 3.6.2010 kl. 23:57
Anna:
Var þetta árið 1906? Þá var pósturinn á leið til Stykkishólms frá Borgarnesi. Veður var slæmt og hann fékk sér til fylgdar Erlend Erlendsson bónda á Hjarðarfelli. Þeir voru báðir fótgangandi, með póstbögglana á bakinu og drógu það sem þeir ekki gátu borið á sleða, vegna þess að snjór var mikill og djúpur og þeir lögðu ekki í að fara þetta á hestum. Þeir börðust móti óveðrinu og komust að lokum niður úr skarðinu niður að vaðinu á Bakkaá í Helgafelssveit. Þar gáfust þeir upp og sofnuðu og dóu þar báðir. Lík þeirra fundust þrem dögum síðar.
Haraldur Sigurðsson, 4.6.2010 kl. 05:42
Já, það passar allt. Erlendur var langaafi minn.
Anna Einarsdóttir, 4.6.2010 kl. 18:19
Annars fróðlegt að lesa lýsingu þína á atburðinum. Það eina sem ég vissi var að langaafi var að fara með póst yfir skarðið og að hann varð úti við Bakkaá. Þú fyllir í ýmsar eyður hjá mér Haraldur.
Anna Einarsdóttir, 4.6.2010 kl. 18:21
Spurningin er : hvað hét pósturinn?
Haraldur Sigurðsson, 4.6.2010 kl. 19:17
Pósturinn hét Marís Guðmundsson.
Haraldur Sigurðsson, 4.6.2010 kl. 19:26
Og má ég spyrja.... hvernig veist þú svona mikið ?
Anna Einarsdóttir, 4.6.2010 kl. 20:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.